Sorglegt að sjá

Það er sorglegt að sjá þessar aðfarir lögreglumanns gagnvart unglingspilti sem grunaður var um búðarhnupl en reyndist svo alsaklaus þegar til kom, og ekkert fannst á honum. En þó svo hefði verið - þá réttlætir það ekki svona aðfarir. Þetta er unglingur - og það er nú ekki eins og hann hafi verið grunaður um stórglæp. Afbrot hans virðist einkum vera að lýsa yfir sakleysi sínu. 

Ég velti fyrir mér afleiðingum þessa atviks á sálarlíf piltsins og tilfinningar þeirra sem voru með honum til lögreglunnar  framvegis. Svo  mikið er víst að þetta eykur ekki traust almennings á lögreglunni. Innra með sjálfri mér hafa vaknað alvarlegar efasemdir um að lögreglumönnum sé innrætt rétt hugarfar gagnvart borgurum þessa lands, þ.á.m. unglingum.

Ef íslenskir lögreglumenn þola ekki að þeim sé svarað á vettvangi - hvar stöndum við þá?  Hver eru réttindi borgaranna ef þeir mega ekki tjá sig við lögregluna án þess að eiga á hættu  meiðingar og lítillækkun?

Löggæslustörf eru vissulega krefjandi - þau eiga að vera það. En þessar aðstæður voru ekkert sérlega krefjandi. Hver einasti grunn- eða framhaldsskólakennari hefði leyst betur úr þessu máli en lögreglumaðurinn gerði þarna. Þetta var einfaldleg ástæðulaus árás á varnarlausan ungling. Lögregluoflæti - paranoja.

Og hvað skyldu lögregluyfirvöld gera í málinu, nú þegar atvikið er lýðum ljóst?

Hvað hefðu þau gert ef þetta myndband væri ekki til staðar? Spyr sú sem ekki veit.

 


mbl.is Mál lögreglumanns til ríkissaksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tiger

  Já, því miður eru ofbeldisgenin líka til í laganna vörðum - og auðvitað eru þeir líka mannlegir og kunna sig oft ekki. En, slíkt á þó alls ekki heima í lögreglunni og svona vinnubrögð eru til skammar. Viðkomandi lögreglumaður á ekki heima í þessu starfi því greinilega kann hann ekki að hemja sig. Verður fróðlegt að sjá hvernig lögvaldið snýr sér út úr þessu atviki.

Tiger, 27.5.2008 kl. 17:06

2 identicon

Hvað er málið? Þessi strák fáviti er með kjaft og er snúinn niður. Og hvað með það? Var hann lamin með kylfu? sparkað í hann járnaðan? Bara væll í fólki hérna.

óskar (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 17:12

3 Smámynd: Sporðdrekinn

Það fólk sem getur ekki sínt almenningi á öllum aldri þá virðingu að hlusta á það á ekki að vera í lögreglunni. Nú verður lögreglu stéttin að fara að hugsa sinn gang, hvað er best að gera til að vinna virðingu almennings?

Sporðdrekinn, 27.5.2008 kl. 17:18

4 Smámynd: Sporðdrekinn

Ég vona að þú sért ekki í lögreglunni Óskar, og verðir aldrei.

Sporðdrekinn, 27.5.2008 kl. 17:20

5 identicon

óskar er ekki svara verður.

Valsól (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 17:31

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Tek undir hvert þitt orð Ólína.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.5.2008 kl. 18:56

7 identicon

Ég verð að taka heilshugar undir með þér Ólína, það er orðið mjög hart ef að lögreglumenn kunna ekki lengur að tala fólk niður og ræða hreinlega við það.

Mér finnst lögreglunni hafa farið mikið aftur, því þeirra hugsun virðist vera að beita afli frekar en vitsmunum.

Það segir sig alveg sjálft að góður lögreglumaður getur ALLTAF talað við fólk og hlustað - það er það sem einkennir góðan lögreglumann frá slæmum. 

Stefán (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 19:03

8 Smámynd: Einar Þór Strand

Það er auðvitað ekki gott að sjá lögregluþjón missa svona tök á sér, en hvaða skilaboð er verið að senda unglingum í dag með umræðunni eins og hún er?  Eru skilaboðin það er alveg sama hvað þið gerið og segið við fullorðið fólk þið sleppið af því þið eruð unglingar og börn?  Hvert hefur þetta leitt tildæmis í Englandi þar sem það er nánast daglegtbrauð að unglingar drepi oftast aðra unglinga og börn og stundum jafnvel fullorðna.  Er það kannski því að kenna að foreldar og fjölmiðlar hafa gert allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir að börn væru öguð og þyrftu að horfast í augu við það sem þau gera og segja?  Hvað gerist svo þegar þetta fólk verður fullorðið og fer að vinna sem lögreglumenn eða kennarar sem dæmi verður kveikiþráðurinn enn styttri? 

Ég hef grun um að drengurinn á myndbandinu hafi sagt eitthvað sem olli viðbrögðunum og að ungi lögregluþjónninn hafi brugðist við eins og hann hefur kannski áður gert í skóla þar sem ögun var farin fyrir lítið, auðvitað get ég ekkert sagt til um það því ég þekki þar ekki til, en mér dettur í hug að vandinn liggi í að við erum búin að gera aga útlægan úr skólum og allstaðar með því að refsa þeim sem reyna að halda honum uppi.

Einar Þór Strand, 27.5.2008 kl. 19:04

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Einar Þór. Þessi unglingur hafði ekkert brotið af sér. Hann var saklaus sakaður um þjófnað. Það eitt útaf fyrir sig er nú kannski nógu leiðinlegt fyrir hann, þó hann verði ekki líka fyrir tilhæfulausu ofbeldi í þokkabót, af því hann lýsir yfir sakleysi sínu.

Nei, það var lögreglumaðurinn sem missti stjórn á sér. Það var hann sem ekki kunni samskiptin og greip til aflsins í stað þess að nota mannasiðina. Það er ekki það sem við ætlumst til af lögreglunni. Hvernig eiga ungmenni landsins að læra sjálfsstjórn og að bera virðingu fyrir fullorðnu fólki þegar það hagar sér svona?

Það er engin ástæða til að mæla þessari framkomu mannsins bót - og ég trúi því ekki að þú viljir að lögreglan komi svona fram við þín börn áður en þau hafa lært sína mannasiði.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.5.2008 kl. 20:30

10 identicon

Ég ætla ekki að afsaka þetta atvik á nokkur hátt .....en langar að vita af því að þú spyrð hvort við viljum að lögreglan komi svona fram við okkar  börn áður en þau læra sína  mannasiði...finnst þér ekki nokkuð seint í rassinn gripið að fara að kenna sautján ára gömlum dreng mannasiði.

K.S. (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 20:56

11 Smámynd: Einar Þór Strand

Ólína ég held það þú ættir að lesa það sem ég var að skrifa ég er ekki að tala um þetta einstaka mál heldur þá staðreynd að unglingar bera oft á tíðum enga virðingu fyrir þeim sem þeir eru að tala við og nota oft viðkvæðið "ég kæri þig ef þú lætur mig ekki í friði" og svo framvegis.  Ég hélt að þú með þína reynslu ættir að skilja betur hvað ég er að fara, voru til dæmis þarna tveir illa agaðir unglingar að tala saman?

Og ég er ekki að mæla bót því sem lögreglumaðurinn gerði enda mun hann fara illa út úr því, en ég er líka hneykslaður á að fólk til dæmis þú mælir því bót að það sé í lagi að sýna virðingarleysi fyrir öðrum og ræða ekki málin af skynsemi.

Eða langar ökkur kannski að fá upp stöðuna eins og hún er í Englandi í dag?

Þó að maður hafi ekki brotið af sér þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að maður geti legið undir grun (og hér í bloggheimum er það að liggja undir grun oft sama og dómur) og þá er ekkert um annað að ræða en að sýna fram á sakleysi sitt, og hvernig er best að gera það?

a) með því að hreyta skætingi í viðkomandi og rífakjaft.

b) með að telja upp á 10 (eða 100) og reyna að tala við viðkomandi og skýra sitt mál.

Það sem stendur upp úr í þessu máli er að unglingur og að því er virðist lítið eldri lögreglumaður nota þá aðferð sem allt of oft líðst í skólum að haga sér eins og hundar og slást til að sjá hver er ofar í röðinni, en eitt myndi unghundurinn (hvolpurinn) aldrei gera og það er að haga sér eins og dóni við fullorðinn hund því hann veit að það hefur afleiðingar.  En í mann heimum er verið að snúa þessu við og segja ekki ybba þig við unglinginn sama hvað hann gerir því þá munum við valta yfir þig.

Og að lokum Ólína þá minni ég þig á að ég er ekki að tala um þetta einstaka mál heldur þjóðfélagið í heild.

Eða hversu oft hefur ekki unglingur sagt við einhvern sem er að skipta sér að áhættuhegðun "ég skal kæra þig helvítið þitt, þér kemur ekki við hvað ég er að gera"?

Einar Þór Strand, 27.5.2008 kl. 20:58

12 identicon

Alveg sammála þér Ólína (nema það að oflæti er ekki sama og paranoja en það kemur málinu ekkert við). Það var alveg ótrúlegt að sjá afglöp lögregluþjónsins. Gleðilegt er að heyra að hann hefur verið tekinn af vaktinni strax og mál hans sett í réttan farveg. Ég er samt engan veginn að verja drenginn með þessu, hann hefur vafalaust verið dónalegur og ögrandi áður en til árásarinnar kom. En slíkt ber lögreglumanni skylda til að þola.

En ég hugsa eins og þú: Hvað ef ekki væri myndskeiðið af þessu? Hefðum við þá fengið klassísku klausuna um það að ekkert væri athugavert við framgöngu lögreglunnar og að hér hefði bara átt sér stað hefðbundin handtaka? Ég segi eins og þú: Spyr sá sem ekki veit. 

sleggjudómarinn (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 21:02

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sælir aftur.

Menn fullyrða hér að pilturinn hafi verið dónalegur við lögregluþjóninn - var hann það? Ég heyri að vísu ekki vel hvað hann segir en mér heyrist hann segja: "Þetta er síminn minn. Hvað er að þér?" Skal þó ekki fullyrða að ekki hafi eitthvað fokið með sem heyrist ekki á bandinu. Hvað um það.

Nú vil ég ekki fara í þrætur við Einar Þór Strand um uppeldismál - ég tók orð hans sem svo að hann væri að leggja út af framkomu piltsins, og heimfæra hana upp á unglinga almennt.

Það eitt að vera ranglega sakaður um þjófnað hleypir vafalaust kappi í kinn á mörgum. Ég vil ekkert fullyrða um framkomu drengsins - ég heyrði hann ekki segja neitt dónalegt - en hafi hans framkoma verið slæm, þá var framkoma lögregluþjónsins verri. En sennilega erum við Einar Þór sammála um það að aga- og virðingarleysi kallar alltaf á aga- og virðingarleysi. .

Varðandi þetta með oflætið og paranojuna, þá er mér ljóst að þetta eru tveir óskyldir hlutir - þeir fara hinsvegar oft saman. En látum það liggja milli hluta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.5.2008 kl. 21:15

14 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Prófið að setja hann Geir Jón yfirlöggu í spor ungu löggunnar. Hann hefði klappað pilti á bakið og leyst þetta á staðnum (kannski gefið honum í nefið). Þetta snýst allt um mannleg samskipti. Lögregluþjónn lætur ekki strákling espa sig þannig að hann missi stjórn á skapi sínu.

Gísli Sigurðsson, 27.5.2008 kl. 21:22

15 identicon

come on krakkar !

eigum við að taka GAS umræðuna aftur. Það virðist bara vera að í Lögregluskólanum sé þetta ímynd sem kosið er að hafa. Að hafa VALD.

Já Geir Jón og Sæmi Rokk, þetta eru menn sem kunna ! Komu alltaf fram við viðkomandi af virðingu og fá virðingu í staðinn.

Litli viskubrunnur ! viljum við hafa þetta eins og í Ameríku ?

Hildur (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 21:50

16 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Viskubrunnur, guði sé lof að ennþá er íslenska lögreglan ekki jafn rotin og sú Bandaríska, virðin fyrir lögreglu og yfirvaldi er ekki og Á ekki að vera sjálfgefin, fyrir henni þarf að vinna hörðum höndum....stöðugt!

Ef að dómgreindarleysi þessa lögreglumanns hefði ekki náðst svona heppilega á mynd hefði drengurinn sem var ranglega ásdakaður um þjófnað(og mótmælti því harðlega að SJÁLFSÖGÐU) hefði hann ekkert í höndunum til að sanna ofbeldið, veit að ég tæki slíkum þjófnaðaráburði ekki létt og sérstaklega ekki ef að löggan sem kæmi svo á svæðið reyndist síðan hrokafullt fífl að auki.

Georg P Sveinbjörnsson, 27.5.2008 kl. 22:43

17 identicon

Í fyrsta lagi vitum við ekki neitt um málið, dregnurinn gat hafa verið búinn að vera með óhlýðni löngu áður en byrjað var að mynda þetta. Þeir mynduðu kannski allan atburðinn en klipptu samræðurnar á undan út áður en þessu var skellt á netið. Hvað vitum við? Við vitum bara aðra hlið málsins.

Síðan missir lögreglumaðurinn þolinmæði, sem er reyndar það fyrsta sem mönnum er sagt þegar þeir hefja störf sem lögreglumenn, að halda ró og reyna að tala fólk til. Ef það bregst þá er öðrum brögðum beitt. 

 Í lokin eru það báðir aðilar sem eru sekir um röng viðbrögð og ranga hegðun.  

"Það er sorglegt að sjá þessar aðfarir lögreglumanns gagnvart unglingspilti sem grunaður var um búðarhnupl en reyndist svo alsaklaus þegar til kom, og ekkert fannst á honum. En þó svo hefði verið - þá réttlætir það ekki svona aðfarir. Þetta er unglingur - og það er nú ekki eins og hann hafi verið grunaður um stórglæp. Afbrot hans virðist einkum vera að lýsa yfir sakleysi sínu."

Rak augun í þessa setningu sem minnti mig á ákveðið mál. Þegar ég fékk hringingu einn sunnudagsmorgun og var tjáð að mér hafi verið vikið úr framhaldsskóla í þrjá daga vegna ölvunar í óvissuferð. Ég ræddi þetta við föður minn og sagði honum frá þessu óréttlæti. Honum blöskraði vinnubrögð yfirmanna Menntaskólans og setti á fund með þeim seinna um daginn. Þar lýsti ég yfir sakleysi mínu en lítið var hlustað. Það var greinilegt að stjórnandi skólans ætlaði að sýna þessum unglingum að þeir kæmust ekki upp með svona óhlýðni og óvirðingu gagnvart skólameistara og skólanum, jafnvel þótt þau væru saklaus.

Ívar Pétursson (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 23:15

18 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Ívar minn.

Varst þú barinn á skrifstofu skólameistara fyrir þitt agabrot? Fékkst þú ekki að tjá þig um málið verndaður af fjölskyldu þinni? Fékk þessi piltur í 10/11 að útskýra sitt mál að viðstöddum foreldrum sínum? Ekki sýnist mér það.

Þú hlýtur að vera að grínast þegar þú líkir þessu tvennu saman.

Þú segir heldur ekki alla söguna um þína þriggja daga brottvikningu úr Menntaskólanum á Ísafirði og ástæður hennar. Þú veist að ég er bundin þagnarskyldu vegna þíns máls - og þá þagnarskyldu virði ég enn þann dag í dag. 

Ég get þó sagt það almennt um það - þegar fjöldi nemenda fékk tímabundna brottvísun vegna áfengisneyslu í óvissuferð - að engum þeirra var refsað nema fyrir lægi játning nemandans sjálfs, eða a.m.k. tveir vitnisbærir aðilar (kennarar og/eða nemendur)  hefðu orðið vitni að áfengisneyslu hans. Ákvörðun um tímabundna brottvikningu var tekin af yfirstjórn skólans - ekki skólameistaranum einum - og það var gert að yfirveguðu ráði. Þannig var nú það.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.5.2008 kl. 23:38

19 Smámynd: Júlíus Valsson

Á myndbandinu virðist þetta vera tilhæfulaus og gróf líkamsárás. Slæmt að vita til þess að unglingarnir okkar eru í raun hvergi óhultir.

Júlíus Valsson, 27.5.2008 kl. 23:47

20 identicon

GAS GAS GAS ÚR BÚÐINNI!!!

nafnlaus (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 00:38

21 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég skil ekki að það sé til fólk á meðal okkar sem mælir ofbeldi lögreglu bót.  Er ekki lögreglan nýbúin að útskýra ofbeldið við Rauðavatn þegar gas-gas-gasmann fór á kostum, sem nauðvörn.  Þarna ógnaði sannanlega enginn lögreglunni og án tillit til þess sem pilturinn kann að hafa sagt þá er ekki bannað með lögum að rífa munn og þá engan veginn réttlætanlegt að grípa fólk hálstaki fyrir að tjá sig.

Svona lögreglu treysti ég ekki.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.5.2008 kl. 01:11

22 Smámynd: Sporðdrekinn

Virðingaleysi er því miður vaxandi vandamál, ég hef ekki ráð því til bóta annað en að foreldrar verði að kenna börnunum sínum að bera virðingu fyrir öðrum. EN málið er að foreldrar kunna oft ekki þann góða mannasið að bera virðingu og eru því ekki góðir kennarar fyrir börnin sín.

Kannski er þetta allt komið af því að fólk er hætt að kenna börnunum sínum að afleiðingar fylgja gjörðum þeirra. Að fólk er hætt að þora að aga börnin sín, nú er ég ekki að tala um ofbeldi, rasskellingar eða nokkuð slíkt. Það er mikið af foreldrum þarna úti sem að eru með bullandi samviskubit yfir að geta ekki gefið börnunum sínum næga ath, vegna þess að það vinnur svo mikið. Kannski er það þess vegna sem að börn, unglingar og margt annað eldra fólk kann ekki manna siði, það hefur aldrei verið siðað.

Nú er ég ekki að alhæfa að enginn kunni mannasiði, ég þekki fullt af börnum og unglingum sem kunna betri mannasiði og sína öðrum meiri virðingu en margir fullorðnir.

Sporðdrekinn, 28.5.2008 kl. 02:43

23 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Svo sammála þér Ólína.

Góð tilviljun að þetta skammarlega ferli náðist á mynd.  En svakalegt að svona skuli komið fram við ungling, af litlu -eða engu- tilefni.

Hélt reyndar að dregið hefði úr því viðhorfi lögreglu og annarra, að það eitt að vera strákur á unglingsaldri þýddi sjálfkrafa "sekur um eitthvað..."

Hins vegar var viðkomandi lögreglumanni vikið úr starfi tímabundið -strax- og þau viðbrögð lögreglustjórans í Reykjavík sýna vonandi breytt viðhorf.

Vonandi var þarna bara um einn vanstilltan einstakling í lögreglustétt að ræða -og vonandi verður á því tekið með viðeigandi hætti.   Sjáum hvað setur.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 28.5.2008 kl. 05:07

24 identicon

Alveg sammála þér Ólína.

Mér finnst til skammar hve margir hér kommenta og vilja bara að lögreglan sé eins og þrælahaldari meðal þræla, berji og rafpynti hvern þann sem vogar sér að andmæla eða halda því fram að hann sé einstaklingur sem hefur sinn rétt sem borgari í lýðveldislandi.

Annaðhvort erum við bara tilbúin í nazi-ísland, með gestapó stormsveitarlögreglu (þeir eiga auðvitað gallan, brynjur og gasflöskur, nu þegar), eða að lögreglan er stútfull af samskonar lögreglumönnum og þessum úr 10-11, sem liggja á netinu og eru að réttlæta þessa mjög óviðeigandi hegðun lögregluþjóns.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 07:41

25 Smámynd: Gló Magnaða

Svo er Björn B. alvarlega að spá í að vopna lögregluna rafbyssum. úff.....

Strákurinn sagði:Ég var búin að sína þér í fokking vasana.

Gló Magnaða, 28.5.2008 kl. 09:05

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

Almenn hegningarlög nr. 19/1940:

217. grein. Hver, sem gerist sekur um líkamsárás, enda sé hún ekki svo mikil sem í 218. grein segir, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum en fangelsi allt að 1 ári, ef háttsemin er sérstaklega vítaverð.

68. grein. Nú fremur opinber starfsmaður refsiverðan verknað og má þá í opinberu máli á hendur honum svipta hann heimild til að rækja starfann, ef hann telst ekki lengur verður eða hæfur til þess.

Þorsteinn Briem, 28.5.2008 kl. 09:39

27 identicon

Ég ber þetta tvennt saman útaf sakleysi drengsins, það var það sem minnti mig á málið hér um árið. Við vitum bæði að það var engin beittur ofbeldi af skólayfirvöldum enda er það bara útur snúningur.

Það óréttlæti sem ég varð fyrir af hálfu skólayfirvalda hafði stór áhrif þegar ég ákvað að hefja störf sem lögreglumaður haustið 2007.

Enn við erum öll samt sammála um það að lögreglumaðurinn hefði átt að taka öðruvísi á málinu, þar sem drengurinn virðist vera alsaklaus.

Takk fyrir mig

Ívar Pétursson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 09:53

28 identicon

viskubrunnur!  Hvar sérðu strákinn ekki vera að hlíða lögreggluni???   Strákurinn er búinn að tæma vasana það eins sem strákurinn segir "þetta er síminn minn fokk" eða eitthvað í þá áttina.  Ég veit það að mér er illa við að vera þjófkendur þegar ég er saklaus eins og þessi drengur var. Börn og unglingar eiga ekki skilað að það sé komið svona fram við þau. það er ekkert í lögum sem að segir að þú megir ekki segja fokk, þú mátt meira að segja við lögregluna "MÉR finst þú vera heimskur".   Ég á þó nokkra vini sem að eru lögreglumenn, og stór hluti af minni fjöldskyldu eru lögreglumenn, ég veit að þetta er illa borgað starf, langir vinnudagar og alskona stælar og viðbjóður sem að þessir menn þurfa að ganga í gegnum í sínu starfi, en það á ekki að bitna á þessum dreng né öðrum borgurum landsins. Lögregluenbættið ætti veita að láta menn fá áfallahjálp reglulega og tala við sálfræðing til að losa spennu. Mér skilst að þessu lögregluþjónn sem að þarna misti sig sé drengur góður og rólindismaður, en það er sama hvað þessi maður hefur gengið í gegnum yfir daginn eða undanfarnadag þá lætur þú það ekki bitna á börnum og unglingum. Virðin er ekki það sama og ótti, viljum við að börnin okkar óttist lögregluna eða beri virðingu fyrir lögregluni?

Steini Tuð (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 10:03

29 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæl Ólína, tek undir hvert orð.

Eigðu góðan dag.

kkv.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 28.5.2008 kl. 10:31

30 Smámynd: halkatla

ég er svo sammála Ólínu og öllum vinum hennar. Mér sýndist þetta nú vera hinn prúðasti drengur og allir hortugu stuðningsmenn lögregluofbeldisins horfa framhjá því að hann var EKKI að stela! Ef hann reif kjaft þá finnst mér það bara mjög skiljanlegt enda það að lenda í svona ábyggilega hryllilega pirrandi. Hegðun löggunnar er svo aumkunarverð að ég sóa ekki einu sinni orðum í að lítillækka hana frekar.

halkatla, 28.5.2008 kl. 10:38

31 identicon

Ívar. Mér finnst þetta sem þú ert að tala um ekki sambærilegt við þetta mál.

Það að beita aga og refsiviðurlögum er ekki það sama og að beita einhvern líkamlegu ofbeldi.

Drengurinn var beittur líkamlegu ofbeldi. Hann var tekinn hálstaki og tuskaður til.

Það varst þú ekki.

Þetta er því ekki sambærilegt.

Guðrún (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 10:47

32 Smámynd: Karl Ólafsson

Það má vel vera að einhver skætingur hafi verið hafður í frammi af hálfu unglingsins og/eða vina hans. Týpískar upphrópanir eins og 'Hvað er að þér' og 'hvað ertu fokking að gera' e.þ.h. heyrist jú, með svona unglingslegum skætingstón. En, og það er það sem hlýtur að skipta máli, viðbrögð lögreglunnar við slíkum skætingi hljóta að kennd í Lögregluskólanum og þau eru varla þau að ráðast að hálsi viðkomandi og snúa hann niður.

Mér þykir líklegt að lögreglumönnum sé uppálagt og heimilt einfaldlega að handtaka viðkomandi og flytja til nánari yfirheyrslu á lögreglustöð. Slíkt hlýtur að vera gert með því að tilkynna t.d. viðkomandi að hann verði handtekinn sýni hann ekki samvinnu og láta svo verða af því með því að tilkynna honum að hann sé hér með handtekinn, ef mótþrói og skætingur heldur áfram. Sennilega þarf líka hér, eins og við kunnum utanað úr bandarískum bíómyndum að lesa yfir viðkomandi hver réttur hans sé. Þetta er allt hægt að gera án þess að missa stjórn á sér eða missa tök á ástandinu, svo lengi sem sá sem yfirheyra á sýnir ekki ofbeldisfullan mótþróa og svo sannarlega sást ekkert slíkt á þessu myndbandi nema af hálfu lögreglumannanna.

Ég á 5 stráka frá unglingsaldri og uppkomna. Ég hef alla tíð reynt að hamra á því við þá að maður sýnir lögreglunni virðingu og ef lögregla vill hafa af manni tal, þá tekur maður því og er ekki með skæting. Á móti kemur stundum þetta viðhorf að það séu svo mikil fífl í löggunni að það sé ekki hægt að bera virðingu fyrir þeim. Þá hef ég sagt þeim að ef svo sé eigi að taka á þeim einstaklingum sem yfirstíga valdsvið sitt með formlegum hætti til yfirmanna þeirra. Það hef ég líka gert í því eina sorglega tilviki sem mér fannst tilefni til þar sem óþarfa hörku var beitt og framkoma var ekki tilhlýðileg að mínu mati við afskipti af því að númeraplata framan á bíl sonar míns var ekki sýnileg. Ég hélt því fram við varðstjóra að það væri alveg ljóst að það skiptir máli um hvernig bíl er að ræða og hver aldur bílstjórans væri þegar um væri að ræða afskipti af slíkum 'brotum'. En það er önnur saga.

Í þessu máli sýnist mér sem betur fer að viðbrögð yfirmanna lögreglumannsins séu alveg hárrétt, en ég spyr eins og Ólína, hvernig hefði farið ef ekki hefði náðst myndband af þessari uppákomu?

Karl Ólafsson, 28.5.2008 kl. 11:08

33 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Það skiptir engu hvað strákurinn gerði, í lögreglunni á að vera fólk sem kann að hemja skap sitt.  Það eru til mikið erfiðari einstaklingar en þetta.  Ef lögreglan ætlar að nota ofbeldi í hvert skipti sem einhver blótar smávægislega þá getur hún ekki farið fram á virðingu.

Þessi lögga gerði ekki bara drengnum mein heldur allri lögreglunni.  Hann varpar svörtum blett á sína starfsfélaga. 

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 28.5.2008 kl. 12:41

34 identicon

Ég skal segja þér nákvæmlega hvað hefði gerst ef þetta hefði ekki náðst á myndband:

NÁKVÆMLEGA EKKI NEITT!

Og hvers vegna? Vegna þess að Íslendingar almennt hafa þessa fáránlega barnalegu trú að vegna þess að lögreglan sé til að elta vondu kallana, að þá sé það eina sem hún geri. Ef maður er miðaldra kona með barnavagn er mjög ólíklegt ef ekki ómögulegt að maður fái skít frá löggunni, en ef maður er ungur maður sem klæðir sig frjálslega og segir það sem manni sýnist, þá er ekkert mál að fá svona djöfulsins fantaskap frá lögreglunni.

Vandamálið er nefnilega að lögreglan hefur endalaust svigrúm! Og alltaf liggur sönnunarbyrðin á borgaranum sem þarf að díla við þessa helvítis grasasna.

Eftir að hafa séð þetta myndband hef ég ákveðið að kaupa mér síma með hreyfimyndavél. Svona hegðun af lögreglunni er standardinn, ekki undantekningin. Eina undantekningin hérna er að þetta náðist á myndband. 

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 13:09

35 Smámynd: Róbert Tómasson

Það er svo sem ekkert nýtt að unglingar séu kjaftforir og óagaðir bendi á Grettis og Egils sögur því til stuðnings, en ég hef ekkert það séð eða heyrt á þessu myndbandi sem réttlætir árás lögreglumannsins.  Furðulegt líka sem komið hefur her fram að ofbeldi ungmenna á Englandi eigi að bitna á Íslenskum unglingum.

Ég er nú kominn yfir miðjan aldur og hef ýmislegt séð og upplifað, ég hef líka verið svo lánsamur að starfa talsvert sem dyravörður á skemmtistöðum sem að mestu leyti eru sóttir af ungmennum um tvítugt, og það get ég fullyrt að það var ekki unga fólkið sem erfiðast var að eiga við, það nægði yfirleitt að koma fram við þau af kurteisi og eins og manneskjur og þá var nánast alltaf hægt að tala þau til það var því miður ekki hægt að segja það sama um þá sem eldri voru og töldu sig eiga heiminn.

Og að endingu takk fyrir bloggið Ólína, þörf umræða.

Róbert Tómasson, 28.5.2008 kl. 13:52

36 identicon

Ekki skil ég hvað mönnum gengur til að verja lögreglumann sem brýtur af sér fyrir framan alþjóð.  Það heyrist greinilega á upptökunni að drengurinn er ekki að gera nokkurn skapaðan hlut af sér, ekki einu sinni að "brúka kjaft".  Hann sýnir lögreglu samstarf en segist ekki hafa stolið neinu (sem var satt).  Þá ræðst lögreglumaðurinn á hann og tekur hann kverkataki.  Það er algjörlega ófyrirgefanlegt við allar aðstæður og sérstaklega þessar.  Kverkatak af þessu tagi er hvergi að finna í valdbeitingartökum lögreglu.

Það setur að manni ugg þegar sífellt koma upp mál þar sem lögreglan beitir almenning miklu ofbeldi að ástæðulausu og niðurlægir og vanvirðir fólk sem hún þarf að hafa afskipti af.  Svo virðist sem almenningur sé berskjaldaður fyrir þessu því aðeins örfáir eru svo heppnir að einhver er viðstaddur og tekur atburðina upp á myndband.  Reyndar skilst mér að annar lögreglumaður hafi ráðist að ungum manni sem var að vídeómynda aðfarir lögreglunnar í framhaldi af þessari árás.

Ég held að það væri rétt að reyna að vinda ofan af þennan "valdbeitingaranda" sem virðist svífa yfir vötnum í lögreglunni.

Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 18:13

37 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Hvað skyldu þau vera mörg svona atvikin þar sem svo heppilega vildi til fyrir lögguna að ekki var myndavél á staðnum? Það verður fátt um varnir þegar tvær löggur gefa samhljóða vitnisburð. Ætlar Bj.Bj. að láta byssur í hendurnar á þessum manni og bræðrum hans?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 28.5.2008 kl. 20:34

38 identicon

Auðvitað er ekkert sem réttlætir það sem þessi tiltekni lögreglumaður gerði sem fagmaður. Við vitum ekki aðdragandann og við vitum ekki hvað annað var búið að gerast á vaktinni hjá lögreglumanninum en það er oft það erfiða við lögreglustarfið þ.e. að þeir mega ekki láta það hafa áhrif á sig. En mér finnst algjörlega út í hött að vera að mála þennan ungling sem einvhern engil. Einhver er ástæðan fyrir því að það virðast vera komnir allavega tveir lögreglubílar á staðinn. Hann og hanns vinir geta sagt hvað sem er en lögreglumaðurinn hefur engan rétt til þess að verja sig eða segja sitt. Eins og ég sagði að þá voru þessar aðfarir óréttlætanlegar og lögreglumaðurinn mun þurfa að gjalda fyrir það en hef heyrt að hann hafi m.a. verið í lögreglunni á Ísafirði og staðið sig þar með stakri prýði.

Umræða eins og sú sem hefur skapast í kringum þetta mál er engum til góðs. Ekki samfélaginu, ekki lögreglunni og alls ekki strákunum sjálfum. Sem betur fer eru flestir lögreglumenn starfi sínu vaxnir og við verðum að treysta þeim. Ef við ölum á vantrausti gerir það starfið þeirra erfiðara og samfélagið óöruggara.

Bergur (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 14:13

39 identicon

Ég tek undir flest það sem Bergur ritar.  Háttalag lögreglumannsins er algjörlega óásættanlegt.   En lögreglumenn eru menn og geta kiknað undan álagi eins og hver annar.  Sérstaklega á það við um unga menn sem ekki hafa harðnaði í eldi reynslunnar í lögreglustarfinu. 

Ég get hins vegar ekki fallist á að það skipti yfirhöfuð nokkru máli hvort drengurinn var "engill" eða ekki.  Hann gaf augljóslega ekki tilefni til árásarinnar.  Hann hefur örugglega gefið tilefni til þess að lögregla væri kölluð á staðinn - en það er bara allt annað mál. 

Ég tel það ekki til tjóns að fólk hafi hæfilega vantrú á þeim sem fara með mikið vald yfir öðrum.  Þannig er þessum aðilum veitt aðhald.  Ég held einmitt að það sé varasamt að bera of mikið traust til lögreglunnar, ekki vegna þess að hún sé ekki traustsins verð, heldur að ef traustið á henni er blint þá er hættara við að lögreglan þróist í átt til misbeitingar valds.  Aðhald almennings vantar og hættara er við mistökum.

Svo ég taki saman.  Ég fordæmi verknað lögreglumannsins en ekki manninn sjálfan.  Ég vara við oftrausti á lögreglunni og vil að vinnubrögð hennar séu stöðugt undir smásjá.

Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband