Klúður og hrakföll en ... Hornstrandir á morgun
18.7.2008 | 00:29
Úff, þvílíkur dagur! Í dag hefur lögmál Murphy's náð áður óþekktri fullkomnun: Allt sem hugsanlega gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis í dag. Jæja - segi það nú ekki (svolitlar ýkjur) - en samt nóg til þess að ég er uppgefin. Er svo á leið á Hornstrandir í fjögurra daga göngu eldsnemma í fyrramálið.
Hæst náðu hrakföll dagsins þegar Vésteinn systursonur minn MISSTI af flugvélinni vegna þess að ÉG misskildi mætingartímann, og drengurinn varð OF SEINN út á völl. Hann þurfti virkilega að ná ÞESSARI VÉL því við hin erum að fara norður á Hornstrandir eldsnemma á morgun. Nei, nei - þá klúðraðist það. Á Reykjavíkurflugvelli beið móðir hans (Halldóra systir mín) komin austan úr Rangárvallasýslu að taka á móti elsku drengnum - en greip í tómt. Til allrar hamingju á hún góða vini þar eystra sem gátu sinnt búpeningi fyrir hana (því hún er ein á bænum þessa daga) svo hún gæti gist í borginni og beðið fyrstu flugferðar á morgun í trausti þess að drengurinn komist þá. Og sem betur fer á ég góða tengdaforeldra sem ætla að bjarga málum og fylgja drengnum út á flugvöll á morgun svo við Siggi getum náð bátnum sem á að fara með okkur í Veiðileysufjörð. Þau ætla síðan að sjá til þess að yngsti sonur okkar komist klakklaust í fótboltaferðalagið sem framundan er. Já - það er sko gott að eiga góða að þegar eitthvað liggur við.
En sumsé: Húsið hefur verið á öðrum endanum í dag. Það er náttúrulega verið að pakka alla niður. Saga og Pétur eru mætt - þau ætla með á Hornstrandir. Vésteinn er ekki farinn - svo farangurinn hans er hér að sjálfsögðu. Svo þurfti auðvitað að pakka fyrir Hjörvar, hann er jú á leið í fótboltaferðalag. Nú enginn fer nestislaus í langferð - þannig að eldhúsið hefur verið eins og verksmiðja. Þess utan þurftu jú allir að borða í dag ... hvolpurinn skeit þrisvar á gólfið, meig tvisvar - hefur sennilega farið úr sambandi við allt stressið á heimilinu. Hann er nú blessunarlega kominn út í Bolungarvík til móður sinnar og bróður, og verður þar á meðan Hornstrandaferðinni stendur. Ýlfraði og gólaði eins og verið væri að drepa hann þegar við settum hann í búrið í bílnum og ókum úteftir í kvöld.
Úff - þvílíkur dagur. Mamma á spítala. Já, hún kom að heimsækja dóttur sína vestur á Ísafjörð í síðustu viku. Ekki hafði hún lengi dvalið - nánar tiltekið í sólarhring - þegar hún varð fyrir því óláni að detta á rennisléttu klósettgólfinu hjá mér og brjóta hryggjarlið. Ó, jú. Nú liggur hún á sjúkrahúsinu á Ísafirði. En hún er í góðum höndum og á batavegi, sem betur fer. Kannski blessun fyrir hana að vera ekki á heimilinu eins og á stendur.
Jebb - en nú er þessi dagur að kveldi liðinn. Á morgun kemur nýr dagur, vonandi með góðu í sjóinn og mildu gönguveðri. Við ætlum úr Veiðileysufirði yfir í Hlöðuvík fyrsta daginn. Það tekur 5-6 tíma hugsa ég, því við ætlum nú ekki að spana neitt. Setjum svo upp tjaldbúðir í Hlöðuvík og höfum bækistöðvar þar fram á mánudag - þá verður gengið yfir á Hesteyri.
Þetta heitir líf og yndi - og vissulega getur verið gaman þegar mikið er um að vera (þó þetta sé nú kannski full mikið af því góða ... eða ég að verða gömul ... eða eitthvað).
En ég verð sumsé fjarri bloggheimum næstu daga. Segi ykkur kannski ferðasöguna seinna.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:45 | Facebook
Athugasemdir
Úff, þvílíkur dagur! Ég væri dauð.
Ragnheiður hringdi í kvöld og ég fletti upp spánni fyrir hana. Það lítur út fyrir að þið fáið æðislegt veður. Ekki slæmt!
Góða ferð - njótið.
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.7.2008 kl. 00:43
Oh, takk fyrir þessar upplýsingar, Lára Hanna. Gott að heyra eitthvað upplífgandi svona rétt fyrir svefninn.
Góða nótt (og knúsaðu Kötlu frá mér).
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.7.2008 kl. 00:47
Sumir dagar eru erfiðari en aðrir en svo byrtir upp og þú átt eftir að njóta þín í Hlöðuvík. Eins og ég naut mín í Eyjum á Goslokahátínni með börnunum mínum sem eru miklir Eyjamenn í sér. Þarna eru þau í spröngunni hér þar sem þau héldu sig mikið til. Ég mamman þurfti oft að líta undan en var um leið voða stolt af þeim.
Þóra Sigurðardóttir, 18.7.2008 kl. 02:36
Klisja ég veit það, en fall er fararheill.
Ég er algjörlega með það á hreinu að þetta verður toppurinn á sumrinu eftir allan bægslaganginn.
Góða ferð.
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.7.2008 kl. 06:30
Ég er nú eiginlega orðlaus, þetta er ekkert smá og á einum degi. Vona bara að ferðin verði yndisleg og áfallalaus. Njótið heil
Ásdís Sigurðardóttir, 18.7.2008 kl. 22:39
Ekki var það nú alveg búið mín kæra, svo var það ísbjörnin eða tveir, þurftir þú að snúa heim?
Edda Agnarsdóttir, 20.7.2008 kl. 16:07
Æj hvurslags Ólína mín, vonandi gengur ferðin að óskum og óheillakrákan fer eitthvað annað
Ragnheiður , 20.7.2008 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.