Vestfirsk náttúra eignast málsvara
1.4.2008 | 23:33
Á laugardaginn verða stofnuð samtök til verndar vestfirskri náttúru - og var mál til komið. Ég hef verið að stússast í undirbúningi að stofnun þessara samtaka nú um nokkurt skeið ásamt góðu fólki (aðallega konum). Með framtakinu má segja að vestfirsku náttúruverndarsamtökin sem sofnuðu út af fyrir um tveimur áratugum gangi nú í endurnýjun lífdaga undir heitinu Náttúruverndarsamtök Vestfjarða (en hétu áður Vestfirsk náttúruverndarsamtök).
Vestfirsk náttúruverndarsamtök voru upphaflega stofnuð í Flókalundi árið 1971. Þau létu að sér kveða, gáfu m.a. út tímaritið Kaldbak og áttu stóran þátt í friðlýsingu Hornstranda. Af einhverjum ástæðum féll starfsemin niður eftir fimmtán ár og hefur legið niðri síðan. Nú er því mál að vakna. Nýting Hornstrandafriðlandsins, áform í ferðamennsku, rannsóknir og nýting náttúrugæða og vistkerfis, umræða tengd olíuhreinsistöð, pólsiglingum, hafnarmannvirkjum og samgöngum - allt kallar þetta á að vestfirsk náttúran hafi formlegan málsvara í heimabyggð.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra verður heiðursgestur stofnfundarins sem verður haldinn kl. 14:00 í Hömrum á Ísafirði. Hún mun ávarpa fundinn. Meðal annarra frummælenda verða Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómar Ragnarsson. Úr hópi heimamanna munu Þórhallur Arason, Sigríður Ragnarsdóttir og Ragnheiður Hákonardóttir taka til máls. Ég hef tekið að mér fundarstjórn og mun gæta þess að allt fari vel og virðulega fram.
Helstu verkefni náttúruverndarsamtaka eru verndun náttúru, umhverfisfræðsla, friðlýsing merkra og fagurra staða, verndun minja og skynsamleg nýting náttúruauðlinda. Vestfirðingar hafa löngum verið hreyknir af þeirri einstöku náttúrufegurð sem hér ríkir og hún er stór og mikilvægur þáttur í þeirri ímynd sem Vestfirðingar hafa skapað sér á undanförnum árum.
Við hvetjum því Vestfirðinga til að mæta á fundinn og láta sig varða þetta mikilvæga málefni. Þeir sem ekki komast en vilja ganga í samtökin geta haft samband við mig (s. 8923139), Bryndísi Friðgeirsdóttur (864 6754) eða Sigríði Ragnarsdóttur ( 861 1426) eða sent tölvupóst á netfangið smg5@simnet.is.
Sjáumst vonandi sem flest á laugardag
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Breytt 2.4.2008 kl. 09:07 | Facebook
Athugasemdir
ÉG vona að þetta skili árangri og ekki verði framin skemmdarverk á náttúrunni, gangi ykkur vel.
Ásdís Sigurðardóttir, 1.4.2008 kl. 23:46
Ég skráði mig í morgun hjá Bryndísi, væri alveg til í að koma Vestur en verð með erlenda gesti...
Baráttukveðjur!
Lára Hanna Einarsdóttir, 1.4.2008 kl. 23:58
Mig langar til að vera með.
Viltu skrá mig Ólína?
Marta B Helgadóttir, 2.4.2008 kl. 00:50
Frábært - ég skrái mig með það sama í samtökin. Til hamingju.
Pálmi Gunnarsson, 2.4.2008 kl. 01:01
Alltaf gott þegar náttúruauðlindir okkar eru verndaðar og þess gætt að henni sé ekki hætta búin af hinum ýmsu ástæðum. Gott og þarft málefni verndun náttúrunnar.
Tiger, 2.4.2008 kl. 02:00
Ég er líka memm. Gefið mér bara upp reikningsnúmerið þegar þar að kemur, dúllurnar mínar. Óli frændi hættir nú örugglega við þetta olíuhreinsidót, ef ég bið hann um það. Hann Óli sem kom í jarðarförina hans pabba og hringdi í mig næstum daglega með fréttir frá Moskvu. Við erum svo miklir vinir. En það er ekki nógu mikið fútt í því. Það þarf að vera aksjón, líf í landinu og fjör í fermingarveislunum. Annars er ekkert gaman.
Steini Briem (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 02:26
Er þetta ekki nokkuð einslitur (en góður ) hópur á þessari ráðstefnu??
Réttsýni þarf ekki endilega vera þröngsýni
Jón Örn Arnarson, 2.4.2008 kl. 09:24
Frábært að lesa þetta .Ef einhver landshluti er náttúruparadís - þá eru það Vestfirðirnir.
Möguleikarnir eru alveg gríðarlegir- ef menn fara ekki að sóða þetta svæði út með olíudrullu- hindrum það.
Nú á sem betur fer að bæta vegina á Vestfjörðum og koma þeim í nútímahorf- en þar og við það verkefni þarf að huga að verðmætri náttúrunni.
Á sunnanverðum Vestfjörðum er stærsta óspillta skógarsvæði landsins og óraskað frá landnámi. Þetta eru Teigsskógar í vesturhlíðum Þorskafjarðar - þéttur og kjarnmikill skógur . Fugla og dýralíf er þarna mikið og fjölskrúðugt í friðsældinni.
Nú er fyrirhugað að rústa Teigsskógi og leggja nútíma veg eftir honum endilöngum. Eyðileggja hann og rústa fugla og dýralífinu um leið.
Bent hefur verið á fara með veginn í göngum um Hjallaháls yfir í Djúpafjörð og síðan í öðrum göngum frá botni Gufudals, þvert yfir í Kollafjörð. Þessi leið myndi stytta leiðina frá því sem nú er um 20 km og yrði 8 km styttri en leið um Teigskóg og það sem meira er , sennilega yrði kostnaður minni.
Gaukið þið þessu að henni Þórunni okkar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra.
Ennþá er tími til stefnubreytingar.
Kveðja til ykkar fyrir vestan
Sævar Helgason, 2.4.2008 kl. 12:28
Geturðu tekið við skráningu í gegnum bloggið?? ef svo er þá vil ég gjarnan vera með
Ásdís Sigurðardóttir, 2.4.2008 kl. 19:12
Frábært framtak
Högni Jóhann Sigurjónsson, 2.4.2008 kl. 21:22
Takk fyrir góða fólk - þið sem viljið skrá ykkur, verið svo væn að senda mér tölvupóst á olina@snerpa.is þar sem fram kemur fullt nafn, kennitala, heimilisfang og sími - og þar með eruð þið orðin fullgildir félagar Einhverjir hafa gert þetta nú þegar. Takk fyrir það.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.4.2008 kl. 09:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.