Verðbólga yfirlýsinganna

gengið  Það er víðar verðbólga en í efnahagskerfinu - og sú verðbólga er líka að fara upp úr öllu valdi. Ég er að tala um verðbólgu orðanna. Yfirlýsingar stjórnmálamanna verða sífellt gífurlegri og æsingakenndari - og um leið rýrari að inntaki, rétt eins og verðgildi krónunnar.

Guðni Ágústsson er mætur maður - að mörgu leyti sjarmerandi á sinn sérkennilega hátt. "Glíminn og skemmtinn" sagði samverkamaður hans um hann eitt sinn. Mér fannst sú lýsing eiga vel við þá hugmynd sem ég hef gert mér um Guðna.

En það klæðir hann ekki vel að vera í stjórnarandstöðu. Til þess hefur hann einfaldlega setið of lengi við stjórnartaumana sjálfur. Það eru nefnilega Guðni og hans samverkamenn í fyrrverandi ríkisstjórnum - mörgum ríkisstjórnum, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar - sem hafa skapað þau skilyrði í efnahagslífinu sem við erum að klást við nú. Að svo miklu leyti sem sá vandi er heimatilbúinn. Stóryrtar yfirlýsingar Guðna og ákall hans um aðgerðir hafa því holan hljóm.

En við skulum ekki gleyma því að gengisfall krónunnar og verðhækkanir undanfarinna daga eru utanaðkomandi vandi. Og þó ég treysti ríkisstjórninni til ýmissa hluta, þá dreg ég í efa getu hennar til þess að lækka heimsmarkaðsverð á olíu eða vinna bug á þeim samdrætti og erfiðleikum sem við er að eiga á erlendum fjármálamörkuðum.

Það hryggir mig - nú þegar hefur harðnað í ári - að sjá menn eins og Guðna Ágústsson hlaupa í ábyrgðarlaust lýðskrum með hrópum og köllum. Sömu menn og stýrðu þjóðarskútunni í logni undanfarinna góðæra, værukærir og makráðugir.

Stjórnarandstöðunni væri nær að setjast á rökstóla með ríkisstjórninni - bjóða fram ábyrga aðstoð nú þegar gefur á bátinn. Það er að segja, ef þörfin á aðgerðum hér innanlands er svo brýn sem Guðni vill vera að láta - og lausnirnar raunverulega á færi stjórnvalda.

Til þess eru stjórnmálamenn kosnir af þjóð sinni - að þeir hlaupi ekki með ýlfrum og gólum í hælana á hrossinu þegar klyfjarnar hallast, heldur gangi með öðrum undir baggana þegar þess gerist þörf.

Þjóðinni væri a.m.k. meiri þökk í því en að hlusta á þetta þras  - og fjas sem ekkert er á bak við þegar á reynir. 

 


mbl.is Telur að ríkisstjórnin eigi að segja af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Ólína.

Hvernig er hægt að setjast á rökstóla með fólki sem er alltaf í útlandinu?

kv sig haf

sigurður j hafberg (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 22:45

2 identicon

Loksins sagði það einhver.  Kærar þakkir fyrir það. 

Og ... menn fá ekki endalausa plúsa fyrir skemmtanagildið.

alla (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 23:02

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Guðni á örugglega sinn skerf í bölinu sem ríður yfir núna. Ég get hinsvegar ekki tekið undir að hann sé stóryrtur. Mér finnst hann einmitt hafa verið mjög hófstilltur í yfirlýsingum, meðan Steingrímur J. og Önugur, nei, fyrirgefið Ögmundur, hafa alltaf verið tilbúnir með heimsendaspárnar um leið og minnsti vindur blæs á hagkerfið.

Einmitt þess vegna er Guðni trúverðugur í sínum málflutning, vegna þess að hann er búinn að vara við þessari hættu lengi á yfirvegaðan hátt. Það er fyst núna sem hann grípur til sterkari orða og kannski ástæða til. 

Theódór Norðkvist, 28.4.2008 kl. 23:35

4 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sammála þér Ólína. Nú um stundir er rétt að spara stóru orðin.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 28.4.2008 kl. 23:53

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Mér finnst Guðni mjög ótrúverðugur og það þýðir lítið fyrir framsóknarmenn að koma fram sem "hreinar meyjar" eftir áralangt brölt í stjórnarráðinu.  Það sem mér finnst samt öllu verra er að samfylkingarfólk er komið í sömu stellingar og framsóknarmenn voru í fyrir stjórnarskipti. 

Spunameistarar (það voru áróðursmeistarar framsóknarmanna kallaðir) Samfylkingar, koma nú fram hver á hæla öðrum og verja stöðu mála.  Það síðasta, sem þeir dásömuðu voru kjarasamningar grunnskólakennara! (Björgvin og Dofri).

Samfylking lofaði, lofaði, lofaði, bættum kjörum til handa fólki í umönnunar- uppeldisstéttum.  Nýgerðir kjarasamningar við grunnskólakennara er ekki efnd á því loforði, er það?  Hjúkrunar- og geislafræðingar á LSH hafa staðið í "kjarabaráttu" og verið í sviðsljósinu, en þar sem hægt er að segja að það sé á borði sjálfstæðisráðherra, þá heldur Samfylking sig til hlés!  Er það í lagi? 

Sigrún Jónsdóttir, 29.4.2008 kl. 00:46

6 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Tek undir orð þín Ólína. Sannorð og réttsýn!

Baldur Gautur Baldursson, 29.4.2008 kl. 06:30

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

" Stjórnarandstöðunni væri nær að setjast á rökstóla með ríkisstjórninni - bjóða fram ábyrga aðstoð nú þegar gefur á bátinn. Það er að segja, ef þörfin á aðgerðum hér innanlands er svo brýn sem Guðni vill vera að láta - og lausnirnar raunverulega á færi stjórnvalda. "

Þetta er akkurat það sem Framsókn hefur verið að gera síðan í haust. En Samfylkingin og íhaldið höfðu of mikið að gera í nýjabrumsvímunni við að ausa úr ríkissjóði til að hlusta.

Gestur Guðjónsson, 29.4.2008 kl. 09:41

8 Smámynd: Svanur Heiðar Hauksson

Sæl Ólína. Ég er hjartanlega sammála þér. En hvenær fáum við að sjá þig á þingi? Það þarf að hrista svolítið upp í þessu öllu.

Með vinsemd og virðingu. Svanurinn

Svanur Heiðar Hauksson, 29.4.2008 kl. 10:06

9 Smámynd: Hundshausinn

Orð eru eitt - verðbólga annað. Hins vegar er auðveldlega hægt að lýsa verðbólgu með orðum. Gæta þarf þess vel að rugla ekki hvorutgveggja saman...

Hundshausinn, 29.4.2008 kl. 21:41

10 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Góður pistill Ólína.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.4.2008 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband