Refir með myllustein um háls

yrðlingur Refur með senditæki á stærð við lítið útvarp um hálsinn er sannkölluð hryggðarmynd. Þetta hef ég þó séð norður í Hornvík. Mér brá í brún, satt að segja, því á Hornströndum er refurinn friðaður og maður býst ekki við að sjá hann í þessu ástandi.

Í framhaldi af þessu hef ég velt fyrir mér hugtökunum "friðun" og "verndun" dýra. Ná þau einungis til þess að dýr haldi lífi? Skiptir þá engu hvernig dýrið lifir?

Mér rann til rifja þessi sjón. Tækið er svo stórt að það hlýtur að vera kvalræði fyrir refinn að hafa þetta á sér. Sérstaklega þar sem hann þarf að smjúga um gjótur og ofan í greni - það getur ekki annað verið en að þetta sé fyrir honum. Hugsanlega getur hann drepist af þessu ef hann festir sig - hvað veit ég? Mér var sagt að þetta væri vegna rannsókna - einhverjir vísindamenn hefðu fengið leyfi til þess að fylgjast með ferðum refsins og setja á hann þessi senditæki.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar ég hlustaði á viðtal við formann Dýraverndarsamtaka Íslands í Kastljósi. Mér hefur stundum fundist skorta á að dýraverndarsinnar láti til sín taka hér á landi - og satt að segja mátti skilja á viðtalinu að enn værum við eftirbátar annarra þjóða á því sviði. Til dæmis efast ég um að eftirlit með dýrarannsóknum sé nægjanlegt hér á landi - eins og ofangreint dæmi er til vitnis um. Hvað veit ég nema sú rannsókn standi enn, og ennþá séu refir að dragnast um í Hornstrandafriðlandinu með þennan "myllustein" um háls í nafni vísindanna.

Það vill stundum gleymast að dýrarannsóknir og dýravernd þurfa ekki að fara saman. Þvert á móti geta rannsóknir á dýrum verið afar ómannúðlegar.

Að þessu sögðu skal ég viðurkenna að ég skammast mín svolítið, því sjálf hef ég ekki beitt mér mikið í dýraverndarmálum. Refina sá ég í Hornvíkinni fyrir þremur árum - og tilkynnti það ekki. Gleymdi því eiginlega.Vissi ekki heldur hvert ég átti að snúa mér - og gerði því ekkert. Hrædd er ég um að viðlíka aðgerðaleysi eigi við um ýmsa sem verða vitni að illri meðferð dýra - taka það nærri sér, segja frá því við vini og kunningja, en láta þar við sitja.

Svona til umhugsunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En veistu nokkuð hvað tækið er þungt? Veistu hvort þeir refir sem áður hafa verið merktir hafa hrunið niður eins og flugur þess vegna? Svör við þessum spurningum er örugglega hægt að fá hjá rannsakendum. Ég tel það hið besta mál að auka þekkingu okkar með rannsóknum svo lengi sem þær fela ekki í sér einhvern sérstakan fantaskap, eins og augljóslega er heldur ekki í þessu tilfelli.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 09:49

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Þorgeir.

Ég veit ekki um neitt annað en það sem ég sá - og ætla því ekki að draga neinar ályktanir af öðru en því, þ.e. fyrirferð tækisins sem var allmikil fyrir svo lítið dýr. Ég myndi a.m.k. ekki vilja hafa annað eins apparat um hálsinn, og geng ég þó upprétt.

Orðið "fantaskapur" er þitt - ekki mitt og ekki hef ég talað um að refir hafi "hrunið niður eins og flugur vegna þessa" - það eru þín orð.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.7.2008 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband