"Agabrot" Guðjóns Þórðarsonar?
26.5.2008 | 20:58
Guðjóni Þórðarsyni finnst lítið koma til líkamlegs ástands ýmissa dómara í karlaknattspyrnunni. Hann telur að lögum KSÍ sé ekki réttilega beitt og að liðum sé mismunað. Guðjón fullyrðir þetta og virðist hvergi banginn. Þetta er hans skoðun.
Viðbrögð framkvæmdastjóra KSÍ eru þau að vísa ummælum Guðjóns til úrskurðar aganefndar.
Aganefndar? Á nú að taka í lurginn á Guðjóni fyrir að segja skoðun sína?
Væri ekki nær að láta rannsaka hvað hæft er í fullyrðingum Guðjóns - því þær eru alvarlegar. Þær eru um að dómarar innan KSÍ hafi haldið sérstakan fund í bakherbergjum til þess að leggja á ráðin um að sýna Skagamönnum, og þá sérstaklega einum leikmanni, í tvo heimana. Þær eru um að alvarlegur misbrestur sé á því að reglum KSÍ sé framfylgt - til dæmis sé vikið frá reglum varðandi þrekmat dómaranna sjálfra.
Þegar stórar fullyrðingar eru settar fram er sjálfsagt að rannsaka hvað hæft er í þeim. Samkvæmt starfsreglum aganefndarinnar á hún fyrst og fremst að fjalla um "brot leikmanna, þjálfara, forystumanna félaga, félaga og áhorfenda" eins og þar segir. Þá fjallar nefndin um "önnur mál, sem berast henni og/eða hún telur ástæðu til að hafa afskipti af vegna leikja, sem fram fara í landinu, enda fjalli ekki aðrir um þau."
Nú er spurningin þessi: Er verið að vísa málinu til aganefndar til þess að fá úr því skorið hvað rétt sé og satt í ásökunum Guðjóns, eða .... sem ég óttast ... er litið á ummæli hans sem agabrot? Stendur kannski til að setja Guðjón í bann eða dæma á hann sektir svo hann þegi framvegis (og halda menn virkilega að Guðjón láti þagga þannig niður í sér) ??
Mér líst ekki á þetta. Því hvað svo sem segja má um Guðjón Þórðarson, þá á hann rétt á því að gagnrýna KSÍ ef honum finnst á sér brotið. Það er grundvallar réttur allra sem eiga að lúta reglum KSÍ. Annað væri óheilbrigt. KSÍ hefur ekkert gott af því að vera undanþegið gagnrýni. Þvert á móti.
Ef alvarlegar ásakanir koma fram um misbeitingu valds og brot á reglum ber að rannsaka sannleiksgildi slíkra ummæla skilyrðislaust. Ef eitthvað er hæft í fullyrðingum Guðjóns, þá er það grafalvarlegt mál fyrir KSÍ. Forsvarsmenn félagsins hljóta að vilja reka af sér slyðruorðið og fá úr því skorið með óyggjandi hætti hvað satt er. Eða hvað?
Komi hins vegar í ljós með óyggjandi hætti að Guðjón hafi rangt fyrir sér - þá er hann ómerkingur orða sinna. Það er ærin refsing fyrir mann sem vill láta taka mark á sér.
Meginflokkur: Íþróttir | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 21:04 | Facebook
Athugasemdir
Gæti ekki verið meira sammála.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 26.5.2008 kl. 22:18
Er þetta nú ekki alveg að snúa hlutunum á haus? Kjaftgleiðir menn ættu ekki endilega að bannfærast - - en "fyrirmyndarhlutverk" þjálfara og ´trúnaðarmanna í íþróttahreyfingunni gerir tilteknar kröfur. Þetta snýst ekki um "málfrelsi" eða "skoðanafrelsi" - - miklu fremur um að menn standi faglega og af sanngirni um þá umgjörð sem íþróttagreinin skapar. Ásakanir Guðjóns nú og fyrri upphlaup geta ekki samrýmst því hlutverki sem hann fer með - - og þessi umræðutaktur yfirgangsins og frekjutaktur gerir alltof mörgum ungum fótboltadrengnum margan óleik - - en lítið til gagns. Ágætu mæður og tengdamæður - bráðum ömmur og frábærir máttarstólpar - - setjið þetta nú í stærra samhengið!
Stærð fullyrðinganna má ekki ákvarða viðbrögðin - og alls ekki snúa sönnunarbyrðinni við . . . . . . .
Benedikt Sigurðarson, 26.5.2008 kl. 22:54
Benedikt: Miðað við það sem ég heyrði í fréttum RÚV annars vegar frá Guðjóni og hins vegar fulltrúa KSÍ fannst mér benda til þess að athyglinni yrði fyrst og fremst beint að því hvort Guðjón hefði brotið af sér. Ég er sammála þeim punkti hjá Ólínu að það þurfi að skoða báðar hliðar málsins, líka það hvort allt sé eins og það á að vera hjá þeim aðilum sem hann ásakar. Við vitum það erlendis frá að þar þrífst því miður ýmislegt misjafnt í fótboltanum. Getum við slegið því föstu að ekkert slíkt eigi sér stað hér á skerinu, svoleiðis nokkuð geti bara gerst í útlöndum?
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 26.5.2008 kl. 23:41
Mér finnst athugasemdir Guðjóns réttmætar, en KSÍ heldur að það geti afgreitt þær eins og eithvað flip eða kast hjá þjálfaranum. Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 26.5.2008 kl. 23:45
Það er sanngirnismál fyrir báða aðila að ásakanir Guðjóns séu skoðaðar í kjölinn, KSÍ þarf eins mikið á því að halda og Guðjón sjálfur.
Drífa Kristjánsdóttir, 27.5.2008 kl. 07:58
Það þarf svona menn eins og Guðjón til að halda vöku sinni í svona málum.Það er oft gott að vera með munninn fyrir neðan nefið,og ég efa það stórlega að hann sé að setja þetta mál svona upp bara af því bara.Hann hefur ábyggilega eitthvað þarfara að gera.Bara go go skagamenn
Gauti Halldórsson, 27.5.2008 kl. 08:54
Það virðist vera orðin tíska á Íslandi að höggva sendiboða válegra tíðinda. Það má hvergi orðið segja neitt þá er rokið af stað með meiðyrðamál o.s.frv. Guðjón Þórðarson er þekktur orðhákur en svo skemmtilega vill til að hann fer yfirleitt ekki með staðlausa stafi þótt hann tali tæpitungulaust. Hins vegar líta stjórnir HSÍ og KSÍ á sig sem einhverjar heilagar kýr og vilja helst ráða því hvort menn anda yfirleitt í boltanum og þá hvenær. Þetta eru fílabeinsturnamafíur sem þykjast hafnar yfir allt og alla í greinunum. Auðvitað líta mafíurnar á það sem agabrot að Guðjón Þórðarson eða aðrir hafi eitthvað við hlutina að athuga, það má nefnilega ekki gagnrýna eða hafa skoðun á þessum heilögu mafíum. Alveg er ég sannfærður um að Guðjón fer þarna með rétt mál þótt sannleikurinn fái aldrei að koma í ljós því mafíurnar kunna að fela sannleikann. Áfram Guðjón Þórðar, láttu þá heyra það! Og sem flestir með honum!
corvus corax, 27.5.2008 kl. 09:10
Af hverju kom Guðjón ekki með gagnrýnina fyrir leikinn.Viðbrögð hans sýndu að hann er svekktur yfir að leikmaður hans skyldi vera rekinn útaf.Hann á að koma með rökstuðning fyrir því að útafreksturinn hafi verið óréttlátur.Hann hefur ekki komið með neinn rökstuðning fyrir orðum sínum.Það verða þjálfarar að gera þegar þeir henda skít í dómarann.Ef þeir geta það ekki fara þeir fyrir aganefnd fyrir að deila við dómarann.Áfram Keflavík.
Sigurgeir Jónsson, 27.5.2008 kl. 09:17
Ég var staddur á þessum leik, og ég get tekið undir það að Ólafur dómari var ekki besti maður vallarins en alls ekki sá lakasti heldur. Ég dáðist að langlundargeði hans gagnvart endalausu tuði Stefáns Þ við hverjum einasta dómi. Hann var kominn með gult spjald nokkuð snemma í leiknum en samt hélt hann áfram að tuða í dómaranum. Ég held bara að þetta hafi ekki getað endað öðruvísi en með rauðu spjaldi. En aftur að Ólafi, hann flautaði svakalega mikið og samkv. tölfræði sem ég las í Fréttablaðinu að mig minnir voru 23 aukaspyrnur á ÍA og 19 á Keflavík sem er nú ekki svo ójafnt. Og það er reyndar umtalað að Skagamenn leika frekar gróft, það er ekkert sem dómararnir eru að finna upp, það sjá það allir sem horfa á fótbolta.
Gísli Sigurðsson, 27.5.2008 kl. 09:55
Spéhræðslan innan KSÍ er löngu þekkt. Mesta móðgun við dómara undanfarin ár hafa verið greiðslurnar til þeirra! Þó þær hafi skánað eru þær ekki í neinum takti við þær auknu kröfur sem gerðar eru á dómara í dag. Með innkomu fjármagnsins í fótboltann er eðlilegt að félögin geri þær kröfur að dómarar séu hæfir, og KSÍ "úthluti" ekki lengur dómurum til félaganna eftir því hverjir eru í forsvari:-) Svo er það milliríkja- mafían en það er önnur saga.
Björn Finnbogason, 27.5.2008 kl. 11:19
Ummæli Guðjóns dæma sig sjálf. Þessi KSÍ mafía sem menn tala um hérna inniheldur ekki dómara og sú fullyrðing að dómarar landsins hafi ákveðið á fundi að taka á ÍA og leikmönnum þess er í besta falli heimskuleg.
Rétt er að rannsaka alvarlegar athugasemdir um spillingu en taka verður tillit til frá hverjum þær koma. Ef þær koma frá manni sem hefur ítrekað orðið margsaga áður, er þekktur ofbeldismaður og virðist dansa á mörkum andlegs heilbrigðis hlýtur maður að setja spurningamerki við þær.
Karma (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 13:04
Guðjóni hefði farið það betur að róa sig aðeins og taka þá til máls um þetta mál. Hann var svo æstur að það þvældist fyrir honum.
HP Foss, 27.5.2008 kl. 14:07
Ertu í alvöru að meina þetta, það hefur enginn trúað orði sem uppúr þessum manni kemur í mörg á og þó sérstaklega þegar hann er byrjaður að froðufella. Hitt er svo annað og verra mál að einhver trúi honum að KSÍ hafi ákveðið að taka sakagann sérstaklega fyrir í dómgæslu sinni þó ástæða hafi verið til eftir leik þeirra í Keflavík að dæma.
Sveinn Ævarsson (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 14:14
Þetta er bara leiðin hans Guðjóns til að láta dómara vita af því að hann sé mættur til leiks. Hann er þekktur fyrir að hamast í dómurum á hliðarlínunni. Eftir leikinn við Keflavík í fyrra vitum við öll hversu mikill "íþróttamaður" Guðjón Þórðarson er.
Séra Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 15:19
Er ekki Einar Kárason með bitið aftan hægra, eða er það vinstra ???
Stefán (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 15:58
Hafið þið ekki enn tekið eftir því að þegar menn komast til áhrifa innan íþróttahreyfingarinnar og þá sérstaklega KSÍ haga þeir sér eins og smákóngar. Munið þið ekki eftir framkomu f.v. formanns KSÍ við "konuna" sem var landsliðsþjálfari?
Hulda Elma Guðmundsdóttir, 31.5.2008 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.