Ný samtök fæðast
6.4.2008 | 19:48
Þá eru Náttúruverndarsamtök Vestfjarða orðin að veruleika, með fjölmennum stofnfundi sem fór fram í Hömrum á Ísafirði í gær. Skutulsfjörðurinn skartaði sínu fegursta í tilefni dagsins. Sólin skein á snæviþakin fjöllin og sindrandi hafflötinn. Guð láti gott á vita.
Það gladdi okkur sérstaklega að Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra skyldi sjá sér fært að koma vestur og ávarpa stofnfundinn ásamt þeim Árni Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómari Ragnarssyni, formanni Íslandshreyfingarinnar. Ómar lauk máli sínum með því að fara með stórbrotið ljóð eftir sjálfan sig sem nefnist Kóróna landsins. Hann flutti ljóðið - öll fjórtán erindin - blaðalaust og gerði það með glæsibrag.
Fundurinn heppnaðist í alla staði vel og góður andi sveif yfir salarkynnum. Bryndís Friðgeirsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Ísafirði, var kosin formaður samtakanna.
Í fundarlok var samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld og forráðamenn sveitarstjórna á Vestfjörðum að standa vörð um vestfirska náttúru með hóflegri og skynsamlegri nýtingu náttúrugæða, rannsóknum á vistkerfi og verndun náttúruverðmæta. Samtökin hvetja til þess að tekið verði fyllsta tillit til náttúrufars, dýralífs, gróðurs og sjávarvistkerfa við stefnumótun og ákvarðanir um samgöngumannvirki, stóriðju, uppbyggingu í ferðaþjónustu og önnur umsvif sem áhrif hafa á umhverfi og landgæði. Þá leggja samtökin til að ríkissjóður veiti fjármuni til þess að stofna rannsóknastöðu í náttúru- og umhverfisfræðum.
Á eftir fórum við sem höfðum staðið að undirbúningi samtakanna léttum okkur aðeins upp saman eftir þetta alltsaman. Enda full ástæða til - það er ekki á hverjum degi sem samtök fæðast.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Breytt 7.4.2008 kl. 09:02 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með þetta, vestfirðingar.
Þórir Kjartansson, 6.4.2008 kl. 20:03
Lykke til!
Heimir Lárusson Fjeldsted, 6.4.2008 kl. 21:51
Óska ykkur velfarnaðar. Kæmi ekki á óvart þó verkefnin yrðu næg á næstu misserum.
Árni Gunnarsson, 6.4.2008 kl. 21:52
Til hamingju með þetta.
Þegar stefna er tekin á stóriðju telja þeir sem fyrir slíku standa það vera mikinn styrk ef hægt er að tala um samstöðu á meðal heimamanna. Endurvakning Náttúruverndarsamtaka Vestjfarða er vitnisburður þess að á Vestfjörðum er ekki samstaða á meðal heimamanna um áform um olíuhreinsistöð.
Á Alþingi staðfesti Össur iðnaðarráðherra nýlega að olíhreinsistöð rúmast ekki innan skuldbindinga Íslands í Kyoto. Gildir þá einu hvort hún losi 560.000 tonn á ári, eins og aðstandendur hennar stefna að eða 1.000.000 tonn á ári eins og Stefán Gíslason hefur leitt líkum að.
Forsendur virðast því ekki hagstæðar aðstandendum olíuhreinsistöðvar en allur er varinn góður og fagnaðar efni að nú séu á Vestfjörðum til samtök sem standa vaktina.
Til hamingju Vestfirðir.
Landvernd, 6.4.2008 kl. 21:58
Hver vegferð hefst með einu skrefi.
Þið hafið stigið stórt skref til verndunar einstæðri náttúru sem Vestfirðirnir eru.
Til hamingjum með þennan áfanga.
Sævar Helgason, 6.4.2008 kl. 22:13
til hamingju með þetta.. á nú að framkvæma hugmynd mína um að friða vestfirði ?
Óskar Þorkelsson, 6.4.2008 kl. 22:34
Innilega til hamingju.
Ásdís Sigurðardóttir, 6.4.2008 kl. 23:32
Innilega til hamingju
Pálmi Gunnarsson, 6.4.2008 kl. 23:33
Svo að rétt sé rétt þá heitir ljóðið "Kóróna landsins."
Ómar Ragnarsson, 6.4.2008 kl. 23:33
Innilega til hamingju. Tek undir með Sævari, hver vegferð hefst með einu skrefi
Marta B Helgadóttir, 7.4.2008 kl. 00:04
Sendi innilegar hamingjuóskir vestur, þetta skref getur ekki orðið nema til góðs.
Skora á Ómar að birta ljóðið á bloggsíðu sinni fyrir okkur hin sem gátum ekki mætt.
Lára Hanna Einarsdóttir, 7.4.2008 kl. 01:15
Tiger, 7.4.2008 kl. 02:24
Til hamingju með Náttúruverndarsamtökin Vestfirðingar. Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 7.4.2008 kl. 08:50
Þakka ykkur kærlega fyrir góðar kveðjur góðir vinir.
Ómar - takk fyrir ábendinguna um kórónu landsins (en ekki krúnudjásn). Er búin að leiðrétta það.
Ég tek undir með Láru Hönnu, þetta ljóð er svo sannarlega þess virði að fá það birt á vefnum.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.4.2008 kl. 09:04
Til hamingju með þetta. Það þarf einmitt mann eins og Ómar og fleiri til að standa vörð um íslenska náttúru. Svo einstök náttúruperla sem Vestfirðir eru verður að berjast fyrir að fá að standa sem þessi fagra "Fjalladrottning" landsins. Við megum aldrei gefa okkur með það að hafna stóriðjuframkvæmdum á þessu landssvæði.
Sigurlaug B. Gröndal, 7.4.2008 kl. 11:40
Til hamingju með þetta. Vestfirðir eru "andlit Íslands", og vonandi höfum við vit á að fara vel með þetta landssvæði.
Þórdís Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 22:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.