Pakkað fyrir Hornstrandaferð

IMG_0282 (Medium) Ég er farin að pakka fyrir hina árlegu Hornstrandaferð sem við í gönguhópnum "Höldum hópinn" ætlum að fara um næstu helgi. Þriðja helgin í júlí - það er fastur liður. Að þessu sinni verður siglt með okkur í Veiðileysufjörð á föstudagsmorgni, og við göngum yfir í Hlöðuvík. Þar setjum við upp bækistöðvar, en farangurinn verður sendur þangað á undan okkur, með báti. Það mun vera brimasamt í Hlöðuvik og því stundum erfitt með lendingu. Fyrir vikið verður farangurinn sendur með þriggja daga fyrirvara, svo nægur tími gefist, ef lending tekst ekki í fyrstu tilraun.

Úr Hlöðuvík ætlum við að ganga um nágrennið á laugardag og sunnudag, dagleið í hvort skipti. Á mánudag verður síðan gengið yfir til Hesteyrar þaðan sem við tökum bátinn heim.

Gönguhópurinn fer stækkandi ár frá ári, enda eru börnin okkar farin að koma líka. Hópurinn skiptir um nafngift eftir hverja ferð, því ævinlega bíða okkar ný ævintýri sem kalla á nýtt heiti. Við höfum heitið Skítugur skafl, Ropandi örn, Höldum hæð og Höldum hópinn - allt eftir tilefnum.

Árið sem við nefndumst Ropandi örn, gengum við í niðaþoku á Straumnesfjall. Í þokunni birtist okkur gríðarstór fugl á steini. Hrifin og uppnæm virtum við fyrir okkur þessa sjón - bæði með  berum augum og kíki. Gott ef ekki blasti líka við myndarlegur laupur og fjöldi arnarunga. Þegar nær dró, minnkaði skepnan - og loks - þegar við vorum alveg komin að fuglinum flaug hann ropandi á braut. Errm Þetta var þá rjúpa.

Um þetta var ort:

  • Á Straumnesfjallið stikar greitt,
  • stafir blika og skína,
  • gönguhópur, brosir breitt
  • með bakpokana sína. 
  • Í gegnum þoku grilltum þar,
  • gáttuð eins og börn,
  • hvar á stórum steini var
  • stæðilegur ÖRN. 
  • Enginn þó að öðrum laug
  • eða bar við skopi
  • fyrr en óvænt fuglinn flaug
  • með fjaðrabliki og ROPI.

c_documents_and_settings_lina_my_documents_my_pictures_hornstr-07_burfell2_medium_265031 c_documents_and_settings_lina_my_documents_my_pictures_hornstr-07_hesteyri2_small Vestfirðir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta hljóta að vera magnaðar ferðir.  Góða skemmtun og njótið vel, vonandi verður veðurguðinn með ykkur.

Ásdís Sigurðardóttir, 13.7.2008 kl. 19:53

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Góða ferð Ólína - þar gönguhópurinn ekki að fara í gönguferð um sveitir sólaruppkomunnar í Austrinu?  Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 13.7.2008 kl. 21:24

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Góða ferð.  Mér finnst það hafa verið svo nýlega sem ég las færsluna um síðustu ferð.

Hvað tíminn flýgur áfram.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.7.2008 kl. 21:29

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Góða ferð til ykkar allra. Verða nokkuð hundar með í för? 

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.7.2008 kl. 21:52

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir öll.

Það verður einn hundur með í för (Blíða mín). Hvolpurinn fær að vera hjá mömmu sinni í sveitinni á meðan

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.7.2008 kl. 22:59

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Og vafalaust kemur að því að það verði gengið víðar en hér fyrir vestan - Austurland hefur komið til tals í því sambandi, enda hæg heimatökin með tvo Austfirðinga í hópnum og einn ættaðan þaðan að auki.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.7.2008 kl. 23:00

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég segi bara góða ferð og góða skemmtun. Ef þú veist um einhverja sem vantar far vestur, gegn því að taka þátt í eldsneytiskostnaði láttu mig þá vita. Ég er búinn að setja ferð inn á samferda.net.

Theódór Norðkvist, 13.7.2008 kl. 23:01

8 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Við stöllur erum þegar komnar af stað á Hornstrandir þar sem stór hluti af skemmtuninni er að pakka niður og spekúlera hvað skal taka með og hvað ekki. Þær Maríanna og Kolla, nýliðarnir í hópnum, eru hreint aflveg að missa sig af spenningi. Við skiptum með okkur að vakta www.vedur.is til þess að sjá hversu hliðholl máttarvöldin verða okkur en nýjustu fréttir frá Veðurstofunni herma að föstudagur og laugardagur verði bjartir og sólríkir með hægviðri. Ekki amalegt það. Fröken Maríanna hefur verið sveitt við eldavélina að matbúa krásir í ferðina sem hún frystir og pakkar haganlega í neytendaumbúðir. Sjálf er ég að grafa upp föðurlandið, lopapeysuna góðu, sem ég þú varst svo elskuleg að prjóna og gefa mér í fimmtugsafmælisgjöf, og finna til sólvörnina, flugnanetið, varasalvann og fleira og fleira sem ómissandi er í svona ævintýraverðir. Við Maríanna og Kolla leggjum í hann á þriðjudagsmorgun og höfum viðkomu í Haukadalnum mínum þar sem við tökum léttar gönguæfingar inn Lambadalinn og út í Keldudal. Við hlökkum til að sjá ykkur öll í göngugírnum.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 13.7.2008 kl. 23:02

9 Smámynd: Þóra Sigurðardóttir

Þetta hljómar mjög spennandi og gangi ykkur vel

Þóra Sigurðardóttir, 14.7.2008 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband