Nokkrir góðir dagar með BHSÍ
11.8.2008 | 21:50
Jæja, nú er orðið langt síðan maður hefur bloggað - enda brjálað að gera í sumarfríinu. Nú sit ég hér sólbrennd og þrútin eins og steiktur tómatur, nýkomin af frábæru fjögurra daga sumarnámskeiði með Björgunarhundasveit Íslands sem haldið var á Gufuskálum 7. - 10. ágúst, að báðum dögum meðtöldum. Við fengum sól og blíðu alla dagana.
Að þessu sinni mætti ég með nýjan félaga til leiks: Skutul litla, hvolpinn minn sem ég fékk í sumar. Hann er að verða fjögurra mánaða. Þetta námskeið var mikil lífsreynsla fyrir hann og hann stóð sig með prýði. Sýndi sjálfstæði á æfingunum, fór býsna langt frá mér þótt ungur sé að árum og var í alla staði hinn efnilegasti. Datt inn á lykt strax í fyrsta rennsli og "fann" sinn mann. Það er mikið álag á ungan hvolp að meðtaka allt sem fylgir æfingum sem þessum. Samvera með öðrum hundum og ókunnugu fólki, dvöl í búri, annarleg hljóð og margt fleira er mikið áreiti. Þetta litla grey var meðal annars sett í sigbelti og híft með talíu upp undir rjáfur. Ekki lét hann sér bregða við það. Þá var hann settur upp í kyrrstæða þyrlu og fékk að skoða þar allt innanborðs. Það fannst honum spennandi. En þegar þyrlan var komin í gang og hann var teymdur í átt að henni, fannst honum nóg komið og spyrnti við fótum. Hann var að sjálfsögðu ekki neyddur um borð, enda hávaðinn þvílíkur að mér sjálfri var nóg um.
Já, meðlimir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar voru okkur innan handar á þessu námskeiði. Þeir mættu á TF-Líf og kynntu fyrir okkur starf þyrlusveitarinnar. Hundarnir fengu að fara inn í þyrluna og reyndustu hundateymin voru látin síga úr henni. Við Skutull gengum að sjálfsögðu ekki svo langt - en hér sjáið þið myndir af undirbúningnum og hérna er myndband af þyrlusiginu. Við Skutull sátum álengdar og fylgdumst með af tilhlýðilegri virðingu.
Já þetta var í alla stað frábært námskeið. Hvað eru sólbruni og þrútnar varir á við nokkra dýrðardaga á Snæfellsnesi með skemmtilegu fólki?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt 12.8.2008 kl. 00:24 | Facebook
Athugasemdir
Þetta hrefur greinilega verið bæði skemmtilegt og erfitt, gaman að hvutti litli stóð sig svona vel. Kveðja vestur og vonandi hvílirðu þig smá núna.
Ásdís Sigurðardóttir, 11.8.2008 kl. 22:01
Gaman að lesa um hann Skutul og hvað hann stóð sig vel. Ég þjáist af hundadellu en hef ekki tök á að eiga eintak. Kannski seinna. (átti einu sinni schafer tík sem hafði mjög sjálfstæðar skoðanir og poodle í 13 ár þær skildu báðar mjög margt sem við þær var sagt) Svo fór ég í algera nostalgíu þegar ég las um Bíltúrinn var þarna á ferðinni í fyrra og við hjónakornin fengum yndislegt veður. Amma mín var fædd í Auðkúluþorpinu og ólst þar upp til 8 ára aldurs, þá fór hún til Flateyrar. Síðar bjó hún í Álfadal á Ingjaldssandi. Ekkert er eins fallegt og Vestfirðir í góðu veðri.
Guðrún Jónína Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 17:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.