Að umgangast staðreyndir - enn um olíuhreinsistöð

arnarfjordur2 Í umræðunni um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum hafa ýmsar upplýsingar verið að koma fram síðustu daga. Hugtakið "staðreyndir" hefur borið alloft á góma, eins og við má búast - staðreyndir um náttúrufar, samfélagsþætti, losun gróðurhúsalofttegunda, jarðvegsmengun, raforkuþörf og fleira. Við nánari skoðun kemur þó í ljós að "staðreyndir" geta verið teygjanlegt hugtak - og stundum er hægt að skauta fram hjá þeim.

Í dag birtist t.a.m. ágæt grein eftir Ómar Smára Kristinsson, myndlistarmann á ísfirska vefnum bb.is. Þar gerir Ómar Smári að umtalsefni framsögu fulltrúa Íslensks hátækniiðnaðar á málþingi á Ísafirði og Bíldudal nú um helgina.  Sá fyrirlestur nefndist einmitt "Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - Staðreyndir".  Ómar Smári vekur athygli á því hvernig látið var í veðri vaka að upplýsingar um náttúrufar og dýralíf á þeim stöðum sem til umræðu hafa verið vegna olíuhreinsistöðvar væru framkvæmdinni hagstæðar, þegar reyndin er allt önnur sé málið skoðað nánar.

Í svonefndri staðarvalsskýrslu sem Fjórðungssamband Vestfirðinga lét taka saman er talið upp hvaða plöntur og dýr þurfi að víkja og að hvaða leyti það komi til með að skaða viðkomandi stofna rísi Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þeirra á meðal eru nokkrar tegundir fugla á válista og ein mjög sjaldgæf tegund háplantna, eins og Ómar Smári bendir á. 

Talsmenn Íslensks hátækniiðnaðar skautuðu fimlega framhjá þessu í framsögum sínum um helgina. Annar þeirra lét í veðri vaka að skýrslan væri lítið rædd vegna þess að hún gæfi "of góða" niðurstöðu fyrir olíuhreinsistöð.  Þetta eru bíræfin ummæli, verð ég að segja, því þegar skýrslan er skoðuð kemur einmitt í ljós hversu víðtæk áhrif olíuhreinsistöð myndi hafa á allt sitt umhverfi, dýralíf og annað náttúrufar.

Í skýrslunni kemur einmitt fram að sjónræn og umhverfisleg áhrif olíuhreinsistöðvar verða mikil og víðtæk. Ekki aðeins vegna mannvirkjanna - stöðvarinnar sjálfrar og hafnarmannvirkja - heldur einnig vegna mengunar þaðan, sérstaklega svifryks. Fram kemur að kanna þarf nánar mengun sem berst í hafið með tilliti til fiskveiða í fjörðunum og í Arnarfirði einnig með tilliti til kalkþörunga. Þar er einnig talað um vandkvæði á samgöngum og raforkuflutningum í núverandi mynd og hættuna af hafís.

Skýrslurnar um staðarvalsathugun og samfélagsáhrif er að finna á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga. Ennfremur framsögur þær sem fluttar voru á málþinginu um helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tiger

  Mitt álit er að ef minnsti - allra minnsti - möguleiki er á að dýra- og plöntulífríki raskast að einhverju ráði þá eigi bara alls ekki einu sinni að hugleiða að reisa upp Olíuhreinsistöð, Álver eða bara hvaða stóriðjuferlíki sem er. Væri það þess virði ef til minnsta slyss kæmi og fallegt landslag ásamt lífíki þess þyrfti að blæða? Nei, alls ekki þess virði. Slys gera ekki boð á undan sér og í mörgum tilvikum tæki það fjölda ára að bæta slíkt upp - ef það er þá nokkurn tíman hægt.

  Hreint og ómengað land - segi ég.

Tiger, 26.2.2008 kl. 18:14

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mun Olíuhreinsistöð byggja upp nýtt samfélag og ryðja hinu í burtu?

Ég er ekki bara að tala um dýrategundir og eina plöntu, heldur líka ásýnd, fólk og sjálfsmynd Vestfjarða.

Jón Halldór Guðmundsson, 27.2.2008 kl. 08:32

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, Jón Halldór... það er einmitt það sem myndi gerast.

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.2.2008 kl. 09:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband