Er glæpur að eiga 200 þúsund?
13.9.2008 | 19:55
Fram hefur komið í fréttum að lögregla hafi gert húsleit í þessu umrædda athvarfi og tekið í sína vörslu fjármuni fólks sem "sönnunargögn". Trúlega til að sanna illa fengið fé eða eitthvað álíka - því fólk sem bíður eftir hæli á Íslandi má víst ekki vinna fyrir sér. Það "má" bara vera á framfæri hins opinbera - í allt að þrjú ár: Án vinnu, án möguleika á að afla sér viðurværis og (að því er virðist) án þess að eiga nokkurn skapaðn hlut, síst af öllu peninga.
Nú er í sjálfu sér ekkert athugavert við það þó að lögregla eða útlendingaeftirlit óski skýringa á fjármunum í fórum fólks sem er að bíða eftir úrlausn sinna mála. En að gera "upptækar" eigur fólks (því hvað eru fjármunir annað en eigur) finnst mér full langt gengið.
Eða er það eitthvert skilyrði að þeir sem hingað leita eftir pólitísku hæli séu eignalaust fólk? Reglur segja til um að því skuli haldið uppi á meðan það bíður eftir afgreiðslu umsóknar sinnar - en er því þar með bannað að eiga sína eigin fjármuni og halda þeim til haga þar til það hefur fengið pólitískt hæli? Hvar stendur það í lögum?
Og hvað eru 200 þúsund krónur? Eða milljón ef út í í það er farið? Hvort tveggja mætti flokka sem ein mánaðarlaun - eftir því hvar í launastiganum almennt launafólk er statt.
Vera kann að eigendur þessara fjármuna hafi einfaldlega safnað sér skotsilfri og vilji geyma það til betri tíma. Það er í mínum huga allt eins líklegt og hitt, að eitthvað sé tortryggilegt eða glæpsamlegt við það þó maður eigi eina milljón króna. Hvort heldur sem er - þá er það grundvallar regla réttarríkisins að hver maður sé saklaus þar til sekt hans sannast. Í því ljósi er undarlegt að gera fjármuni fólks upptæka - það hlýtur eiginlega að vera brot á mannréttindum.
Nóg er nú samt fyrir hælisleitendur að bíða árum saman eftir úrlausn - þó það fái að njóta þeirra mannréttinda að eiga friðhelgi einkalífs, án þess að lögreglan geti ruðst inn á það og gert skotsilfrið upptækt ef grunur leikur á um að einhver í hópnum hafi aflað sér fjár án leyfis.
Sjálfsbjargarviðleitni er ekki glæpur - hún má aldrei verða glæpur. Það er satt að segja storkun við náttúrulögmál að ætlast til þess að fólk bíði aðgerðarlaust árum saman eftir því að fá að gerast nýtir samfélagsþegnar. Ekki gæti ég setið aðgerðarlaus í þrjá mánuði, hvað þá þrjú ár.
Ég hef hingað til lifað í þeirr trú að ég byggi í velferðar- og réttarríki. Nú seilist sú tilfinning eins og hrollköld krumla niður hrygginn á mér að hvort tveggja sé blekking: Ég búi einfaldlega í lögregluríki.
Hælisleitandi mótmælir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef einhver hafði þennan mann í vinnu hér verður hann örugglega látinn greiða háa sekt og flengdur opinberlega af Árna bæjarstjóra í Reykjanesbæ, svo undan svíði. Eða þannig.
Þorsteinn Briem, 13.9.2008 kl. 20:33
Heyr, heyr.
Jenný Anna Baldursdóttir, 13.9.2008 kl. 21:00
Árna Matt. stíll á þessu. Lágkúran og niðurlægingin í hámarki suður með sjó.
Þórður Runólfsson, 13.9.2008 kl. 21:40
Furðuleg vinnubrögð, þó ekki sé meira sagt, að vaða inn á fólk margir saman með ofbeldi og ræna það. Þetta hlýtur að teljast mannréttindabrot.
Eva Benjamínsdóttir, 13.9.2008 kl. 22:05
Málið er að sönnu klaufalegt og ber svip af offorsi sem aftur á móti stafar af pólitísku upphlaupi óttasleginna stjórnmála fyrir síðustu alþingiskosningar og þeir hafa ekki ennþá læknast af. Þá bentu frambjóðendur Frjálslynda flokksins á að brýnt væri að takmarka innflutning erlends fólks þar til settar hefðu verið skýrar reglur um vinnubrögð í tilvikum sem þessum. Þessi ábyrga stefna bar þann árangur í skoðanakönnunum að fylgi flokksins óx að mun. Við svo búið var "ábyrgum pólitíkusum"- einkum þó úr hópi Samfylkingar og Vinstri grænna ljóst að nú þyrfti skjótt við að bregða. Og þau viðbrögð urðu eitt raunalegasta dæmi um ábyrgðarlausan og ómerkilegan málflutning sem mitt pólitíska minni nær til allt frá þeim dögum er Sjálfstæðisflokkurinn gekk til liðs við andstæðinga þjóðarinnar í landhelgisdeilunni 1958. Aðvörunarorð Jóns Magnússonar og Magnúsar Hafsteinssonar voru flokkuð undir rasisma og við flokksmenn Frj.l. úthrópaðir sem rasistar! Og þetta svínvirkaði. Um afleiðingar þessarar ábyrgu stefnu ykkar Samfylkingarfólks og V.G. ert þú að fjalla í löngu máli núna Ólína Þorvarðardóttir. Og þú ert innblásin af særðri réttlætiskennd!
Árni Gunnarsson, 13.9.2008 kl. 22:59
...óttasleginna stjórnmálamanna átti þetta að vera.
Árni Gunnarsson, 13.9.2008 kl. 23:00
Hann var væntanlega búinn að skrifa upp á það, eins og aðrir flóttamenn, að hann væri ekki með neinn pening. Því fær hann frítt húsnæði, mat og dagpening í allan þennan tíma. Svo má hann ekki vinna þannig að það er spurning hvaðan peningurinn kemur. Ef hann er svo með 200.000 þá ætti það að vera sjálfsagt mál að það gengi upp í þann kosnað sem uppihaldið hefur kostað.
Annars ættum við kannski að taka upp leið sem að flest önnur lönd nota þar sem menn eru í raun í fangelsi á meðan þeir bíða. Þannig er það víst t.d. í Noregi. Þá eru menn lokaðir inni á og fá bara þurrmat. Ja, maður spyr sig?
Bergur Örn (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 03:59
Árni minn - ekki gera mér upp skoðanir.
Ég var ekki í framboði fyrir síðustu alþingiskosningar. Ég tók aldrei undir árásirnar á Magnús og Jón - Þvert á móti. Mér sárnar svona tal. Vissulega er ég Samfylkingarkona, en ég er ekki Samfylkingin.
Ég er fyrst og fremst jafnaðarmaður sem þýðir að ég aðhyllist heildarstefnu en hef mínar eigin skoðanir og samvisku. Mér þætti betra ef fólki vildi virða það.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.9.2008 kl. 10:15
Árni Gunn. Ég studdi Frjálslynda í þessari umræðu. Það er fávísi og fáfræði að gefa fólki rasistastimpil fyrir það eitt að reyna að ræða vandamálið. Það sagði enginn að útlendingarnir væru vandamálið. Heldur eru það aðstæðurnar hérna, reglur, lög, eftirfylgni ofl.
Annars finnst mér sjálfsagt að taka þennan pening og gera hann upptækan. Það sama væri gert ef þarna hefðu fundist fíkniefni og þá væri enginn röflandi "æj, má hann ekki bara eiga þessar 200 þús krónur". Ef þeir hefðu ekki gert peninginn upptækan hefði hann væntanlega eytt honum eða millifært hann til útlanda. Kannski hefði hann bara nýtt hann til að koma sér úr landi - eða þessi ákveðni maður var kannski bara búinn að ganga um bæinn með glas og fá gefins klink frá gangandi vegfarendum?
xxx xxx xxxx, 14.9.2008 kl. 10:25
Hey Ólína, þörf skrif.
Rut Sumarliðadóttir, 14.9.2008 kl. 11:42
Ólína það er ekki glæpur að fyrir flóttafólk að eiga peninga, en það er glæpur að leyna þeim þar sem ef þeir geta eiga þeir að borga uppihald sitt sjálfir. Það hefur komið fram að uppihald einstaklings kosti 7000 krónur á dag eða 210.000 á mánuði, sem er jú nettó þar sem ekki eru borgarðir skattar af þessu. Þetta er minna en margir sem eru á vinnumarkaði hafa fyrir sig að leggja og er því ekki alveg réttlátt að þeir sem geta komi að þessu sjálfir.
Það er verulega furðulegt að við eigum að koma framm við flóttafólk sem hvítaengla jafnvel þó það reyni allt hvað það getur að koma í veg fyrir að hægt sé að afla upplýsinga um það hver þar er á ferð.
Einar Þór Strand, 14.9.2008 kl. 12:04
Daginn öll
Nú verð ég að vera sammála Einari ef hælisleitendur gefa sig út fyrir að þurfa ekki að virða reglur sem gilda í því landi sem þeir leita hælis í hvað þá ef þeir fá landvistarleyfi. Þurfum við ekki öll að virða reglur landsins hvort sem er í umferðinni eða gjalda skatt eftir skattareglum við getur verið ósátt við þær en verðum samt að virða þær hælisleitendur sem aðrir, ég held að skattpeningum mínum Einars og þínum Ólina væri betur varið að styrkja fólk sem raunverulega þarf á því að halda. Enda kom í ljós að sumt af hælisleitendum voru með landvistarleyfi annars staðar vildi bara greinilega láta halda sér uppi frítt.
Gréta (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 12:40
Hælisleitendur eru við komu til landsins inntir eftir því hvort þeir geti framfleytt sér sjálfir og ef þeir svara neitandi -- sem þeir gera víst flestir -- er þeim gert að undirrita yfirlýsingu þar að lútandi, áður en þeir eru teknir á opinbert framfæri hérlendis. Ef þeir verða svo uppvísir að því að sitja á fúlgum fjár eru augljóslega einhvers staðar maðkar í mysunni -- eða óhreint mjöl í pokahorninu.
Ef eitthvað athugavert við að kanna þau mál?
Sigurður Hreiðar, 14.9.2008 kl. 12:53
Það gilda reglur um flóttamenn hér á landi líkt og annars staðar í heiminum og finnst mér fólk taka þessu óþarflega persónulega, svo eru margir sem vilja sveipa sig ljóma mannúðarsinnans í þessari umræðu
Ég tek undir með Einari og Bergi í þessu. Allir flóttamennirnir og "flóttamennirnir" í Reykjanesbæ hafa skrifað undir yfirlýsingu um að þeir séu vegalausir og allslausir. Með því að brjóta gegn þeirri yfirlýsingu, leyna vegabréfum, skilríkjum og peningum fyrir yfirvöldum hér á landi, eru þeir að fyrirgera sér réttinum til þess að úr þeirra málum sé skorið. Slíka einstaklinga á að senda burt með skít og skömm.
Krónískir lögbrjótar, sem hafa enga virðingu fyrir þeim raunverulega vanda sem raunverulegir flóttamenn þurfa að búa við mega fara heim til sín með endurkomubann í vasanum. Við höfum nóg af lögbrjótum hér innanlands fyrir.
p.s. Þetta hefur ekkert með rasisma að gera heldur.
B Ewing, 14.9.2008 kl. 12:55
Ég held ég taki mínar 4,5 milljónir undan koddanum og feli þær á betri stað ! enda er ég farinn að fá svo assgoti slæman hálsríg.
Sævar Einarsson, 14.9.2008 kl. 13:13
Hvaða sannanir hafið þið fyrir þessari drengskaparyfirlýsingu? Hér í Svíþjóð eru allir flóttamenn sem bíða eftir afgreiðslu settir í flóttamannabúðir burtséð frá því hvort þeir hafi einhverja aura með sér.
Vilja menn endilega að þetta fólk sé svo gjörsamlega staurblankt að það geti ekki kostað sig út aftur eða komið undir sig fótunum á Íslandi allt eftri því hvað endalok þeirra mál fá?
Má ekki alveg gera ráð fyrir að sá sem selur allt sitt heima reyni að komast með svo mikið af peningum og mögulegt er uppá framtíðina?
Og þú Eingar Þór, "kosti 7000 krónur á dag eða 210.000 á mánuði, sem er jú nettó þar sem ekki eru borgarðir skattar af þessu..." Þetta er vel að merkja kostnaður hins opinbera en ekki neitt sem hælisleitendur fá í vasann.
Er annars nokkuð í íslenskum lögum um að þeim sem leita hér hælis sé bannað að eiga peninga? Ég skil ekki hvernig lögreglan getur bara vaðið inn og tekið af þessu fólki peninga svo framarlega sem ekki liggur fyrir rökstuddur grunur um að þeir séu illa fengnir.
Væri ekki ástæða fyrir lögregluna að gera ærlega rassíu hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum til að athuga hvort þeir hafi komist upp með þá svívirðu að leggja fyrir peninga af greiðslum frá heiðvirðum skattborgurum eða hreinlega átt sparifé frá þeim árum þegar þeir voru á vinnumarkaði?
Jón Bragi (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 13:27
Ég tek heilshugar undir athugasemdir Sigurðar Hreiðars og B. Ewing. Og vitaskuld eru yfirvöld í fullum rétti að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Það þarf að fara að taka niður þessa silkihanska sem ÖLLUM útlendingum er klappað með við komuna til Íslands. Landið er að verða frægt fyrir að vera ruslakista sem býður velkomið og tekur fagnandi við fólki sem aðrar þjóðir vilja ekki sjá hjá sér. Eini flokkurinn sem hefur haft manndóm og þor til að benda á þessa staðreynd - og viljað sjá breytingar á þessari furðuhefð - er Frjálslyndi flokkurinn. Hinir bara taka upp landsveskið og spyrja: Hvað viltu mikið, vinur?
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 14.9.2008 kl. 14:04
Jón Bragi
ég svaraði þér mín megin. Það svar gildir einnig hér.
Sigurður Hreiðar, 14.9.2008 kl. 14:46
Og nú er löggan búin að setja upp skúr á Lækjartorgi til að fylgjast með hvað Djódjó halar inn í böskinu í Austurstræti. Svo fara þeir í gítartöskuna hjá honum og hirða 35,72% tekjuskatt og útsvar á klukkutíma fresti. Og sama vers með Bruce Springsteen þegar hann kemur og spilar í Lækjargötunni með Djódjó.
Við Brúsapallinn böskaði Djó Djó,
beið þar eftir sínum hjartans vini,
og Springsteen kom og spilaði, hló,
sprellaði með honum Djó Djósyni.
Þorsteinn Briem, 14.9.2008 kl. 14:51
Ólína: Þegar ég les yfir athugasemd mína sé ég glöggt að ég hef gert mig sekan um meiri hvatvísi í þinn garð en efni standa til. Á því biðst ég að sjálfsögðu afsökunar og vona að þú takir það alvarlega. Mér hættir til að ganga langt í ályktunum þegar mér er mikið niðri fyrir og ég held að þetta sé erfðagalli sem ég hlýt þó að verða að bera alla ábyrgð á sjálfur. Og nú kemur mér í hug vísa eftir Indriða Þórkelsson frá Ytra-Fjalli í Aðaldal sem ég gæti líklega yfirfært á mig:
Allir hafa einhvern brest,
öllu fylgir galli.
Öllum getur yfirsést.
Einnig þeim á Fjalli.
Með góðri kveðju!
Árni Gunnarsson, 14.9.2008 kl. 15:14
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.9.2008 kl. 15:17
Færsla nr. 17, hennar Helgu Guðrúnar Eiríksdóttur (og kisunnar hennar) gladdi mig mikið. Mér finnst alltaf gott að heyra frá einhverjum sem deila með mér skoðunum sem virðast ekki eiga upp á pallborðið hjá almenningi.
Þegar virkjanaframkvæmdirnar hófust hér og útlendingar streymdu inn í landið fylgdu fljótlega í kjölfarið glæpir, af öðrum toga og verri en við höfðum átt að venjast. Og þá kom í ljós sú ótrúlega staðreynd að menn, eftirlýstir fyrir glæpi í öðrum löndum, gátu flutt hingað athugasemdalaust!! Þar að auki misstu stjórnvöld alla stjórn að flóðinu, þannig að menn voru ekki skráðir og fengu ekki kennitölur, uns opinberlega var viðurkennt að enginn hefði hugmynd um hversu margir útlendingar væru á landinu, hvað þeir hétu, hvaðan þeir kæmu, né hvert lífsviðurværi þeirra væri á Íslandi. Þannig voru búnar til kjöraðstæður fyrir vandræðafólk og glæpamenn, sem eru auðvitað fyrstir til að koma þegar svona flóðgátt opnast.
Ég tek ofan fyrir yfirvöldum á Suðurnesjum, og óska þeim til hamingu með vel heppnaða aðgerð. Árangurinn sýndi að ekki var vanþörf á.
Rökþrota fólk getur kennt þetta við rasisma. Það er þeirra vandamál.
Hörður
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 12:56
Hörður. Það er nú bara þannig að við Íslendingar, að minnsta kosti mikill meirihluti okkar, vill ekki búa í lögregluríki og lögreglan á að fara hér að lögum og mannréttindasáttmálum í einu og öllu, ekki síður en aðrir, sem hér búa, eða eru staddir á íslenskri grund.
Lög um meðferð opinberra mál nr. 19/1991:
94. grein. 1. Lögreglumenn stjórna leit samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
2. Húsráðanda eða umráðamanni staðar, þar sem leit fer fram, skal kynnt heimild til húsleitar og veittur kostur á að vera viðstaddur húsleit, ef unnt er, en ef hann er fjarri skulu heimilismenn til kvaddir. Þeim má víkja brott af leitarstað trufli þeir eða hindri leitina.
3. Við leit skal gæta þeirrar varfærni og hlífðar sem samræmist markmiði hennar. Ekki skal gera húsleit að næturþeli nema mjög brýn nauðsyn sé á og sakarefni stórfellt. Leit innan klæða skal gerð af manni sem er sama kyns og sá sem leitað er á."
"Meðal þess sem mótmælendur voru mjög ósáttir við var haldlagning fjármuna á dvalarstöðum þeirra, auk þess sem þeir voru ekki sáttir við að lögreglan skyldi mæta með fíkniefnahund í aðgerðirnar. Ekkert af fíkniefnum fannst. Þá eru mótmælendur ósáttir við að þeir séu látnir líta út eins og óvinir íslenska ríkisins eða hryðjuverkamenn og óttast þeir stimplun samfélagsins eftir aðgerðirnar í gær."
Þorsteinn Briem, 15.9.2008 kl. 15:36
Og hvaða rétt hefur lögreglan til að gera sparifé einstaks, eða einstakra, hælisleitenda upptækt?!
Almenn hegningarlög nr. 19/1940:
69. grein. Gera má upptækt með dómi:
1. Hluti, sem orðið hafa til við misgerning eða hafðir hafa verið til að drýgja brot með, nema þeir séu eign manns, sem ekkert er við brotið riðinn.
2. Hluti, sem ætla má, að ákvarðaðir séu til notkunar í glæpsamlegu skyni, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis.
3. Muni eða ávinning, sem aflað hefur verið með broti, og enginn á löglegt tilkall til, eða fjárhæð, sem svarar til slíks ávinnings, eða muni sem keyptir eru fyrir ávinninginn. Ef ekki er unnt að færa fullar sönnur á fjárhæð ávinnings er dómara heimilt að áætla fjárhæðina."
Og hafi þessa sparifjár verið aflað með vinnu hér ber vinnuveitandinn væntanlega ábyrgð á því að hafa ráðið viðkomandi starfsmann í vinnu án tilskilinna réttinda.
Þorsteinn Briem, 15.9.2008 kl. 15:38
Steini, það hefur komið á daginn að það var full ástæða til þessar húsleitar enda hefði lögreglan varla gert þetta sér til dundurs. Þetta var svokölluð "rassía" og þá er ekki venjan að tilkynna komu sína með fyrirvara. Ég vil benda þér á grein Haraldar Bjarnasonar blaðamanns og skora á þig að lesa fréttalinkinn sem henni fylgir.
Ennfremur vil ég benda á að lögmaður hælisleitenda hafði ekkert við þessa framkvæmd að athuga. Það ætti að segja þér eitthvað líka.
Mbk
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 16.9.2008 kl. 07:45
Helga mín Guðrún. Hafi einhver hér franskt eða grískt vegabréf, eða annað vegabréf af Evrópska efnahagssvæðinu, hefur hann leyfi til að búa hér og starfa. Og hafi einhverjir vinnuveitendur hér hælisleitendur í vinnu ætti lögreglan að sjálfsögðu að yfirheyra þá, upplýsa málið og að lokum yrði vinnuveitendunum gerð refsing fyrir athæfið, ef það var saknæmt. Ég hef ekki heyrt um neitt slíkt.
Í þessari leit fundust engin fíkniefni, þrátt fyrir svokallaðan "rökstuddan grun lögreglunnar". Hafi lögreglan hins vegar "rökstuddan grun" um að einhver, eða einhverjir, hér selji hælisleitendum fíkniefni, eða noti þá til að selja fíkniefni, ætti lögreglan þá væntanlega einnig að gera rassíu hjá þessum fíkniefnasölum. En ekkert hefur heyrst um slíkt, svo ég viti.
Það væri nú ekki skynsamlegt af erlendum afbrotamanni að sækja hér um hæli og láta lögregluna, bæði hér og erlendis, kanna feril sinn. Í flestum tilfellum eru til ljósmyndir og fingraför af afbrotamönnum og því frekar auðvelt að bera kennsl á þá í upplýsingakerfi Schengen-svæðisins og Interpol, þrátt fyrir fölsuð skilríki.
Mun auðveldara og skynsamlegra fyrir erlenda afbrotamenn að sækja einfaldlega um starf hér með fölsuð skilríki, enda hefur verið auðvelt að fá vinnu hér undanfarin ár. Og vinnuveitendur hér hafa nú yfirleitt ekki beðið útlendinga um erlend sakavottorð áður en þeir hafa ráðið þá til starfa.
Þorsteinn Briem, 16.9.2008 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.