Horn skella á nösum - og hnútur fljúga um borð

bilde Sorglegt er að sjá hvernig komið er fyrir stjórnarháttum í höfuðborg landsins. Framsóknarmenn eru að hugsa um að ganga til meirihlutasamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Guðni Ágústsson segir flokkinn reiðubúinn að "axla ábyrgð" eins og hann orðar það. Fréttir herma að framsókn setji skilyrði um að Ólafi F. Magnússyni verði ýtt út - Sjálfstæðismenn eru að hugsa málið.

Ég spái því að þetta verði niðurstaðan, enda er ekki á nokkurn mann treystandi í þessum herbúðum eins og sakir standa og dæmin sanna. Yfirstandandi fundahöld Hönnu Birnu og Ólafs F í Ráðhúsinu í dag eru trúlega bara dauðateygjur þessa meirihlutasamstarfs. Sagan sýnir okkur að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins svífast einskis þegar svo ber undir - enda virðist borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna gjörsamlega heillum horfinn. Þar er ástandið eins og hjá Goðmundi á Glæsivöllum í frægu kvæði eftir Grím Thomsen ...

 ... trúðar og leikarar leika þar um völl,
en lítt er af setningi slegið.

 Og eins og í því ágæta kvæði er allt "kátt og dátt" á yfirborðinu ...

... en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt
í góðsemi vegur þar hver annan.

 Nú sannast það sem sagt var þegar grafið var undan 100 daga meirihlutanum: Borgarstjórn Reykjavíkur er óstarfhæf.  Þarna er engum að treysta - samningar og handsöl eru einskis virði - allt er falt fyrir völd og áhrif. Upplausnin er algjör. Undirferlið sömuleiðis og uppdráttarsýkin.

Horn skella á nösum
og hnútur fljúga um borð,
hógvær fylgja orð;
en þegar brotna hausar og blóðið litar storð,
brosir þá Goðmundur kóngur.

Já, þetta er Reykjavík í dag. Svei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Var ekki 100-daga meirihlutinn búinn að gera með sér samkomulag að fara ekki í að redda eða valda íhaldið?

Það er eins og mig minni það.

Það þarf lyndiseinkunn refs til að skilja þessa tegund af póltík.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.8.2008 kl. 18:08

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mikið rétt Jenný. Menn töluðu fjálglega um samstöðu milli flokkanna þriggja, eftir valdatöku Sjálfstæðisflokksins og Ólafs F. Var ekki annað að skilja en nú yrði einn fyrir alla og allir fyrir einn.

En Framsóknarflokkurinn er nú einu sinni með þeim ósköpum að missa ráð og rænu alltaf þegar boðið er að kjötkötlunum, hvað svo sem á undan er gengið. Þetta er ótrúleg framkoma. Og ódrengileg.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.8.2008 kl. 23:12

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Einu sinni, endur fyrir löngu, var Framsóknarflokkurinn kallaður "pólitísk mella" í mín eyru. Lá undir hverjum sem var fyrir greiðslu, lesist peninga og völd. Dónalegt? Kannski. Satt? ........

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.8.2008 kl. 23:26

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Vonandi færðu vinnuna sem þú sóttir um, þú værir frábær í starfið  Dolled Up  Heart Beat Good Night 

Ásdís Sigurðardóttir, 14.8.2008 kl. 01:44

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Já, Ólína;  Heldur orðaði Grímur Th. þetta nú betur en þeir sem í dag tala um "...að axla ábyrgð" og "...hagsmuni borgarbúa".   Þessir blessaðir hagsmunir fara nú bráðum að vega nokkuð þungt á öxlum borgarbúa -og annarra landsmanna, ef svo heldur fram sem horfir.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 14.8.2008 kl. 02:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband