Af hverju á Guðmundur að skila gögnum?

OR Hvaða fár er þetta eiginlega út af "gögnum" sem Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri OR, á að hafa undir höndum? Vita menn ekki að það er hægt að ljósrita allan skrattann? Og hvað er Guðmundur að þumbast við með lögfræðingum og alles? Af hverju ljósritar hann ekki bara þau gögn sem hann telur sig þurfa og skilar þeim svo? Varla hverfur vitneskja hans um fyrirtækið þó hann láti einhverja pappíra af hendi.

Á visir.is kemur fram að Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hafi leitað til Kjartans Magnússonar, stjórnarformanns Orkuveitunnar, eftir að hafa ítrekað beðið Guðmund Þóroddsson, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, um að skila gögnum af stjórnarfundum. Haft er eftir Ástu Þorleifsdóttur, varaformanni stjórnar OR það sé „mikill munur á að vera stjórnarmaður annars vegar og starfsmaður hins vegar þegar kemur að því að skila gögnum." Errm 

Ásta segi ennfremur að „þegar forstjóri hefur ítrekað farið þess á leit við starfsmann að hann skili þessum gögnum" að þá sé bara „sjálfsagt og eðlilegt að stíga næstu skref"sem séu að láta skrifa bréf „eins og hefði verið gert í tilfelli hvaða starfsmanns sem er."

Hmmm .... og myndu menn senda fjölmiðlum afrit af slíku bréfi "í tilfelli hvaða starfsmanns sem er?"

Nei - þið fyrirgefið, en þetta mál er komið út í einhverja vitleysu og það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við umfjöllun þess á opinberum vettvangi.

Það segir sig auðvitað sjálft að þegar stjórnandi í fyrirtæki gengur þaðan út, þá hefur hann meðferðis vitneskju og upplýsingar um starfsemi og innviði fyrirtækisins. Það breytir engu þó hann skili einhverjum pappírum sem fjöldi manns hefur hvort eð er undir höndum. Nema menn óttist að maðurinn geymi eitthvað sem kemur sér illa fyrir þá sjálfa og þær ákvarðanir sem þeir hafa tekið. Nú, eða ætlunin sé að ófrægja manninn - gera hann tortryggilegan og hindra þar með að hann komist í sambærilega áhrifastöðu annarsstaðar, þar sem upplýsingarnar sem hann hefur undir höndum geta komið sér illa fyrir OR.

Sé það tilfellið - þá er leiðinlegt að verða vitni að þessum tilburðum. Guðmundur Þóroddsson er ekki eini stjórnandinn sem yfirgefur starfsvettvang með vitneskju í farteskinu. Þetta er alltaf að gerast - og menn verða bara að bíta í það súra. Þessi læti eru engum til framdráttar. 


mbl.is Upplýsingar stangast á um eðli gagna um OR í vörslu Guðmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ótilneyddur hefði Hjörleifur ekki verið að biðja Guðmund um að skila þessum gögnum þannig að ég held að þetta séu verðmæt gögn. Upplýsingaeignir eru verðmæti og það fer ekki milli mála að reglur OR um meðferð upplýsinga hafa verið brotnar í þessu tilfelli og í raun er Guðmundur að sleppa mjög létt ef hann þarf einungis að skila þessum verðmætum.

GK (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 12:55

2 identicon

Veit svo sem ekkert um þessi "gögn" en bílnum mætti hann þó skila. 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 13:35

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hmmm .... athyglisvert.  Varla hefur hann nú tekið heilan bíl ófrjálsri hendi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.7.2008 kl. 13:58

4 identicon

Hvers vegna var þá Guðmundur að taka þessi gögn til að byrja með ef hann hefur vitneskjunna hvort sem er.

Einhverja ástæðu hefur hann að taka (og væntanlega ljósrita) þessi gögn.

Kannski er OR búið að loka á rafmagnið til hans og hann getur ekki ljósritað

Karma (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 15:34

5 identicon

Mál þetta minnir á Decode málið.

Gögn fyrrverandi starfsmenn Decode tóku voru eign fyrirtækis og féllu dómar Decode í hag. 

Ég held það sé ekki vafi á því að þetta gríðarlega magn af gögnum sem Guðmundur á að hafa tekið með sér innhaldi viðkæm trúnaðarmál sem gætu hæglega skaðað fyrirtækið. Þá skiptir það ekki neinu máli hvort gögn séu geymd í sérstökum gangnageymslum eða í möppum hjá forstjóra.

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 16:06

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ólína, ég hefði haldið að jafn reynd kona og þú vissir að starfsmaður má ekki fara með neitt nema allra persónulegustu muni t.d. fjölskyldumynd á skrifborðinu.

Öll vinna sem starfsmaðurinn hefur unnið, og fengið greitt fyrir, er eign fyrirtækisins. Næsti starfsmaður á að geta tekið við starfstöðinni án nokkurrar hindrunar.

Starfsmaðurinn á hvorki rétt að taka með sér fundargerðir eða yfirhöfuð eitt einasta pappírssnifsi með sér. Ég hélt að þetta væri öllum ljóst og skil því ekki hvernig Guðmundur getur hlaupið upp með málið í svoa barnalega þversögn og fjöldi fólks tekur undir með honum af tómum misskilningi um algert réttleysi hans þarna.

Bíllinn er væntanlega hluti af starfsaðstöðu og þá til að ferðast á í vinnunni. Hann getur ekki tekið hann með sér fremur en önnur tól fyrirtækisins. Hann verður eftir fyrir næsta forstjóra eins og skrifborðið.

Haukur Nikulásson, 11.7.2008 kl. 16:21

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er nú kannski einmitt vegna reynslu minnar sem ég tala á þeim nótum sem ég geri, Haukur. En við skulum ekki gleyma því að fundargerðir og annað sem tilheyrir fyrirtæki í opinberri eigu eru opinber gögn og ekkert trúnaðarmál. Hver sem er getur kallað eftir þeim gögnum og fengið þau. Auk þess getur hvaða varamaður eða áheyrnarfulltrúi sem er fengið gögn innan úr fyrirtækinu.

Í prinsippinu eiga menn auðvitað að skila því sem ekki tilheyrir þeim persónulega þegar þeir láta af störfum. En ef um er að ræða gögn sem geta varðað hagsmuni mannsins sjálfs - til dæmis ef upp rís ágreiningur um tildrög ákvarðana eða þessháttar, þá er lítið við því að segja þó hann haldi afritum af slíkum gögnum.

Bíllinn er auðvitað allt annað mál. Hafi Guðmundur tekið bílinn með sér hlýtur það að vera umsamið. Annars veit ég um þennan bíl, og vil því ekki blanda mér í þá umræðu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.7.2008 kl. 16:39

8 identicon

Öll gögn fyrirtækja í opinberri eigu eru auðvitað ekki opinber gögn þó að fundargerðir séu það kannski.

Ég endurtek það sem ég sagði áður, Guðmundur hefur einhverja ástæðu til að taka þessi gögn og ég efa að það sé til að verja sig ef upp rís ágreiningur um tildrög ákvarðanna o.þ.h.

Karma (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 17:14

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég veit ekkert um þennan bíl - vildi ég nú sagt hafa . Smá misritun í athugasemdinni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.7.2008 kl. 19:08

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ÉG hef þá skoðun að bæði bíll og skjöl eigi að vera eftir, ef hann vill eiga eitthvað þá tekur hann afrit.  Annars veit maður svosem ekkert um þetta mál og því erfitt að dæma þetta réttilega.  Kær kveðja vestur

Ásdís Sigurðardóttir, 11.7.2008 kl. 19:21

11 identicon

Hver sagði að Dallas þættirnir væru hættir?

Baldvin Nielsen,Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 23:36

12 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ólína, þessum leikreglum færð þú ekki breytt. Guðmundur á engan rétt á að taka gögn með sér þó að það sé hætta á ágreiningi. Hann einfaldlega á þau ekki.

Ég er nokkuð viss um að Guðmundur Þóroddsson fái eðlilegar ráðleggingar frá lögfræðingi sínum um þetta efni og muni sjá að sér. Allt annað er ekki gáfulegt svo vægt sé til orða tekið.

Haukur Nikulásson, 12.7.2008 kl. 07:21

13 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Haukur er hér ekki á ferðinni örlítil rökvilla.

Fyrir stjórnarfundi í öllum alvöru fyrirtækjum eru tekin saman öll þau gögn sem varða efni fundarins þau fjölrituð og send hverjum stjórnarmanni fyrir fund eða afhent honum á fundinum, eftir atvikum. Þetta vita flestir. Að fundi loknum tekur hver stjórnarmaður þessi gögn með sér heim og geymir til frekari glöggvunar eða síðari nota! Ef Guðmundur hefði farið þannig að, tekið gögnin með sér heim eftir hvern fund líkt og aðrir, í stað þess að geyma þau við höndina í vinnunni, þá væri STÓRA skjalamálið ekki til og engum hefði dottið þetta í hug. En af því að hann geymdi þetta á kontórnum og tók með sér þegar hann hætti og fór sennilega ekki leynt með það, þá sá einhver sér hag í því að gera þetta mál úr engu. Og hefur tekist býsna vel upp.

Það væri eðlilegt að þeim öðrum, sem hafa þessi sömu skjöl undir höndum, og geyma heima hjá sér, verði gert að skila þeim líka. Af hverju var það ekki gert ef mönnum varð það skyndilega ljóst að þau innihéldu viðkvæm trúnaðarmál og ekki væri æskilegt að þau væru að þvælast utan veggja Orkuveitunnar?

Því er eðlilegast að draga þá ályktun að endurheimta á skjölunum hafi aldrei verið aðaltilgangur þessa fjaðrafoks. Mér er nær að halda að hér séu pólitískar endurgreiðslur á ferð.

Hvað bílinn varðar þá stendur orð gegn orði. Gerður var starfslokasamningur við Guðmund sem metinn var á 30 milljónir ef ég man rétt, það verður væntanlega flett upp í honum. Ég sé lítinn mun á því hvort inn í þeirri upphæð eru afnot af bíl í einhvern tíma eða beinhörð greiðsla. Þar fyrir utan eru svona starfslokasamningar óeðlilegir yfir höfuð.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 12.7.2008 kl. 09:00

14 Smámynd: Víðir Benediktsson

þetta er athyglisverð umræða. Sjálfur er ég stjórnarmaður í opinberu fyrirtæki og velti því fyrir mér hvernig ég á að skila þeim gögnum sem ég hef undir höndum ef ég hætti sem slíkur. Flest gögn fæ ég í tölvupósti og velti því fyrir mér hvort nóg sé að senda tölvupóstinn til baka, hmm. það hljóta allir sem eitthvað vita um svona mál að sjá hvað þetta er vitlaust. Ég er viss um að Guðmundur á hvert einasta plagg sem skiptir máli á tölvutæku formi og hann verður þá bara að afhenda tölvuna sína ásamt eiðsvarinni yfirlýsingu að gögnin hafi ekki verið afrituð. Er glóra í þessu?

Víðir Benediktsson, 12.7.2008 kl. 11:27

15 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég tek undir með Axel og Víði. Það er eiginlega engin glóra í þessu og hálf hlálegt að menn skuli jafnvel tala eins og umrædd gögn hafi "horfið" frá fyrirtækinu. Það er marg komið fram að hér er ekki um nein frumgögn að ræða, heldur afrit sem eru til hjá fjölda manns, bæði stjórnarmönnum og starfsfólki OR, bæði á pappírum og í tölvutæku formi.

Þetta er stormur í vatnsglasi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.7.2008 kl. 13:49

16 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

8_4_145

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 12.7.2008 kl. 14:37

17 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mér finnst ekki hafa komið nægilega skýrt fram nákvæmlega HVAÐA gögn þetta eru og það er talað ýmist um möppur eða kassa - ekki tölvugögn.

Eins vil ég greina á milli þess að sitja í stjórn fyrirtækis annars vegar og vera starfsmaður þess hins vegar. Það er tvennt gjörólíkt.

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.7.2008 kl. 14:46

18 Smámynd: Sævar Helgason

Fjölfaldaðar fundargerðir og tölvupóstar eru sjálfsagt ekki merklegt og auðvelt að dreifa.

Annað er með mikilvæga viðskiptasamninga og ýmis tæknileg gögn t.d varðandi jarðvarma og orkuvinnslu - gögn sem eru jafnvel milljarða virði í höndum aðila utan Orkuveitunnar, en eru Orkuveitunni gríðarlega mikilvæg að fari ekki í hendur annara.

Ljóst er að jafn háttsettur aðili sem forstjóri fær slík gögn inná sína skrifstofu...

Hvað veit ég ,...en hef langa reynslu af trúnaði innan stórfyrirtækis..

Sævar Helgason, 12.7.2008 kl. 22:56

19 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ólína, það kom fram að gögnin hafi verið í "kassavís" og ég met slíka umræðu sem svo að það sé það um fleira að ræða en einfaldar fundargerðir sem venjulega eru ein til tvær blaðsíður hver í flestum tilvikum. Það eru stjórnarmenn sem geta haldið sínum fundargerðargögnum, um það er enginn ágreiningur en starfsmaðurinn á að fara tómhentur frá starfinu.

Sú umræða er í gangi að Guðmundur ætli að fara til einkaaðila í sambandi við orkumál og nýta sér reynslu sína og hann hefur ekki virkað það heiðarlegur í þessu máli að honum hefði ekki átt að "fylgja" út um leið og honum var sagt upp. Það hefði ég gert sem eigandi eða stjórnarmaður í OR.

Nú er hann búinn að skila gögnunum (klárað ljósritunina?) og málið þá væntanlega formlega leyst. Líklega kemur ekkert frekar í ljós alveg á næstunni fyrr en hann verður kominn í bullandi samkeppni við OR og REI, hugsanlega sem starfsmaður GGE, og þá má búast við að fjandinn geti orðið laus aftur.

Haukur Nikulásson, 13.7.2008 kl. 23:59

20 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Haukur - ég skil vel sjónarmiðið sem þú setur fram, og veit að þetta er einmitt vandi fyrirtækja þegar forstjórar og háttsettir starfsmenn hverfa á braut. En við þessu er lítið að gera - við þurrkum ekki út vitneskju manna á augabragði og það eru takmörk fyrir því hversu mjög er hægt að hefta aðgang þeirra að gögnum. Þessi menn eru oft þeir einu sem hafa aðgang að mikilvægustu gögnunum.

Mér finnst bara svolítið barnalegt, nú á tímum takmarkalausrar upplýsingatækni, að leggja ofurþunga´herslu á það að maðurinn skili afritum sem hann á. Menn hefðu þá betur fylgt honum út úr húsinu eins og þú segir, skipt um skrár og lykilorð á tölvukerinu. Það hefði verið nær heldur en að standa í þessu blaðafári sem er engum til sóma.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.7.2008 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband