Felast gæði í stórum lausnum?
25.2.2008 | 10:34
Í gær sat ég málþing um stóriðnað á Vestfjörðum. Ekki veit ég af hverju nafnið "olíuhreinsistöð" var ekki haft í yfirskrift þess, því auðvitað snerist það aðeins um olíuhreinsistöðina margumtöluðu sem Íslensku hátækniiðnaður vill setja niður í Arnarfirði eða Dýrafirði.
Þetta var gagnlegt þing og margt sem kom þar fram. Fjórðungssamband Vestfirðinga á þakkir skilið fyrir framtakið.
Þess var gætt að sem flest sjónarmið kæmu fram og málið var rætt á upplýsandi nótum - sem er lofsvert. Þarna voru mættir fulltrúar Íslensks hátækniiðnaðar, Landverndar, Samtaka Atvinnulífsins, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Auðlinda og umhverfisskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, Landsnets, Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og fleiri sem skiptust á skoðunum.
Smári Geirsson, bæjarstjóri í Fjarðarbyggð sem beitti sér manna mest fyrir Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers í Reyðarfirði á sínum tíma talaði þarna um reynsluna af stórframkvæmdum á Austurlandi. Smári er enn sannfærður um ágæti þessa alls, eins og kom glöggt fram í hans máli. En ég hjó þó eftir ýmsum varnaðarorðum sem hann lét sér um munn fara, reynslunni ríkari nú en áður. Hann varaði við hinum svokölluðu "ruðningsáhrifum", þegar litlu heimafyrirtækin víkja fyrir þeim stærri sem koma utan að. Þegar vinnandi hendur sogast á einn stað og vinnuaflsskortur verður í grunnþjónustu og víðar. Þegar inn á svæðið streymir nýtt vinnuafl - þar af 80% erlent fólk sem kemur um stundarsakir - og þörfin fyrir heilsugæslu, verslun, félagsþjónustu o.fl. eykst skyndilega.
Smári lagði herslu á að sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir byggju sig undir slíkar breytingar. Ja, það er nú það. Hvernig býr maður sig undir það að verða gjaldþrota þegar risarnir mæta á markaðinn? Hvernig búa sjúkrahúsin, leikskólarnir, skólarnir og önnur stoðþjónusta sig undir það að sinna skyndilega aukinni þjónustuþörf á sama tíma og mannafli þessara stofnana er sogaður eitthvert annað? Hljómar flókið - og er það áreiðanlega.
Karl Benediktsson landfræðingur talaði um þá tilhneigingu að leggja að jöfnu magn og gæði þegar rætt er um byggðaþróun. Hann benti á að íbúafjöldinn einn og sér segði ekki endilega til um góða stöðu byggðarlags, því ánægja íbúanna með lífið á staðnum hefði einnig sitt að segja. Hann ræddi um stöðu þekkingar fyrr og nú. Hér áður fyrr var uppskriftin að öflugu samfélagið þessi: Náttúruauðlind + fjármagn + vinnuafl ásamt góðri staðsetningu. Þetta væri ávísun á velmegun í samfélagi. Í dag eru hlutirnir eilítið flóknari og fleiri þættir sem koma inn.
Nýja uppskriftin felur í sér mannauð, sögu og menningu, félagsauð og fleira sem taka þarf með í reikninginn.
Karl ræddi líka hvernig hin þögla þekking (verkkunnátta og hefðir) ásamt brjóstviti og staðbundinni þekkingu sem segja má að tilheyri landsbyggð og dreifbýli - ætti undir högg að sækja andspænis hinni skjalfestu hnattrænu þekkingu sem t.d. birtist í vísindum og sem borgirnar státa af.
Náttúrugæði eru meðal þess sem ég sjálf myndi vilja setja inn í uppskriftina um gott mannlíf í byggðarlagi. Myndirnar hér fyrir neðan gefa svolitla hugmynd um það sem ég er að meina. Þær tók Ágúst Atlason í ljósaskiptunum í Dýrafirði fog Arnarfirði yrir skömmu.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Og hvað. Hver er niðurstaðan. Hvert er álit, skoðun og álitsgjöf Frú Ólínu.
Halla Rut , 25.2.2008 kl. 10:40
Takk fyrir þennan góða fréttapistill að vestan - gott fyrir okkur sem ekki sátum þetta þing að fá þetta yfirlit. Athyglisvert sem fram kom í máli Smára Geirssonar austan af fjörðum. Það er einmitt núna sem áhrifin af stóriðjuframkvæmdunum fyrir austan eru að koma fram. Það er mikið umleikis kringum álverið á Reyðarfirði en jaðarbyggðirnar dragast saman og fólk flytur burt úr fjórðungnum. Ruðningsáhrifin eru mikil blóðtaka fyrir þá fjær eru álverinu. Olíuhreinsunarstöð á einhverjum Vestfjarðanna hefði væntanlega sömu áhrif... byggð næst olíustöðinni þéttist en rýrnaði öll eða legðist af sem fær dregur... hvað með Ísafjörð t.d og byggðirnar við Djúpið ? Það er að mörgu að hyggja og sjálfsagt að horfa til reynslunnar að austan.
En til hamingju með eins árs afmæli þinnar góðu bloggsíðu.
Sævar Helgason, 25.2.2008 kl. 11:04
Bendi á góðan pistil Ómars Ragnarssonar hér.
Lára Hanna Einarsdóttir, 25.2.2008 kl. 13:35
Niðurstaðan, álit og skoðun "Frú Ólínu" er eftirfarandi:
Það á ekki að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Ekki umhverfisins vegna. Ekki samfélagsins vegna. Ekki vegna álits okkar og ímyndar meðal annarra þjóða. Ekki nokkurra hluta vegna. Meira um það síðar.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.2.2008 kl. 15:59
Takk fyrir þetta Ólína!
Sigrún Jónsdóttir, 25.2.2008 kl. 16:18
Tek undir með þér Ólína, enda sýna þessar frábæru myndir hvað ég mundi velja. Og það til viðbótar, til hamingju með eins árs afmælið Ólína. Kveðja.
Þorkell Sigurjónsson, 25.2.2008 kl. 18:08
Góður pistill, í mínum huga er það skýrt að það verður ALDREI reist olíuhreinsunarstöð á Íslandi. ALDREI
Ásdís Sigurðardóttir, 25.2.2008 kl. 20:13
Hva?
Afhverju eru allir svona mikið á móti olíuhreinsistöð á vestfjörðum?
Gísli Hjálmar , 25.2.2008 kl. 20:48
Ef þetta væri lítil verkssmiðja eða nokkrar litlar verksmiðjur sem framleiddu heilsuolíur úr vestfirskum eðaljurtum eða sérstakar fiskolíur fyrir æðaþrengslin og heilaboðin þá skyldi ég koma og hjálpa til við byggingarnar og gera það frítt. Svo yrði sérstaklega sett í axlirnar til að kynna kjálkann fyrir öllum þeim aragrúa af ferðafólki sem leitar logandi ljósi að því sem Vestfirðirnir hafa uppá að bjóða. Þegar þetta yrði allt komið fyrir vind þá efast ég um að nokkur myndi vilja tengjast sig olíuhreinsunarstöðvarhugmyndinnni, ekki frekar en þeir stjórnendur lýðveldisins sem vildu drekkja Laxá í Mývatnssveit forðum til að búa til rafmagn. Þegar allt þraut tóku Mývetningar sem unnu Laxá og Mývatnssveit til sinna ráða og mikið eigum við þeim að þakka í dag. Ekkert olíusullumbull á Vestfjörðum.
Pálmi Gunnarsson, 25.2.2008 kl. 21:15
Gott að vita að umræðan er í gangi. Sjálfur vona ég að Vestfirðingar finni sér annað að gera en að verka olíu frá fjarlægum löndum. Þessi hrikalegi og fallegi landsfjórðungur á annað og betra skilið.
Ég mæli með:
Eflingu ferðaþjónustu bænda í fjórðungnum.
Gistiheimilum í stærri einbýlishúsunum þorpana, jafnvel með tengibyggingum til að nýta fyrir stærri hópa.
Betri vegasamgöngum. Sérstaklega sunnan megin, út að Látrabjargi og víðar.
Bæta upplýsingar og aðgengi að öðrum náttúruperlum.
Efla enn frekar sjóstangveiðina.
Efla söfnin í fjórðungnum.
Byggja upp helstu heiðavegi svo þeir geti opnað fyrr á vorin.
B Ewing, 25.2.2008 kl. 23:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.