Hengilssvæðið er verðmæti

hengill2 Ég tek heilshugar undir þau mótmæli sem sett hafa verið fram gegn þessum virkjunarframkvæmdum. Á vefsíðunni hengill.nu  má finna bréf til skipulagsyfirvalda sem fólk getur prentað út, undirritað og sent. Efni þessa bréfs er skýrt og skilmerkilegt. Ég lét ekki á mér standa að prenta út, undirrita og setja í póst mín mótmæli, svohljóðandi:

Ég undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur
á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:

 

Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar 2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni, byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu.

Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa hhöfuðborgarsvæðisins og afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss.

 

Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst höfuðborgarsvæðinu.

Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði friðað til frambúðar.

Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem lét gera umhverfismat og ber kostnað af því.  Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór hagsmunaaðili erí raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn. Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar.

Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.

 
mbl.is Telja að virkjun muni spilla ómetanlegri náttúruperlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sæl Ólína og þakka þér fyrir að taka undir í umræðunni um þetta brýna hagsmunamál sem snertir alla Íslendinga - því hver veit hvar borið verður niður næst með virkjunar- og stóriðjudraumana.

Reyndar er slóðin ekki með .is heldur .nu.
Hún er því www.hengill.nu.

Sem mikill náttúruunnandi og einn aðstandenda síðunnar vil ég hvetja alla Íslendinga til að senda Skipulagsstofnun og Sveitarfélaginu Ölfus athugasemdir.

Því fleiri sem það gera í hvert sinn sem á að leggja náttúruperlur í rúst vegna gróðarsjónarmiða, því betra og vænlegra til árangurs.

Látum ekki stela frá okkur landinu og ómetanlegum auðævum þess og leggja í rúst!

Baráttukveðja,
Lára Hanna

www.hengill.nu - www.icelandguide.is

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.10.2007 kl. 15:13

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hér eru stórkostlegar myndir sem sýna betur en nokkur orð geta gert
hve undursamleg náttúrufegurð er í húfi:

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/351625/

Kveðja,
Lára Hanna

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.10.2007 kl. 15:29

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir ábendinguna, er búin að breyta hlekknum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.10.2007 kl. 15:59

4 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Finnst stundum að of mikil tilfinningasemi sé í gangi þegar verið er að mótmæla byggingu á hinu og þessu. 

Við verðum að átta okkur á því að stundum þarf að fóran einhverju til þess að fá annað í gegn.  Það er mun auðveldara að fá fólk til þess að mótmæla heldur en til þess að styðja eitthvað.  "Hávær" mótmæli eiga líka greiðari aðgang að fjölmiðlum heldur en ástæðan fyrir einhverri byggingu eða mannvirki.

Ég vil alls ekki gera lítið út því að mótmæla en stundum er fólk bara að mótmæla til þess að mótmæla, og veit ekki hvað verið er að mótmæla ....

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 30.10.2007 kl. 16:58

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég get fullvissað þig og aðra um það, Gísli Bergsveinn, að við vitum hverju við erum að mótmæla.

Þarna á að fórna gríðarlegum verðmætum fyrir hugsanlegt álver í Helguvík.
Virkjana- og álversfíknin er orðin sjúkleg í íslensku þjóðfélagi og fyrir vikið hafa stjórnvöld hvorki litið til hægri né vinstri
heldur ætt áfram á hraða ljóssins og ekki hikað við að fórna meiri verðmætum fyrir minni
og stela landinu og auðlindunum frá þjóðinni.

Og hver græðir?  Ekki íslenskur almenningur, svo mikið er víst.
Peningarnir fara í fárra manna vasa, fyrirtæki verða ef til vill einkavædd, þau sem ekki hafa verið það nú þegar,
ganga síðan kaupum og sölum og lenda hjá hæstbjóðanda. 
Hvað verður þá um tvær af verðmætustu náttúruauðlindum Íslendinga, heita vatnið og hreina loftið?

Eins og svo oft áður er byrjað á vitlausum enda og flýtirinn svo mikill að ekki er staldrað við til að íhuga
þörfina og afleiðingar þess sem á að framkvæma. Og það er meira að segja vitað og viðurkennt
að virkjunin sem um ræðir verður gagnslaus eftir um 40 ár! En eyðileggingin er óafturkræf og eilíf.

Ég held stundum að við sem vinnum við ferðaþjónustu gerum okkur betur grein fyrir en margir aðrir
hve stórkostleg verðmæti felast í ósnortinni náttúru Íslands því oft metur fólk ekki að verðleikum
hvað sem það hefur við bæjardyrnar og tekur því sem sjálfsögðum hlut.

En sú reynsla að upplifa náttúru landsins með augum útlendinga sem hingað koma
og eru vanir gjörólíku umhverfi - það er lífsreynsla sem getur breytt manns eigin hugarfari til frambúðar.

Á Hengilssvæðinu er náttúran mjög fjölbreytt og segja má, að á litlu svæði geti fólk séð sýnishorn af flestu því sem prýðir íslenska náttúru víðast hvar um landið. Þetta sést mjög vel á myndunum í myndasafninu á http://www.hengill.nu/ auk slóðarinnar http://photo.blog.is/blog/photo/entry/351625/ sem minnst er á í athugasemd hér að ofan.  Hér er líka önnur slóð þar sem fjallað er meðal annars um Hengilssvæðið: http://notendur.centrum.is/~ate/tenglar.htm.

Kveðja,
Lára Hanna


Lára Hanna Einarsdóttir, 30.10.2007 kl. 17:20

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ómar er að venju með góðar vangaveltur um þetta málefni hér:

http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/351828/

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.10.2007 kl. 20:51

7 Smámynd: Harpa Elín

Mæli eindregið með myndunum hans Kjartans, http://photo.blog.is/blog/photo/entry/351625/, algjörlega frábærar myndir af einstöku svæði!

Harpa Elín, 30.10.2007 kl. 22:24

8 Smámynd: Þórunn Þórarinsdóttir

það er gott til þess að vita að það er til fólk sem lætur sig málin varða. Fátt er eins hættulegt og skeytingaleysi, Sérstaklega þegar svo undursamleg verðmæti sem náttúran á í hlut

Þórunn Þórarinsdóttir, 30.10.2007 kl. 22:42

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Rányrkja á HellisheiðiSkrifað af Framtíðarlandinu    30. okt. 07

Í tilefni af frummatsskýrslu um virkjanir OR á Hellsheiði vill Framtíðarlandið vekja máls á eftirfarandi:

Það er sláandi að í frummatsskýrslunni kemur fram að orkuvinnslan sé „ágeng“, eins og það er kallað. Á mannamáli heitir það að vinnslan stendur ekki undir sér til lengri tíma, heldur mun hitastig og vatnsborð fara stöðugt lækkandi. Í Bitruvirkjun er enda gert ráð fyrir að bora fyrst 27 vinnsluholur en síðan nýja holu á um það bil 3 ára fresti til að mæta minnkandi framleiðslugetu. Sambærileg vinnsla er einnig fyrirhuguð í Hverahlíðarvirkjun. Ef auðlindin sem um ræðir væri fiskur í sjónum væri þetta kallað rányrkja.

Þó er í skýrslunum staðhæft að um sjálfbæra vinnslu sé að ræða. Því er haldið fram að kynslóðir framtíðarinnar muni hafa aðgang að þróaðri tækni sem geri þeim kleift að sækja sjálfar orku í iður jarðar á þessum svæðum, þó svo að þessi tiltekna nýting éti sjálfa sig upp á einhverjum áratugum.

Á öðrum vettvangi hefur komið fram að þessi nýtingaraðferð – að nýta jarðvarma eingöngu til raforkuvinnslu – þýðir að um 88% orkunnar sem kemur upp er hent í formi varma út í umhverfið. Fari svo fram sem heldur verður Íslendingum æ erfiðara að rökstyðja að orkuvinnsla þeirra sé „sjálfbær“, en gagnrýnisraddir heyrast nú æ oftar um að þetta hugtak sé gróflega misnotað hér á landi, einkum í kynningarskini gagnvart hugsanlegum erlendum orkukaupendum.

Það má draga í efa að það sé almennt viðurkennd staðreynd í huga almennings að fyrirhugað sé að nýta jarðhitasvæði landsins þannig að mokað sé upp úr þeim eins og námu í 3-5 áratugi, 88% auðlindarinnar verði hent vegna aðstæðna, og að afgangnum sé ráðstafað í orkusölu til fáeinna álvera.

Góð ímynd Íslands er auðlind, en sé hún notuð án innistæðu verður hún fljótt uppurin, rétt eins og borholurnar á Hellisheiði.

Frummatsskýrslunar eru til skoðunar hér:
http://www.skipulag.is/focal/webguard.nsf/key2/frummatsskyrsla.html


Af vef Framtíðarlandsins: http://framtidarlandid.is/ranyrkja


Lára Hanna Einarsdóttir, 1.11.2007 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband