Maðurinn er ljósbrigði - mikil og tvenn

Ljosbrigdi-AgustAtlason Í framhaldi af þeirri umræðu um skólamál sem spunnist hefur á síðunni minni síðasta sólarhringinn - með hugleiðingum um fjölgreind og þarfir barna -  langar mig að sýna ykkur ljóð eftir Ólínu Andrésdóttir skáldkonu. Hún komst oft vel að orði um ýmislegt - þessi fjarfrænka mín, og alnafna ömmu minnar, sem augljóslega hugsaði margt og átti sínar heimspekilegu stundir í einrúmi.  Á slíkri stundu hefur þetta ljóð orðið til - það er þrungið  speki:

 

Allir kunna að brosa, þó augun felli tár,

allir reyna að græða sín blæðandi sár,

alltaf birtist gleðin þótt eitthvað sé að,

allir þekkja ástina, undarlegt er það.

Maðurinn er steyptur úr misjöfnum málm,

maðurinn á skylt við hinn blaktandi hálm.

Maðurinn er knörr, sem klýfur ölduföll,

kraftur sem rís hátt eins og gnæfandi fjöll.

Maðurinn er vetur með myrkur og tóm,

maðurinn er sumar með geisla og blóm,

maðurinn er ljósbrigði, mikil og tvenn,

maðurinn er tími og eilífð í senn.

(Ólína Andrésdóttir)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er svo sannarlega magnað ljóð. En  skyldi það höfða  til öfgafemínista, sem hafa  bitið það í  sig, að orðið maður geti eingöngu átt við karlmenn? Þessi hópur hafnar þeirri íslensku málvenju  fornri og nýrri,að konur  séu menn og virðist halda að þessi málvenja  hafi eitthvað með jafnrétti að gera? Sem er auðvitað út í hött.

EG (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 11:57

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þekki enga öfgafemínista þannig að ég get ekki svarað þessu. Hinsvegar hef ég alltaf litið svo á að konur séu menn og að starfsheiti sem hafa orðið "maður" (sbr. þingmaður, blaðamaður o.s. frv.) eigi við um bæði kyn.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.2.2008 kl. 13:18

3 identicon

Ólína, það er snilld hvernig þú hugsar.

Guðfinna (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 13:22

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Magnað og ég er algjörlega sammála þér með starfsheitin, konur eru líka menn. Mér finnst allt of margir gleyma því.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.2.2008 kl. 15:07

5 Smámynd: Guðrún Fanney Einarsdóttir

fallegt ljóð;) segir svo margt, konur eru líka menn;)

Guðrún Fanney Einarsdóttir, 6.2.2008 kl. 15:38

6 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Ólína, þakka þér fyrir ánægjulegt og upplýsandi samtal á Útvarpi Sögu í morgun.

Markús frá Djúpalæk, 6.2.2008 kl. 16:21

7 identicon

Sæl Ólína. Mikið er þetta fallegt. Ég þekki alltof marga feminista sem myndu breyta þessu því miður. En, þið hafið alltaf vinninginn, allar konur eru menn, en enginn maður kona. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 21:37

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Fallegt ljóð - Ólína var hálfsystir langafa míns, þannig að við erum eitthvað skyld þarna úr Westrinu.

Gunnlaugur B Ólafsson, 7.2.2008 kl. 00:42

9 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Þetta er fallegt..mikið fallegt...en ég get alls ekki séð samhengi á milli femínista og ljóðsins??

Rúna Guðfinnsdóttir, 7.2.2008 kl. 02:02

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mikið er þetta fallegt ljóð hjá henni nöfnu þinni.  Kveðjur til þín Ólína mín.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.2.2008 kl. 08:02

11 identicon

Ég get bara ekki orða bundist og verð bara að segja það, með fullri virðingu fyrir skáldinu og ykkur öllum, að mér finnst þetta ljóð ekki merkilegt.

Maðurinn er sterkur og veikur, dimmur og bjartur, reynir að græða sín blæðandi sár (!), þekkir ástina (svakalega undarlegt) og er tími og eilífð.

Í öllum leynist kraftur og kyngimögnuð orkasem kennir þeim að berjast og örlögunum storka.Allir geta fundið í amstri dagsins gleðiþótt einkennist flest allt af leiðindum og streði.Maðurinn er sem auðkýfingur sem hámar í sig humar og hrossagaukur glaður er steypir sér um sumar.Maðurinn er sem blaðra sem blíðir vindar feykjaog beljukjöt sem annaðhvort þarf að sjóða eða steikja.

Bla bla bla.

Virðingarfyllst,
Magnús

Magnús (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 09:06

12 identicon

Þarna fór illa fyrir ljóðinu mínu mikla. Lagfært:

 

 

Í öllum leynist kraftur og kyngimögnuð orka

 

sem kennir þeim að berjast og örlögunum storka.

 

Allir geta fundið í amstri dagsins gleði

 

þótt einkennist flest allt af leiðindum og streði.

 

Maðurinn er sem auðkýfingur sem hámar í sig humar

 

og hrossagaukur glaður er steypir sér um sumar.

 

Maðurinn er sem blaðra sem blíðir vindar feykja

 

og beljukjöt sem annaðhvort þarf að sjóða eða steikja.

Magnús (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 09:08

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Haglega gerð endileysa Magnús - en ég legg þó ekki að jöfnu þessi tvö ljóð.  

Það er annars undarleg árátta á fólki að gera lítið úr verkum annarra, ef því finnst það geta gert jafn vel sjálft.  "Þetta hefði ég nú getað gert sjálfur" er þá viðkvæðið. Og hvað með það? 

 Af hverju yrkir þú ekki bara heimspekilega hugleiðingu (mér sýnist þú hafa hagleikinn til þess)? Og vertu svo bara ánægður með þitt eigið verk þegar það er tilbúið. Ekki gera lítið úr öðrum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.2.2008 kl. 10:18

14 identicon

Æ, ég ætlaði ekki að gera lítið úr neinum, síst af öllu til að upphefja sjálfan mig. "Þetta hefði ég nú getað gert sjálfur" er ekki mitt viðkvæði.

Ég vildi óska að ég hefði meiri hæfileika, ástríðu og andlega dýpt en ég bý yfir og gæti nýtt það til þess að búa til eitthvað sem yrði öðrum til ánægju, jafnvel upplyftingar eða innblásturs. Ég leyfi mér hins vegar að hafa skoðun á einu og öðru.

"Ljóðið" setti ég inn bara til þess að leggja áherslu á skoðun mína á ljóði nöfnu þinnar sem mér finnst, eins og ég sagði, ekki mikið til koma. Maðurinn er knörr og vetur og sumar og tími og eilífð og brosir og grætur og er úr málmi og líkist hálmi og ... Mér finnst þetta bara alls ekki "þrungið speki" eða "magnað". Hefði líklega ekki sagt neitt ef lofið hefði ekki verið svona mikið.

Biðst afsökunar á neikvæðninni í innlegginu mínu. Lifðu heil.

Magnús (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband