Tímamótasamningar - jafnaðarhugsun
18.2.2008 | 20:35
Rétt í þessu var ég að hlusta á Steingrím Joð í Kastljósinu. Blekið vart þornað af undirritun nýrra kjarasamninga milli ASÍ og atvinnurekenda, samninga sem menn segja að marki tímamót. Ríkisstjórnin kom rausnarlega að málum og liðkað fyrir svo um munaði, og menn brosmildir og kátir - ný búnir að undirritað og svona. En Steingrímur er ekki alveg kátur. Hann langar augljóslega að "skemmileggja" aðeins stemninguna.
Já, þetta kom aðeins of vel út fyrir ríkisstjórnina fannst honum - og best að bíða ekki of lengi með aðfinnslurnar. Tímamótasamningar? Ja - prinsippið er auðvitað gott, sagði hann. Auðvitað alveg rétt að láglaunafólk fær meira en tíðkast hefur með þessu móti. Joóó, jooóó, útaf fyrir sig - en ríkisstjórnin átti að gera ennþá meira. Ennþá meira. Menn munu sjá það seinna, sko. Seinna, þó þeir sjái það ekki núna.
Sjálf hefði ég ekki trúað því þegar ég heyrði í formanni Rafiðnaðarsambandsins fyrir helgi að ríkisstjórnin væri á sömu stundu að leggja lokahönd á sitt rausnarlega útspil. Ég verð bara að viðurkenna það - enda held ég að Guðmundur rafiðnaðarformaður hafi ekki trúað sínum eigin augum þegar "sú gamla" loks hlammaði sínum skerfi á borðið: Hækkun persónuafsláttar, rýmra tekjusvigrúm vegna barnabóta, lækkun tekjuskatts fyrirtækja, hærri húsaleigubætur, hærri eignaskerðingamörk vaxtabóta, niðurfelling stimpilgjalda, fyrirheit um lækkun tolla og vörugjalda og hækkun atvinnuleysisbóta. Hana, hafið þetta - þið hljótið að geta samið núna! Eins og feitlagin, ljúf frænka, sem reddar barnaafmæli.
Þetta eru óvenjulegir samningar - andinn sem svífur yfir þessum samningum minnir svolítið á gömlu þjóðarsáttarsamningana. Verkalýðshreyfingin hefur tekið þann pól í hæðina að líta til almennra kjara og aðstæðna í efnahagslífinu í stað þess að kalla einungis eftir launahækkunum. Í þessum samningum er verið að horfa á samhengi hlutanna og knýja aðila til samábyrgðar. Í því er fólgin ákveðin - tja, hvað á maður að kalla það - frelsun er sennilega rétta orðið. Frelsun undan gamalli og úr sér genginni kröfugerðarpólitík - sem sum stéttarfélög eru enn allt of upptekin af, því miður.
Atvinnurekendur hafa gengið að samningaborði með sama hugarfari. Sameiginlega hafa aðilar vinnumarkaðarins slegið nýjan tón sem vonandi mun hafa áhrif til framtíðar, með auknum jöfnuði og um leið jafnvægi í efnahagslífinu og þar með almennum kjarabótum launafólks.
Já, ég gæti bara trúað að þegar fram í sækir verði þessi samningsgerð álitin hornsteinn að nýrri hugsun í íslenskri stéttabaráttu. Og það er vel.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:47 | Facebook
Athugasemdir
Ekki ætla ég að vanþakka þennan ,,ríkisstjórnarpakka" nema auðvitað það sem snýr að skattleysismörkunum. Það er bara til skammar fyrir Samfylkinguna hvað þau hækka lítið og seint, miðaða við kosningaloforðin sem um það voru gefin. Kostnaðurinn við þennan pakka þeirra er líka ekki eins mikill og af er látið. Það er nú ekki svo að láglaunafólkið sé almennt að nota þessar auknu ráðstöfunartekjur til að fjárfesta erlendis. Mestur hlutinn kemur til baka í ríkiskassann í formi ýmissa tolla og vörugjalda af því sem fólk kaupir og að maður tali nú ekki um virðisaukaskattinn, sem leggst á flest í hvert sinn sem viðskipti fara fram með einhverja vöru eða þjónustu. Nei þessir peningar eru ekkert að hverfa út úr hagkerfinu.
Þórir Kjartansson, 18.2.2008 kl. 21:01
Sæl Ólína. Ég ætla mér ekki að eyðileggja fyrir þér kvöldið, þegar ég spyr þig persónulega hvort þú værir sátt við að lifa á launum sem væru eitt hundrað tuttugu og fimm þúsund krónur útborgaðar á mánuði og að auki framfleyta fjölskyldu fyrir þau laun? Kveðja.
Þorkell Sigurjónsson, 18.2.2008 kl. 21:08
Góðir samningar, fersk hugsun.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.2.2008 kl. 21:10
Sælir herrar mínir - ekki eyðileggið þið fyrir mér kvöldið þó við spjöllum svolítið.
Þorkell - spurning þín er svolítið skrýtin. Auðvitað vil ég ekki lifa á 125 þús á mánuði neitt frekar en þú. Það breytir ekki skoðun minni á þessum kjarasamningum, því þeir miða jú einmitt að því að hækka lægstu laun umfram það sem aðrir fá.
Það er í fyrsta skipti, sem samkomulag næst um það að hækka lægstu laun umfram önnur. Og loks þegar það tekst - þá snúa menn upp á sig? Ég held það sé mikið í húfi núna að áfram verði haldið á þessari braut. Þess vegna fagna ég þessum samningum - þó auðvitað megi alltaf gera betur og meira í orði en á borði. Það vitum við bæði.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.2.2008 kl. 21:20
Ég tek undir þetta hjá þér Ólína ,en þó með einni undantekningu :
Aldraðir og öryrkjar eru enn og aftur skildir eftir og frá því þessi ríkisstjórn tók við hafa engar hækkanir á lífeyri þessara hópa séð dagsins ljós og þeir fá ekki þessa 2000 kr. hækkun á persónuafslætti fyrr en eftir heilt ár Erfiðleikar þessa fólks sem er á strýpuðum bótum frá Tryggingsstofnun Ríkisins halda áfram óbeyttir.
Það eina sem þessi hópur hefur almennt fengið, er loforð um að tekjutengin hjóna hverfi í apríl n.k .. og aldraðir mega fara aftur út á vinnumarkaðinn 1. júlí n.k og vinna sér inn 100 þús kr /mán án þess að tryggingabætur falli niður.
Síðan er Jóhanna Sig. ráðherra með almennar tryggingar í endurskoðun og er þess vænst að í lok nóv. komi í ljós hvort eitthvað sé hægt að laga til varðandi lágmarksframfærslu þessara hópa. Það er um heilt ár í það.
Sævar Helgason, 18.2.2008 kl. 21:30
Sæl aftur Ólína. Það sem ég með minni spurningu til þín er að undirstrika að þeir sem þurfa í dag að framfleyta sér á lágum launum er engum bjóðandi. Kona mín hefur unnið í fiskvinnu s.l. 30 ár og er á hæsta texta sem borgaður er þar í dag fyrir 40 kl.st vinnuviku og eru þau laun 26.611. kr.- Þrátt fyri góða viðleitni með þessum samningum þar sem áherslan er lögð á hækkun lægstu launa er virðingarverð, þá er mikið starf óunnið. Það sorglega er að Steingrímur J. og VG eru og hafa aldrei verið neinir bardagamenn fyrir verkalýðin, þrátt fyrir að ég tek undir hans orð að laun í dag dugi ekki fyrir framfærslu einsstaklings hvað þá fjölskyldu. Ólína, fram undan er barátta sem Samfylkingin á að leggja meiri áherslu á en hingað til hefur gert, að laun verði mannsæmandi í þessu þjóðfélagi. Það getum við ábyggilega verið sammála um.? Kveðja.
Þorkell Sigurjónsson, 18.2.2008 kl. 23:16
Ólína var ekki margsinnis búið að lofa að fella alfarið niður stimilgjöld ? Niðurstaðan er aðeins af fyrstu íbúð.Þá fannst mér hækkun á persónufrádrætti 7000 hefði átt að koma á næstu 2.árum,fyrst atvinnurekendur gátu fengið strax skattalækkun úr 18% í 15%. Þegar hækkun láglaunafólks og iðnðarmanna er framreiknuð næstu 3.ár er launahækkun þeirra svipuð.Þessir útreikningar komu fram í fréttum á stöð 2.
Kær kveðja
Kristján Pétursson, 18.2.2008 kl. 23:24
Smá viðauki. Þegar ég tala um 26.611. kr. þá eru það laun útborguð í peningum..
Þorkell Sigurjónsson, 18.2.2008 kl. 23:25
Það er ekkert nýtt að Þorsteinn J sé á móti þvi sem á að gera.
Gísli Bergsveinn Ívarsson, 18.2.2008 kl. 23:28
Ef þetta kallast "tímamótasamningur" hjá einni auðugustu þjóð veraldar þá eru þau tímamót ekki stóratburður í mínum huga.
"þeir miða jú einmitt að því að hækka lægstu laun umfram það sem að aðrir fá."
Ég er fæddur 1936 og ég er búinn að koma mér upp hlustarverk þegar ég heyri þessa setningu sem er jafn gömul og minni mitt nær.
Niðurstaðan er þá sú að Samfylkingarfólk er bara nokkuð ánægt með að skattheimta hefjist við 100 þús. kr. laun.
Aldraðir og öryrkjar eru nauðsynjagripir þegar Samfylkingin er utan stjórnar og þarf að höfða til "þeirra sem minna mega sín."
Hefur þú Ólína nokkuð skoðað nýlega djarfmæli Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninga til Alþingis vorið 2007?
Ég man ekki eftir heitstrengingum í þá veru að setja af stað kjarabætur til 3ja ára þar sem miðað væri að því að hækka örlítið lægstu laun.
Hefurðu skoðað hver skattlagning verður á launataxta skúringakvenna eftir 18000 króna hækkunina?
Formaður Vinstri grænna hefur sómatilfinningu þegar hann ályktar um nýjan kjarasamning.
Árni Gunnarsson, 18.2.2008 kl. 23:52
Ég var nú bara nokkuð ánægð með að Steingrímur J skyldi nefna framfærslumörkin!
Ég verð líka að viðurkenna að mér finnst það hálfgrunsamlegt hvað atvinnurekendur eru "alveg himinlifandi" með samningana! En hvað veit ég???
Sigrún Jónsdóttir, 18.2.2008 kl. 23:54
Svo það sé á hreinu. Einungis hækkun persónuafsláttar per þúsundkall fyrir þann sem er á 150 þúsund krónum á mánuði þýðir 0.7% í hækkun rauntekna. Það er um 14% raunhækkun enda verður skattleysismörkin komin í 125 þúsund við lok samnings enda bundið verðlagi.
Þetta eru sem sagt 24% hækkun launa á samningstímabilinu auk 18 þúsund eingreiðslu. Sá sem er með 500 þúsund fær sömu krónutölu en 4% raunhækkun. Svona tekjujöfnunarsamningar eru á við þjóðarsáttarsamningana 1991.
Getur einhver hrakið þetta?
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 23:59
Tek undir þetta Ólína, ég fagna þessari nýju hugsun í gerð kjarasamninga.
Auðvitað finnst manni aldrei alveg nógu langt gengið og æskilegt hefði verið að launþegar þyrftu ekki að bíða eftir hækkun persónuafsláttarins.
Marta B Helgadóttir, 19.2.2008 kl. 00:08
Þú hlýtur að vera að grínast Ólína þegar þú segir: "Ríkisstjórnin kom rausnarlega að málum og liðkað fyrir svo um munaði, og menn brosmildir og kátir - ný búnir að undirritað og svona." Hækkun á persónuafslætti um 2.000 kall árið 2009 og alls 7.000 á eftir 2011! Þetta er aumasta skattalækkun á lágtekjufólk sem hægt er að hugsa sér.
Þessir samningar eru sem betur fer skref í rétta átt en því miður bara hænufet og Samfó getur ekki með hreinni samvisku hreykt sér af framlagi þessarar ríkisstjórnar.
Finnst þér ekkert grunsamlegt að þeir sem eru ánægðastir með samningana eru Villi Egils, atvinnurekendur og Glitnir?
Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 19.2.2008 kl. 00:24
Sæl Ólína.
Sé hér um að ræða " jafnaðarhugsun " þá hefur sú hin sama hugsun villst verulega af leið og þessir samningar að mínu áliti enn ein blauta tuskan í andlit verkafólks ekki hvað síst fólki af erlendu bergi brotnu sem þiggur laun samkvæmt lægstu töxtum í landinu.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 19.2.2008 kl. 01:58
Vinkona mín hefur starfað í fiskvinnslu frá '66 og öðrum "láglaunastörfum" ásamt þvi að ala upp þrjú börn og koma þeim inní lífið sem góðum þegnum.
Þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur var henni hafnað. Ástæða " hún sagði upp það var hennar sök, hún gæti fengið bætur eftir ca. tvo mánuði.
Henni datt það aldrei í hug að hún þyrfti að svíkja barnabörnin um jólagjafir, vegna flutninga út á land. En það var vegna hækkandi húsaleigu í
RVK.
Það var einfaldlega ekki til peningur fyrir neinu. Svo fréttist seinna að það sé hægt að fá styrk fyrir flutningum, að viðlögðum nótum að sjáfsögðu.
HALLÓ eru ekki allir heima.
chevelle (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 05:03
Vinkona mín hóf störf í síld '66, þá 10 ára, og stafaði við fiskvinnslu í mörg ár, seinna við ummönnun. Þegar hún þurfti að flytjast úr bygðalaginu vegna hækkandi húsaleigu þá
þurfti hún að segja upp starfinu, það þótti henni sárt.
Enn þá sárar þótti henni að geta ekki veitt barnabörnum sínum jólagjafirnar.
Hið opinbera tók af henni atvinnuleysisbæturnar, vegna þess að hún varð að segja upp
chevelle, 19.2.2008 kl. 06:25
Gísli Baldvin Baldvinsson tekur saman ágæta útreikninga hér ofar um það hvað ráðstafanirnar þýða í prósentum talið. Hækkun persónuafsláttar ein og sér fyrir þann sem er á 150 þúsund krónum á mánuði þýðir um 14% raunhækkun og skattleysismörkin verða komin í 125 þúsund við lok samnings. Það gerir 24% hækkun launa á samningstímabilinu auk 18 þúsund eingreiðslu.
Það hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum að ná samningum um það að þeir lægstlaunuðu fengju þrisvar sinnum hærri prósentuhækkun en þeir sem eru með þrisvar sinnum hærri laun. Maður með 150 þús á mánuði fær skv. þessum samningum 14% raunhækkun á samningstímanum en sá sem er með 500 þúsund um 4% raunhækkun.
Þetta eru vissulega tímamót - og við eigum að sýna jákvæðan hug til þess sem vel er gert. Það eykur líkurnar á að slíkt gerist aftur. Það er mín skoðun.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.2.2008 kl. 09:39
Við getum verið sammála um þetta Ólína en framlag ríkisstjórnarinnar er smánarlegt (nema gagnvart fyrirtækjunum, skattalækkun strax um tugi prósenta (3prósentustig) persónuafslátturinn hefði átt að hækka mun meira og hraðar)
Hvað segir þú um það Ólína?
Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 19.2.2008 kl. 12:07
Steingrímur J. er nöldrari af guðs náð. Hann nöldrar yfir öllu. Öllu!
Brjánn Guðjónsson, 19.2.2008 kl. 12:17
Sælt verið fólkið á ný.
Sínum augum lítur hver á silfrið - hér eru augljóslega ekki sammála. Þannig verður það þá bara að vera.
Mér fannst ríkisstjórnin koma með gott innlegg í þessa kjarasamninga. Mér finnst hugsunin í kjarasamningunum - og afstaða þeirra sem að þeim standa vera góðra gjalda verð. En ég ætla ekki að leita logandi ljósi að öllu sem hefði mátt betur fara í þessum samningum. Það er alltaf hægt að gera betur - við vitum það.
Ég gleðst yfir því sem vel tókst til að þessu sinni. Og stend við það.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.2.2008 kl. 13:17
Já, en hvað það er gaman hvað menn eru ánægðir með eitthvað í dag, einungis vegna þess að "réttu" aðilarnir standa að hlutunum. Það er ábyggilega létt að vera ánægður, þegar maður lifir í svona svart/hvítum heimi, eins og Ólína. Síðan má ekki gleyma ef einhver kemur með nægilega beitt rök á móti, þá er þeim bara eydd af síðunni. Frjáls umræða.....ææii nei.
Samningarnir sem voru gerðir fyrir nokkrum árum voru líklega töluvert betri en þessir, t.d. var persónuafslátturinn hækkaður meira, og hann tengdur við verðvísitölu. Fyndið hvað hún Ingibjörg er snögg að tilteinka sér nákvæmlega sömu skoðanir í útreikning á sköttum og skattbyrði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið á lofti Hún fær smá meir sjens, en ef þetta á að vera talsmaður jafnréttisbaráttu, þá á launafólk ekki von á góðu.
Jóhannes (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 14:22
Það má alltaf gera betur í samningamálum að sjálfsögðu. Þó minnist ég þess ekki að slík almenn ánægja hafi verið með samninga eins og núna og voru margir launþegar þ.e. þeir sem þessir samningar ná til einnig glaðir með þá.
Þess vegna er góð ástæða til að fagna.
Ég er sammála því að það var alveg sláandi hvernig Steingrímur brást við og óttast ég einna helst að hann sé endanlega fastur í að vera öfugsnúinn. Hann fann þessum gjörningu all margt til foráttu og neikvæðnin var mikil.
Vel er hægt að hafa samkennd með Steingrími, hafandi verið í stjórnarandstöðu svona lengi og vera í svona veikri stjórnarandstöðu núna. Hann og fleiri þeim megin borðs eru bara ekki öfundsverðir.
Samt má hann passa sig að festast ekki í „mótþróaþrjóskuröskun með meiru.“
Kolbrún Baldursdóttir, 19.2.2008 kl. 14:44
Mér finnst ég hafa heyrt þetta áður, þessvegna hætti ég að vera kommi og gerðist krati. Við verðum að afla til að geta eytt. Steingrímur er bara ekki búinn að fatta það.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 19.2.2008 kl. 14:48
Vegna ummæla Jóhannesar hér ofar vil ég bara segja eitt:
Athugasemdum á þessari bloggsíðu er eytt héðan út ef þær uppfylla ekki þá skilmála sem bloggsíðueigendur undirgangast þegar þeir setja upp síðu á mbl.is. Þeir skilmálar kveða á um að ekki megi birta skrif sem eru særandi eða meiðandi fyrir einstaklinga, ef orðbragð eða framkoma þess sem skrifar er fer út fyrir almenna háttvísi.
Ólíkar skoðanir eru og hafa alltaf verið velkomnar inn á þessa síðu, svo framarlega sem almennrar háttvísi er gætt í framsetningu þeirra.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.2.2008 kl. 15:11
Við fljótlega skoðun kemur þetta í ljós: Þeir sem ekki þurfa að lifa af þessum lægstu laun og/eða lífeyri eru ánægðir með samningana.
Auðun Gíslason, 19.2.2008 kl. 16:45
Ég skil ekki eitt. Þetta eru samningar á milli verkalýðsfélaga og atvinnureknda, ekki satt? Ríkið kemur aðeins inn í til að liðka fyrir, ekki satt?
Hvers vegna í ósköpunum er stærsti liðurinn lækkun skatta á fyrirtæki, og það strax? Meðan verkalýðsfélög fá minni lækkun í áföngun, og miklu síðar? Er þetta ekki eitthvað öfugsnúið?
Jón Ragnarsson, 19.2.2008 kl. 17:23
Viðbót. Ég skil ekki hvernig er hægt að vísa til jöfnuðar, "jafnaðarhugsun", þegar slíkur ójöfnuður blasir við öllum, sem ekki eru blindir! Þjóðfélag sem skaffar fólki laun og/eða lífeyri sem ekki er hægt að lifa af hefur ekkert með jöfnuð eða jafnaðarhugsun að gera. Slíkt þjóðfélag er þjóðfélag misréttis og ójafnaðar, sama hver situr í ríkisstjórn.
"Þunnt skorin stjúpmóðursneiðin", sagði einhver í samninganefndum verkalýðshreyfingarinnar um útspil ríkisstjórnarinnar.
Auðun Gíslason, 19.2.2008 kl. 17:44
Jón Ragnarsson er ósáttur við lækkun skatta á fyrirtækjum sem kom strax til framkvæmda.
Nú þegar er farið að hægja á og atvinna gæti dregist saman þá er afar mikilvægt að létta atvinnustarfsemi róðurinn og auka nýsköpun . Skattlækkun er öflug lausn .
Það er til lítils að hafa háa kauptaxta ef atvinnustarfsemi rýrnar. Öflugt atvinnulíf er undirstaða hagsældar.
Sævar Helgason, 19.2.2008 kl. 18:20
Ég tek undir með Ólínu að þetta er tímamótasamningur: Aldrei hefur íslenskt verkafólk selt sig fyrir jafn lítið.
Er verkalýðsforystan hrædd um að erlendir verkamenn muni hirða af þeim störfin fyrir eina súpuskál á dag?
Theódór Norðkvist, 19.2.2008 kl. 21:42
Innlitskvitt, hef engu við að bæta, það er búið að segja svo margt hér að framan. Kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 19.2.2008 kl. 22:36
Þeir/og venjulega þær sem eru með lægstu launin ná ekki framfærslu upphæð. Þetta gerir það að konur þurfa að hafa einhvern sem greiðir þeirra framfærslu.
Konur gætu þvi festst í ofbeldisfullu hjónabandi sem þeim er ómögulegt að losna úr en vildu frekar vera fjarri hlýrri hjónasængur.
FRAMFÆRSLU EYRI FYRIR ALLA ERU RÉTTLÁTUSTU KJÖRIN OG ÞAU ERU EKKI Í ÞESSUM SAMNINGUM.
Hildur (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 23:19
Eitt finnst mér skrítið með þessa samninga. Verð að viðurkenna að ég hef ekki enn kynnt mér þá í þaula en allir virðast tala eins og sjálfgefið sé að félagsfólk þeirra félaga sem sömdu muni samþykkja þá í atkvæðagreðslu.
Guðmundur Þór Magnússon, 20.2.2008 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.