Hjartsláttur á danssýningu
22.3.2008 | 22:25
Það voru svo sannarlega "Leysingar" í dansatriðum þeirra stallstystra, Sögu dóttur minnar, Evu Mariu Kupfer og Tönju Friðjónsdóttur, sem þær sýndu Ísfirðingum í Edinborgarhúsinu í dag. Ég er ekki frá því að heyrst hafi stöku hneykslunarandköf í síðara verkinu - Sabotage#1 - þar sem Saga og Eva Maria hlykkjuðust um gólfið í undarlegustu stellingum og samsetningum, án tónlistar. Um miðbik verksins var Eva Maria skyndilega orðin kviknakin - og maður skynjaði fremur en sá hvernig áhorfendur litu hver á annan.
Það skal viðurkennt að inntak verksins lá ekki í augum uppi - og sem listræn upplifun reyndi það á áhorfandann. "Dans" er eiginlega ofmæli um það sem þarna átti sér stað - í raun væri nær að tala um hreyfilist.
Hvað um það - ég er ekki frá því að farið hafi um suma í þessu tiltekna atrið. Þarna voru mæður með barnungar dætur sínar sem bjuggust kannski við einhverju öðru en einmitt þessu - voru kannski að bíða eftir "ballettinum".
Og ég verð að viðurkenna að þegar Eva Maria var komin úr hverri spjör og farin að sparka í allar áttir - fylltist ég þeirri skelfilegu tilhugsun að kannski mynda Saga mín líka fara að rífa sig úr fötunum. Mér leist satt að segja ekki á blikuna - og prísaði mig sæla þegar verkinu var lokið og hún a.m.k. alklædd. Ég meina ... við erum jú á Ísafirði, ekki í Amsterdam.
Fyrra verkið "Leysingar" var allt annars eðlis. Það dönsuðu þær Saga og Tanja við undirleik þríeykisins Melneirophreinia sem þeir skipa Gunnar Theodór Eggertsson, Hallgrímur Jónas Jensson og Hallur Örn Árnason. Dansverk og tónlist voru í sameiningu dramatísk og ljóðræn upplifun. Eiginlega varð ég ekki síður hrifin af tónlistinni en dansinum. Það verður bara að segjast eins og er að þessir strákar eru meiriháttar.
Saga og Tanja sýndu góðan samleik í þessum dansi. Þær voru vatnsdropar sem slitnuðu sundur, elskendur sem sameinuðustu og sundruðust, klaki sem bráðnaði, gróður sem spratt upp úr jörðinni, ungt fólk sem dansaði ... þær sameinuðust tónlistinni og hver annarri afar vel. Verkið snerti ýmsa strengi.
Á heildina litið er ég sátt.
Ég veit hinsvegar ekki hvort þær eru það mömmurnar sem sátu með litlu stelpurnar sínar og biðu eftir ballett-atriðinu. Það verður bara að koma í ljós. Nútímadans er eins og önnur nútímalist - hann getur verið bæði átakamikill og ögrandi. Þegar best lætur ýtir hann hressilega við áhorfandanum og skilur eftir einhverskonar eftirbragð sem lifir með manni - stundum lengi.
Bæði þessi dansatriði skildu eitthvað slíkt eftir sig - hvort með sínum hætti.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt 23.3.2008 kl. 13:27 | Facebook
Athugasemdir
Þetta hlýtur að hafa verið frábær upplifun. Ég elska list sem ögrar og tekur mann út fyrir þægindarammann. En það getur eflaust verið erfitt fyrir mömmuna í þessari frásögn (hehe).
Amsterdam - Ísafjörður; there should be no difference.
Takk fyrir að deila þessu Ólína
Njóttu dagsins
Jenný Anna Baldursdóttir, 23.3.2008 kl. 10:44
Best finnst mér lýsingin á "mömmunni" - hahaha. Þetta verður sjálfsagt eftirminnilegt fyrir alla viðstadda.
Kristín Helga (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 12:04
Innilega gleðilega páska til þín og þinna.
Ásdís Sigurðardóttir, 23.3.2008 kl. 14:16
Hef séð svona sýningar sviðaðar því sem þú lýsir hér að ofan, þar sem fólk hefur hreinlega gengið út frussandi í allar áttir. Hreyfilist eða blönduð danstækni getur oft verið mjög falleg. Hehehe hefði viljað sjá svipinn á mömmunum þarna með upprennandi ballettdansmeyjarnar.
Til hamingju með dóttur þína og sýninguna hennar.
Ía Jóhannsdóttir, 23.3.2008 kl. 15:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.