Símainnbrot - óskemmtileg reynsla

Það virðist vera sem gsm-númerið mitt sé ekki lengur mitt einkanúmer. Í það minnsta hefur óprúttnum aðila tekist að brjótast inn í símann minn - svo undarlega sem það kann að hljóma - og senda úr honum ósmekkleg SMS skilaboð til allra nemenda Menntaskólans á Ísafirði, hvorki meira né minna. Í mínu nafni, á mínu númeri!

Það var heldur óskemmtilegt þegar símhringingarnar byrjuðu fyrr í dag. Undrandi foreldrar og nemendur skólans hringdu í mig linnulaust, ýmist til þess að láta mig vita og vara mig við því hvað væri á seyði - eða til þess að fá staðfest að sendingin væri ekki frá mér. Ég var einfaldlega úti í móa - í orðsins fyllstu merkingu - stödd á björgunarsveitaræfingu skammt austur af Selfossi, með hund í bandi og gjallandi talstöð í brjóstvasanum. Vissi hreint ekki hvaðan á mig stóð veðrið.

Það er óþægileg tilfinning að láta brjótast inn hjá sér með þessum hætti. Að vita til þess að einhver hefur rofið friðhelgina - einkarýmið sem hver og einn vill hafa - til dæmis með  því að nota símanúmerið manns, til að gera nánast hvað sem er. Ég meina HVAÐ SEM ER. 

Sá sem þetta gerði er ekki bara að nota númerið mitt. Hann er líka líka að falsa gögn með því að senda út eigin hugaróra í annars nafni. Það út af fyrir sig - þegar um er að ræða ósmekkleg skilaboð - er líka aðför að æru manns. Brotið er nefnilega margþætt.

Óneitanlega vekur þessi uppákoma líka spurningar um ábyrgð símans. Ég kaupi númerið af símanum, og ætlast til þess að ég sé eini notandi þess; að síminn verji mig fyrir innbrotum af þessu tagi.

Raunar frétti ég hjá kunningja mínum í dag að einhver brögð hafi verið að því að undanförnu að fölsuð SMS skeyti hafi verið í umferð. Sjálf hef ég ekki næga tækniþekkingu til þess að vita hvernig það má vera - en þá er líka ljóst að fólk getur ekki lengur treyst SMS skeytum sem það fær.

En til þess að gera langa sögu stutta, þá er málið komið í hendur lögreglunnar - og mér skilst að rannsókn miði vel.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Get trúað að þetta sé ekki skemmtileg reynsla, vona að þeir nái viðkomandi einstaklingi eða einstaklingum.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 22:44

2 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta er grafalvarlegt mál sem yfirvöld verða að komast til botns í.

Þetta er stórfelld árás á æru fólks  sem fyrir fölsun af þessu tagi.

Sævar Helgason, 21.9.2007 kl. 22:51

3 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta er grafalvarlegt mál sem yfirvöld verða að komast til botns í.

Þetta er stórfelld árás á æru fólks  sem verður fyrir fölsun af þessu tagi.

Sævar Helgason, 21.9.2007 kl. 22:52

4 Smámynd: Fríða Eyland

þetta minnir mig á morðhótunina sem við fengum í gegn um síma fyrir nokkrum árum, engum átti að þyrma ekki börnunum einu sinni, við töluðum við lögregluna strax það tók þá hálfan mánuð að rekja símtalið í tíkallasíma í grafarvogi. Gerðu þér engar vonir góða þá verða vonbrigðin minni er mitt ráð til þín.

Fríða Eyland, 21.9.2007 kl. 22:57

5 Smámynd: Ragnheiður

Merkilegt. Ég er svo tæknifötluð að mér hugkvæmdist ekki einu sinni að þetta væri hægt ...þetta er vont að lenda í. Vonandi næst að rekja þetta

Ragnheiður , 21.9.2007 kl. 23:10

6 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég yrði algjörlega foxill ef þetta kæmi fyrir mig. Þvílíkur yfirgangur inn á einkalífið, ekki mjög margt er meira prívat heldur en síminn manns og þá einmitt gsm síminn.

Marta B Helgadóttir, 21.9.2007 kl. 23:46

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég yrði nú bara alveg brjál.  hvernig er þetta hægt? það vildi ég fá að vita?  er einhver hætta á að þetta sé eitthvað sem hægt er að framkvæma á einfaldan hátt. Þú verður að lofa okkur að fylgjast með málinu. 

Ásdís Sigurðardóttir, 21.9.2007 kl. 23:50

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ekki datt mér í hug að þetta væri hægt.  Er ekkert heilagt lengur?  Þú átt alla mína samúð.  Þetta hlýtur að vera skelfileg upplifun svo ekki sé nú meira sagt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.9.2007 kl. 09:34

9 Smámynd: Örn Ingólfsson

Sæl Ólína já andsk....... er það nú hart að fá ekki frið með símann sinn. Það er ekkert heilagt í þessu en þetta þarf að vera einhver með mikla þekkingu á svona hlutum að brjótast inn í símana. En það vona ég að þessi aðili(ar) náist og fái makleg málagjöld.

Örninn

Örn Ingólfsson, 22.9.2007 kl. 09:36

10 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Sæl Ólína - já þetta er ömurlegt. Og lýsir hugarangist þess einstaklings sem leggst svo lágt vel. Vonandi kemst upp hver hér var að verki og þá ber auðvitað að kæra viðkomandi. Bestu kveðjur til Blíðu!

Þorleifur Ágústsson, 22.9.2007 kl. 12:56

11 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég segi sama og Ragnheiður, hefði ekki trúað því að þetta væri hægt. Fékk reyndar einu sinni tölvupóst frá manni sem ég fékk stundum fréttatilkynningar frá vegna vinnu minnar. Hann bað mig í guðanna bænum að hætta að senda sér klámmyndir í tölvupósti. Ég fékk algjört sjokk, myndi auðvitað aldrei senda neinum, hvað þá "kúnnum", svona bréf, finnst það mjög hallærislegt. Líklega var þetta vírus í vinnutölvunni minni, en í þínu tilfelli var þetta greinilega um ásetning að ræða. Mikið er leiðinlegt fyrir þig að lenda í þessu. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 22.9.2007 kl. 14:05

12 identicon

Ég vona að Síminn standi sig og geri þetta upp. Þetta er svona týpískt mál sem er illa lyktandi og þvílík árás á persónu en er eflaust erfitt að refsa fyrir.

Ég hef reynt að fá símann til að færa manneskju, sem er skráð á heimilisfang okkar með símanúmer, af heimilisfanginu en þeir segjast ekkert geta gert. Beiðnin þurfi að koma frá henni sjálfri. Ég og eiginmaður minn erum búin að eiga þetta hús síðan 2004 og erum þau einu sem erum skráð hér með síma.

Mér kemur það hvorki við né hef ég nokkuð um það að segja hver er skráður með símanúmer á mína eign.

Þú átt alla mína samúð og ég vona að hlutaðeigandi komi fram og skýri það hvað honum ætlaðist til.   Lengi lifi friðhelgi einkalífs.

Drífa Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 16:19

13 Smámynd: Kolgrima

Þetta er skelfilegt. Ég hefði haldið að það þyrfti töluverða þekkingu til en það er kannski bara vitleysta. Ég vona að það fáist botn í þetta mál sem fyrst. Þú átt alla mína samúð.

Kolgrima, 22.9.2007 kl. 16:51

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég hefði ekki trúað því að þetta væri hægt. Hélt að GSM kerfið væri öruggara. Ef þetta er hægt, hvað er þá ekki hægt í GSM kerfinu?  Svona lagað er gjörsamlega óþolandi. Það er auðvelt að ímynda sér hve auðvelt er að eyðileggja mannorð fólks með því að senda SMS í nafni þess.

Vonandi miðar rannsókn á málinu vel. Þú mátt gjarnan fræða okkur um hvað kemur út úr þeirri rannsókn.

Ágúst H Bjarnason, 22.9.2007 kl. 16:53

15 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Sæl Ólína.
Ef þú ert með kveikt á BlueTooth þá er hægt að hakka sig inn á farsíma í gegnum það, og úr fjarlægð.
Kíktu á grein sem ég skrifaði um þetta fyrir all nokkru, kannski hún hjálpi. Liður 5, "Öryggisgallar í útfærslum bluetooth".

Sigurjón Sveinsson, 22.9.2007 kl. 17:16

16 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Ég hef aldrei heyrt um svona lagað. Þetta er ömurlegt.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 22.9.2007 kl. 17:43

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega ömurlegt Ólína mín, ég vona að þessi manneskja náist og málið verði upplýst.  Von að þú sért óhress með svona lagað.  Ég yrði alveg brjáluð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.9.2007 kl. 18:45

18 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þegar og ef þú kemst að því hvernig þetta er gert, væri gott að þú sendir út aðvörun.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 22.9.2007 kl. 19:17

19 Smámynd: Huld S. Ringsted

Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt, ég vissi ekki að þetta væri hægt! ég yrði brjáluð....................vonandi næst sá sem gerði þetta.

Huld S. Ringsted, 22.9.2007 kl. 22:34

20 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Svei mér þá, það er orðið fátt sem sem bregður manni í dag.

Edda Agnarsdóttir, 23.9.2007 kl. 09:53

21 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Sæl Ólína mín. Síst hefði mig grunað, þegar við vorum staddar í Reykjadal innan við Hveragerði í gær, að innbrotsþjófar væru að athafna sig á sama tíma í gegnum þitt einkasímanúmer. Nútímatækni gerir svona aumingjum því miður kleift að falsa svona ósóma. Þetta er yfirleitt fólk sem þorir ekki að koma fram undir nafni; heiglar sem njóta þess að fylgjast með úr fjarlægð þegar skítverkin þeirra koma í ljós. Þú átt alla mína samúð. Ég vona svo sannarlega að það náist í hinn seka svo hann fái að standa frammi fyrir gjörðum sínum og svara fyrir þær.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 24.9.2007 kl. 13:14

22 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Þetta á ekki að vera hægt

Einar Bragi Bragason., 24.9.2007 kl. 15:33

23 identicon

Ég er ánægð að sjá að þú ert búin að kæra málið. Mér sýnist að sá einstaklingur eða einstaklingar sem gerðu þetta séu þannig innrættir að þeir læri ekki muninn á hrekk og siðferðisbresti öðruvísi en að fá á sig kæru, vonandi dugar það til. Það er algjörlega óþolandi að fólk geti átt það yfir höfði sér að lenda í svona nokkru. Þú átt alla mína samúð.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 17:14

24 Smámynd: Lilja Einarsdóttir

Ekki skil ég hvað svona fólki gengur til og því síður hvað það fær út úr þessu, en svona er ég bara. Gott mál að kæra og vonandi fær sá hinn sami að svara vel fyrir sig. Það er frekar ónotaleg tilfinning þegar brotist er inn hjá manni á hvaða hátt sem það er gert.

Lilja Einarsdóttir, 24.9.2007 kl. 23:02

25 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Andsk.... ófyrirleitni!  Ég vona að lögreglan fylgi málinu eftir og finni út úr þessu, svonalagað á fólk bara ekki að komast upp með. 

Marta B Helgadóttir, 24.9.2007 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband