Femínismi og rasismi

Femínistar eiga ekki upp á pallborðið í bloggheimum um þessar mundir. Mér satt að segja hrýs hugur við þeim munnsöfnuði sem fram hefur komið í þeirra garð að undanförnu. Um leið velti ég því fyrir mér hvað valdi þessu.

Fyrir tuttugu árum - þegar ég var enn ung og bjartsýn kona - taldi ég að við konur stæðum á þröskuldi þess að ná fram fullu jafnrétti. Að vísu heyrði maður stundum talað í fyrirlitningartóni um rauðsokkurnar. Það var sami tónninn og heyrðist þegar "allaballa" og hernámsandstæðinga bar á góma. Þá fylgdi jafnan viðskeytið "lið" (þetta hernámsandstæðingalið - þetta vinstralið).

Jæja, þetta var þá. Ég trúði því statt og stöðugt að svona yrði þetta ekki lengi. Og þegar dætur mínar fæddust leyfði ég mér satt að segja að vera bjartsýn fyrir þeirra hönd. Trúði því að þegar þær kæmust á minn aldur (sem þær eru á núna) myndi þjóðfélagið líta allt öðruvísi út, og tækifæri ungra kvenna verða hin sömu og tækifæri ungra karla. Þá á ég ekki bara við atvinnutækifæri og menntun heldur líka kaup og kjör, að ég tali nú ekki um virðingu fyrir konum.

Jæja. Mikið vatn er til sjávar runnið, og vissulega hefur ýmislegt áunnist. Konur eru meirihluti þeirra sem stunda háskólanám. Og þær eru að hasla sér völl á vísindasviðinu. Nú nýlega voru tíu stúdentar verðlaunaðir fyrir framúrskarandi vísindastörf í raunvísindum - þar af átta stúlkur. Ó, já. Konurnar eru að standa sig. Þær geta og vilja. Ég held þær þori líka.

Samt er enn langt í land að þær njóti kjara og tækifæra til jafns við karlmenn. Enn eru stjórnir fyrirtækja að stærstum hluta skipaðar körlum. Kannanir sýna að konur eiga enn langt í land með að ná launajafnrétti. Í opinberri umræðu eiga þær líka undir högg að sækja - einkum þær sem standa fremstar í flokki fyrir kvenréttindum.

Nú má vera að forsvarsmenn femínista hafi í einhverju farið of geyst - eða öllu heldur teygt baráttuna inn á ómarkvissar brautir. Sjálf get ég verið þeim ósammála um eitt og annað (nefni bara nýlega umræðu um bleik og blá ungbarnaföt). Hvað um það. Ég er þeim þakklát fyrir að halda uppi umræðu um kvenréttindi. Við þurfum ekki að vera sammála um alla hluti. En ég er þeim sannarlega þakklát fyrir að standa fremstar í flokki og halda umræðunni áfram þrátt fyrir oft á tíðum neikvæð viðbrögð og niðrandi umtal.

Því finnst mér nóg komið af munnsöfnuði og ofstopa þeirra sem ekki eru sammála talsmönnum kvenréttinda hér á netinu. Sumt af því sem hér hefur verið látið fjúka er ekkert annað en rasismi sem beinist að tilteknum skoðanahópi. Sú tilhneiging að skipta málsmetandi konum í tvo hópa, femínista og svo aðrar konur, er heldur ekki gæfuleg að mínu mati.

Hver er mælikvarðinn á femínista? Er orðið femínisti orðið skammaryrði? Ef svo er, þá er kominn tími til fyrir okkur konur að spyrna við fótum og taka til varna fyrir þær konur sem standa fremstar í þessari víglínu. Þær eru ekki að berjast fyrir sig einar. Munum það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sælir báðir tveir og takk fyrir ykkar innlegg.

Nú langar mig að spyrja, fyrst Arnþór: Hvernig hafa femínistar farið offari?

Og svo Jón Frímann: Hvaða dæmi eru um að femínistar vilja taka valfrelsi fólksins í burtu og koma konum í stöður sem þær jafnvel vilja sjálfar ekki vera í?

Það er nefnilega svo oft í þessari umræðu sem svona fullyrðingar koma fram, án þess að rökin fylgi. Því miður - en það er ekkert gagn í því að ræða málin þannig. Það er gaman að rökræða - en alhæfingar eru ekki rök.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.12.2007 kl. 23:52

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka góðan og hófstilltan pistil, Ólína.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 00:00

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nei hættu nú alveg Ólína. Nú hefurðu sent kvennréttindabaráttuna í algerlega nýjar víddir.  Nú held ég að þið mættuð ráða ráðum og skilja hismið frá kjarnanum og rifja upp hvert markmiðið er með þessari baráttu. Setijið þetta bara niður á blað...svona manifesto.  Svona málflutningur mun ekki hjálpa málstaðnum né jafna sættir.  Skoðaðu nú hvað felst í því að kalla einstakling rasista. Skoðaðu hvað felst í því að dæma hóp fólks rasista og þar með margar kynsystur þínar.  Er þetta ekki bara frumhlaup af þér?  Eruð þið ekki bara að tapa sjónar á sameiginlegum markmiðum og þessum smáhnýtingum.  Ekki er þetta trúarbragða og/eða kynþáttastríð?

Er það ekki einmitt svona fljótfærni og fullyrðingagleði, sem vakið hefur hvað mest upp af þeirri úlfúð og klofningi sem ríkir um málefni ykkar...okkar. liggur mér við að segja?

Með fullri vinsemd.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 00:36

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hugsa að það sem Árnþór á við með offari er að fámennur hópur kvenna hafa fyrir hönd fjöldans, án ráðfæringar heimtað svokallaðan kynjakvóta í stjórnsýslu og einkageira og heimtað lagalega þvingun til aðkoma þeim markmiðum fram.  Þetta er náttúrlega offar í samhenginu óþolinmæði að ætla að slíkur jöfnuður verði settur á svona einn tveir og þrír.  Á sama tíma hefur engin áhersla (að sjálfsögðu) verið sett á að þvinga slíkum jöfnuði upp á önnur minniháttar karl-læg störf, né að þvinga karlmenn í Kven-læg störf.  Hér er einvörðungu verið að heimta völd og feita launatékka til handa þeim, sem eru í forsvari þessarar baráttu.  Ég held að ef litið er um farinn veg, þá hafi gífurlega mikið náðst fram í jafnréttismálum og að meira muni nást fram í sífellt hraðari framsókn með eðlilegri aðlögun og jöfnum og málefnalegum þrýstingi.´

Nánast allar þær stúlkur og konur, sem ég tala við fyrirverða sig fyrir málflutningi kynsystra á borð við Sóleyju og Kolbrúnu, sem virðast vera á einhverju athyglistrippi og úr tengslum við allan veruleika.  Hvaðan þær fá sína mynd af umheimi kvenna er mér algerlega hulið.  Ég styð sjálfur eindregið þann mikla mun, sem felst í lágum launum kvenlægra starfa og þar þarf að hamra járnið innan ASÍ m.a. og á réttum málefnalegum grunni en ekki með trúarbragðalegri yfirlýsingagleði.  Launamismunun verður líka að vera mæld á réttum forsendum en ekki út frá heildartekjum, því víst er að karlmenn hafa a.m.k. fjórðungi fleiri vinnustundir að baki sínum tekjum.

Svo er spurningin: Er rétt af ykkur að heyja þessa baráttu á bloggsíðum og í blaðagreinum?  Mér finnst það oft bera keim þess að viðkomandi, sé að upphefja sjálfa sig og praktíseri síst, það sem hún er að prédika, eins og oft vill brenna við hjá þeim, sem hafa trú sína í flimtingum á torgum og samkomum.  Það eru þó bara mínar vangaveltur og auðvitað veit ég ekki neitt frekar en hver annar.  Skoðanaskipti kallast það í minni sveit.  En ef ég verð úthrópaður og í dilk settur fyrir þær skoðanir, sem geta að sjálfsögðu þróast og breyst, þá er tekið fyrir að ég geti tekið uppbyggilegann þátt í mótun þessara hluta.  Að kalla fólk rasista er því að mínu mati yfirgangur og skoðanakúgun.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 00:59

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

ég styð sjálfur eindregið EKKI...á að standa, svo ég verði nú ekki tjargaður og fiðraður fyrir prentvillu.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 01:02

6 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sæl Ólína,

Ég er sammála mörgu hér að ofan.  Ég held hins vegar að sjálfskipaðir fulltrúar kvenna og femínista í landinu séu á villigötum þótt allir séu sammála hinu endanlega markmiði um jöfn tækifæri karla og kvenna.

Áhrif baráttunar á ímynd kvenna

Ég held að barátta sem gengur út á að staglast á því endalaust hvað einhver tiltekinn hópur hafi það slæmt og hvað allir eru vondir við hann hafi slæm áhrif á ímynd viðkomandi hóps.  Viðkomandi hópur stimplast sem "minniháttar" og ekki ráðandi eða gerandi í sínu lífi heldur einhver sem flýtur með straumnum og þyggur það sem að honum er rétt - loðna en ekki lax.  Væri fulltrúi úr svoleiðis hópi þitt fyrsta val værir þú að velja einhvern í stjórnunarstöðu?

Konur eru í umræðunni oft svona hópur.  Kennarar eru það líka.  Það er miklu oftar talað um kennara en við kennara. 

Málflutningur oftast sjálfskipaðra fulltrúa kvenna í hópi femínista hefur mjög oft verið á þessari neikvæðu fórnarlambabylgjulengd.  Neikvæður, konur eru fórnarlömb, þær fá ekki þetta og ekki hitt, það þarf að hjálpa þeim með sértækum aðgerðum, styðja þær eins og þær séu ekki fullfærar um að ganga sjálfar.  Þátttakendur í þessari umræðu tala konur niður.  Úr þessu verður stöðug neikvæð umræða í garð kvenna.  Ég held að sú umræða hafi neikvæð áhrif, sérstaklega á sjálfsmynd kvenna - þeir eru litlar og veikburða og geta ekki framkvæmt sjálfar - en einnig á ímynd kvenna í samfélaginu.

Umræða femínista ætti að ganga út á að hampa því sem vel er gert.  Tala konur upp en ekki niður.  Það kostar líklega 1-2 milljónir á dag að setja heilsíðuauglýsingu í Moggann og Fréttablaðið með mynd og umfjöllun um öfluga konu sem er að gera góða hluti í samfélaginu.  Með afslætti væri örugglega hægt að gera þetta fyrir ca. 150 milljónir, annan hvern dag í heilt ár.  Ég er viss um að einhver fyrirtæki væru til í að kosta þetta.  Fyrirmyndir - konur að gera góða hluti á óteljandi sviðum þjóðfélagsins.  Konur sem eru ráðandi í sínu lífi.  Laxar en ekki loðnur.  Þetta væri ekki svo ólíkt efnistökum kvennablaðs Frjálsrar verslunar sem hampar nokkur hundruð konum árlega.  Ég held hins vegar að ekkert mjög margar konur lesi það blað, a.m.k. ekki hin almenna kona.  Hún les ekki mikið Frjálsa verslun.  Þetta gæti verið einn þáttur í að byggja upp ímynd hinnar sterku konu og að auglýsa öflugar konur sem nýta má til stjórnunarstarfa hjá fyrirtækjum, félagasamtökum og hvar sem er í þjóðfélaginu.

Launamunur kynjanna 

Hvað launamun kynjanna áhrærir held ég að VR hafi hitt naglann á höfuðið þegar þeir gerðu auglýsinguna um að konur ættu að biðja um 30% hærri laun en þeim sjálfum fyndist þær ættu að biðja um.  Ég held að launakröfur kvenna og karla litist töluvert af því að 60% kvenna vinna á föstum kjarasamningum hjá hinu opinbera en einungis um 15% karla. 

Þetta fær mig til að draga þá ályktun að þegar konur tali saman um laun þá kvarti þær yfir laununum sínum en upplifi sig fastar í einhverju mynstri kjarasamnings stórs hóps og geti lítil áhrif haft á laun sín nema á margra ára fresti með verkföllum o.þ.h.  Þær og 60% vinkvenna þeirra fái greitt samkvæmt föstum kjarasamningum sem þær upplifa sem óbreytanlega og möguleikan til áhrifa þar á lítinn.

Karlar tala hins vegar sín á milli um það hvað þeim hafi tekist að semja um enda 85% vina þeirra á almennum vinnumarkaði.  Ég tel að þeir upplifi sig mun meiri geranda í sínum launamálum og þeir reyni að semja, jafnvel þótt þeir vinni hjá ríki og sveitarfélögum á föstum samningum.  Allar kannanir sýna að karlar eru líklegri til að vera yfirborgaðir en konur, jafnvel hjá hinu opinbera.  Ég held að það sé vegna þess að þeir eru líklegri til að biðja um það og líklegri til að segja starfinu lausu ef þeir fái ekki laun sem þeir eru sáttir við.

Ég held að þessi breyta, hugarfar kvennanna sjálfra, vegi mjög þungt þegar kemur að launamun kynjanna.  Ég held því að honum verði ekki eytt með lögum heldur með áróðri til kvennanna sjálfra.  Af hverju skyldi ég greiða konu 350 þús. í laun ef hún biður bara um 300 þús.?

Önnur breyta tel ég vera hlutfall launa í heildarumbun/upplifun starfsmanna vegna tiltekins starfs.  Það eru margir aðrir þættir en laun sem skipta máli.  Sveigjanleiki vinnutímans og lengd vinnutímans eru t.d. þættir sem skipta miklu máli sem og tækifæri til yfirvinnu. Mér finnst í kringum mig að konur séu oft tilbúnar að slaka á launakröfum sínum t.d. ef þær eru alltaf komnar snemma heim úr vinnunni eða t.d. ef þær eiga kost á löngum fjölskylduvænum fríum eins og t.d. meðal kennara.  Þeir eru oft komnir heim um svipað leyti og börnin sín, geta unnið mikið heima hjá sér fram á kvöld, fá lengri frí en aðrir um jól, páska og sumar en á móti kemur að þeir taka sér t.d. ekki svo auðveldlega frí á miðjum vetri.  Þetta tel ég að séu þættir sem konur meta hærra en karlar og því eru þær síður líklegri en karlar að hætta í láglaunaðri kennarastöðu launanna vegna.

Allar kannanir í gegnum tíðina sýna líka að karlar vinna að meðaltali lengri vinnudag en konur.  Það hefur áhrif á laun, þ.e. ekki bara að heildarlaunin verði hærri vegna lengri vinnutíma heldur er vinnuveitandinn tilbúinn að greiða hærra verð almennt fyrir starfsmann sem er tilbúinn að helga stærra hlutfall lífs síns fyrirtækinu.

Ég tel mikilvægt að hafa áhrif á þær breytur sem hafa áhrif á ofangreinda þætti.  Það verður ekki gert með lögum, nema hugsanlega með t.d. jöfnum rétti beggja foreldra til fæðingarorlofs sem væri skref í rétta átt.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 3.12.2007 kl. 01:08

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Góður pistill Óliína. Brátta kvenna fyrir jafnrétti og jafnræði hefur verið að missa broddinn í allri efnishyggjunni og konur hafa sofnað á verðinum. Eins og andsvörin hér að ofan bera vitni um er enn hægt að spyrja: Ef að kona talar hug sinn einsömul út í skógi, hefur hún samt rangt fyrir sér?

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.12.2007 kl. 04:25

8 Smámynd: Egill Óskarsson

"Því finnst mér nóg komið af munnsöfnuði og ofstopa þeirra sem ekki eru sammála talsmönnum kvenréttinda hér á netinu. Sumt af því sem hér hefur verið látið fjúka er ekkert annað en rasismi sem beinist að tilteknum skoðanahópi."

Ég er sammála því að heiftin og munnsöfnuðurinn í garð femínista er oft sláandi. En rasismi getur þetta aldrei talist af þeirri einföldu ástæðu af femínistar eru ekki eftir því sem ég best veit skilgreindir sem kynþáttur, allavega ekki skv. neinum þeim forsendum sem teljast viðurkenndar.

Rasismi er ekki það sama og fordómar, rasismi er það sem þeir sem eru haldnir kynþáttafordómum aðhyllast.  

Egill Óskarsson, 3.12.2007 kl. 06:01

9 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég er sammála þeim jóni Frímann, Jóni Steinari og Sigurði. Þar kemur flest fram sem ég vildi sagt hafa.

Öll aðalatriðin í gagnrýni á málflutning femínista snýst að mestu um þetta jafntölujafnrétti sem koma á í æðstu snobbstöðum samfélagsins. En hversu "neðarlega" skal fara. Engin svör. Bara frasar um launamun og karllæg viðhorf.

Því er ekki svarað að þegar meirihluti háskólafólks eru konur og 50% fleiri konur útskrifast sem stúdentar er svo augljóst að engin þörf er að skipta störfum á milli kynja.

Feministar og fylgifiskar þeirra hafa komið sér upp einskonar feminískum sjálfssala sem spýtir út sér frösum en geta ekki með nokkru móti svarað nokkurri gagnrýni. Það er óþolandi.

Benedikt Halldórsson, 3.12.2007 kl. 06:30

10 identicon

Þetta bakslag kemur vegna þess að við sofnuðum á verðinum. Mér finnst afskaplega leiðinlegt að sjá hvað mikið af ungu fólki, ekki síst konur, eru ómeðvitaðar um jafnréttisbaráttuna og út á hvað hún gengur. Þetta unga fólk er að úthúða þeim sem að börðust fyrir þeim sjálfsögðu réttindum og tækifærum sem að þau hafa í dag.

En ég verð þó að segja að þau málefni sem hafa verið á dagskrá undanfarið, sbr bleik eða blá teppi á nýfæddum og karlahorn í Hagkaup eru afleiðingar vandans en ekki orsök. Að einblína á það er varasamt því fyrir þá sem að skilja ekki stóru myndina þá lítur það út eins og "nöldur" eða "feministavæl" eins og við höfum séð mikið af unsanfarið. Svolítið eins og að setja plástur yfir krabbamein. Það þarf að vinna í orsökinni, hugarfarinu, til að breyta hlutum, ekki afleiðingunum.

Linda (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 06:45

11 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ungar konur hafa fullt sjálfstraust til að takast á við hvað sem er og engin fyrirstaða er í fyrirtækjum vegna þess að þau hafa ekki efni á því að ráða ekki hæfasta starfsmanninn hverju sinni. Það þarf enga jafnréttisstofu til að segja þeim það.

Jafnréttið er komið sem betur fer, en það verður að leyfa körlum af erfingjakynslóðinni að klára sín ævistörf og pakka saman sínu hafurtaski í rólegheitum áður en þeir setjast í helgan stein, án þess að gerður sé aðsúgur að þeim eða gert lítið úr þeim. Ef farið er í handaflsaðgerðir til að skipta konum og körlum jafnt á milli valdastarfa væri aðeins verið að búa til misrétti enda væri þá verið að grípa inn í farveg sem er að myndast af sjálfu sér.

Tökum dæmi: Í grein þar sem karlar eru í meirihluta er eðlilegt að yfirstjórn endurspegli hlutföll kynjanna en það er ekki alltaf einfalt. Karlar sem voru aldir upp sem erfingjar þessa lands hafa æft sig betur sem stjórnendur, haft sig meira í frami en konur og látið eins og höfuð ættarinnar. Sjálfstraustið hefur því verið gott en sjálfstraust ungra kvenna er ekki minna en ungra karla.

Já, þegar 50% fleiri konur taka stúdentspróf er framtíð kvennanna björt og alveg ljóst að þeim hefur ekki orðið meint af því að vera stúlkur í ljósbleiku eða bera kvennanöfn. Eftir svona 20 ár verða konur og karlar álíka mörg á þingi og þær munu hafa sig jafn mikið í frami og karlar og munu ekki tvítóna við að mæta í þátt eins og Silfur Egils enda verða álitsgjafarnir og erfingjarnir sestir í helgan stein eða komnir undir græna torfu. Jafnréttið er komið þótt erfingjarnir séu ekki allir dauðir. Tími kvenna er kominn þótt tími forystukarlanna sé ekki alveg liðin.

Benedikt Halldórsson, 3.12.2007 kl. 07:18

12 identicon

Ég er sammála þér Benedikt að skipta konum og körlum jafnt í stöður bara til að hlutföllin séu jöfn er varla áhrifaríkt. Það þarf að vinna í að breyta hugarfari fólks, ekki afleiðingunum eins og ég sagði fyrr. En það er líka varasamt að álykta að þegar 50% fleiri kvenna útskrifist með stúdentspróf að það sé komið jafnrétti. Það eru svo mörg grundvallaratriði sem að koma að þessu, og hlutir sem við gerum og hugsum ósjálfrátt sem að móta okkur. Konur hafa líka alist upp við að trúa því að þær eigi að vera í eldhúsinu, eða að þær séu ekki jafnhæfar körlum, eða geti ekki lært stærðfræði, eða hvað það nú er. Það eru auðvitað undantekningar, en það afsakar ekki né útskýrir regluna. Sem barn þá langaði mig að verða smiður, en það voru bæði karlar og konur sem að sögðu mér að það væri karlavinna. Margar hugmyndir eins og þessar eru ennþá fljótandi um en við gerum okkur ekki grein fyrir því. Ég er ekkert að segja að allir hugsi svona, og ég er sammála þér varðadi karla af erfingjakynslóðinni (og konum væntanlega líka ) en það er eitthvað af þessum hugsunarhætti sem hefur tekið fótfestu í unga fólkinu í dag. Afhverju er það? Ég bara skil þetta ekki.

Linda (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 07:44

13 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir ljómandi pistil Ólína.Það er einnig kominn tími til að við karlar stöndum upp til varnar femínistum í jafnréttisbaráttunni. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 3.12.2007 kl. 08:02

14 identicon

Orðið femínisti (eða -ismi) er hálfmisheppnað eða í besta falli fráhrindandi nú á tímum. Ef á karla er hallað einhvers staðar og ég vil endilega berjast fyrir bótum þar á ætti ég þá að kalla mig maskílista? Jafnrétti er eitthvað sem lang-, langflestir vilja stuðla að og styðja en það er hálfpirrandi að þeir sem harðast berjast fyrir umbótunum skuli kenna sig við annað kynið og sífellt tala um karla eins og um einn hóp sé að ræða: Karlar eru í meirihluta í stjórnum stórra fyrirtækja, karlar nauðga konum, karlar tala niður til kvenna og svo framvegis. Karlar eru alls konar. Til dæmis eru til karlar sem komast ekkert áfram á sínum vinnustað, karlar sem sækjast ekki eftir frama, fá lægri laun er aðrir fyrir sambærilegt starf, karlar sem er illa farið með á heimili sínu og meira að segja karlar sem Egill karlar aldrei á í þáttinn sinn. En þessir karlar eru ekki fórnarlömb misréttis eins og konur því þeir tilheyra kyni sem að meðaltali hefur mestu völdin í þjóðfélaginu. Ekki satt?

Eru kynin eini mælikvarðinn á jafnrétti?

"Samt er enn langt í land að þær njóti kjara og tækifæra til jafns við karlmenn. Enn eru stjórnir fyrirtækja að stærstum hluta skipaðar körlum." Af hverju koma stjórnir fyrirtækja alltaf fyrst upp í hugann? Um leið og hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja nær 50%, t.d. meða lagasetningu, er þá jafnrétti náð?

Styðjum jafnrétti allra. Verum jafnréttissinnar, baráttufólk fyrir jafnrétti allra.

Magnús (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 09:32

15 Smámynd: Sævar Helgason

Er þetta ekki baráttan endalausa ?  Er ekki vandinn sá að genin eru ekki þau sömu hjá karli og konu ?  Það er erfitt við þetta að eiga þegar heilastarfsemin er annarsvegar-- og þó svo okkur takist að knýja fram breytingar hjá parti úr einni kynslóð- þá koma bara nýjar kynslóðir með þessi sömu gen og baráttan heldur áfram--endalaust...

Skoðið bara söguna ..þetta er svona smá innlegg í umræðuna

Sævar Helgason, 3.12.2007 kl. 11:34

16 Smámynd: Steinn Hafliðason

Sæl Ólína,

Ekki er ég nú sammála mörgu í þínum pistli þó að ég sé sammála því að umræðan þurfi að vera á hærra plani en hún er í dag. Bleikur smábarnafatnaður og afdrep fyrir viðskiptavini í Hagkaup er eitthvað sem skipta ekki máli í þessu samhengi. Skítkast, upphrópanir, uppnefni ýmis konar á báða bóga og jafnvel einelti er því miður einkenni þessarar umræðu og eiga bæði karlar, konur og feministar sök í því máli.

Hins vegar er ég mjög sammála Sigurði Viktori Úlfarssyni sem commentaði hér að ofan að flestu leyti. Þegar umræðan kemst þá það stig sem hann heldur henni á og við förum að ræða um staðreyndir og það sem skiptir máli þá held ég að framgangur jafnréttis eigi eftir að verða mun hraðari en hann er í dag.

Bestu kveðjur

Steinn Hafliðason, 3.12.2007 kl. 11:42

17 identicon

Mér finnst líka fyndið að femínistar í FÍ segist vera að berjast fyrir jafnrétti. 90% af þeim málum sem þau taka upp snúa að konum. Svo snúa málefni þeirra oft að afleiðingum vandans ekki orsökum.

Þótt að konur séu ekki 50% af stjórnendum landsins þýðir ekki að þær fái ekki jöfn tækifæri á við hina. Það er t.d. gömul klisja að stjórnendur og eigendur ráði frekar karla en konur af því að þeir eru fyrirvinnan á heimilinu. Konur fá jafnmörg tækifæri en kjósa síður að nýta sér þau en karlar. Það vilja femínistar í FÍ ekki viðurkenna og telja þetta samráð karla og karlaklíkunnar að viðhalda karlaveldinu í þessu karlveldi sem við búum í. 

Svo er máflutningur þeirra gegnumsýrður af fordómum í garð karlmanna. Mýtan að allir/flestir karlmenn séu perrar og troði kynfrelsi kvenna sér um fætur. Fæ á tilfinninguna að allir karlmenn séu frekar kynferðislega skaddaðir. Líka mýtan um að karlmenn beiti frekar börnin sín ofbeldi, alltaf verið að berjast gegn kynbundnu ofbeldi í garð kvenmanna. Sem þýðir að smk. þeirra skilning eru aðeins karlmenn sem beita konur og börn ofbeldi, rannsóknir hafa samt sýnt fram á annað.

Svo er ég mjög ósammála þeim aðferðum að setja lög um allt. Við breytum ekki samfélagi með lagasetningum. Þær halda t.d. að vændi hverfi ef að það sé bannað. 

Svo eru þær alltaf að röfla um jafnrétti, vilja fá konur í vellaunaðar stjórnunarstöður. Eru völd virkilega fólgin í því ? Svo eru þær alltaf að tala um aðgang að fjármagni, af hverju reyna þær ekki að fá konur til að mennta sig í iðnmennt ? Þekki fá iðnmenntaða verkamenn, eða verkstjóra sem eru með minna en miljón í laun á mánuði, ég hef ekki heyrt neitt talað um það. Rafvirkinn eða píparinn og smíði(er ekki líkamlega erfitt í dag) eru allt störf sem myndu henta konum.

Svo seigast þær vera að berjast fyrir jafnrétti en láta kvenlæg sjónarhorn ráða öllu, það fer ekki saman að mínu mati, það er kvenréttindabarátta. Jafnréttisbarátta myndi taka sjónarmið karl og kvenmanna með í reikninginn.

Bjöggi (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 12:05

18 Smámynd: Ólafur Jónsson

Menn eiga ekki að vera dónalegir að sjálfsögðu ekki, þó þeir séu ekki sammála einvherjum. En það má ekki gleymast að femínistar eru nokkuð gjarnir á að flokka menn í miður fallega flokka ef þeir eru ekki sammála þeim. Ef manni finnst eitthver aðferð extreme eða röng, þá er maður strax stimplaður sem maður sem er á móti jafnrétti. Ef maður er ekki sammála þeim í málum sem tengjast strippstöðum eða vændi þá er maður með því að misnota konur, er viðbjóðslegur, og hefur ekkert kynnt sér málið. Segðu mér er þetta kurteisi og málefnalegt þegar menn eru að rökræða, ég þræti ekki fyrir að menn séu dónalegir við þær á blogginu en að vera sagður móti jafnrétti og með því að koma illa fram við konur vegna þess að maður er ekki sammála er mjög dónalegt.

Þannig mér finnst svolítið eins og steini sé kastað úr glerhúsi þegar kemur að þessum hleypidómum enda sýnist mér þetta vera aðal vopn femínista.

Ólafur Jónsson, 3.12.2007 kl. 12:26

19 identicon

Eitt af því sem Femínistar hafa gert, og sem hefur dregið úr trúverðugleika þeirra, er að þeir hafa teigt á orðnotkun út fyrri náttúrulega merkingu þeirra.

Má þar nefna nauðgunar- og ofbeldis-hugtökin.

Dæmi: "Vændi er nauðgun" og "klám er ofbeldi" 

Fransman (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 12:59

20 identicon

Dálítið merkileg umræða hér í kommentakerfinu. Ég tek eftir því af þeim 25 kommentum sem hér eru komnar þá er ég þriðja konan sem kommentar. Af hverju ætli það sé?

Allavega, í byrjun þegar rauðsokkurnar voru og hétu, þá voru þær útmálaðar sem lessur meira og minna, þannig upplifði ég þær sem krakki og af umhverfinu sem ég ólst upp í, karlakellingar sem allar voru stuttklipptar í bomsum og í ullarpeysum. En þær gerðu kraftaverk og mörkuðu spor í þjóðfélagið okkur til góða sem á eftir komum.

Hins vegar hafa femínistar ekki alltaf farið rétt að, eins og t.d. að breyta gangbrautarljósakallinum í konu. Svona óþurftarmál gerir lítið úr jafnréttisbaráttunni. Í raun er ég sammála í megin dráttum stefnu þeirra, en hvernig þær fara að hlutum stundum er þeim ekki til framdráttar. Vissulega er það þeirra réttur að afþakka að koma fram í einhverjum þætti, en þær meina að þessi þáttur sé kallaþáttur með kallaívafi og að þær horfi ekki á hann, en það eru margir sem horfa á Silfrið og það er alveg hægt að ná til fólks í þætti þó maður þoli ekki þáttastjórnanda eða þáttinn sjálfan.

Vissulega vil ég jafnrétti, og það mun alltaf vera munur á okkur kynjunum en jafnréttið gerist ekki á einni nóttu, góðir hlutir gerast hægt. Við konur getum kennt okkur sjálfum um, við höfum alið upp börnin að mestu undanfarna áratugi og það erum við sem þurfum að breytast fyrst og fremst, ekki kallarnir.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 13:04

21 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sælt verið fólkið.

Það er gaman að sjá lífleg viðbrögð við þessum pælingum mínum hér fyrir ofan. En nú eru ritsmíðarnar orðnar svo langar að mér vex hálfpartinn í augum að reyna að svara öllu. Læt það því vera - en staldra aðeins við  nokkur atriði.

Jón Steinar telur það ofmælt hjá mér að tala um "rasisma" gegn tilteknum skoðanahópi. Ég stend nú samt við það sem ég sagði. Þegar ég nota þetta orð er ég ekki að tala um alla þá sem hafa mótmælt sjónarmiðum femínismans. Ég er að vísa til  ákveðinna öfgasjónarmiða sem hafa verið sett fram, aðallega hér í bloggheimum.

Málið er, að það er farið að tala við femínista  eins og þær séu óæðri kynþáttur. Þær konur sem eru í forsvari fyrir kvenréttindaumræðunni nú um stundir fá yfir sig svívirðingar og uppnefni sem eru mörg hver ekki eftir hafandi. (Raunar finnst mér ofrausn af Jóni Steinari að telja mig með þessum forystukonum, þó ég sé kvenréttindakona og þar með femínisti). En margt af því sem sagt hefur verið eru meiðandi ummæli sem eru setti fram til þess að særa og niðurlægja. Þú fyrirgefur Jón Steinar - en slík umræða á fátt skylt við rökræðu. Hún á hinsvegar margt skylt við rasisma eins og ég skil það orð. Rasismi í mínum huga felur í sér fyrirlitningu, andúð og niðurlægingu gegn tilteknum hópi fólks. Þar með er ég ekki að nota það hugtak yfir alla þá sem andæfa femínistum - síður en svo. Og mér finnst t.d. óþarfi af þér að taka þetta til þín.

Varðandi það að verið sé að þvinga jöfnuð upp á konur án þess að sambærileg áhersla sé lögð á það að "þvinga jöfnuð upp á önnur minniháttar karl-læg störf" eins og Jón Steinar orðar það. Ég vil bara benda á að það eru jafnréttislögin sem kveða á um jákvæða kynjamismunum, og efnislega þýðir það að ef ráðið er í starf þar sem annað kynið er í minnihluta fyrir þá beri að ráða einstakling af hinu kyninu, að því gefnu að um jafnhæfa umsækjendur sé að ræða. Það er auðvitað grundvallaratriði. En í þessum lögum eru konur ekki tilgreindar sérstaklega, heldur einungis það kynið sem er í minnihluta. Þessi lög voru sett af Alþingi Íslendinga, ekki af femínistum.

Hitt get ég tekið undir að jákvæð ímyndarsköpun skiptir máli. Og einmitt þess vegna er mikilvægt að konur séu sýnilegar í opinberri umræðu, hvort sem það er á síðum dagblaða, í sjónvarpi eða útvarpi. Það skiptir líka máli að þær séu sýnilegar fyrir það sem þær eru að afreka í daglega lífinu, og að verk þeirra séu metin að verðleikum. 

Arnþór - ég þakka þér fyrir að eyða aðeins meiru púðri í rökstuðninginn en í fyrstu athugasemd. Raunar er ég þér ekki sammála varðandi það að Egill Helgason hafi verið lagður í "einelti". Hann hefur verið gagnrýndur, að mér finnst réttilega, fyrir rýran hlut kvenna í þáttum hans. Ég sé ekki að það sé neitt einelti fólgið í því, ekki hefur hann verið uppnefndur eða svívirtur af neinum mér vitanlega.  Ég er ekki endilega sammála því heldur að það hafi verið rétt að sniðganga þáttinn hans - en það vakti vissulega athygli á málstaðnum, ekki satt?

Að lokum varðandi þá athugasemd þína að þér hafi verið meinaður aðgangur að síðunni. Ég sé ekki að IP-talan þín hafi nokkru sinni verið bönnuð hjá mér (nema þú hafir skipt um tölvu). Hinsvegar hefur það komið fyrir að ég hef lokað fyrir allar athugasemdir í einstaka bloggi - það er nokkuð sem á sínar orsakir. Hugsanlega hefur hittst þannig á einhverntíma þegar þú reyndir að koma inn. Í slíkum tilvikum gengur eitt yfir alla - ekkert persónulegt

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.12.2007 kl. 13:09

22 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Allir fordómar, hvort sem þeir eru kynþáttalegir eða kynlægir eru ekki vitsmunalegir á neinn hátt. "Fyrrirlitningin, andúðin og niðurlægingin" sem fólk sýnir þeim sem það er haldið fordómum gegn, eru tilfinningalegs eðlis. Rök, staðreyndaupptalning og fortölur virðast gagnast lítið til að viðkomandi breyti um skoðunn og hegðun. Fordómar eru í innsta eðli sínu tilfinningaleg þjónkun við ósannindi. Það gildir einu hvaða nafni við köllum sjúkdómseinkennin, sjúkdómurinn er hinn sami. 

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.12.2007 kl. 13:34

23 identicon

Góður pistill Ólína. Umræða í tengslum við kvenfrelsisbaráttuna held ég að hafi alltaf, og muni alltaf, fara fyrir brjóstið á vissum hluta fólks, það er að segja þeirra sem eru íhaldssamir og óttast breytingar. Það hefur einfaldlega alltaf þótt frekja af konum að krefjast frekari réttinda og það er bara nokkuð sem fólk verður að muna. Lausnir helstu andmælenda femínista eru yfirleitt á þá leið að femínistar eigi að hætta allri baráttu og ef eitthvað eigi að breytast, gerist það af sjálfu sér. Það er svosem í lagi að vera á þeirri skoðun en það er þó alls ekki mat allra. Þau réttindi sem konur hafa áunnið sér undanfarin ár og árhundruð hafa einmitt komið til vegna baráttu en ekki af sjálfu sér. Þannig er það ekki lausn sem "allir ættu að sætta sig við" að femínistar hættu að vera femínistar og losuðu sig við allan brodd í sinni baráttu.

Það er alveg rétt að litir á klæðnaði barna á fæðingardeild eru ekki mikilvægustu baráttumál í heimi. Ég held að allir femínistar gætu tekið undir það, meira að segja Kolbrún Halldórsdóttir sem setti fram fræga fyrirspurn á Alþingi í síðustu viku. Það var bara einfaldlega fyrirspurn, ekkert meira og ekkert minna. Þau rök, að verið sé að eyða tíma alþingis í vitleysu halda ekki vatni af því að í fyrsta lagi var þetta ekki þingsályktunartillaga eða frumvarp og í öðru lagi er sífellt verið að spyrja ráðherra mismikilvægra spurninga um allt og ekkert. Allar eru þær aðgengilegar á vef Alþingis fyrir þá sem ekki trúa.

Svo skil ég ekki með nokkru móti af hverju fólk setur sig mjög eindregið upp á móti því að breyta starfsheiti ráðherra. Allt í lagi að líta svo á að það sé ónauðsynleg breyting -en af hverju er hugmyndin öfgafyllri heldur en að breyta starfsheiti dagmæðra í dagfeður?

hee (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 13:53

24 identicon

Meinti dagforeldra...

hee (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 13:53

25 identicon

jákvæða kynjamismunum er líka eitt það fáránlegasta sem ég hef nokkurtíman kynnst og enn ein tilraun stjórnvalda til að breyta samfélaginu með lögum. Sagan hefur sýnt að samfélögum er ekki breytt með lögum heldur breyta samfélög lögunum. Lög eru samin og þeim breytt eftir ríkandi gildum og siðum sem ríkja hverju sinni. 

Ef að ég er atvinnurekandi og vill ráða karl í eitthvað starf þá á ég að mega það, líka ef ég vill ráða frænda minn eða frænku, öðru máli finnst mér gegna um störf hjá ríkinu eða opinberum hlutafélögum. Ef að ég sé hag í því að ráða bara karlmenn þá á ég að eiga rétt á því að ráða bara karlmenn. Ef ég sé hag minn í því að ráða bara rauðhært fólk með freknur þá á ég að mega það. Ef ég sé hag minn í því að ráða bara pólverja í ákveðnar stöður þá má ég það. 

Atvinnurekendur og fyrirtækjaeigendur hljóta að reyna að ráða hæfasta starfsfólkið sem býðst sama hvaða kyni það er.

Málið er bara að ef við ætlum að ná fram jafnrétti og jöfnum launum þarf hugarfarsbreytingu hjá konum, ekki körlum eins og femínistar vilja meina.

Bjöggi (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 14:08

26 identicon

Polly H, ég má til með að draga í efa að þeir sem vilji ekki beita róttækum baráttuaðferðum kallist frekar en aðrir "ný kynslóð". Ég er ekki að segja að róttækar aðferðir séu hið eina rétta í heiminum eða að önnur sjónarmið eigi ekki rétt á sér. En það er ekkert nýtt við það að telja að jafnrétti sé komið eða komi af sjálfu sér. Þvert á móti hefur það alltaf verið minnihlutahópur sem hefur barist hvað harðast fyrir jafnrétti kynjanna og, þrátt fyrir allar úrtölur, fengið sínu fram hægt og rólega. Rauðsokkur börðust á sínum tíma fyrir rétti kvenna til fóstureyðinga sem mörgum fannst öfgafullt þá en sjálfsagt núna. Bríet Bjarnhéðinsdóttir og fleiri börðust fyrir hundrað árum síðan fyrir kosningarétti kynjanna og mættu mikilli andstöðu fólks sem ýmist taldi óþarfi að konur kysu eða að slíkt mætti bíða betri tíma.

hee (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 14:23

27 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Vonandi hugsa allir foreldrar, konur og karlar um framtíð dætra sinna.

Í þinum sporum myndi ég ekki kvíða framtíð dætra þinna jafn vel ættaðar og þær eru.       En það er annars umhugsunarefni að tvö orð sem kannski eiga að hafa svipaða merkingu vekja ólík viðbrögð en þau eru:   Kvennréttindakona, sem vekur jákvæð viðbrögð allra og hinsvegar femínisti, sem vekur blendin viðbrögð margra.  Hugsiði ykkur ef jafn óumdeild og vinsæl samtök eins og Kvennréttindasamband Íslands, myndi breyta um nafn og yrði kallað "Femínistasamband Íslands"  Ég hef mínar skýringu á þessu, að hluta til, en kýs að hafa hana fyrir mig. 

Ég hlakka rosalega til að fylgjst með þér og ykkur öllum Vestfirðingunum í spurningakeppninni.

Sigurður Þórðarson, 3.12.2007 kl. 14:46

28 identicon

Hildur, hverju eru femínistar að berjast fyrir núna sem fólki finnst ekki sjáflsagt. Er það jöfn laun eða að konur megi ekki komast í stjórnunarstöður. Það er enginn að halda konum niðrði af því að eitthver er ekki sammála FÍ. Það finnst engum öfgafullt að borga konu góð laun eða setja hana í stjórnunarstöðu. 

Svona ummæli eins og Hildur Edda láta upp hérna eru lýsandi fyrir hugsunarhátt femínisma og þá veruleikafirru sem þær viðast lifa í. Heimurinn er ekki eins og þær eru að lýsa honum. Það er enginn að berjast gegn því að konur fái sömu réttindi. Fólk er frekar að deila hversu langt við séum komin í þessari baráttu og um aðferðir. Af því að við erum ekki sammála þér Hildur þýðir ekki að við viljum ekki sömu hlutina. Það er akkúrat svona málflutningur sem hefur gert fólk andhverf FÍ.

Reyndar held ég að rótæk aðferð femínista sé úrelt og gömul, ný kynslóð karla og kvenna tekur ekki vel í þær aðferðir sem þær vilja beita, Pollý er gott dæmi um það og gott dæmi um kvenmann sem er búin að tileinka sér réttan hugsunarhátt. Hún er ekkert síðri en hinir og getur gert það sem henni lagar til ef hún tekur sig til. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 14:48

29 identicon

Sko, ég vil ekki fara ofan í sömu skotgrafir en þú en finnst það óneitanlega freistandi. Í fyrsta lagi tala ég ekki fyrir FÍ, það er bara nokkuð sem þú ert að gefa þér.

Það sem fólki finnst oft öfgafullt eru oft á tíðum baráttuaðferðir femínista og róttæknin. Ég veit að fleiri hafa sömu markmið án þess að deila hugsjónum um baráttuaðferðir -sjálf er ég til dæmis ekki sú róttækasta þó svo að ég vilji „gera eitthvað“ í stað þess að bíða eftir að launajafnrétti og fleira náist af sjálfu sér. Ég veit að þú deilir ekki sömu sýn-en hvaða efni hefur þú á því að dæma um hvað er réttur hugsunarháttur og ekki? Ég leyfi mér líka að stórefast um að þú vitir betur um hvað þú ert að tala þegar þú belgir þig um það hvernig "heimurinn sé".

Þú talar um að róttækar aðferðir tilheyri fortíðinni og að Pollý sé dæmi um kvenmann sem hefur tileinkað sér „réttan hugsunarhátt“. Fyrirgefðu en þau ummæli þín lýsa vel vanþekkingu þinni á sögunni sem og hroka. Í fyrsta lagi ítreka ég að róttækar aðferðir tilheyra fortíðinni ekkert frekar eða betur heldur en nútímanum því að þeir róttæku hafa alltaf verið í minnihluta. Ergo: Fólk sem talar og hugsar eins og Pollý er og hefur alltaf verið til og það er akkúrat ekkert nýtt við það.

Svo frábið ég mér þínar skilgreiningar á því hvað er réttur hugsunarháttur og hvað ekki. Þú getur verið eins sannfærður og þú vilt sjálfur en í guðanna bænum ekki halda að þú getir sagt mér til um það. Ég hef enga trú á að þú hafir  höndlað einhvern alsannleika, ekki frekar en Sjálfstæðismenn hafa trú á að VG viti hver rétti hugsunarhátturinn er!

hee (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 15:06

30 identicon

Polly, ég virði alveg þessa sýn þína og er sammála því að það sé ógerningur að ætla að breyta öllu einn tveir og núna. Enda er það að mínu mati ekki markmið, heldur er markmiðið að halda baráttunni áfram í stað þess að slaka á á "lokasprettinum".

Semsagt: Ég tel tíma róttækra aðgerða vera núna eins og hingað til, og að þróunin verði áfram hæg eins og hún hefur alltaf verið. Ekkert muni hins vegar miða áfram án þessarar baráttu sem hefur alltaf og mun alltaf fara fyrir brjóstið á þeim sem er illa við róttækni. Um það verðum við einfaldlega að vera sammála um að vera ósammála.

hee (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 15:35

31 identicon

Ég er ekkert í minni eða meiri skotgrafarhernaði en þú Hildur. 

Róttækt hefur alltaf verið í minnihluta voru hipparnir ekki róttækir, eða nasistar eða konurnar sem komu frönsku byltingunni af stað eða bolsevikar í Rússlandi. Þú hefur greinlega enga þekkingu á sögu en kýst samt að lifa í forrtíðinni. Konur sem hugsa eins og Pollý hafa alltaf verið til en í minnihluta, þessvegna er staða konunnar eins og hún er í dag. Konur þurfa að læra að standa upp og trúa á sjálfan sig en ekki spila sig sem fórnarlömb eins og þú ert að gera Hildur. Hún er partur af nýrri kynslóð kvenna sem hefur trú á sjálfum sér og þorir að taka þátt í leiknum sem strákarnir hafa spilað hingað til.

Bjöggi (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 15:37

32 identicon

Konurnar sem börðust fyrir kosningarétti kvenna voru í minnihluta um 20.aldamótin og fólk sem stundar mótmæli hér á landi er í miklu minnihluta. Það eru mjög margir náttúruverndarsinnar hér á landi en ótrúlega fáir úr þeirra röðum grípa til róttækra baráttuaðferða til verndar náttúrunni, enda finnst öðrum þær ýmist vera öfgafullar eða ekki til þess fallnar að skila neinum árangri. Öllum er frjálst að hafa sína skoðun -en þeim sem eru almennt á móti róttækni og beinum aðgerðum er engan vegin stætt á að dæma hina róttæku sem öfgafulla eða að þeir hafi ekki rétt á sínum sjónarmiðum. Það er ekkert annað en hroki að halda slíku fram og ekki þér og þínum til framdráttar.

Og jú -konur sem börðust á róttækan hátt fyrir kosningarétti á Íslandi voru í minnihluta þó svo að ýmsir aðrir hafi talið að kosningaréttur kvenna væri sjálfsagður -það kæmi bara að honum þegar tími væri til.  Á sama hátt vilja róttækar nútímakonur grípa til aðgerða til að ná fram launajafnrétti. Þú og þínir líkir hafið rétt á ykkar skoðunum en það þýðir ekki að þið hafið endilega rétt fyrir ykkur um að slíkar aðgerðir séu í eðli sínu öfgafullar.

Í guðanna bænum (aftur) ekki vera að gera mér upp það að leika eitthvað fórnarlamb eða annað kjaftæði og eins mikið og þú kannt að halda að þú vitir ástæður fyrir misrétti kynjanna þá þýðir það ekki að þú hafir þar með rétt fyrir þér.

Hroki fer þér jafn illa og þeim sem þú ert að gagnrýna, mundu það.

hee (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 15:53

33 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Jafnréttislögin sem kveða á um jákvæða kynjamismunum, vinna gegn konum. Þau eru bara tekinn bókstaflega hjá Hinu opinbera með þeim afleiðingum að karlar sækja síður um stöður hjá Ríkinu. Ríkið borgar lægri laun en einkafyrirtæki. Það má segja að konur séu orðnar að vinnukonum ríkisins á lágum launum eins og ein góð kona sagði sem rekur einkaskóla.

Ég er sífellt að benda að þá staðreynd að 50% fleiri stúlkur útskrifast sem stúdentar. Strákar eru líklegri til að detta úr skóla og það er ekki hátt risið á þeim skal ég segja ykkur.

Konur munu smátt og smátt sækja í störf sem karlar hafa svo til eingöngu sinnt en best launuðustu störfin eru hjá einkaaðilum.

En konur eru bara eins og aðrir menn og hafa mismunndi áhuga og metnað. En ég fullyrði að hið staðnaða niðurnjörvaða samfélag sem var, er löngu horfið. Að sjálfsögðu áttu rauðsokkur sinn þátt í þeirri góðu breytingu. En þótt andstaða hafi verið við þær á upphafsárum baráttunnar má ekki rugla þeirri andstöðu  saman við andstöðu við málflutning femínista sem er að sá tortryggni og meintm karllægum viðhorfum sem muni hindra konur að ná þangað sem þær stefna að, nema með refsingum og handafli.

Munurinn er sá að karlar höfðu önnur viðhorf en karlar í dag. Þeir vita að þegar konur eru betur menntaðri en karlar er þeirra tími svo sannarlega kominn. Menntunin er besti mælikvarðinn ásamt ótal dæmum sem ættu alveg eins og segja konum að tíma þeirra sé runnin upp.

Þegar rauðsokkur voru að byrja sína baráttu voru nánast allar konur heimavinnandi og miklum minnihluta í Háskóla. Samanburðurinn er ótrúlegur.

Stjórnendur fyrirtækja eru ekki heimskingjar með karllæg viðhorf. Þeir velja hæfasta fólkið hverju sinni, og enn og aftur, konur eru jafnhæfar í þau störf og karlar í þeirri grein sem þær sérhæfa sig í. Það er bara svo einfalt.  

Hið nýja frumvarp þar sem ríkið ætlar að ríkisvæða ákvarðanir einstakra einkafyrirtækja til samræmis við stefnu Ríkisins er ekki konum til framdráttar síður en svo. Konur þurfa EKKI femíníska göngugrind til að ná þangað sem þær stefna að.

Betra væri að sleppa öllum jafnréttisáætlunum og leyfa hverjum ráðningastjóra að ráða hæfasta einstaklingin hverju sinni. Konur munu stórgræða á því, vegna þess að ALLIR viti bornir karlar eru algerlega meðvitaðir um að konur séu svo sannarlega ekki síðri starfskraftar eða stjórnendur en karlar.

Slík jafnréttisviðhorf eru fyrir hendi og þess vegna þurfa konur og karlar ekki lengur á jafnréttislögum að halda, hvað þá refsistefnu til að koma þeim því á með handafli sem er þegar til staðar.

Áróður femínista um karllæg viðhorf byggja á veruleika sem var, veröld sem var, en sífellt er klifað að hún sé enn fyrir hendi og því til sönnunar er allt tínt til sem "sannar" hana en því er sleppt sem segir aðra sögu.

Benedikt Halldórsson, 3.12.2007 kl. 16:11

34 identicon

Mikið er gaman að sjá í eitt skipti umræðu um eldfimt málefni sem hefur haldist nokkuð málefnanleg í gegnum heil 43 atkvæði! Gleður mitt litla hjarta!

Ég verð að hrósa Sigurði Viktori Úlafssyni sérstaklega fyrir hans pistil, aðallega af þeirri ástæðu að þar talaði hann út úr mínu hjarta og kom með nákvæmar og skilmerkilegar útskýringar á launamun kynjanna.

Ég deili þeirri skoðun flestra hérna að þessar örfáu konur sem eru í forsvari fyrir Femínistafélag Íslands skemma mikið fyrir með ómálefnanlegum málflutningi og öfgastefnu.

Ég er líka sammála því að róttækar aðferðir eigi ekki rétt á sér - mér finnst öfgar af hvaða taginu sem er aldrei réttlætanlegir.

Einhver kom hérna með tillöguna um áróðursherferð þar sem sjónum væri beint að sterkum konum í leiðtogahlutverki. Sú hugmynd finnst mér ein sú besta sem komið hefur upp í langan tíma. Við vitum öll hversu mikil áhrif áróður hefur, hvort sem hann er jákvæður eða neikvæður, nú eða hreinlega algerlega hlutlaus. Góð dæmi eru Sesar, Hitler, Coke og áróður fyrir bílbeltanotkun og tannburstun. Frábær hugmynd og finnst mér að höfundur ætti að reyna að koma henni á framfæri hið snarasta!!

Annar talaði hérna um að konur hefðu sama sjálfstraust og karlar. Hér verð ég því miður að vera ósammála þér. Allavega hvað varðar ungar stúlkur. Nýleg rannsókn á sjálfsmati stúlkna í  efri bekkjum grunnskóla Reykjavíkurborgar leiddi í ljós að stúlkur hafa marktækt lægra sjálfsmat en drengir. Þetta er því miður staðreynd. Og á meðan þetta er svona munu ungar konur ekki biðja um 30% hærri laun en þeim sjálfum finndist þær ættu að biðja um (þótt ég geri það hiklaust! ).

Nýr hringur (ef orða má það sem svo) byrjar með börnunum, og því finnst mér mikilvægt að leikskólar taki upp skýra jafnréttisstefnu, eins og margir hafa gert. Því lengi býr að fyrstu gerð og ef það þeim er kennt frá blautu barnsbeini að stelpur og strákar eru jafnir, þá mun það skila sér út í þjóðfélagið. Skýra jafnréttisstefnu segi ég, vegna þess að ef þetta er ekki skilgreint nákvæmlega þá er hætt við því að hugsunarhátturinn komist ekki til skila. Það er nefnilega þannig að þótt okkur finnist jafnrétti sjálfsagt í orði þarf að framkvæma það í orði svo að það verði sjálfsagt mál fyrir krakkana.

Lilja Sif Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 17:13

35 Smámynd: Egill Óskarsson

"Rasismi í mínum huga felur í sér fyrirlitningu, andúð og niðurlægingu gegn tilteknum hópi fólks."

Nei rasmismi getur aldrei þýtt neitt annað en kynþáttafordómar eða einhvers konar kynþáttastefna. Þetta orð er enskusletta og þar er orðið sett saman úr 'Race' sem þýðir kynþáttur og svo endingunni '-ism'. 

Þetta eru bara fordómar, mér finnst það alveg nógu sterkt orð. 

Egill Óskarsson, 3.12.2007 kl. 17:19

36 identicon

Sæl Ólína

Eftirfarandi tilvitnanir í skrif eins af þeim yfirlýsingaglöðu femínistum sem hafa sig hvað mest í frammi gætu skýrt hversvegna bæði sumu góðu fólki hitnar í hamsi og hinum stóryrtu rugludöllum netheima tekst á auðveldan hátt að draga umræðuna eftir svaðinu.

  • „Á www.mbl.is eru 16 flipar: Forsíða, viðskipti, íþróttir, enski boltinn, fólkið, bloggið, stjörnuspeki, barnaland, fasteignir, atvinna, bílar, smáauglýsingar, gagnasafn, myndasafn, morgunblaðið og embla. Á forsíðunni - hinum eiginlega fréttavef - eru svo 6 flokkar: Innlent, erlent, fólkið, viðskipti, íþróttir og tækni og vísindi. Þetta er ótrúlega karllægt - og ekki bara það, heldur mjög litað af staðalmyndum og samfélagslega viðurkenndum hlutverkum kynjanna. Af hverju er hvergi sér flokkur um mannréttindi, um félagslegt réttlæti eða umhverfistengd málefni?“ 22. desember 2006.
  • „Í Sómalíu þykir fólki eðlilegt að limlesta kynfæri kvenna. 90% kvenna eru með limlest kynfæri þar í landi. Á Íslandi þykir fólki eðlilegt að framleiðendur kláms þar sem endaþarmur ungra kvenna er eyðilagður komi hingað til lands í þeim tilgangi að framleiða, dreifa og markaðssetja efnið.“ 18. september 2007.
  • „Brot á lögreglusamþykkt borgarinnar eru skv. dagbók lögreglunnar í langflestum tilfellum framin af körlum. "Miðbæjarvandinn" er í raun karllægt vandamál, ekki ósvipað drengjaorðræðunni í grunnskólunum.“ 29. október 2007.

Einungis eru tekin orfá dæmi úr sjóði þess femínista sem hefur haft sig hvað mest í frammi, fólk sem talar svona er hreinlega að leita eftir umræðu í skolplagnahæð. Mikið af skrifum þessara kvenna einkennist af yfirlýsingagleði, alhæfingum og jafnvel hatri í garð allra þeirra sem eru svo óheppnir að hafa ekki fæðst sem konur.

Annað sem er að mínu mati mjög einkennandi fyrir þessa umræðu femínista er að mestu púðri er eitt í fjölda kvenna í stjórnum og ætlaðan launamun í efri lögum þjóðfélagsins. Sem að mínu mati er vegna þess að sá litli hópur sem hefur að eigin mati öðlast hina einu réttu sín á sannleikan er að mestu vel menntaðar konur í þeim hinum sömu efri lögum. Ég held að ég sé ekki að ofmæla þegar ég segi að engin þeirra ca. 20 kvenna sem mest hafa sig í frammi hefur nokkurn tíman skrifað greinarkorn þar sem talað eru um konur sem eru á lægstu launum, né heldur ræða þær um að breyta starfsheitum á greinum sem eru þeim ekki hugleiknar. 

Hvað hafið þið oft séð villtar umræður um hver sé besta kvenmynd orða eins og pípari, bifvélavirki, sjómaður ofl, öllu púðrinu er eitt í það hróplega óréttlæti og helstu ástæðu misréttis hvort menn nota orðið starfsheitin ráðherra, forstjóri og stjórnarformaður nú eða hvort ungabörn klæðist bleiku eða bláu.

Ég vona að ég verði ekki stimplaður kynþáttahatari vegna þessara skrifa.......

virðingarfyllst

Elías Pétursson 

Elías Pétursson (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 18:10

37 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Heyr Heyr.     Virkilega flottur pistill hjá þér Ólína.  Sorglegt að sumir skuli ekki átta sig á að jafnrétti er öllum til góðs.  

Marinó Már Marinósson, 3.12.2007 kl. 18:58

38 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Elías, hvers vegna ættir þú að vera kynþáttahatari fyrir þessi skrif? Ég sé engar svívirðingar eða munnsöfnuð í þessum skrifum þínum. Að  vísu tekur þú full sterkt til orða þegar þú talar um að talsmenn femínista "hati" þá sem eru þeim ósammála. Ég get nefnilega ekki séð neitt hatur í þessum dæmum sem þú tínir til - það má kannski kalla þetta ofurviðkvæmni eða eitthvað álíka, en hatur er það svo sannarlega ekki. 

Það gleður mig þó að langflestir þeirra sem hér hafa talað að þessu sinni hafa haldið málefnum til haga -  það er fyrir mestu. Fyrir vikið er mun áhugaverðara að taka þátt í umræðunni og fylgjast með henni en annars væri.  

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.12.2007 kl. 21:47

39 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sæl aftur,

Heljarinnar umræða sem þú hefur komið af stað Ólína.  Gott mál.  Þakka hrósin hér að ofan.

Launamunurinn er tvenns konar:  Annars vegar persónulegur munur þegar konur og karlar hlið við hlið sem standa sig jafnvel í starfi fá ekki sambærileg laun og hins vegar þegar hópar þar sem meirihlutinn eru konur hafa mun lægri laun en hópar þar sem meirihlutinn eru karlar. 

Sigríður Svavarsdóttir sagði: "En verðum  við ekki að  treysta á ráðamenn sem að kosnir eru á hið háa alþingi, að  breyti launamuninum".  Sigríður, þeir munu aldrei breyta launamuninum.  Honum verður aldrei breytt með lögum.  Það er bara popúlismi og/eða vanþekking sem fær álitsgjafa í fjölmiðlum til að halda því fram.  Meðan konur biðja um lægri laun en karlar munu þær fá lægri laun en karlar.  Meðan þær hætta ekki í núverandi starfi í sama mæli og karlmenn ef þeim finnst launin óeðlilega lág þá munu þær fá þau áfram.  Einungis konurnar geta breytt launamuninum.  Enginn annar.  Með því að biðja um 30% hærri laun en þær ætluðu að biðja um s.b. auglýsinguna frá VR.  Þetta á við um einstaklingsbundna launamuninn.

Nú eru fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn í óða önn að halda því fram að það sé bara hægt að hækka laun lægstu hópanna og búmm! málinu sé reddað.  Allt óréttlætið sé úr sögunni. Þetta er ekki svona einfalt.  Ef þetta væri svona einfalt væri fyrir löng búið að lagfæra þennan mun.  Vandamálið með raðir er að það eru alltaf einhverjir aftarlega og að lokum einhver aftastur.  Ef verkalýðshreyfingin er tilbúin að breyta innbyrðis röðun milli hópa þá getur hún það með kröfum sínum og samstarfi milli hópa.  Einn hópur getur sagt, "ok, við bíðum.  Hækkum hina og síðan hækkum við næst eftir þrjú ár.".  Það hefur bara enginn hópur boðið sig fram til þess.  Því fara breytingarnar alltaf upp allan stigann og við endum með sömu stöð og áður nema munurinn núna og fyrir nokkrum árum er að nú er krafan 200 þús. kr. lágmarkslaun en ekki 100 þús. kr. lágmarkslaun eins og hún var fyrir nokkrum árum.

Laun eru spurning um framboð og eftirspurn.  Meðan það er framboð af körlum eða konum í þessi störf fyrir þessi laun þá verða launin óbreytt.  Meðan konur bjóða sig fram til að vinna á lágum launum þá fá þær lág laun.  Þetta er kannski kalt orðað hjá mér en samt raunveruleikinn.  Það getur enginn breytt þessu nema þær.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 4.12.2007 kl. 02:28

40 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Annað, aðeins bjartsýnna.  Núna er "babyboom"/eftirstríðsárakynslóðin að fara á eftirlaun á næstu 10 árum.  Sú kynslóð er verulega stærri á vinnumarkaði á Íslandi og í Evrópu en þær kynslóðir sem á eftir koma.  Þessi kynslóð er í flestum stjórnunarstörfum í álfunni í dag.  Því mun á næstu 10-15 árum myndast mikið rými fyrir nýja stjórnendur.  Konur eru tveir þriðju hlutar þeirra sem útskrifast úr háskólum í dag.  Við munum því væntanlega sjá verulega breytingu á samsetningu vinnumarkaðarins, þ.m.t. í stjórnunarstöðum næstu 10-15 árin...ef konurnar hafa áhuga á því sem ég tel að ný kynslóð þeirra hafi.  Byggjum því öfluga Íslendinga með gott sjálfstraust og metnað, karla og konur.  Það verður nóg fyrir þetta góða fólk að gera á næstu áratugum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 4.12.2007 kl. 02:33

41 identicon

Já Sigurður: takk fyrir þitt innlegg.  Ég er innilega sammála þér með að virkja börn til framtíðar. Eftir því sem að við foreldrar erum duglegri við að byggja upp sjálfstraust barna okkar og hvetja þau áfram verða þau virtari í þjóðfélaginu. Ég vil meina að meiri hluti af kynslóðinni  sem  á  börn í efribekkjum og framhaldskólum landsins, urðu flest fyrir fyrsta áfallinu í uppeldinu, vegna þess að þeir foreldrar urðu fyrstu lyklabörnin og reiddi misjafnlega af.  Þau urðu óörugg sem er eðlilegt, og vissu hreinlega ekki um hvað lífið átti að snúast. Þjóðfélagið var ekki til búið til að hjálpa þessum foreldrum til að brúa bilið á milli vinnu og skóla. Það er ekki langt síðan að skólar tóku upp á að hafa heita máltíð og opna Frístundaheimili þar sem að börnin eru örugg þangað til að foreldrarnir sækja þau. Það er svo margt sem að á eftir að taka á sig aðra mynd áður en allt á að detta í það horf sem að fólkið vill í dag. Á meðan Þjóðarsálin er óörugg og særð, þarf að huga betur að uppeldismálum, því að börnin okkar eru framtíðin og þau þurfa að sjá og heyra eitthvað annað en þreytu og arðmæðu foreldra. það er lítill tími eftir til að sinna börnunum eftir vinnu. Vinnan gengur fyrir. Munum líka að það geta ekki allir menntað sig sökum fátæktar og  einbeitingar skorti fjölda fólks sem að var ekki haldið utan um í skóla og kvatt áfram að fjölskyldu sinnar og skóla. Við skulum líka horfa til skólanna,  það er greinilega ekki sama hvað þau læra í Háskólum landsins, það er helst viðskiptafræðin sem að gefur laun eins og staðan er í dag...en alls ekki að vinna með fólk,,, sem er auðurinn okkar allra til framtíðar,,, svo skríðið sem að það hljómar.

Sigríður Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 10:15

42 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Notumst við íslensku til að flækja ekki málin. Frjálsleg túlkun á orðinu "rasismi" er einungis til þess fólgin að valda misskilningi og veikja hugtakanotkun. Allur rasismi eru fordómar en ekki eru allir fordómar rasismi. Höldum okkur endilega við raunverulega merkingu orða í opinberri umræðu.

Tel mig jafnrættissinnaðan mann og hef enga fordóma gegn því ágæta kyni. Agli Helgasyni er þó vorkunn að halda úti pólitískum umræðuþætti í karllægu samfélagi. Samt hefur þetta lagast og er á réttri leið. Feministar þurfa engan ofstopa, þetta kemur allt með kalda vatninu. Boltinn er löngu byrjaður að rúlla en það tekur tíma fyrir hann að vaxa fiskur um hrygg.

Páll Geir Bjarnason, 4.12.2007 kl. 12:42

43 identicon

Polly H: Það er alveg rétt að sjálfsmat óharðnaðra unglinga er allt annað en fullorðins fólks, sem betur fer, og líklega langflestir sem geta samsamað sig við þann vitnisburð þinn um að sjálfstraustið byrjar að batna eftir því sem árin líða og fólk eldist. En það gerist bæði hjá strákum og stelpum sjáðu til. Líklegt er því að marktækt lægra sjálfsmat stúlkna í efri bekkjum grunnskóla hafi forspárgildi fyrir lægra sjálfsmat ungra kvenna á vinnumarkaðinum (sem sést einmitt á þeirri staðreynd að konur biðja um lægri laun en karlar). Bilið er til staðar á grunnskólaárum, og þetta getur mögulega gefið ákveðna vísbendingu um að bilið sé einnig til staðar hjá fullorðnu fólki, hvort sem bilið hafi minnkað eitthvað eða staðið í stað.

Það er líka annað sem ég vil velta upp varðandi þetta Polly, og það er: af hverju er sjálfsmat stúlkna svona miklu lægra? Hlýtur ekki að vera eitthvað í umhverfinu sem verður til þess að einn hópur hefur marktækt lægra sjálfsmat en hinn hópurinn?

Þetta er nefnilega svo merkilegt, drengjum og stúlkum er hrósað fyrir mismunandi hluti og þar af leiðandi er mismunandi hegðun styrkt eftir því af hvaða kyni þú ert, svona almennt talað. Og hver hagnast á því? Á meðan ungar stúlkur hafa marktækt lægra sjálfsmat og að auki er þunglyndi og aðrar kvíðaraskanir mun algengari meðal kvenna (af öllum aldrei) heldur en karla, þá eru ungir karlar í mun meiri sjálfsvígshættu en ungar konur, eiga frekar í námserfiðleikum að stríða, detta frekar út úr framhaldsskóla og leita sér síður hjálpar, bæði vegna líkamlegrar og andlegrar vanlíðunar.  Bæði kynin tapa.

Ég er enn og aftur sammála Sigurði Viktor þegar hann spáir því að á næstu 10-15 árum eigum við eftir að sjá verulega breytingu á samsetningu vinnumarkaðarins. Ég er persónulega mjög bjartsýn á þetta allt saman og er ekki að benda á þessar staðreyndir til að vera með eitthvert volæði hérna. Alls ekki . En lengi býr að fyrstu gerð og hver einasta kynslóð getur orðið aðeins betri en hin næsta, ef við erum meðvituð í uppeldi á börnunum okkar og kennum þeim strax frá fyrstu tíð að jafnrétti er eitthvað sem á ekki einu sinni að þurfa að hugsa út í heldur er það bara.

Lilja Sif Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 12:42

44 identicon

"Af öllum aldrei" átti að vera "á öllum aldri", bara svona svo þetta skiljist...

Lilja Sif Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 12:48

45 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Held að það sem gerir fólk reitt eru að feministar eru að ganga of langt.  Ég upplifi mikla niðurlægingu með þessum endalausa aumingjastimpli á konur og ef maður er ekki sammála þá er maður heimskur eða voða mikið krútt að halda eitthvað annað.

Konur á íslandi eiga ekki langt í land.  Það er jafnréttindi sem á langt í land og það er fáranlegt að berjast bara fyrir rétti annars kynsins og sjá djöfulinn í öllum hornum.   Feministar taka sér það hlutverk að tala fyrir hönd allra kvenna og auðvita gerir það mann reiðan.

Ef einhver er að breyka bilið á milli kynjana þá eru það feministar.  

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 4.12.2007 kl. 13:24

46 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

Þetta er svipað og gerist með civil rights hópa svertingja í Bandaríkjunum um 1990, þegar öll réttindi voru jöfnuð þá breytust sumir hóparnir eins og black panthers í forrétinda-rasisma hópa, þetta er eflaust það sama með feminista, þegar það er lítið eftir til að berjast fyrir þá byrja hóparnir að berjast fyrir forréttindum.

Alexander Kristófer Gústafsson, 4.12.2007 kl. 16:23

47 identicon

Það er ýmislegt í þessari umræðu sem sem mig langar að kommentera á.  Fyrst á það sem Lillja Sif segir um mikilvægi þess að ala börn upp í jafnréttisanda - það er nákvæmlega það sem ég hyggst gera með mín börn og hef mesta trú á að skili árangri. Það er erfitt að breyta heilu samfélagi en það er hægt að hafa áhrif með því að hugsa fyrst um sjálfa sig og þá sem standa manni næst. Ég hygg þó að ég muni beita örlítið öðrum aðferðum en Lilja Sif sem mér sýnist ætla að segja börnum sínum að jafnrétti sé náð - og því er ég ekki sammála. Kannski á hún við að jafnrétti sé sjálfsagt, og þar er ég á sama máli.

Mér sýnist líka að ýmsum þeirra sem hér hafa lagt orð í belg muni þykja það gróf móðgun við sig og sína heimsmynd að ég skuli dirfast að halda því fram að jafnrétti sé ekki náð í dag. En fyrir mér er ekkert jafn augljóst, þó vissulega hafi jafnréttisbaráttan skilað okkur miklu. Launamunur kynjanna er staðreynd og þó eflaust megi toga launatölur í ýmsar áttir með alls kyns talnabrellum situr samt eftir raunverulegur munur. Eins og einhver benti hér réttilega á kann hann að hluta til að helgast af því að konur vinna mun frekar hjá ríki og bæjarfélögum en karlmenn og þar er oft ómögulegt fyrir einstaklinga að hafa áhrif á launatékkann sinn auk þess sem fjárhagsstaða einkafyrirtækja gefur oftast svigrúm til hærri launa almennt en fást hjá ríki og borg. Það sem ég held aftur á móti að hafa líka nokkuð að segja í þessu samhengi er að störf sem hefð er fyrir því að konur vinni - oft umönnunarstörf - njóta einfaldlega ekki jafn mikillar virðingar og önnur karllægari störf, t.d. í fjármálageiranum. Og þetta skilar sér líka inn í ríkisstofnanirnar. Hver ætli sé t.d. ástæðan fyrir því að viðskiptafræðingur með þriggja ára háskólanám að baki (karl eða kona) er á hærri launum hjá LSH en ljósmóðir með 6 ára háskólanám? (þeim sem efast um námstíma ljósmæðra skal bent á að svona hefur þetta verið um 15 ára skeið þó eldri ljósmæður hafi margar styttra nám að baki). Séu rökin þau að viðskiptafræðingum bjóðist nú svo góð kjör annars staðar að LSH verði að gjöra svo vel að gera vel þá svo einhverjir fáist í vinnu, hvernig er þá hægt að útskýra það að ekkert gerist í launamálum ljósmæðra þrátt fyrir það að heill útskirftarárgangur hafi neitað að ráða sig á spítalann þegar sárvantar fólk? Þær voru svo frekar og yfirgangssamar (eru konur stundum ekki kallaðar það þegar þær sækjast eftir sjálfsögðum hlutum?) að fara fram á hvorki meira né minna en 285 þúsund krónur í grunnlaun, sem er náttúrulega bara brandari fyrir þetta ábyrgðarmikla starf (fyrir þá sem ekki vita koma læknar ekki að fæðingum á Íslandi nema að vera kallaðir til af ljósmóður sem þarf þá að greina og bregðast við öllu sem upp getur komið í fæðingum, auk þess auðvitað að sinna þörfum konunnar á allan hátt). Nú þegar hefur næsti útskriftarárgangur lýst því yfir að þær ætli að gera það sama og þá verður gaman að sjá hvort eitthvað gerist í launamálum. Af þessu dæmi er augljóst að það að koma launamun kynjanna yfir á konur með því að segja að þær biðji ekki um nóg er út í hött, það virkar ekki við við allar aðstæður. Auðvitað fara konur að biðja um það sem þær halda að þær geti fengið (285 þús) að stað þess að biðja um það sem þeim finnst þær eiga skilið. Eða hver haldið þið að viðbrögðin hefðu verið ef þær hefðu beðið um 400 þúsund?

Svo er ég með eitt komment til hans Bjögga sem heldur því fram að karlar beiti börn sín ekki frekar ofbeldi en konur. Hvaðan fékk hann þá flugu í höfuðið?  Að sjálfsögðu eru fæstir karlar og konur mikið í því að beita ofbeldi, sem betur fer, en staðreyndin er engu að síður sú að karlar beita MIKLUM mun frekar ofbeldi en konur, og þá bæði konur, börn og aðra karlmenn. Ég er ekki að segja þetta til að kasta rýrð á karlmenn almennt eða til að upphefja konur, enda hafa margir aðrir þættir en kyn áhrif á breytni einstaklinga. Þetta er engu að síður staðreynd. Karlar eru líkamlega sterkari en konur og það er ekki hægt að neita því að í því felst ákveðið vald. Og sumir kunna ekki að fara með það. Konum er nauðgað, það þarf ekki annað en að lesa blöðin til að sjá það - og nei, ég er ekki að fara fram á það að körlum verði nauðgað til jafns við þær. Þegar frjásræði kvenna til að klæðast því sem þær vilja og fara einar þangað sem þær vilja er skert tel ég mig ekki búa í jafnréttissamfélagi. Maðurinn minn getur gengið óttalaus niðri í miðbæ um helgar einn síns liðs. Jú, vissulega gæti hann verið barinn niður að ástæðulausu, það hefur gerst, en ef hann skiptir sér ekki af annarra manna rifrildum upplifir hann sig öruggan. Það held ég að gildi um flesta karlmenn. Ætli það séu margar konur sem finnast þær vera öruggar undir sömu kringumstæðum? Ég man ekki betur að það hafi nýverið birst könnun í Fréttablaðinu sem sýndi að konur eru flestar smeykar að ganga um götur seint á kvöldin. Sumir mundu kalla það skynsemi, ég kalla það skerðingu á mannréttindum. Er eitthvert jafnrétti í því að kona og karl sem bæði búa á Grettisgötunni geti ekki jafn áhyggjulaus gengið heim til sín eftir kvöldvakt á Landspítalanum? Ofbeldi gegn konum er þjóðfélagsmein - og jú, jafnréttismál.

Góðar stundir.

 Erla Rún.

Erla Rún (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 23:51

48 identicon

Jú, það var reyndar það sem ég átti við - að jafnrétti er sjálfsagt Ég held að það finnist það öllum (nema mögulega einhverjum einstaka óþroskuðum Gillzenegger týpum, sem eiga líklega bara eftir að þroskast upp úr því, og svo mögulega einhverjum af eldri kynslóðinni - en það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að fólk gjörbreyti sínum hugsunarhætti eftir því sem tíðarandinn býður því), og því var það sem ég talaði um skilgreinda jafnréttisstefnu í leikskólum, svo að litlu hlutirnir sem við gerum af gömlum vana af því að þannig er menningin okkar, séu endurskoðaðir kerfisbundið.

Annars vil ég leiðrétta eitt hjá henni Erlu Rún, og það er að þótt að það sé rétt að karlar beiti mun frekar líkamlegu ofbeldi en konur, þá þýðir það ekki að karlar beiti frekar ofbeldi í heild sinni en konur. Reyndin er sú að konur eru mun duglegri en karlar við að beita andlegu ofbeldi (sem er síst betra en líkamlegt). 

Lilja Sif Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 11:57

49 Smámynd: GeirR

Sæl Vinkona !!

Sumir eru mjög hissa á harkaleg viðbrögðum margra karla við skrifum Sóleyjar og Co.

Hvað segir þú um þennan texta. Er þetta femínismi eða rasismi ?

"Brot á lögreglusamþykkt borgarinnar eru skv. dagbók lögreglunnar í langflestum tilfellum framin af  SVERTINGJUM. "Miðbæjarvandinn" er í raun SVERTINGJA vandamál, ekki ósvipað oðræðunni  HJÁ SVÖRTUM BÖRNUM í grunnskólunum. Vanlíðan SVERTINGJA brýst út í ofbeldi og óspektum á almannafæri svo tekið er eftir og brugðist er við. Vanlíðan HVÍTRA brýst sjaldnar út. Þeir fara frekar inn í sig og láta lítið fyrir sér fara." .... "SVERTINGJAR berja hvern annan úti á götu en beita HVÍTA ofbeldi í skjóli friðhelgi einkalífsins. Sorglegt en satt."

Ég held að flestir séu sammála um að þetta sé argasti rasismi.

Það eina sem er gert hér er að skipta út "Karlar" með "Svertingi" og "Konur" með "Hvítur"

Þarna er verið að yfirfæra hegðun einstaklinga yfir á alla karla. Þetta er rauður þráður í umræðu Sóleyjar og Co og ekkert er óeðlilegt vip að mótmæla þessum hatursfulla málflutningi harkalega.

GeirR, 5.12.2007 kl. 15:30

50 Smámynd: Kolgrima

Góður pistill, Ólína. Man líka eftir bjartsýninni og baráttugleðinni á kvennafrídaginn - jafnréttið var handan við hornið.

Kolgrima, 5.12.2007 kl. 16:05

51 Smámynd: Jóhann Kristjánsson

Sæl  Ólína. Mig langar langar að byrja á að ég fagna allri umræðu um baráttu fyrir bættum hag kvenna.En mig langar einnig að benda á að samkvæmt stefnu feminista snýst baráttan um bættann hag kvenna fyrir konur, Sem er auðvitað gott og gilt. En kvennréttindabarátta og jafnréttisbarátta er ekki sama hugtakið.. það væri nú mjög líklega ekkert hlustað á að karlar væru í jafnréttisbaráttu ef þeir væru aðeins að berjast fyrir sínum réttindum þá væru þeir í karlréttindabaráttu. Ég held að það sé lang farsælast fyrir feministana að fara að nota rétt hugtak fyrir sína baráttu en vera ekki að nota orð eins og (jafnréttisbarátta) þegar meginmálið er að berjast fyrir réttindum kvenna. Í ýmsum öðrum málum lúta karlar í lægra haldi fyrir konunum... T,d í forsjármálum. NOTUM RÉTT HUGTÖK :)

Jóhann Kristjánsson, 5.12.2007 kl. 21:20

52 Smámynd: Halla Rut

Sammála Jóni Frímanni.

Halla Rut , 5.12.2007 kl. 21:49

53 Smámynd: Bjartmar Oddur Þ Alexandersson

Nú hef ég ákveðið að það sé nóg komið í þessum umræðum. Ég hef ákveðið að stofna Jafnréttisfélag Íslands og hvet ég fólk til að skrá á síðunni minni Jafnréttisfélag Íslands mun einbeita sér að bæta hag beggja kynja og stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði og í samfélaginu. Það er tími til kominn að fólk þessa ágæta lands rísi upp á móti þessum umræðum sem eru að eiga sér stað hér og við förum að einbeita okkur að hlutnum sem er mikilvægur. Jafnrétti kynjanna, kvenna og karla. Hættum að reyna fylla krukkuna af smásteinum og förum að gera það sem rétt er. Endilega mætið á síðuna mína og skráið ykkur í commentunum.

Bjartmar Oddur Þ Alexandersson, 6.12.2007 kl. 00:43

54 identicon

Að klæða nýæfddar stelpur í bleikt gerir ekki annað en flýta fyrir þeirri félagsmótun, sem gengur út á að gera þennan helming mannkynsins að "krúttlegum dúllum".  Það er einmitt þessi kvenímynd (bleika prinsessuímyndin) sem þvælist fyrir þegar kemur að því að biðja um kauphækkun og láta taka mark á sér. Sjá athyglisvert efni Jónu Valborgar Árnadóttur um þetta efni.

Ragnar

ragnar (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 10:39

55 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Er ég karlremba ef ég tek undir það sem margir hafa sagt, en það er að jafnréttisbarátta sé kvenréttindabarátta?

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 8.12.2007 kl. 00:39

56 identicon

Jafnréttisbarátta hlýtur að vera kvenréttindabarátta fyrst og fremst, ef menn eru á þeirri skoðun (eins og ég), að það halli á konur á fleiri þýðingarmiklum sviðum en karla. Þar með er ég ekki að gefa mér fyrirfram, að öll baráttumál karla séu léttvæg.

Ragnar

ragnar (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband