Til hvers mannanafnanefnd?
13.4.2008 | 23:10
Vinkona mín sendi mér að gamni lista sem nú gengur eins og logi yfir akur á netinu. Þetta var sagður listi yfir þau nöfn sem mannanafnanefnd hefur samþykkt. Mér þótti listinn svo sundurgerðarlegur að ég vildi ekki trúa honum. Svo ég lagðist í svolitla rannsókn.
Það tók ekki langa stund með leitarinnslætti í úrskurðum mannanafnanefndar að sjá að fyrrnefndur listi er býsna sannverðugur. Þó að nöfnin Ljósálfur, Dreki og Kaktus finnist ekki í úrskurðum mannanafnanefndar, þá eru þar nöfn eins og Kristall, Kópur, Kveldúlfur, Hraunar, Hnikar, Skefill, Sírnir, Skæringur, Galdur og Grani. Sömuleiðis kvennanöfnin Kapítóla, Kaðlín, Randalín, Venus, Vígdögg, Stjarna, Blíða, Þrá og Ósa.
Í lögum um mannanöfn segir í 5. gr. að nafn megi ekki vera þannig að það sé nafnbera til ama. Við getum auðvitað deilt um fagurfræðina - en ég öfunda ekki dreng sem þarf að bera nafn á borð við Kveldúlfur Kópur eða Skæringur Sírnir. Og ekki vildi ég heita Kaðlín Ósa, Randalín Venus, Blíða Þrá, eða Kapítóla Stjarna.
Þó að nöfn eins og Kristall, Venus, Blíða og Stjarna hafi fallega merkingu þá get ég ekki að því gert að mér finnst þau fara betur á búpeningi en börnum.
Þetta er sjálfsagt smekksatriði - maður getur svosem aldrei deilt um smekk.
Hinsvegar spyr ég mig að því til hvers við séum með mannanafnanefnd þegar það virðist nokkuð ljóst að hún getur ekki með nokkru móti framfylgt þessari 5. gr. mannanafnalaga - og reynir það ekki. Megintilgangur nefndarinnar virðist vera sá að tryggja að eignarfallsendingar falli að íslensku málkerfi. Um merkingu og áferð nafna hirðir nefndin ekki, enda ægir öllu saman í úrskurðum hennar, íslenskum og erlendum nöfnum innanum nafnskrípi sem enginn skilur.
Mætti ég þá frekar biðja um nefnd sem verndar lítil börn fyrir því að sitja uppi með nafnskrípi sem þau líða fyrir og þeim er strítt á - skítt með eignarfallsendingarnar.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Bloggar, Menntun og skóli, Vefurinn | Facebook
Athugasemdir
Sammála, ég held að foreldrar átti sig ekki á því hvað þeir eru að gera börnunum sínum með þessu, og þessi skrítnu nöfn eru ekkert sérstök lengur heldur orðin frekar asnaleg. Ég held að algengu íslensku nöfnin, verði brátt vinsælust aftur, örugglega ekkert langt í það, enda eru þetta miklir öfgar, einsog svo margt hérlendis.
Emma Vilhjálmsdóttir, 13.4.2008 kl. 23:18
Ég tek undir það að listinn er undarlegur, en sennilega er hann það vegna þess að mannanafnalögin eru undarleg og taka ekki á því sem flestir myndu kalla ónefni.
En eitt þeirra nafna sem þú telur upp á ekki heima þarna því það er gamalt og gott íslenskt nafn, sem sé karlmannsnafnið Skæringur. Í manntali 1910 voru fjórir með því nafni og á tímabilinu 1921 til 50 voru þeir fimm, hvorttveggja samkvæmt bókinni Íslensk mannanöfn eftir Þorstein Þorsteinsson sem út kom hjá Menningarsjóði 1961.
Jóhann Gunnarsson (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 23:55
Fyrir mörgum árum heyrði ég um konu sem skírð hafði verið Almannagjá og aðra sem fékk nafnið Lofthæna! Má ég þá heldur biðja um gamaldags nöfn eins og t.d. Guðrúnu, Sigríði, Ólínu og Guðnýju Svövu.
Svava frá Strandbergi , 14.4.2008 kl. 00:30
Heyrðu annars Ólína, kannast þú við Bjössa ref, réttu nafni Björn Pálsson frá Refstað í Vopnafirði? Hann hefur mikið dálæti á þér. Hann er 76 ára og er góðvinur minn til margra ára.
Svava frá Strandbergi , 14.4.2008 kl. 00:34
Engu máli skiptir hvað Íslendingar heita, því hér er aldrei spurt um nafn, heldur kennitölu. Fólk getur því þess vegna heitið X og Y. Ég hef ekki verið spurður um nafn frá því á Akureyri árið 1978 og þá fékk ég svarið: "Hann er nú löngu dauður!" Eftir það sögðu félagar mínir stundum: "Steini minn, þú ert löngu dauður!" Þess vegna er algjör óþarfi að gefa hér börnum nöfn, hvað þá að vera með ríkisrekna nefnd út af því atriði.
Steini Briem (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 00:36
Guðný Svava - ég kannast vissulega við Björn frá Refsstað, þó ég þekki hann ekki persónulega. Berðu honum kveðju mína
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.4.2008 kl. 09:34
Mikið hjartanlega er ég sammála þér!
Verð að játa að mér þætti afar fróðlegt að skima inn í huga foreldra sem sjá einhvern húmor í því að láta börn sín bera slík nafnskrípi um ókomna tíð, enda hlýtur þetta að vera eitthvert grín hjá þeim.
Margrét Ósk (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 10:35
Ömmur mínar hétu Evlalía og Ríkey. Bæði nöfnin ákaflega falleg og vekja hlýjar minningar.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 14.4.2008 kl. 11:07
Ég er búin að skoða þennan lista vel og hjó sérstaklega eftir nöfnunum Vísa og Skuld. Ætli það hvarfli að einhverjum, nú á þessum síðustu og verstu, að skíra dóttur sína Vísa Skuld?
Vala (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 11:23
Góður pistill, Ólína. Það sem mér finnst bætast við þessi furðulegu nöfn er hugsanaleysi foreldra þegar þau eru valin hvað varðar að fallbeygja nöfnin. Oftast hugsa foreldrar ekkert út í það, að nafn barnsins verður að hljóma í fjórum föllum - og þeir kunna jafnvel ekki að beygja það.
Lára Hanna Einarsdóttir, 14.4.2008 kl. 11:51
Ég mun skila kveðjunni til Bjössa, Ólína. Hann verður glaður að fá kveðju frá þér.
Svava frá Strandbergi , 14.4.2008 kl. 13:03
Þessi nöfn sem þú nefnir eru nú bara ekkert verri en mörg algengari nöfn sem þykja góð og gild. Þetta er bara spurning um hverju maður er vanur. Ég skil ekki alveg þessa íhaldssemi og fordóma gagnvart nýjum mannanöfnum. Égvil bara sem mesta fjölbreytni, er það ekki skemmtilegra en að helmingur þjóðarinnar heiti Jón og gunna, eins og það var á tímabili.
Ari Björn Sigurðsson, 14.4.2008 kl. 14:08
Í fyrra sumar voru tvær litlar stúlkur skírðar í höfuðið á mér, önnur heitir Ásthildur Cesil, hin Evíta Cesil. Til móður Evítu litlu kom svo bréf frá Hagstofunni um að mannanafnanefnd hafi hafnað Cesil nafninu á stúlkuna, af því að þetta væri karlmannsnafn, samanber Cecil. Ég hef borið þetta nafn í 64 ár, og aldrei verið gerð athugasemd. Ég hef ekki fengið bréfið í hendurnar, en mun gera athugasemd, þar sem mér finnst EKKI Í VERKAHRING þessarar Þriggja manna nefndar eða hvað það er, að skilgreina nafnið mitt upp á nýtt. Þarna hafa þau að mínu mati farið yfir strikið. En ég vil láta leggja þessa heimskulegu nefnd niður. Hvað ætli hún kosti á ári, og hvernig er valið í hana, og hve lengi situr hver aðili í henni. Er þetta æviráðið fólk eða hvað ?
Svona inngrip í einkalíf fólks er andstyggilegt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2008 kl. 14:19
Flest börn bera tvö nöfn í dag og það er sjaldan að ég heyri fólk beygja seinna nafnið. Og oft verð ég vör við að foreldrar kunni bara alls ekki að beygja nöfn barnanna sinna. Dapurt eins og mörg nafnaskrípin.
Hólmdís Hjartardóttir, 14.4.2008 kl. 14:25
Já, vangaveltur um nöfn og nafnleysur hafa tilhneigingu til að vefja utan á sig. Vildi þó aðeins minna á að það sem er skrítið er skrýtið, og svo hitt að við skírum ekki í höfuð annarrra, heldur nefnum við börn eftir eigin vild og duttlungum í höfuð annarra eður ei. Til gamans nefni ég að lokum að mitt nafn er afar sjaldgæft og ég hef löngum brotið heilann yfir því af hverju Guðbjargarnafnið hlaut slíkar viðtökur sem Gunnbjargarnafnið aldrei hlaut. Segi svona fyrst það er sól í Reykjavík.
Gunnbjörg Óladóttir (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 14:46
Það er nú auðvelt að breyta lögunum um mannanöfn frá árinu 1996 þannig að þar komi einungis fram að eiginnafn megi "ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama", eins og fram kemur í 5. grein laganna.
Dæmi um úrskurði Mannanafnanefndar frá febrúar í fyrra:
"Beiðni um eiginnafnið Hvannar (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá."
"Beiðni um eiginnafnið Hedí (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess, Hedíar."
"Eiginnafnið Anya (kvk.) brýtur í bág við íslenskt málkerfi og getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Kvenmannsnafnið Anja er algengt í slavneskum málum, t.d. rússnesku, og mun hafa borist þaðan í önnur mál. Við umritun rússneskra nafna í latínustafróf er stuðst við reglur sem taka mið af framburði í hverju máli fyrir sig.
Í enskri umritun rússneskra nafna er j-hljóðið umritað með 'y' en í öðrum málum, líkt og íslensku, er yfirleitt ritað 'j'. Með hliðsjón af uppruna nafnsins væri því eðlilegt að rita 'Anja' á íslensku. Samkvæmt upplýsing-um frá Þjóðskrá eru tvær stúlkur skráðar með eiginnafnið Anya (fyrra nafn) og eru þær fæddar árin 2002 og 2006.
Báðar hafa öðlast íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi. Því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur. Eiginnafnið Anya uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það."
Steini Briem (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 15:32
Mig langar bara að benda þér á að drengjanafnið Kaktus er samþykkt, getur séð það hér í þessum lista yfir öll samþykkt drengjanöfn; http://www.rettarheimild.is/mannanofn?Stafrof=&Nafn=&Drengir=on&Samthykkt=yes
Maður er eiginlega agndofa yfir þessum leyfðu nöfnum, lagðist mikið í þessar pælingar um daginn og skoðaði þessa lista vel, þar sem ég á von á barni í haust. Til hvers er þessi nefnd eiginlega?? Svo t.d. sá ég að þeir höfnuðu nafninu Siv og er það því ekki leyft nafn í dag....
Þetta er ótrúlegt, maður er bara orðlaus yfir öllum þessum leyfðu nöfnum. Ég tók einmitt smá lista yfir mjög svo fáránleg drengjanöfn úr lista mannanafnanefndar, hér kemur hann
Gottsveinn
Frosti Funi
Alrekur Ali
Geirröður
Baugur
Fengur
Dufgus Angi
Ásröður Fabrisíus
Kaktus Hamar
Hlér Hólmfastur
Júlí Nóvember
Ljúfur Ljótur
Muggur Ljósálfur
Smiður Hamar
Skeggi Skíði
Náttmörður
Kv. Dagný
Dagný (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 15:56
Guðbjörg. Nafnið kemur fyrir í Landnámu, Grettis sögu og Sturlungu. Samkvæmt manntalinu árið 1703 hétu 160 konur Guðbjörg og í þjóðskránni árið 1989 var 1521 kona skráð með þessu nafni sem einnefni eða fyrra nafni af tveimur, en rúmlega 140 að síðara nafni.
Gunnbjörg. Ein kona í Rangárvallasýslu bar nafnið samkvæmt manntali árið 1910, en tvær voru skráðar svo í þjóðskránni árið 1989.
Cecil. Fimm karlar báru hér þetta nafn í manntalinu árið 1910 en fjórir árið 1989.
Steini Briem (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 16:02
já, það er margt í kýrhausnum - eins og máltækið segir.
Varðandi nafnið Kaktus - sem Dagný segir að hafi verið samþykkt - þá sló því upp í leit á vefsíðunni um úrskurði mannanafnanefndar og fann þaðp ekki. Það kann að vera að ég hafi gert ásláttarvillu og nafnið því ekki komið upp.
Hvað um það - Auðvitað heita margir undarlegum nöfnum sem þeim þykir þrátt fyrir allt vænt um. Faðir minn hét Kjerúlf að millinafni, eftir móður sinni sem bar það sem ættarnafn. Sonur minn og systursonur heita báðir í höfuðið á honum, Þorvarður Kjerúlf. Aldrei myndi ég þó skíra barn Kjerúlf að aðalnafni. Þannig er líka með mörg þessara nafna, þau geta gengið sem auknefni en hljóma skelfilega þegar búið er að tvinna þau saman.
En ég er viðkvæm fyrir líðan barna sem bera sérstök nöfn. Sjálf leið ég fyrir Ólínunafnið sem barn. Nema á sumrin, þegar ég var send í sumardvöl vestur á firði. Þar hétu margar stelpur Ólina, og mér leið snöggtum betur, því enginn rak upp stór augu lengur þegar ég nefndi nafnið mitt.
Mér varð mikið um þegar ég áttaði mig á því að Andrés Hjörvar sonur minn leið svo mjög fyrir Andrésarnafnið að hann hætti að láta kalla sig Andrés og tók upp Hjörvarsnafnið þegar hann var tíu ára. Sem betur fór hafði hann tvö nöfn og gat því valið - það geta ekki öll börn.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.4.2008 kl. 16:27
Ég ætlaði einmitt að koma með athugasemdina um Vísa Skuld en sá svo að hún var komin. En sammála þér varðandi þessi nöfn og mannanafnanefnd
Lilja Einarsdóttir, 14.4.2008 kl. 18:21
Eitt er að senda erindi til mannanafnanefndar og annað að skíra barn þeim ónöfnum sem þú tekur dæmi um. Ég held að fólk sé að senda nefndinni tölvupósta um þessi ónefni sem hluta af samkvæmisleik frekar en að það ætli í raun að skíra börn sín með þessum nöfnum.
Það þarf því að skoða hvort börn beri þessi nöfn og þá í framhaldinu hvort þurfi að grípa til einhverra aðgerða.
Sigurður Haukur Gíslason, 14.4.2008 kl. 19:01
Ég er svo sannarlega sammála thessu. Ég fæ grænar bólur thegar fólk er ad reyna ad fylgja einhverri tísku eda vera eitthvad kúl thegar kemur ad thví ad velja nøfn á litlu børnin sín. Auk thess er thad mín persónulega skodun ad nøfn standi oft sterkar ein og sér heldur en tvø í pari eins og er ordid svo algengt.
Kaktus Hamar! hahahahah
Magdalena (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 19:07
Já einmitt þörf pæling - þessi mannanafnanefnd er mjög mjög þverstæðukennd viðhorf - og nafnið Randalín minnir mig nú á jólalagtertu en ekki barn!!
Ása (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 20:18
Skemmtilegt að lesa þetta.
Maður fer að elska nöfnin Sigríður, Guðrún, Guðmundur og Jón þegar þessi nöfn eru skoðuð.
Kolbrún Baldursdóttir, 14.4.2008 kl. 20:30
Sigurður Haukur Gíslason. Samkvæmt Mannanafnanefnd má gefa drengjum hér eftirfarandi nöfn, svo einhver séu nefnd: Aríel, Aríus, Arnmóður, Bekan, Dónaldur, Dugfús, Dufgus, Dvalinn, Engill, Fenrir, Gjúki, Húnröður, Hlégestur, Jeremías, Knörr, Ljúfur, Melrakki, Mensalder, Myrkvi, Orfeus, Parmes, Saxi, Snæringur, Sandel, Stormur, Þiðrandi, Þyrnir og Örlaugur.
Dæmi um nokkra sem voru fermdir saman í Dómkirkjunni nú í vor:
Saxi Melrakki Snæringsson, Jeremías Engill Myrkvason, Aríel Þiðrandi Stormsson, Ljúfur Knörr Gjúkason og Þyrnir Fenrisson.
Steini Briem (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 20:32
Ég hélt að Kaðlín væri gamalt og gott nafn af keltneskum uppruna líkt og Melkorka en kannski skjátlast mér. En annars held ég bara að þetta sé "Ameríkaníseringin" allir heita hvað sem er eins og epli og appelsína þar. Fólk vill sennilegast bara meira frelsi til að aðgreina sig.
En mér finnst Kaðlín þó fallegt.
Katrín Erna (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 23:25
Kaðlín Göngu-Hrólfsdóttir er nefnd í Landnámu en nafnið virðist ekki koma fyrir annars staðar í fornbókmenntunum. Nafnið var endurvakið á síðustu öld og ein kona bar það árið 1989, samkvæmt þjóðskránni. Kaðlín er talið keltneskt að uppruna, Caithlin.
Steini Briem (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 23:56
Hún heitir Venus Þrá Hanna,
hana ætti barasta að banna,
hún er of sexí,
ég henni vil rex'í,
og öll hennar innstu lög kanna.
Steini Briem (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 08:36
En eitt varðandi tískunöfn, þau eru í dag, voru fyrir 30 árum, og verða alltaf, þau eru bara mismunandi, í dag eru þetta nöfn eins og Mikael, Gabríel, Nótt, og svo mætti lengi telja. En fyrir 30 árum og 20 árum voru líka einhver viss tískunöfn, ekki nákvæmlega með það á hreinu hvaða nöfn voru tískunöfn hverju sinni.
Dagný (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 14:46
Ég hjó eftir því að nafn mitt er eitt þeirra sem þú vildir ekki heita - ég segi fyrir mitt leyti að það er í góðu lagi að heita því og hét amma mín "bara" Kapitola. Sé t.d. ekki muninn á því að heita Kapitola og að heita Karlotta, Karólína ... eða Ólína ef því er að skipta.
Anna Kapitola (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 20:38
Ég verð nú bara að mótæla því að nafnið Kaðlín sé ónefni!!! Þetta er nafnið mitt og hef ég borið það með miklu stolti í 32 ár! Það er kannski sérkennilegt og auðvitað ekkert algengt en það gerir það nú ekki að ónefni! Þetta er einmitt eins og Steini og Katrín segja hér að ofan gamalt keltneskt nafn sem kemur fyrir bæði í Laxdælu og Landnámu. Og nafnið Kathleen, ( Kaþlín) er nú bara nákvæmlega sama nafnið með mjúka íslenska ð- inu okkar og verður þá Kaðlín. Þetta nafn hefur aldrei verið mér til nokkurs ama og mér var aldrei neitt strítt á því þegar ég var barn.
Kaðlín Kristmannsdóttir (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 17:32
Fyrir tæpum 15.árum þá var dóttir mín skírð Árnína Lena, í upphafi var því nafni hafnað í byrjun! Þurfum við að finna 15 íslenskar konur með því nafni til að fá það samþykkt! En hver er/var munurinn á Jón/Jónína - Árni/ Árnína ??
Á sama tíma hringdi kona til mannanafnanefndar og vildi skíra barnið sitt Róberta! Svarið sem að hún fékk ''Róberta, það er fallegt nafn, gjörðu svo vel'' !!
Svo á hverju byggjast þessar ákvarðanir þeirra??
Guðlaug (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.