Fyrirsátin í Columbiaháskóla

Ahmadenejad Enginn er ég aðdáandi íranskra stjórnvalda - en móttökurnar sem Mahmud Ahmadinejad Íransforseti fékk í Columbiaháskóla í New York í fyrradag vekja undrun mína, jafnvel hneykslun.

Ég horfði á myndband af fundinum á netinu, og verð að segja að formáli Lee Bollingers, rektors Columbiaháskóla að ræðu Ahmadinejads, gekk fram af mér. Hann sagði eitthvað á þá leið að þessum fundi væri ekki ætlað að virða rétt Íransforseta til að tjá sjónarmið sín heldur rétt bandarískra þegna til þess að skilja og skoða hið illa í návígi. Loks klykkti hann út með því að ávarpa gestinn sem lítilmótlegan og grimman harðstjóra.  

Já, illt er að eiga móttökur undir slíkum gestgjafa sem Lee Bollingers, rektors Columbiaháskóla. Og mig skal ekki undra þó að bandamenn Írans hafi lýst því yfir að þetta boð til Íransforseta um að sitja fundinn í Columbia hafi verið "fyrirsát". Áheyrendur klöppuðu rektornum lof í lófa, því meir sem hann hæddist að gesti sínum því ákafari urðu fagnaðarlætin. Það var raunalegt að horfa á þetta - og ekki beint akademískt.

Ég get ekki annað en tekið undir með ábendingu rektora sjö franskra háskóla sem sendu Bollinger bréf í gær með tíu spurningum. Ein þeirra laut að stuðningi bandarískra stjórnvalda við Saddam Hussein (þann blóðþyrsta harðstjóra sem hann síðar var sagður) í stríði Íraka gegn Írönum á árunum 1980-1988.

Sömuleiðis er það tvískinnungur og óþarfa fjandskapur af bandarískum stjórnvöldum að meina manninum að heimsækja vettvanginn þar sem tvítyrnið hrundi 11. september 2001. Það er einhver áróðurslykt af því að leyfa honum ekki að votta virðingu þeim sem þar létu lífið.

Satt að segja fær maður þá óþægilegu tilfinningu að nú sé verið að búa til nýjan andstæðing - Saddam Hussein allur - og því þá ekki að snúa sér að Íran? Þar finnst líka olía.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Auðvitað er þetta rakinn dónaskapur af hálfu þessa rektors Colombiaháskóla.  Það læðist (kannski meira en læðist) að mér sá grunur að þetta boð til háskólans hafi verið að undirlægi stjórnvalda í BNA  og sé liður í að búa til ákveðna mynd af forseta Írans meðal BNA manna. Varðandi Írak þá var búin til sú ímynd að gjöreyðingarvopn væru til í landinu og að fyrrum vinur BNA  væri til í að misbrúka þau... gerð var árás á Írak sem ekki er ennþá lokið, Talið er að rúm ein milljón manna,kvenna og barna hafi látið lífið, beint eða óbeint vegna þessa stríðs. Hann er orðin ansi dýr olíudropinn sem hinn vestræni heimur er að ná sér í þarna..og nú þarf að tryggja að olíuauður Íran renni óhindrað í vesturátt á góðum prís.  Herferðin til Íran virðist vera hafin.

Spurt er hversvegna Íran er að koma sér upp kjarnorkuverum til friðsamlegra nota , eins og þeir orða það ?  Eru þeir ekki bara að renna fleiri stoðum undir efnahagslífið..olían er takmörkuð auðlind og þeirra helsta útflutningsvara er olía . Þeir þurfa því að nýta dropann vel. Eða eins og hjá okkur "svipull er sjávarafli" og við beinum sjónum okkar sífellt meir að okkar orkulindum..og erlendir fjárfestar renna hingað til okkar auðlinda hýru auga í auknum mæli.

Sævar Helgason, 26.9.2007 kl. 12:11

2 identicon

Það eru fleiri áratugir þar til að olíulindir Írans þorna upp. Orkuskortur eftir nokkra áratugi réttlætir varla þá áhættu og þann tilkostnað sem fylgir því að koma sér upp kjarnorkuverum núna. Það sem meira er þá hafa Íranar hafnað tilboðir Rússa um að selja þeim tilbúna léttvatnskjarnakljúfa. Af einhverjum ástæðum er það nauðsynlegt fyrir þá að hreinsa úranið sjálfir...

En þetta er auðvitað allt í friðsamlegum tilgangi.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 12:55

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ég held að það sé ekki nokkur spurning að Íranir eru að koma sér upp kjarnorkuvopnum. En í því sambandi þurfum við að hafa ákveðin atriði í huga.

Í fyrsta lagi þá hefur Íran aldrei ráðist á annað ríki að fyrra bragði.

Í öðru lagi eru kjarnorkusprengjur í raun ganglausar, sem árásarvopn, nema hjá brjálæðingum, sem eru tilbúnir til að sprengja andstæðinga sína í tætlur og vera fyrir bragðið útskúfað af alþjóðasamfélaginu og efstur á lista yfir stríðsglæpamenn, sem ber að handtaka. Kjarnorkusprengjur eru hins vegar ágæt varnarvopn í skilningi ógnarjafnvægis. Menn hika einfaldlega við að ráðast á land, sem hefur yfir slíkum vopnum að ráða.

Hitt er svo annað mál að það er hræsni í meira lagi þegar ríki, sem sjálf eru kjarnorkuveldi, fara á límingunum yfir því að önnur ríki verði sér líka út um slík vopn en eru samt ekki tilbúin til að eyða sínum vopnum. Hvernig væri að fara fram á að Bandaríkjamenn eyði fyrst sínum vopnum áður en farið er að stöðva Írani í að ná sér í slík vopn. Gleymum því ekki að Ísraelar eiga líka kjarnorkuvopn.

Menn gætu svarað þessu, sem svo að það sé alls ekki sama haða ríki eigi kjarnorkuvopn. Það er rétt. En hvernig metum við hvaða ríkjum er treystandi fyrir kjarnorkuvopnum og hverjum ekki? Er Bandaríkjamönnum betur treystandi en öðrum? Ef menn halda því fram væri ekki úr vegi að skoða svörin við eftirtöldum spurningum?

Hvaða ríki hafa notað kjarnorkuvopn?

Hvaða ríki hafa gert slíka árás á borgaralegt skotmark, það er borg en ekki herstöð?

Hvaða ríki hafa gert þetta oftar en einun sinni, til dæmis tvisvar?

Hvaða ríki hampar í dag þeim forseta sínum, sem gaf skipun um allt ofangreint en fordæmir hann ekki, sem þann stríðsglæpamann, sem hann óneitanlega var fyrir vikið?

Síðan geta menn spurt sig um það hvort það ríki, sem allt þetta á við um sé betur treystandi en Írönum fyrir kjarnorkuvopnum?

Sigurður M Grétarsson, 26.9.2007 kl. 15:36

4 identicon

Munurinn á Ísrael og Íran er þessi:

Ísrael er lítið land, það á ekki beinlínis í vinsamlegum samskiptum við nágranna sína og ef það biði ósigur í hefðbundnu stríði yrði það líklega þurrkað út af landakortinu. Ísraelar hafa átt kjarnavopn í marga áratugi og það er ljóst að þeir ætla sér ekki að beita þeim til annars en fælingar.

Íran, aftur á móti, er stórt land og þarf ekki að óttast árás frá öðrum en Bandaríkjamönnum. Þetta kjarnorkustand þeirra er síst fallið til þess að draga úr líkum á því að Bandaríkjamenn ráðist á þá. Það er því ljóst að þeir eru ekki að koma sér upp kjarnavopnum til þess að auka á eigið öryggi.

Það hefur verið yfirlýst stefna Íransstjórnar frá byltingu að verða stórveldi í sínum heimshluta. Það hlýtur að teljast líklegast að ástæða þess að þeir eru að koma sér upp kjarnavopnum sé sú að efla stöðu sína í þessum heimshluta.

Íranska klerkastjórnin hefur ekki ráðist beint á neinn í þessi 30 ár sem hún hefur verið til en í  því samhengi verðum við að muna að hún hefur haft litla burði til þess. Það segir lítið um vilja þótt að einhver geri ekki það sem hann getur ekki gert. Íransstjórn hefur hinsvegar tekið óbeinan þátt í stríði Hezbolla gegn Ísraelum, Líbönum og Ísraelum til mikils tjóns. 

Pakistan og Ísrael eiga þegar sprengjuna. Samband Írana við nágranna sína er ekki beinlínis gott og eignist þeir sprengjuna munu Sádar og líklega Egyptar og fleiri vilja sprengjuna líka. Kjarnorkukapphlaup í Mið-Austurlöndum er ekki beinlínis spennandi tilhugsun. Fólk ætti líka ekki að gleyma því að þarna værum við ekki að tala um vopnabúr af því taginu sem við þekkjum úr kalda stríðinu heldur væru þessi ríki hvert um sig með nokkra tugi af gamaldags kjarnasprengjum (ekki vetnissprengjum) og stríð fæli ekki í sér gagnkvæma gjöreyðingu, nema í tilviki Ísraels (Ísrael er mjög lítið). Munum svo líka að það eru ansi skrýtnir fuglar sem geta komist á valdastóla í þessum heimshluta.

Hvað varðar Bandaríkjamenn geta menn þrasað endalaust um það hvort að það hefði verið mannúðlegra að gera innrás eða setja hafnbann á Japan (eyjarnar eru háðar innflutum mat). Svarið er ekkert augljósara fyrir okkur en það var fyrir Truman.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 16:04

5 identicon

Ég get ekki séð að það sé nokkuð að því að drulla dálítið vel á þennan mann. Hann heldur heilli þjóð í gíslinug í nafni trúar sinnar. Við gleymum því gjarnan að frelsi okkar og lifnaðarhættir byggja á styrk okkar. Vesturlönd eru öflugust ríki veraldar í dag og það eitt heldur okkur frjálsum. Íranir og önnur alræðisríki væru löngu búin að þvinga upp á okkur ruglinu sínu ef ekki væri fyrir mátt okkar. Ég vil ekki að Íran fái kjarnorkusprengju og mér finnst það ekki hræsni þó bandamenn okkar í NATO eigi slíkar sprengjur að við förum fram á að geðsjúklingar í alræðisríkjum komi sér upp slíkum búnaði.

Það loðir gjarnan við okkur Íslendinga að finna til með minni máttar og það er í sjálfum sér allt í lagi. Förum samt ekki að vorkenna þessu fífli þó hann sé lagður í einelti af stórveldunum. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 16:31

6 identicon

Það er með ólíkindum fólk hafi samúð með Ahmadinejad, og harðstjórum klerkaveldisins í Íran.  Það er ekki sæmandi upplýstu fólki á vesturlöndum að taka upp hanskann fyrir þennan brjálæðing.

Það má kannski deila um það hvort það hafi verið rétt hjá Columbia að leyfa Íransforseta að viðra ógeðfelldar skoðanir sínar á þjóðarmorðum og helförinni í skólanum, en það er fáránlegt að gera athugasemdir við það að Bollinger hafi tíundað óþægilegar staðreyndir um Íransstjórn, og saka hann um ókurteisi.

Einnig virðast sumir halda að það sé við hæfi að verja óþolandi málflutning Ahmadinejads með því að benda á eitt og annað sem betur má fara hér heima eða í Bandaríkjunum.  Það er barnalegt að gera sér ekki grein fyrir hversu hættuleg klerkastjórnin í Íran er.

Jói (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 16:54

7 Smámynd: Sævar Helgason

Fleiri áratugir þangað til olíulindir Írans þorna upp og hvað þá ?

Ef við værum í þessari stöðu sem þeir eru í , sætum við þá með hendur í skauti og biðum þess sem verða vildi með  lífsbjörg þjóðarinnar ?  Myndum við ekki reyna að teygja lopann ?

Hinsvegar hef ég nú lítið eða nokkurt dálæti á þessari klerkastjórn þarna og trúmál og stjórnmál eru afar slæmur kokteill að mínu mati.

Sævar Helgason, 26.9.2007 kl. 17:15

8 identicon

Það kjarnaeldsneyti sem þeir vinna núna verður löngu uppnotað eftir nokkra áratugi. Eins liggur ekki beinlínis á að þróa þessa tækni. Það sem skiptir þó mestu máli er að samkvæmt sáttmálanum gegn útbreiðslu kjarnavopna eiga þeir rétt á aðstoð við að koma sér upp kjarnorkuverum í friðsamlegum tilgangi, þeir gætu verið að nýta sér það núna eða beðið í nokkra áratugi og nýtt sér það þá. En samt vilja þeir endilega hreinsa sitt úran sjálfir. Þetta er ekki flókið dæmi. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 17:28

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Heil og sæl góða Ólína!

Fyrir það fyrsta vil ég segja, að það er alltaf í aðra röndina dapurlegt þegar menn geta ekki sett fram skoðanir sínar öðruvísi en með ljótum og dónalegum hætti, eins og lesa má hér hjá sumum að ofan!

SVo eru það nú gömul sannindi og ný, að kerlingin hún Hræsni á sér vini og vopnabræður á mörgum stöðum!

Að lokum svo aðeins varðandi samanburð H.H. á Ísrael og Íran, þá hygg ég nú að einmitt "litla Ísrael" væri alveg til í hernaðaraðgerðir sjálft og margsinnis reyndar verið ýjað að því að þeir leggi plön að allavega einhverjum loftárásum varðandi kjarnorkustöðvarnar. En auðvitað myndu þeir ekki gera það nema með fullþingi Bandaríkjamanna!

Svo má auðvitað ekki heldur gleyma, að ekki er svo langt liðið frá því Íranar stóðu í stríði, við íraka, er Saddam nokkur var enn á vinalista Bandaríkjanna ekki satt!?

Magnús Geir Guðmundsson, 26.9.2007 kl. 17:35

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er nú sammála þér Ólína hvað varðar slíka framkomu og ekki síst í akademísku samhengi. Rétt að kollegar hans sendi honum tóninn og bendi á tvískinnunginn. Ofstækið og hrokinn er þó ekki einskorðað við þennan blessaða mann ef af sumum kommentum hér má dæma.  Amadinejad er ekki að próvókera að gamni sínu til að kalla dauða og þjáning yfir þjóð sína. Hann situr á mestu Olíuauðlindum heims umkringdur af þjóðum sem hafa kjarnavopn og það í trássi við alþjóðalög.  Chaves blessaður karlinn er í sömu klemmu. Bandaríkin hafa verið þekkt af því að kokka upp false flag ástæður til innrása í lönd og eru lönd þessara herramanna opinberlega á hittlista þeirra göfugu manna, sem bíða aðeins eftir tækifærinu til að hella yfir þá frelsi og líðræði í formi elds og brennisteins.

Ég trúi því varla að menn, séu enn að kyngja áróðursgraut Ameríkana eins og hann kemur af kúnni. 

Jón Steinar Ragnarsson, 26.9.2007 kl. 17:45

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Til gamans, þá er hér umhugsunarverð heimildamynd, sem menn vakið einhverja til umhugsunnar: ZEITGEIST

Vara við að hún er um tveir tímar og tekur á þremur málefnum, sem eru tengd ákveðnum rauðum þræði hvað varðar viðtekna hugsun og svo sögulegar staðreyndir.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.9.2007 kl. 17:50

12 identicon

Ástæður þess að ég lagði áherslu á að Ísrael sé lítið eru tvær. 1) Markmið landsins með kjarnorkuvopnaeign eru ekki ósamrýmanleg stöðugleika í heimshlutanum. Ísraelar vilja bara tryggja tilvist síns ríkis. 2) Þeir eru mjög ólíklegir til þess að beita kjarnavopnum þar sem landið er lítið og þéttbýlt og gagnárás með gereyðingarvopnum, hvort sem það eru kjarnavopn eða sýkla- og efnavopn myndi valda gríðarlegum skaða. Jafnvel þurrka landið út.

Hvorki Ísrael né Pakistan hafa gert sig líkleg til þess að gera árásir á Íran án ástæðu. Ísraelar hafa hugleitt árás vegna kjarnorkuáætlunarinnar en það er nokkuð slæm rökfræði að telja að það ástæðuna fyrir því að ráðist var í hana! Auk þess er kjarnavopnaeign Ísraela og Pakistana ekki í neinu trássi við alþjóðalög þar sem hvorugt landið gerðist aðili að sáttmálanum gegn útbreiðslu kjarnavopna.

Annars sé ég ekki hvaða sérstöðu olía á að hafa meðal nauðsynlegra hráefna þannig að það þurfi að stela henni á meðan að það má kaupa önnur hráefni sem eru ekki síður nauðsynleg (t. járn, báxít og kopar). Bandaríkin skipta sér af þessum heimshluta af því að þau eru háð því að það sé framboð af olíu og óstöðugleiki þar ógnar framboðinu. Þau eru ekki á höttunum eftir því að stela neinu.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 18:32

13 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mér finnst málflutningurinn hjá sumum hérna með ólíkindum. Ég er búinn að fara marga hringi með sumum þeirra í sambandi við varnarmál og ég fæ ekki betur séð, ólína, en að þeir séu allir að færast í aukana eftir því sem bandaríkjamenn verða ófyrirleitnari í áróðri sínum gagnvart írönum.

Þessir sömu gleyma því að bandaríkjamenn eiga flest kjarnorkuvopn og eru auk þess þeir einu sem hafa beitt þeim. Þeim finnst sjálfsagt í lagi að eiga kjarnorkuvopn og beita þeim gegn "geðsjúklingum" annars staðar í heiminum, bara að þeir verði ekki fyrir þeim.

Ég lít á kjarnorkuvopnaeign í heiminum sömu augum og t.d. byssueign. Því almennari sem hún er þeim mun fleiri verða fórnarlömbin t.d. eru 35-40 þúsund ameríkanar drepnir með byssum á hverju ári en ekki 35-40 íslendingar sem ættu að vera hlutfallsleg dánartíðni af sömu völdum á Íslandi. Mér finnst það varla spurning um hvort heldur hvenær einhver nær að komast yfir kjarnorkuvopn úr höndum "ábyrgra" áðila og sprengja einhversstaðar sem mönnum líka alls ekki.

Eina vitið er að eyða ÖLLUM kjarnorkuvopnum, líka þeirra sem "ábyrgir" eiga að teljast og það helst strax.

Haukur Nikulásson, 26.9.2007 kl. 20:59

14 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mér finnst málflutningurinn hjá sumum hérna með ólíkindum. Ég er búinn að fara marga hringi með sumum þeirra í sambandi við varnarmál og ég fæ ekki betur séð, ólína, en að þeir séu allir að færast í aukana eftir því sem bandaríkjamenn verða ófyrirleitnari í áróðri sínum gagnvart írönum.

Þessir sömu gleyma því að bandaríkjamenn eiga flest kjarnorkuvopn og eru auk þess þeir einu sem hafa beitt þeim. Þeim finnst sjálfsagt í lagi að eiga kjarnorkuvopn og beita þeim gegn "geðsjúklingum" annars staðar í heiminum, bara að þeir verði ekki fyrir þeim.

Ég lít á kjarnorkuvopnaeign í heiminum sömu augum og t.d. byssueign. Því almennari sem hún er þeim mun fleiri verða fórnarlömbin t.d. eru 35-40 þúsund ameríkanar drepnir með byssum á hverju ári en ekki 35-40 íslendingar sem ættu að vera hlutfallsleg dánartíðni af sömu völdum á Íslandi. Mér finnst það varla spurning um hvort heldur hvenær einhver nær að komast yfir kjarnorkuvopn úr höndum "ábyrgra" áðila og sprengja einhversstaðar sem mönnum líka alls ekki.

Eina vitið er að eyða ÖLLUM kjarnorkuvopnum, líka þeirra sem "ábyrgir" eiga að teljast og það helst strax. 

Haukur Nikulásson, 26.9.2007 kl. 21:10

15 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

 Hér kemur tilvitnun í Hans Haraldsson.

"Hvað varðar Bandaríkjamenn geta menn þrasað endalaust um það hvort að það hefði verið mannúðlegra að gera innrás eða setja hafnbann á Japan (eyjarnar eru háðar innflutum mat). Svarið er ekkert augljósara fyrir okkur en það var fyrir Truman."

Enn með þá þvælu að kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna hafi verið nauðlynlegar og jafnvel bjargað mannslífum. Þetta er þvæla. Það var aldrei nausynlegt að sprengja tvær borgir til að ljúka stríðinu. Japanir voru fyrir þessar árásir búnir að bjóa uppgjafarskilmála meðal annars í gegnum Sovétmenn. Svar Bandaríkjamanna var alltaf það að þeir vildu ekki neina uppgjafarskilmála heldur krefðust skilyrðislausrar uppgjafar Japana. Þegar Japanir komu síðan með skilyrðislausa uppgjöf eftir að kjarnorkusprengjunum var varpað gengu Bandríkjamenn svo að nánast öllum þeim atriðum, sem voru í uppgjarfatilboði Japana. Það var til dæmis aðalatriðið að keisarinn fengi áfram að vera keisari landsins.

Málið er að Bandaríkjamenn ætluðu sér alltaf að nota þessar sprengjur áður en stríðinu lyki og því var krafan  um skilyðislausa uppgjöf í stað uppgjafarsátatmála aðeisn tilliástæða til að geta notað sprengjurnar. Það voru tvær ástæður helstar fyrir því að Bandaríkjamenn vildu fá tækifæri til að nota sprengnurnar.

Önnur ástæðan er sú að þróun kjarnorkusprengjunnar hafði kostað mikið fé og þeir þingmenn, sem höfðu borið hitan og þungan af því að útvega fé í það töldu að það myndi geta skaða verulega eða hreinlega eyðilagt algerlega þeirra pólitíska feril ef vopnið yrði síðan aldrei notað. Þeir þrýstu því verulega á forsetann með það að vopnið skyldi notað.

Hin ástæan var sú að hönnuðum kjarnorkusprengjunar vantaði upplýsingar um eyðingarmátt sprengjunnar á mannvirki þar með talinn munin á þeim tveimur tegundum sprengja, sem þeir höfðu þróað. Þeir þrýstu því verulega á um að sprengjurnar yrðu notaðar og það báðar tegundirnar. Af sömu ástæðu þrýstu þeir á um að sprengjurnar yrðu notaðar á stað þar, sem mannvirki næðu yfir stórt svæði svo hægt væri að lesa út frá sprengjumiðjunni hver væri eyðingarmáttur sprengjunnar. Þess vegna þurftu skotmörkin að vera borgir en ekki herstöðvar, sem að sjálfsögðu hefðu verið eðlilegri skotmörk í stríði og gert sama ef ekki meira gang í því að þvinga Japani til uppgjafar ef sprengju hefði þurft til, sem þó er ljóst að var ekki. Það hefði einnig kostað mun minna mannfall. Af þeirri sömu ástæðu var eytt nokkrum mánuðum í að þjálfa flugáhafnirnar í það að hitta sprengjunum á miðborgir þeirra borga, sem fyrir árásinni yrðu en það hámarkaði líka mannfallið.

Af því að vísindamennirnir voru búnir að hanna tvær gerðir sprengja þurfti að sprengja tvær borgir til að fá samanburð. Þess vegna féll seinni sprengjan aðeins þremur dögum á eftir þeirri fyrri. Þá voru Japanir ekki einu sinni búnir að átta sig almennilega á því hvað hafði komið fyrir í fyrri sprengjunni á Hirjosima, hvort um var að ræða nýtt vopn eða náttúruhamfarir. Sú ákvörðun að gefast upp í stríði er heldur ekki neitt, sem menn henda fram úr erminni á stundinni og því mátti Bandaríkjamönnum vea það ljóst að það þurfti meira en þrjá daga í slíka ákvöðun.

Það er því ljóst að kjarnorkuárásirnar þjónuðu ekki þeim tilgangi að ljúka stríðinu enda hefði verið hægt að gera það án þeirra og einnig án innrásar í Japan eða hafnbann á þær. Þetta var því ekki mannfall í stað enn meira mannfalls með öðrum leiðum heldur hrein og klár fjöldamorð. Kjarnorkuárásirnar voru framkvæmdar af pólitískum ástæðum og til að afla þekkingar á þessu nýja vopni. Þessar árásir voru því klárlega einn versti stríðsglæpur í sögu mannkyns. Með því að fyrirskipa þær setti Harry Trumann sig í hóp verstu stríðsglæpamanna veraldasögunnar.

Sigurður M Grétarsson, 27.9.2007 kl. 10:47

16 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sigurður er með þetta á hreinu eins og svo margt annað sjálfstætt hugsandi fólk. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að eyða eigi ÖLLUM kjarnorkuvopnum, skilyrðislaust.

Það má endalaust búa til rök fyrir óhæfuverkum. Bullrök stjórnmálamanna eru ekki bara staðreynd, þau er sérstök list!

Haukur Nikulásson, 27.9.2007 kl. 12:32

17 identicon

Bandamenn (Bandaríkjamenn, Bretar og Kínastjórn Chang Kai-shek) gerðu samkomulag um það í Potsdam 26 Júlí 1945 hvaða skilmála þeir myndu bjóða Japönum. 28. Júlí höfnuðu Japanar þessu tilboði og stríðið hélt áfram. 6. Ágúst var kjarnorkusprengju varpað á Hiroshima en Japanir gáfust ekki upp. Seinni sprengjunni var varpað á Nagasaki þremur dögum seinna. Japanir gáfust upp sex dögum eftir það, þann 14 Ágúst.  

Sigurður vill væntanlega meina að Japansstjórn hafi verið með í samsærinu.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 18:25

18 Smámynd: Sævar Helgason

Miklir menn erum við Hrólfur minn , var einu sinni sagt

Við unnum þorskastríðið gagnvart Bretlandi, en töpðum sama stríði í innanlandsátökum.

Kvótinn og þeir barónar sem hann "eiga" fara með völdin á Íslandi...eru ekki allir sátti ? 

Sævar Helgason, 27.9.2007 kl. 18:51

19 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Mig furðar alltaf hvað margir eru tilbúnir til að verja hið óverjanlega, fjöldamorð á óbreyttum borgurum eins og gerðist í einum hroðalegasta stríðsglæp sögunnar í Hírósíma og Nagasaki. Suma hluti er bara ekki hægt að kalla annað en réttum nöfnum og Truman er vissulega ógeðfeldur stríðsglæpamaður...lét í besta falli misnota sig til hryllilegs óhæfuverks.

Georg P Sveinbjörnsson, 28.9.2007 kl. 14:14

20 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Því hefur verið haldið fram að Japanir hafi gert nokkrar tilraunir til að ná samkomulagi við Bandaríkjamenn um uppgjafarskilmála í gegnum diplómatískar leiðir og alltaf hafi þetta strandað á kröfu Bandaríkjamanna um skilyrðislausa uppgjöf. Ekki veit ég hvað var í þessu tilboði frá 26 júlí en renni í grun að þar hafi ekki verið inni hlutir, sem Japanir töldu forsendum firðarsamninga, en fengu síðan eftir uppgjöf. Það er mikið notuð leið manna, sem ekki vilja semja um frið að setja fram afarkosti, sem þeir vita að hinn aðilinn getur ekki sætt sig við. Það verður sjálfsagt seint hægt að skera úr um það hvort friðarsamningar við Japani hefðu verið möguleiki. Þegar menn vilja ekki ræða slíkt þá vita menn ekki hvað hefði komið út úr samræðum. Japanir voru stolt þjóð og vildu getað endað stríðið þannig að þeir héldu einhverri reisn. Einnig þurftu ráðamenn að geta selt þjóðinni hugmyndina um uppgjöf. Atriði eins og það að keisarinn fengi áfram að vera þjóðhöfðingi Japana var eitt af aðalatriðunum. Þegar búið var að sprengja tvær borgir í tætlur með nýju ógnarvopni þá höfðu Japanskir ráðamenn þá ástæðu, sem til þurfti til að réttlæta uppgjöf fyrir þjóinni og einnig gátu þeir þannig gefist upp með ákveðinni reisn því tilkoma nýja ógnarvopnsins í höndum andstæðingsins gerði leikinn einfaldlega of ójafnan til að það gæti talist niðurlæging í því að gefast upp við þær aðstæður.

Það breytir hins vegar ekki því að það var aldrei þörf á að sprengja tvær borgir í Japan til að enda stríðið jafnvel þó ekki hefði verið unnt að . Það var nefnilega ekki notkun kjarnorkusprengjunnar heldur tilvist hennar hjá Bandaríkjamönnum einum, sem gerði áframhaldandi varnir Japana vonlausar. Það er út í hött að halda því fram að það hefði þurft að spregnja tvær borgir til að sýna Japönum fram á afl hins nýja vopns. Það að ekkert annað hafi nokkurn tímann verið reynt gerir þennan verknað að einum versta stríðsglæp sögunnar og rennir stoðum undir þær fullyrðingar, sem ég hef komið fram með hér áður um af hverju Bandaríkjamenn völdu þennan kostin.

Bara svo nefndar séu nokkrar leiðir til að sýna fram á mátt sprengjunnar án þess að sprengja tvær borgir þá var til dæmis hægt að bjóða japanskri sendinefnd til tilraunastaðar sprengjunnar í Nevada eyðkmörkinni og sýna þeim hvers konar vopn var um að ræða. Ef það hefði ekki dugað hefði mátt varpa sprengjunni á stjálbýlli skógi vaxin svæði í Japan til að sýna fram á mátt sprengjunnar. Það hefð alveg sýnt jafn vel hversk konar vopn var um að ræða. Ef svo ólíklega hefði farið að slíkt hefði ekki dugað hefði verið hægt að varpa sprengjunni á herstöð í stað þess stríðsglæpar að velja borgaralegt skotmark fyrir svona sprengju.

Ef svo ólíklega hefði farið að ekkert af þessu hefði dugað og í ljós hefði komið að nauðsynlegt væri að sprengja borg til að sýna fram á mátt vopnsins þá kemur umræðan um val á skotmörkum upp í hugann. Listinn yfir þær borgir, sem hernum var falið að reyna að varpa kjarnorkusprengjum á var lengri en þessar tvær borgir. Það var þó eitt, sem hefur vakið athygli með þann lista. Engin þeirra borga, sem var á listanum var með mikilvæg hernaðarleg skotmörk. Af þeirri ástæðu hafði engin þeirra áður orðið fyrir miklum loftárásum. Það olli því að fólk frá borgum, sem höfðu reglulega orðið fyrir loftárásum hafði flúið í stórum stíl til þessara borga í von um að það væri öruggara þar. Það var því ljóst að með því að velja þessar borgir var verið að hámarka mannfall meðal óbreyttra borgara. Það var einnig hámarkað með því að þjálfa áhafnir flugvélanna í því að hitta á miðborgina í þeirri borg, sem yrði sprengd.

Ef valdar hefðu verið borgir, sem höfðu áður orðið fyrir miklum loftárásum og almennir borgara þess vegna flúið þaðan í stórum stíl hefði mannfallið orðið mun minna og sennilega aðeins brot af því, sem það varð. Bandaríkjamenn hafa afsakað þetta val sitt með því að þeir óttuðust að í japönskum herstöðvum væur bandarískir stríðsfangar. Því hefðu þeir valið borgir án herstöðva til að forðast að drepa eigin menn með kjarkorkisprengjunum. Það má svo sem endalaust dæma um siðferði þess að drepa tugþúsundir óbreyttra borgara umfram hernaðarlega þörf af ótta við að drepa nokkra bandaríska stríðsfanga ef valin væri vægari leiðin. Það er hins vegar óþarfi vegna þess að þetta er hvort eð er tylliástæða. Ástæðan fyrir því að valdar voru borgir, sem ekki höfðu áður verið skemmdar mikið með loftárásum var krafa frá hönnuðum kjarnorkussprengjunnar þar um. Þeir vildu geta metið mátt sprengjunnar eftirá og ef borgin var fyrir að miklum hluta í rúst þá hefði það gert matið erfitt. Þannig hefðu þeir hugsanlega verið í óvissu um hvor gerðin að þeim tveimur, sem þeir höfðu hannað, væri öflugri. Bandaríkjamönnum var nokk sama þó þessi vitneskja væri keypt með lífi tugþúsunda óbreyttra borgara.

Síðast en ekki síst er það alveg ljóst að ef tilgangur með kjarnorkuárás á Japani hafi verið sá einn að þvinga Japana til uppgjafar þá hefði aldrei þurft að varpa nema einni sprengju. Höfum það í huga að seinni sprengjunni var varpað aðeins þremur dögum á eftir þeirri fyrri. Þarna var um að ræða nýtt vopn, sem var margfalt öflugra en menn höfðu nokkurn tíman séð áður. Því gátu menn alveg vitað að það tók tíma fyrir Japani að átta sig á því hvað hafði gerst. Þegar seinni sprengjan sprakk voru Japanir enn að melta þetta og voru ekki búnir að útiloka að um náttúruhamfarir væri að ræða. Seinni sprengjan eyddi reyndar þeim vangaveltum en það hefði verið hægt að gera það öðruvísi. Eina ástæða þess að Bandaríkjamenn vörðuðu tveimur kjarnorkusprengjum á Japani var eins og ég hef áður sagt til þess að geta borið saman eyðingarmátt þeirra tveggja tegunda af kjarnorkusprengjum, sem Bandaríkjamenn voru búnir að hanna.

Eins og ég hef áður sagt þá voru þessar árásir ekkert annað en fjöldamorð á saklausu fólki, sem engin þörf var á út frá því hernaðarlega markmiði að knýja Japani til uppgjafar. Þetta var því kjárlega einn versti stríðsglæpur veraldasögunnar og með því að fyrirskipa þetta setti Truman sig á bekk með verstu stríðsglæpamönnum og illmennum veraldarsögunnar.

Sigurður M Grétarsson, 30.9.2007 kl. 10:15

21 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka fyrir upplýsandi umræður hér á athugasemdakerfinu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.9.2007 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband