Hvert stefnir eiginlega?

160_ap_pakistan_blast_07101 Ég ætlaði ekki að  blogga um fréttir eða þjóðmál þessi jól. Ég ÆTLAÐI bara að vera friðsöm og södd og værukær. En svo fóru fjölmiðlar að hafa samband við mig og biðja mig að tjá mig um tíðindi líðandi árs - og áður en ég vissi af var ég farin hafa áhyggjur af veröldinni á nýjan leik.

Já, jörðin hætti svosem ekki að snúast þessi jólin. Nú er búið að myrða Benazir Bhutto og allt í upplausn í Pakistan. Maður má þakka fyrir að búa í friðsömu landi þar sem menn leggja það ekki í vana sinn að afgreiða pólitískan ágreining með blóðsúthellingum. En það er hryggilegt að heimurinn skuli ekki færast neitt nær friði - hversu mörg sem vítin verða sem varast ber. 

"When will they ever learn?" Spurði Bob Dylan á sínum tíma - og sú spurning er enn brýn og áleitin sem fyrr. Ógnaráróður og tortryggni milli þjóða, heimshluta og menningarheima. Fjandskapur, ótti, stríðsátök, tilræði og hryðjuverk. Það er ekkert lát á.

Og hvernig horfir í umhverfismálum jarðarinnar? Úff!

Svo eru menn að tala um að kirkjan eigi ekki að hafa hlutverk í samfélaginu! Þegar stríð og ógnir eru nánast daglegt brauð í fréttum af heimsmálum - svo mjög að börnum er ekki óhætt að horfa á sjónvarpsfréttir. Þegar ótti og heift eru allsráðandi hvert sem litið er? Nei, ég held satt að segja að kristin kirkja hafi aldrei átt brýnna erindi en einmitt nú - segi það bara hreint út fyrir sjálfa mig.

Ég ætla að fá mér heitt súkkulaði og reyna að hugsa ekki um þetta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Kæri Henry.takk fyrir jólakveðjuna.

Þetta með skipun Þorsteins Davíðssonar get ég því miður ekki haft áhrif á - svo máttug er ég ekki. En það sjá auðvitað allir að þar var leikreglunum gefið langt nef, og auðvitað eigum við ekki að þegja yfir slíku.

Ég á sjálfsagt eftir að blogga eitthvað um það mál þegar lengra líður - svona þegar ég kemst af meltunni eftir bílífið um jólin :o)

Bið að heilsa þínu fólki og óska ykkur öllum farsæls nýs árs.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.12.2007 kl. 15:32

2 Smámynd: Guðmundur Kristjánsson

Sæl Ólína, vona að þú og þín fjölskylda hafið það gott yfir hátíðarnar, ég kannast nú aðeins við ykkur (passaði börnin ykkar nokkrum sinnum þegar ég var unglingur :).

Annars vildi ég bara nefna að ég er sammála þér að öllu leiti nema einu og það er þetta með kirkjuna. Því ótrúlega stórt hlutfall þessarra illvirkja og ófriðar er einmitt í nafni einhverra trúarhópa og get ég ekki betur séð, alveg sama hvernig litið er á málið, en að leita til trúar við lausn á vandamálum heimsins, sé eins og hella geislavirku þotueldsneyti á gjósandi eldfjall.

Það má aldrei gleyma því, að þrátt fyrir að kristni virðist sakleysisleg í löndum eins og okkar, í seinni tíð, er enginn munur henni og öðrum trúarbrögðum hvað varðar þau illvirki sem framin hafa verið (og eru enn) í hennar nafni (nema hugsanlega að eiga heimsmetið). 

Annars hljómar súkkulaðið vel og tek ég það til fyrirmyndar akkúrat núna.

Guðmundur Kristjánsson, 28.12.2007 kl. 15:52

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Úff, erfitt að klippa á raunheima, en það er voða gott þegar það tekst. Knús á þig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.12.2007 kl. 17:10

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk öll fyrir innlitið  

Og takk Guðmundur fyrir að gera vart við þig - ég man vel eftir ljóshærðum unglingsstrák, barngóðum og geðugum, sem passaði fyrir mig kosningavorið góða þegar ég var á leið í borgarstjórnina. Gaman að sjá línu frá þér núna.

Þið þurfið ekkert að vera mér sammála um hlutverk kirkjunnar - en ég minni bara á að á kristninni byggist hin vestræna siðmenning. Kristnin er svo snar þáttur í siðfræði okkar og menningu að oft tökum við ekki ekki eftir því - ekkert frekar en hraustur maður tekur eftir því að hann hafi hjarta, eins og Nóbelsskáldið benti á. Og á erfiðum stundum í lífi þjóðarinnar, t.d. þegar hamfarir verða og þjóðarsorg, þá jafnast ekkert á við íslensku þjóðkirkjuna og þá huggun sem hún veitir. Það er nú bara tilfellið. Og ég hef hugsað mér að kenna barnabörnunum mínum bænirnar líkt og ég kenndi börnunum. Ójá - hafið það svo öll sem best yfir áramótin

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.12.2007 kl. 19:43

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Treysti ér nú mannabest til að koma með þetta klippt og skorið í hnotskurn og án vífilengja til okkar sem lesum þig.  Kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 28.12.2007 kl. 21:45

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ekki veit ég af hverju þú vilt blanda kirkjunni í þetta mál. Það var ekki mikill friðurinn í fæðingarkirkju Krists í Betlehem þegar kústarnir fóru á loft.

Friður og kærleikur eru ekki skrásett einkavörumerki Kristinnar kirkju og það er dónaskapur við þá sem ekki eru kristnir að væna þá um skort á þessum eigindum þó þeir aðhyllist ekki Biblíuna sem trúarrit eða viðurkenni Guð og Jesu eins og þeir eru teiknaðir upp í þeirri bók.

Að því sögðu verður ekki framhjá því litið að Kristni og Biblía boða, eins og margir aðrir, upp á að fólk sýni kærleika og frið og það er prýðilegur samnefnari fyrir allt gott fólk, hvort sem það er trúað eður ei.

Haukur Nikulásson, 28.12.2007 kl. 22:46

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ekki ætla ég í trúarbragðadeilur hér á bloggsíðunni minni um hátíðarnar.

En Haukur, er það dónaskapur við þig, eða þá sem ekki eru kristnir, þó ég segi frá því upphátt að ég aðhyllist kristna siðfræði og telji hana eiga erindi við mannkynið? Ég lít ekki svo á. Þú mátt að sjálfsögðu hafa þína skoðun - en ég á líka að vera frjáls að því að tjá mína kristnu lífsskoðun án þess að vera vænd um það að gera lítið úr öðrum.

Auðvitað hafa trúarbrögð heimsins komið ýmsu illu til leiðar - það vitum við vel. Galdraofsóknir fyrri alda voru að undirlagi kirkjunnar manna. Hluti Íslamstrúarmanna er í heilögu stríði gegn Vesturlöndum. En það er auðvitað alþekkt í mannkynssögunni að mennirnir taka heilög gildi, hvort sem það eru trúarbrögð, þjóðerniskennd eða annað, og misnota þau í valdabaráttu og pólitík. Þar er við menn að sakast - ekki inntak trúarinnar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.12.2007 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband