Hvert örstutt skref - getur verið býsna þungt fyrir suma
10.9.2008 | 22:15
Það kom mér á óvart er ég las á heimasíðu Mænuskaðastofnunar Íslands að rannsóknir á mænuskaða eru enn af skornum skammti þó svo að mænuskaði hafi gríðarlega alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem fyrir honum verða. Fólk sem verður fyrir mænuskaða á m.ö.o. litla von um bata og að meðhöndlun þeirra byggir fyrst og fremst á því að læra að lifa með skaðanum.
Um þessar mundir er að hefjast fjáröflunarátak Mænuskaðasamtaka Íslands sem lýkur með viðamikilli söfnunardagskrá á Stöð tvö föstudaginn 19. september. Margir munu þar leggja hönd á plóg og ýmsir hafa hvatt til stuðnings við þetta mikilvæga átak.
Hér á Íslandi hafa málefni mænuskaddaðra átt sér ötulan baráttumann í Auði Guðjónsdóttur sem beitti sér fyrir stofnun Mænuskaðastofnunar Íslands í desember fyrir ári. Auður er móðir Hrafnhildar Thoroddsen sem slasaðist alvarlega í bílslysi fyrir 20 árum og hefur síðan lifað við mænuskaða. Þær mæðgur hafa árum saman barist fyrir úrbótum í málefnum mænuskaddaðra, og meðal annars komið því til leiðar að sett var á stofn Mænuskaðastofnun Íslands. Er fróðlegt að fara inn á heimasíðu stofnunarinnar www.isci.is og kynna sér markmið hennar og áætlanir.
Markmið stofnunarinnar er að vera leiðandi afl á sviði úrræða fyrir mænuskaddaða og vinna að því með öllum tiltækum ráðum að lækning á mænuskaða verði að veruleika. Í þeim tilgangi leitast stofnunin við að vekja athygli á málefninu á alþjóðavettvangi og safna fé til handa læknum, vísindamönnum og öðrum sem vinna að framförum til heilla mænusködduðum.
Að ýmsu má ráða að mörg verkefni eru óunnin enn í málefnum mænuskaddaðra og því fyllsta ástæða til þess að leggja þessu átaki lið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll | Breytt 11.9.2008 kl. 14:43 | Facebook
Athugasemdir
Frumkvöðlastarf Auðar Guðjónsdóttur á sviði mænuskaðarannsókna er sannarlega þakkarvert og ekki síður aðdáunarvert. Barátta hennar er einstök. Ég hef þekkt Auði frá því við vorum báðar á unga aldri en ég gætti dóttur hennar, Hrafnhildar, þegar Auður var að hefja sinn feril sem hjúkrunarfræðingur. Þakka þér fyrir að vekja athygli á þessu máli, Ólína mín. Eins og svo oft áður, slær hjarta þitt með þeim sem minna mega sín og að þessu sinni með mænusködduðum - en flestir verða fyrir þessum skaða á aldrinum 15-30 ára. Þeir eiga lífið framundan og því afar mikilvægt fyrir þá að unnið sé ötullega að rannsóknum sem gætu leitt til bata eða aukins máttar.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 10.9.2008 kl. 22:33
Sæl Ólína.
Það er þakkarvert að sjá þig taka þetta málefni fyrir og vekja á því athyggli.
Hafðu þökk fyrir.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 03:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.