Frjósemisdansinn um jólatréð

 jolatra_stor Mynd hinnar heilögu guðsmóður með jesúbarnið í fangi er órjúfanlegur hluti jólanna í hugum kristinna manna. Um hana hafa verið sungnir sálmar og lofsöngvar um aldir. Í forkristnum trúarbrögðum sem sum hver tíðkast enn, til dæmis í Afríku og á Indlandi, er það þó önnur móðir sem tignuð er í tilefni af hækkandi sól. Það er móðir jörð.

Þó að fæstir átti sig á því, má vart á milli sjá hvor er meira áberandi í jólahaldi okkar nútímamanna, María mey eða móðir jörð. Tákn þeirrar fyrrnefndu blasir við í trúarlegum skreytingum, tákn þeirrar síðarnefndu breiðir út ilmandi arma inni á heimilum landsmanna um hver einustu jól - það er nefnilega jólatréð.

Jólin marka komu nýrrar tíðar, þau eru endaskeið skammdegisins, boðberar um bjartari og lengri daga. Er því vel við hæfi að kalla þau „hátíð ljóssins". Þessi tímamót, sem norrænir menn nefna „jól" (yule á ensku) hafa verið haldin hátíðleg frá því í árdaga, löngu áður en kristnir menn gerðu þau að fæðingarhátíð frelsara síns. Þess vegna er margt í jólahaldi okkar sem á rætur að rekja til ævafornra trúarbragða og frjósemissiða. Á það ekki síst við um þá venju að skreyta jólatré og dansa í kringum það.   

Kona verður tré

Í fornum arfsögnum eru þess ýmis dæmi að manneskjur ummyndast í tré. Af einhverjum ástæðum á þetta einkum við um konur. Ein þeirra var veiðigyðjan Daphne, dóttir vatnaguðsins Nereusar, sem var sonur jarðargyðjunnar Gæju. Daphne heillaði guðinn Appolló svo mjög að hann varð frávita af ást til hennar. En hún vildi ekki þýðast fegurðar- og skáldskaparguðinn og lagði á flótta. Hann elti að sjálfsögðu og gekk svo hart fram að um síðir leitaði hún á náðir föður síns og bað hann að afmá kvenleika sinn og fegurð.

Nereus breytti henni í lárviðartré. Hár hennar varð að laufskrúði, armar hennar að greinum og húðin að trjáberki. Fæturnir urðu rætur. En Appolló var í álögum ástarinnar og þrá hans dvínaði ekki við þessi umskipti. Hann féll að trénu, faðmaði stofn þess og kyssti laufgreinarnar.

Í norrænni goðafræði höfum við hliðstæðu þessarar sögu. Þar er sagt frá Iðunni sem gætti yngingareplanna. Eitt afbrigði goðsögunnar greinir svo frá að Iðunn hafi haldið til í laufkrónu Yggdrasils en fallið þaðan niður í Niflheim. Maður hennar, skáldskaparguðinn Bragi, unni henni svo mjög að þegar hann fann hana í undirheimum ákvað hann að verða eftir hjá henni. Á meðan Bragi beið með Iðunni í  myrkri og kulda Niflheims hljóðnaði söngur hans, og ekki þarf að taka fram að æsir tóku að hrörna og eldast, þegar þeir nutu ekki lengur eplanna. Hér má líta svo á að dvali Iðunnar og þögn Braga tákni vetrarsvefn náttúrunnar. Á meðan gyðjan er fjarverandi ómar enginn söngur, hvorki fugla né fallvatna og náttúran verður „hrum" líkt og hin öldnu goð.

Í báðum sögum eru hin kvenlegu mögn undirstaða lífs og gróandi. Það eru skáldskaparguðir sem leita gyðjanna og báðar renna þær saman við tré. Báðar sjá þær fyrir fæðu, Daphne er veiðigyðja en Iðunn gætir eplanna sem viðhalda æsku og þrótti guðanna. Þannig hafa þær í hendi sér frumskilyrði vaxtar og viðgangs, þær eru uppspretta lífsorku og þar með tákn eða fulltrúar móður jarðar.

Fornir frjósemissiðir

Tré hafa frá fornu fari verið einkennandi í sköpunar- og goðsögum þjóða. Hér nægir að nefna ask Yggdrasils í norrænni goðafræði og skilningstré góðs og ills í kristnum fræðum. Að sama skapi gegna tré víða veigamiklu hlutverki í frjósemis- og helgisiðum margra trúarbragða. Á Indlandi tíðkast að brenna tré í ársbyrjun og marka þar með endalok og nýtt upphaf. Sambærilegur siður eru áramótabrennur norrænna þjóða.

Samkvæmt fornu tímatali voru áramótin í marsmánuði og víða mörkuðu þau því einnig vorkomuna. Þess vegna eru sumir siðir sem tengjast vorinu og sáningunni keimlíkir jóla- og áramótasiðum. Sem dæmi má nefna þá venju að höggva tré, skreyta það og stilla því miðsvæðis þar sem fólk getur dansað umhverfis það. Í sveitum Englands hefur það verið all útbreiddur siður að fagna sumri með því að skreyta hús með greinum. Maístöngin eða blómastöngin sem sett er upp miðsumars í Svíþjóð hefur svipað tákngildi og jólatréð; Jónsmessubrennan er sambærileg áramótabrennunni. Hugmyndaþræði þessara athafna má rekja til jarðardýrkunar.

Á forsögulegum tíma greina goðsögur svo frá að jarðargyðjan hafi frjóvgast af samræði við sólarguðinn. Mannkynið er ávöxtur þessarar frjóvgunar, en jörðin móðir alls þess sem grær og lifir. Af henni fæðist allt, á henni nærist allt og til hennar hverfur allt. Af tignun jarðarinnar hafa skapast fjölmargir siðir og venjur einkum tengd fæðingum og frjósemi kvenna, sáningar- og uppskerutíma jarðyrkjunnar eða greftrunarsiðum og lækningum. Þess eru jafnvel dæmi meðal ættbálka í Afríku að ekki megi yrkja jörðina til þess að særa hana ekki í bókstaflegum og yfirfærðum skilningi. Í Úganda þykir heillavænlegt fyrir uppskeruna að það sé þunguð kona sem sái í akurinn. Enn í dag þekkjast frjósemissiðir á borð við þann að ung hjón hafi sínar fyrstu samfarir í  nýju plógfari og á það ýmist að tryggja frjósemi jarðar og góða uppskeru eða frjósemi hjónanna og barnalán í framtíðinni.

Flestir þeir helgisiðir sem tengjast komu ljóss og vors eru því frjósemissiðir framdir til heilla samfélaginu með tignun jarðarinnar. Helgiathafnir þessar geta tekið á sig ýmsar myndir. Stundum er um að ræða ærslafullar orgíur sem eiga að storka máttarvöldunum og örva þau til þess að veita ríkulega af regni og sól. Um leið er verið að fremja táknrænan líkingargaldur þar sem kynlífinu er ætlað að hleypa af stað heilögum endurnýjunarkrafti lífsins.

„Dönsum við í kringum ..."

Frumkrafturinn sem þessum siðum er ætlað að laða fram tilheyrir hvarvetna „hinni miklu móður" sem gengur undir ýmsum nöfnum meðal ólíkra samfélaga. Við helgiathafnir af þessu tagi er jarðargyðjan hlut- eða persónugerð á einhvern hátt. Stundum er manneskja hulin stráum eða laufi og hún ávörpuð með nafni gyðjunnar. Einnig er til í dæminu að gerðar séu eftirmyndir úr hálmi, greinum eða heyi. Í Svíþjóð var ungum stúlkum ætlað að dansa við slíkar hálmbrúður fyrr á tíð meðan sáning stóð yfir.

Ein skýrasta hliðstæðan sem við höfum um tengsl frjósemis- og jólasiða er forn shamanísk sögn um það hvernig ættbálkur einn endurheimti þrótt og lífsorku með svokölluðum sólardansi. Þann dans átti að fremja með tiltekinni viðhöfn og umbúnaði sem ekki mátti bregða út af. Lykilatriði þessarar athafnar var „hið helga tré". Það var valið í skóginum af mikilli kostgæfni, höggvið af sérstakri varúð og helgað með vel völdum orðum og athöfnum. Loks var það sett niður miðsvæðis fyrir sjálfa athöfnina. Hún fór fram með söngvum og dansi á vígðum reit við angan af reykelsi og friðarpípum og með áköllum til móður jarðar. Fólkið gekk að trénu og hengdi litlar gjafir á greinar þess en tók svo til við að dansa mót höfuðáttunum fjórum, þ.e. hringinn í kringum tréð.

Hið „helga tré"

Í nútímasamfélögum má finna margvíslega hjátrú sem tengist trénu. Flestir þekkja þann sið að snerta tré eða banka í það og þylja „sjö-níu-þrettán" til að storka ekki forsjóninni með óvarlegu tali. Hefur þessi siður jafnvel verið skýrður með tilvísan til kross Krists; að snerting við tréð sé ígildi þess að snerta krossinn sjálfan og feli þannig í sér bæn til Guðs. Önnur skýring á uppruna þessa siðar er sú að með því að snerta tréð sé verið að koma illum öflum fyrir inni í trénu.  Sú skýring byggir á ævafornri og útbreiddri þjóðtrú sem víða er enn við lýði í heiðnum sértrúariðkunum og wicca-göldrum. Eru þess þekkt dæmi að sjúklingum sé komið fyrir inni í holum trjábol eða gilskorningi til þess að hreinsa þá af sjúkleika eða illum öndum. Í sama tilgangi er fólk grafið í jörð, nýfædd börn lögð á grasið eða sængurkona látin stíga á torfu, svo nefndir séu fáeinir siðir tengdir jarðartignun.

Í ljósi þessa má segja að „krossins helga tré" hafi yfir sér dýpri margræðni en margan grunar sem einungis hefur lesið biblíusögurnar í æsku. Sú margræðni hefur lítið að segja í hugum kristinna manna sem tigna táknið, fyrst og fremst vegna þjáningargöngu Krists og upprisu. En jafnvel í kristnum trúarbrögðum hefur um aldir þrifist margvíslegt helgikukl tengt helgum gripum, ekki síst krossinum sjálfum. Sú iðja hefur verið iðkuð af lærðum og leikum í gegnum tíðina og á vitanlega rætur að rekja til forkristinna hugmynda sem við sjáum í svokölluðum „frumstæðum" trúarbrögðum.

Það gildir því um hið helga tré líkt og jólahaldið sjálft, mestu fagnaðarhátíð kristinna manna, að hinir upphaflegu hugmyndaþræðir liggja langt aftur fyrir kristið tímatal; allt aftur til fornra frjósemistrúarbragða sem byggðu á frumstæðustu hugmyndum mannsins um líf og dauða, árvissa upprisu náttúrunnar og endurlífgun jarðar. Þannig hafa siðirnir lifað af trúskipti og nýja hugmyndastrauma um aldir þótt flestir hafi gleymt uppruna þeirra.

Enn um hríð munu kristnir menn því stíga frjósemisdansinn í kringum jólatréð, staðgengil hinnar miklu móður, en lofsyngja föðurinn í upphæðum fyrir fæðingu frelsarans.

 

Heimildir:

Ásgeir Blöndal Magnússon, 1989: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík.

Eliade, Mircea, 1965: Patterns in Comparative Religion. London.

Gunnar Dal, 1997: Í dag varð ég kona. Reykjavík.

Eddukvæði (Ólafur Briem annaðist útgáfuna), 1968. Reykjavík.

Ólína Þorvarðardóttir, 2001: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Reykjavík.

Ringgren, Helmar & Ström, Åke, V, 1954: Religionerna i historia och nutid.

Símon Jón Jóhannsson 1993: Sjö, níu, þrettán. Reykjavík.

Snorra Edda (Árni Björnsson bjó til útgáfu) 1975. Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er skemmtilegt og fróðlegt.

Afhverju er þetta ekki kennt í grunnskólum landsins?

Hildur (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 14:19

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Fróðleg færsla, takk fyrir. 

Ásdís Sigurðardóttir, 21.12.2007 kl. 16:01

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Langar til að óska þér gleðilegra jóla Ólína. Takk fyrir frábæra viðkynningu.

Marta B Helgadóttir, 21.12.2007 kl. 18:03

4 Smámynd: Yngvi Högnason

Takk fyrir þetta og gleðilega hátíð.

Yngvi Högnason, 21.12.2007 kl. 19:20

5 Smámynd: Sævar Helgason

Kærar þakkir fyrir þessa frábæru jólahugvekju - ekki neinn smá fróðleikur.

Gleðilega hátíð 

Sævar Helgason, 21.12.2007 kl. 20:27

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ágætis úttekt og sýnir vel heiðnar rætur jólanna. Umhugsunarefni fyrir kristna menn og konur.

Theódór Norðkvist, 22.12.2007 kl. 01:13

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

 Verði ykkur að góðu - og gleðileg jól öllsömul.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.12.2007 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband