Ráðherra hótar ljósmæðrum lögsókn!
11.9.2008 | 22:33
Árna Matthiesen væri nær að semja við ljósmæður en lögsækja þær. Hann hefur nú stefnt þeim fyrir dómstóla fyrir það sem hann kallar "ólöglegar uppsagnir". Ég held barasta að maðurinn sé að missa alla veruleikatengingu.
Þessi stefna fjármálaráðherrans er það eina sem gerst hefur í kjaradeilu ríkisins við ljósmæður frá því þær sigldu í strand. Sumsé: Ef ekki semst við þessar kellingar - lögsækjum þær þá bara. Hræðum þær ærlega - þær hljóta einhverntíma að hætta þessari vitleysu.
Hvað er maðurinn að hugsa? Heldur hann að þetta sé vænlegt til þess að leysa kjaradeilu sem snýst um margra ára uppsafnaða óánægju yfir augljósu óréttlæti?
Það er staðreynd að ljósmæður fá ekki menntun sína metna til jafns við aðrar stéttir. Um það eru skýr og óhrekjanleg dæmi. Viðsemjandinn er ríkið - og samkvæmt stjórnsýslulögum ber ríkinu að virða jafnræðisreglu stjórnarskrár. Þið fyrirgefið, en ég sé engan grundvallarmun á því hvort fólki er mismunað við stjórnsýsluákvarðanir eða í kjarasamningum þar sem ríkið er viðsemjandi. Eiginlega finnst mér vel athugandi fyrir ljósmæður að láta reyna á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar vegna þess hvernig komið hefur verið fram við þær í kjarasamningum allar götur frá því að núverandi menntun ljósmæðra varð viðtekin regla. Þær eru ekki að fara fram á neinar hækkanir, heldur hreina og klára leiðréttingu - afnám óréttar og mismununar.
Árni Matthiesen hefur orðið sér til skammar með þessari lögsóknarhótun. Og ef ríkisstjórnin situr þegjandi og horfir upp á þetta, þá er ekki orð að marka það sem stjórnarflokkarnir hafa sett á blað um jafnréttismál.
Svei.
Ljósmæður: Uppsagnir löglegar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Sjónvarp | Breytt 12.9.2008 kl. 12:16 | Facebook
Athugasemdir
Árni matt hefur margoft orðið sér til skammar.. en þetta tók toppsætið hjá honum..
Óskar Þorkelsson, 11.9.2008 kl. 22:43
Maðurinn er hrokafullur og sjálfumglaður roðgúll.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.9.2008 kl. 22:55
Þetta er heldur betur ekki hótun, þær fengu stefnu s.l. föstudag.
Smekklegt.
Jenný Anna Baldursdóttir, 11.9.2008 kl. 23:21
Það er bara eitt orð yfir þetta Ólína: ÖMURLEGT.....
Haraldur Bjarnason, 11.9.2008 kl. 23:22
Þannig að þegar ljósmæður brjóta lög, þá á ekki að gera neitt í því? Af því að þær vinna svo gott starf og eru svo góðar? Finnst þér, sem sagt, að ljósmæður eigi að vera hafnar yfir lög?
Það er nú frekar merkilegt að þegar aðilar eru bundnir af lögum að gera ekki eitthvað, eins og t.d. að boða fjöldauppsagnir, en ákveða að ganga gegn þeim lögum, að þá skuli fólk eins og þú, Ólína, stíga fram og verja slík lögbrot.
Þetta snýst ekki um hvort kröfur ljósmæðra séu sanngjarnar eða ekki (sem mér prívat og persónulega finnst vera sanngjarnar, en engu að síður bera þær ábyrgð á því hvernig komið er enda hafa þær væntanlega samþykkt kjarasamninga fortíðarinnar), heldur um það að virða þau lög og þær reglur sem gilda í þjóðfélaginu. Ef fólk er ósátt við lögin, þá á Alþingi að breyta þeim. Fólk á hins vegar ekki að brjóta lögin af því að því finnst þau asnaleg.
Fólk, eins og þú, Ólína, sem hvetur til lögbrota og fagnar lögbrotum fólks, er til óþurftar í umræðunni. Þjóðin þekkir vel hina athyglissjúku fyrrum pólitíkusa sem hafa hrökklast úr sviðsljósi stjórnmálanna (og inn í hégómlegt vasaljós "álitsgjafanna") sem eru duglegir að rífa fram útjaskaða sápukassa sína. Það er svo sem enginn hörgull á slíku fólki. En maður hefði haldið, ef til vill í einfeldni, að sumir sem telja sig skynsama og vanda að virðingu sinni myndu láta það vera að hampa lögbrotum, hversu vel liðnir sem lögbrjótarnir eru og hversu góð sem markmið þeirra kunna að vera.
Þegar sjálfsskipaðir álitsgjafar fara að vola í ráðherra fyrir að standa vörð um lög landsins, þá getur maður ekki annað en brosað út í annað... jafnvel bæði. Kjánagangurinn í fólki sem telur sig sjálfsskipaða siðgæðisverði almennings og þreytist aldrei á að hrauna persónulega yfir ráðamenn er engu að síður kominn út í öfgar.
Þú veitist persónulega að Árna Matthiesen með því að saka hann um að hafa misst "alla veruleikatengingu". Þú ætlar honum að hann hugsi um ljósmæður sem "kellingar" (og opinberar enn eina ferðina rauðsokku mentalítet þitt). Þú firrir samninganefndir ljósmæðra í gegnum tíðina allri ábyrgð á samningum sem ÞÆR samþykktu, getur verið að þú sért að krefjast þess að konur þurfi ekki að standa við gerða samninga?
Kjaradeila ljósmæðra hefur EKKERT að gera með jafnréttismál (sem sumir myndu reyndar ekki þekkja þó þau stykkju upp og bitu þau í eyrun, sumir sjá bara kvenréttindabaráttu og gleyma jafnréttisbaráttu), heldur tvo aðila sem eru að semja. Það að ljósmæður hafi lægri laun en þær vildu hafa, og eru óánægðar með launaþróun undanfarinna áratuga hefur ekkert með kynferði þeirra að gera. Það hefur með það að gera að samninganefndir ljósmæðra hafa í gegnum tíðina samþykkt samninga sem eru óviðunandi. Ertu að saka konur um að geta ekki samið fyrir sína hönd, og að það sé nauðsynlegt að veita konum öryggisnet í gegnum kynferði sitt svo þær semji ekki af sér? Sem betur fer eru ljósmæður í verkfalli núna og fara í hart að sækja það sem þær telja sanngjarnt. Og vonandi ná þær sínu fram. En þeim er enginn greiði gerður þegar bitrar aflóga rauðsokkur mæta á svæðið og byrja að nöldra um kvennamismunun og kvenfyrirlitningu.
Einar Jóhannesson (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 23:23
Já, svona að endingu. Mér skilst að þú sért iðin við ritskoðanir á síðunni þinni þannig að ég reikna ekki með að mitt innlegg fái að lifa lengi hérna, en vonandi tekur þú viljann fyrir verkið og meðgengst, þó ekki nema andartak, að fólk sé fært um að vera ósammála því sem þér finnst. Nema þér finnist þetta innlegg mitt vera mettað af svívirðingum og skætingi.
Einar Jóhannesson (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 23:29
Einar Jóh. Lagabrot? Hver og ein ákvað þetta upp á eigin spýtur. (Nema þú getur komið með sönnun um annað.)
Og... loksins þegar þær gefast upp á að berjast við þursana í ríkinu... þá viltu að þær verði barðar niður?
Einar Indriðason, 11.9.2008 kl. 23:43
þetta er ömurlegt í alla staði
Hólmdís Hjartardóttir, 12.9.2008 kl. 00:19
Eitthvað var misskilið það átti að semja ekki stefna.
Svavar Guðnason, 12.9.2008 kl. 00:23
Ljósmóðir/Dýralæknir
Barnið þitt/Hundurinn þinn
Er þetta nokkur spurning?
Það sem ég á verst með að skilja í þessu máli er hve fyrirmunað þessum póltíkusum var að nýta það sér til framdráttar í upphafi. Hugsið ykkur ef þeir hefðu nú borið gæfu til að semja strax um þetta við ljósurnar - með þeim varnagla að þetta væru sértækar aðgerðir og nauðsynleg leiðrétting. Þeir hefðu nefnilega getað gert það án þess að einhver strolla hefði komið fram með svipaðar kröfur.
Í stað þess drulla þeir nú upp á bak hver af öðrum. Ljósmæður munu keyra sín verkföll og síðan segja upp ef ekki verður samið við þær. Það er nefnilega nóg að gera fyrir þær sem "venjulegar hjúkkur".
Hætt er við að þessar fáránlegu áherslur muni stórskaða mæðravernd og aðra þá þjónustu sem þessar frábæru konur veita ungabörnum og ófrísku fólki.
Er meint kreppa þess virði?
Haraldur Rafn Ingvason, 12.9.2008 kl. 00:26
Heil og sæl; Ólína, og þökk fyrir allt gamalt og gott !
Ólína ! Tek undir; hvert orða, spjallvinar míns, og fyrrum leiðtoga, hjá Kaupfélagi Árnesinga; Jóhanni Erni, já,. sem mörgum annarra.
Og; Ólína ! Er ekki ábyrgð þíns fólks, kratanna, (Samfylkingar) ærin, í þessum málum, sem fjölda annarra ?
Væri Ingibjörg Sólrún, og hennar hirð, sjálfri sér samkvæm, mynduð þið, undir eins, afnema hið skammarlega Alþingi, hvert aldrei átti að endurreisa, raunar, og mynda alvöru stjórn, með bændum - sjómönnum - verkamönnum og iðnaðarmönnum, og kasta af ykkur ESB hamnum, og koma á alvöru stjórn þjóðernissinna.
En, ......... hvers er að vænta, vitræns nokkurs, af hjákátlegu og sjálfsdekruðu menntafólki, annars, Ólína mín ?
Punktur. !!!
Með kveðjum; samt, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 00:40
Var að setja inn myndband um málið.
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.9.2008 kl. 02:32
Hér þarf inngrip ríkisstjórnar eða fjármálaráðherra segi af sér. Þangað er málið komið.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 09:06
Takk fyrir athugasemdir ykkar.
Einar Jóhannesson (ef hann heitir það þá) fer hér mikinn - kallar mig öllum illum nöfnum, bitra aflóga rauðsokku, ritskoðara og fleira ljótt. Sakar mig um að hvetja til lögbrota og hvaðeina.
Það er alltaf sorglegt þegar ekki er hægt að ræða málin án þess að það fari út í persónuárásir og svívirðingar.
"Einar Jóhannesson" fer með rangt mál þegar hann segir að ég ritskoði síðuna mína, þ.e. þá sem eru mér ósammála. Það hef ég aldrei gert. En ég hlíti þeim reglum moggabloggsins að leyfa ekki óviðurkvæmileg og meiðandi ummæli um fólk. Hika ekki við að taka slíkan óhroða út af síðunni minni og loka á þá sem þannig beita málfrelsi sínu. Þau skipti eru þó teljandi á fingrum annarrar handar sem það hefur gerst frá því ég fór að blogga fyrir tæpum tveimur árum.
Varðandi ljósmæðurnar, þá liggur ekkert fyrir um það að þær hafi brotið lög. Síður en svo. Hver og ein manneskja er frjáls að því að segja starfi sínu lausu. Forsvarsmenn ljósmæðra í þessari kjaradeilu hafa ekki hvatt til fjöldauppsagna. Þannig er nú það.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.9.2008 kl. 09:58
Ólína mín, þú mátt ekki gleyma einni borðleggjandi staðreynd, og hún er sú að þínir meðreiðarsveinar eru þarna líka innanborðs og taka þátt í glæpnum. Ég hlakka til að fá að heyra svör ráðherrana sem eru konur í Samfylkingunni. Núna strax.
365, 12.9.2008 kl. 09:59
Það bara breytir engu hvar í flokki maðurinn stendur - það er gjörðin sjálf sem skiptir máli. Ég myndi gagnrýna hana hver svo sem í hlut ætti.
Ég er hér að lýsa skoðun minni á verkum fjármálaráðherrans, ekki persónunni, eða flokksskírteininu hans. Það eru verkin hans sem tala hér og kalla fram álit mitt og fjölmargra annarra.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.9.2008 kl. 10:06
Ég er gáttuð á þessum Einari Jóhannessyni, hvernig maðurinn talar og ræðst hér á Ólínu persónluega. ´
Svona álitsgjafar eru "til óþurftar" í umræðunni - svo ég noti nú hans eigin orð og mín vegna mætti loka á hann.
Kristín Helga (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 10:12
Ég hegg eftir því að Einar Jóhannesson talar um jafnrétti og sakar færsluhöfund um að skilja ekki það hugtak, henni sé meira í mun að ná fram kvenréttindum en jafnrétti.
Í þessu sambandi finnst mér athyglisvert það sem Ólína segir um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þessi kjaradeila snýst um það að fá menntun ljósmæðra metna til jafns við aðrar stéttir. Ef það er ekki rakið jafnréttismál, þá þekki ég ekki merkingu þess orðs.
Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 10:27
Ólína þú virðist forðast að nefna Samfylkinguna á nafn eða tengja þann flokk við kjaramál ljósmæðra?? Samfylkingin er við stjórnvölinn NÚNA!! og hljóta því að láta stóru orðin tala, sem sögð hafa verið og látin falla undanfarin ár!! Háttvirtur utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún talaði fjálglega um stjórnarsáttmálann á sínum tím, að nú verði sko loksins tekið á launamisrétti kynjanna en engar hafa efndirnar orðið, á maður að skila auðu næst þegar verður kosið eða hefur þú einhverja vitræna tillögu um málið??
Reyk-víkingurinn (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 10:28
Merkilegt hvað fólk er iðið við að drepa málinu á dreif hér í kommentakerfinu.
Það er Árni Matt sem er að stefna ljósmæðrum. Er það ekki umræðuefnið?
Jenný Anna Baldursdóttir, 12.9.2008 kl. 10:32
Nei, Reyk-víkingur. Þetta er D listinn. Fésmálaráði er í D-listanum. Ekki dreifa málinu með svona smjörklípu.
Einar Indriðason, 12.9.2008 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.