Ráðherra - ráðsmaður - ráðskona - ráðslag .....
27.11.2007 | 20:11
Ég veit að ég er ekki að bregðast við nýjustu fréttum. Samt verð ég að koma aðeins inn í þessar vangaveltur um ráðherranafngiftina - og þá tillögu Steinunnar Valdísar að fundið verði nýtt heiti yfir ráðherra.
Þó ég sé hafi oft verið sammála Steinunni Valdísi, þeirri mætu konu, þá get ég ekki tekið undir með henni núna.
Tungumálið sjálft er söguleg heimild. Það á við um starfsheiti, orðatiltæki og hvaðeina. Enn tölum við um að leggja árar í bát, vaxa fiskur um hrygg, skara eld að eigin köku - svo tekin séu fáein dæmi úr daglegu máli sem þykir gott og gilt. Hið fagra orð ljósmóðir er söguleg heimild um þá staðreynd að það voru fyrst og fremst konur sem sinntu barnsfæðingum. Ég sé enga ástæðu til þess að breyta starfsheitinu þó að karlmaður sinni því, enda vandfundið fegurra orð.
Sama á við um ráðherra. Orðið herra er hvort sem er gamalt orð sem við notum eiginlega ekki lengur nema við hátíðlegustu tækifæri. Það er barn síns tíma, eins og séra. Þegar fyrstu kvenprestarnir tóku vígslu var um það deilt hvort þær gætu borið titilinn séra þar sem hann þýðir einmitt herra (sbr. enska orðið sir). En hví skyldu konur ekki geta verið herrar í merkingunni sá/sú sem ræður? Var ekki Bergþóra kona Njáls sögð drengur góður - og kynsystur hennar margar hverjar skörungar, jafnvel vargar ef því var að skipta.
Þó tekur steininn úr þegar konur vilja ekki vera menn, til dæmis blaðamenn og alþingismenn heldur aðgreina sig sérstaklega sem blaðakonur og alþingiskonur. Ekki skólastjórar heldur skólastýrur.
Nei - ég nenni ekki að taka þátt í þessu, enda veit ég ekki hvaða endi þetta ætti þá að taka. Ég hef verið blaðamaður um mína daga, borgarfulltrúi, skólameistari, háskólakennari og rithöfundur - þetta eru allt karlkynsorð til vitnis um tíma sem voru áður og fyrr. Mér þykir vænt um þessi orð og ég vil ekki eigna þau öðru kyninu þó að þau beri þeim uppruna vitni að hafa einhverntíma verið karlmannsverk. Þann dag sem enginn tekur lengur eftir því hvort starfsheiti er kk, kvk eða hk - þann dag hafa skapast alvöru forsendur fyrir kynjajafnrétti.
En svo ég hagi mér nú eins og útsmoginn lögfræðingur - þá er ég að hugsa um að setja fram varakröfu varðandi þetta mál með ráðherrana: Ef menn vilja endilega taka upp kynskiptingu í nafngiftum - þá bendi ég á tvö orð sem bíða þess bara að verða tekin úr sínu hverfandi hlutverki og sett í nýtt. Þetta eru þau virðulegu starfsheiti "ráðsmaður" og "ráðskona"
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég stakk nú í mínu bloggi upp á heitinu ráðstjóri því að það heiti hefur hingað til ekki verið til í íslensku og vekti því engan misskilning.
Ef það er ónothæft vegna þess að það er karlkyns þá líst mér bara ekki á málið. Þá þurfum við rífa allt málið upp og útrýma heitunum bílstjóri, kórstjóri, vélstjóri, skipstjóri, skiptastjóri, skólastjóri o. s. frv.
Skólastjóri Kvennaskólans? Má ekki, - eða hvað?
Og hvað um orðið harðstjóri? Ef það er kona sem á í hlut, á það þá að vera harðstýra?
Ómar Ragnarsson, 27.11.2007 kl. 20:59
Ráðherra ræður gangi mála og leysir úr brýnum málum þjóðarinnar.
Það mætti kannski kalla karlráðherrann "ráðleysir " og kvennráðherrann "ráðleysu"
Sævar Helgason, 27.11.2007 kl. 21:01
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.11.2007 kl. 22:26
Ráðhagur: er orð sem að kom í huga minn við þessa lesningu. Gæti það ekki átt við bæði kynin? Ég finn það ekki í stafsetningarorðabók síðan 1981 en það er aftur á móti í púkanum, Hann setur ekkert út á það. Ég legg það hér með í hugmyndabanka ykkar.
Sigríður Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 22:41
Sama hvað er rétt eða rangt hef ég aldrei heyrt talað um bílstýru eða dýralæknu....
Gunnlaugur Snær Ólafsson (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 23:28
Var ekki Bergþóra sögð drengur góður þar sem talið var að hún legði ástarhug til kvenna. Sem sagt fyrsta Íslenzka lesbían sem sagnir herma.
Annars legg ég ti að farið verði að ráðum Sigurjóns Þórðarsonar og karlráðherrar verði nefndir goð og kvenráðherrar freyjur (mætti vera gyðjur)
Td,
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir = utanríkisfreyja (gyðja)
Björn Bjarnason = dómsgoð(i)
Níels A. Ársælsson., 27.11.2007 kl. 23:34
Mér flaug í hug viðskeytið "ynja", en það er notað um kvenkyn sumra dýrategunda. Utanríkisráðherra yrði þá utanríkisráðynja og umhverfisráðherra væri þá umhverfisráðynja
En Ólína, það kemur upp ný staða með "maka ráðherra" eins og makinn er kallaður nú um stundir, eftir að konur gerðust svo djarfar að gegna þessum störfum. Upphaflega kallaðist makinn einfaldlega "ráðherrafrú". Ef sú staða kæmi upp að varakrafa þín næði fram að ganga yrði til "maki utanríkisráðskonu".
Ég held að við ættum bara að halda okkur við ráðherrana.
Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 23:53
Sæl og blessuð Ólína!
Í þetta sinn er ég ósammála þér, en sammála Steinunni og finnst hún bara vera svolítill Pönkari að koma með þetta, hrista svona upp í á margan hátt stöðnuðum tíðaranda!Og hverjar sem svo lyktir málsins verða, þá hefur Steinunn Valdís aldeilis með þessu, komið snjóbolta til að rúlla niður brekkuna sem stækkar og stækkar, heilu samkeppnirnar komnar í gang vegna þessarar tillögu hennar!
Svo ertu nú ekki alveg í takti með þessar varatillögur þínar, allavega ekki hvað varðar ráðskonuna, því ég veit ekki betur en allavega Stígamótakonur hafi lengi endurnýtt heitið, ef ekki Feministafélagið líka og nefnt sínar aðalmenneskjur ráðskonur! Þetta minnir mig endilega, en biðst auðvitað forla´ts ef ég fer með rangt mál!
Magnús Geir Guðmundsson, 27.11.2007 kl. 23:58
Er ekki nóg að segja bara : Herra eða Frú ? Það hefur dugað okkur hingað til. kv.
Georg Eiður Arnarson, 28.11.2007 kl. 09:37
Mér líst vel á ráðynju! Það er flott tillaga - kannski ég endurskoði hug minn
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.11.2007 kl. 11:11
Svo eru líka hvorugkynsheitin spliff og donk (úr samhenginu "Spliff, donk og gengja"); merkja ekki neitt sérstakt (hvorki ráð-, stjórn-, vald-, eða annað) og gætu tengst orðunum maki, undir- , yfir- og fleirum án teljandi óþæginda. Undirspliff, donkmaki, yfirdonk...
Væntanlega þyrfti þó að grafa upp höfundaréttinn fyrst; voru það ekki Radíusbræður eða Tvíhöfði sem komu með þetta fyrst?
Quackmore, 28.11.2007 kl. 11:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.