Útkall F-1: Rauður. Snjóflóð á Súðavíkurhlíð.

Í morgun fékk ég útkall - fyrsta útkallið mitt: Snjóflóð á Súðavíkurhlíð, einn bíll í flóðinu. "Útkall F-1: Rauður" voru skilaboðin sem blikuðu á farsímanum mínum á ellefta tímanum í morgun.

Ég var ekki viðbúin - enda hundurinn minn varla orðinn útkallshæfur, bara með C-próf í vetrarleit (að vísu á góðri leið í B en samt ekki kominn með það). En lífið spyr oft ekki um prófgráður. Þegar mikið liggur við eru allir kallaðir út - og svo ræður forgangsröðun.

Ég stóð eins og þvara með farsímann í höndunum og það fór um mig undarlegur straumur. Tíkin sem lá fram á lappir sínar skammt frá mér skynjaði geðshræringuna. Hún spratt á fætur og stillti sér upp fyrir framan mig. Hún skalf eins og strá í vindi - spennt - hugsanlega kvíðin eins og eigandinn. Skömmu síðar fékk ég fregnir af því að ökumaðurinn væri kominn heill út úr flóðinu og ekki væri þörf á hundum. Um svipað leyti voru björgunarsveitarmenn sem lagðir voru af stað varaðir við mikilli snjóflóðahættu á svæðinu - enda fór svo að lögreglubíll komst í hann krappann áður en yfir lauk.

Já, allt fór þetta vel: Engu að síður var þetta merkileg reynsla. Að standa frammi fyrir alvörunni eitt augnablik. Öll þjálfun undanfarinna missera hefur jú gengið út á að vera viðbúinn útkalli einn daginn. En mikið var ég þó fegin að þurfa ekki að fara í þetta sinn. Fá svolítið lengri tíma til þess að búa mig (og hundinn) undir alvöruna.

Og þetta varð til þess að ég fór að hugsa um röð atburða og eigin viðbrögð við útkalli. Ég fór að útbúa bakpokann minn, tína ofan í hann eitt og annað sem þarf að hafa með þegar alvaran brestur á: Auka ullarföt, talstöðvar, ennisljós, kex og sitthvað fleira. Gerði lista yfir það sem gera þarf þegar þannig ber við. Nú bíður útkallspokinn tilbúinn á sínum stað - og ég er aðeins betur meðvituð um eigin viðbrögð.  Hvort ég verð búin að ná B-prófi á hundinn áður en kemur að fyrsta útkallinu okkar - hvort ég verð raunverulega tilbúin þegar á reynir - það veit Guð einn. En útkallspokinn er á sínum stað.

vetrarmynd07krafla-velsledi

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Guði sé lof að allt fór vel. Það fer enn hrollur um mig þegar fréttir af snjóflóðum í Súðavík og nágrenni koma í fjölmiðlum, eftir snjóflóðin 1995.

Ég var einmitt á vélsleðanámskeiði hjá Flugbjörgunarsveitinni Hellu á þriðjudaginn, þar sem var komið inn á snjóflóðahættu. Ýlir, stöng og skófla er þrenningin í snjóflóðaleit.

Eins gott að vera viðbúinn. Næsta útkall hefst um leið og síðasta lýkur og eins og þú bendir á er nauðsynlegt er að hafa útkallspokann tilbúinn.

Við höfum sloppið furðuvel við útköll hér á Hellu, en ef snjóar mikið í viðbót þá veit maður aldrei hvað gerist.

Theódór Norðkvist, 7.2.2008 kl. 16:56

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Úff þetta er örugglega erfitt en samt, að fá að vera með og geta hjálpað til er frábært.  Vona að veturinn fari vel með íbúa vesturlands.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.2.2008 kl. 23:12

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Súðavík er á Vestfjörðum, kæra Ásdís.

Theódór Norðkvist, 7.2.2008 kl. 23:35

4 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Úff, segi ég nú bara líka. Ég gaut augunum til Neista míns sem er Golden ret 5 mánaða gamall og er steinsofandi á stofugólfinu hjá mér, þegar ég las það sem Ólína skrifar hér fyrir ofan. En ég er viss um að það er örugglega góð tilfinning að vera í svona hjálparstarfi. Ég man þá tíð þegar ég bjó fyrir vestan og það kyngdi niður snjó á veturna,ég varð alltaf mjög stressuð yfir því  EF  eitthvað gerðist í sambandi við snjóflóð eða aurskriðu. Vonandi fer allt vel fyrir vestan í þessum mikla snjó sem fent hefur uppá síðkastið.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 7.2.2008 kl. 23:37

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Þegar ég las þetta hvarf ég til ársins 1967-´68 þá var ég í hjálparsveit skáta. Hafði aldrei verið í skátahreyfingunni, lenti þarna bara inni óvart og fannst þetta skemmtilegur og þarfur félagsskapur.

 Man eftir aðeins einu útkalli sem var sem betur fer ekki alvarlegt.  Ég hentist niður stigann heima hjá foreldrum mínum, í hlífðarfötin og ég man eftir að ég æddi inn í vaskahús eftir gula hjálminum og kompásnum, hljóp út án þess að hugsa um mat eða aukafatnað. Eftir ótal æfingar var allt í einu alvara á ferðum.  Skil þig mjög vel. Gott og þarft starf. Líst ekkert á veðrið hér núna er að fara norður á morgun. Kveðja inn í nóttina.      

Ía Jóhannsdóttir, 8.2.2008 kl. 00:18

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, það snjóar mikið hér fyrir vestan núna. Minnir mig á snjóaveturinn mikla þegar ég kom fyrst til Ísafjarðar, 1973-74. Þá var hinsvegar ekki sagt frá snjóflóðum til þess að fæla menn ekki frá því að koma á Vestfirði, eins og Helgi Jóhann Hauksson segir frá á blogginu sínu í dag.

En tímarnir breytast og mennirnir með.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.2.2008 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband