"Grunnhyggni og gusugangur" kvenna?

Auðvitað er það grunnhyggni og gusugangur í þeim stöllum /..../ að greiða atkvæði gegn þessari tillögu" segir yfirlæknir á Ísafirði í nýlegri grein á bb.is sem hann nefnir "Þeir gusa mest sem grynnst vaða" . Þessi ágæti yfirlæknir á það til að blanda sér í opinbera umræðu þegar mikið liggur við - og þá jafnan ef honum finnst halla á Sjálfstæðisflokkinn. Er ekki nema gott um það að segja þegar menn taka til máls um það sem heitast brennur hverju sinni - en kvenfyrirlitningin sem birtist í þessum ummælum er þessleg að manni fellur eiginlega allur ketill í eld.

Maður hefði haldið að á því herrans ári 2007 myndi ofangreind afstaða til kvenna heyra sögunni til í opinberri umræðu. En því er víst ekki að heilsa. Það finnast enn karlmenn - í góðum starfi, á besta aldri - sem niðurlægja konur með niðrandi ummælum um vitsmuni þeirra og skapferli, hvort sem það er nú viljandi gert eða ekki. Hvers vegna? Því get ég ekki svarað, en víst er að umræddar konur eru annarrar skoðunar en yfirlæknirinn í byggðamálum. Skal engan undra, þær eru í öðrum stjórnmálaflokki, auk þess að vera KONUR (og það bara fjandi klárar og skeleggar konur, svo ég segi nú eins og er). 

Lesendur góðir - sjáið þið fyrir ykkur að karlmaður í góðri stöðu á góðum aldri myndi skrifa um "grunnyggni og gusugang" annars karlmanns á svipuðu reki og róli í lífinu Angry  Nei, það er augljóslega enn verk að vinna í kvennabaráttunni, þó að mannsaldrar hafi liðið á þeirri vegferð, og  komið sé fram á 21 öld.

Verk að vinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En ef kvenmaður hefði skrifað um atkvæðagreiðslu tveggja karla að hún væri grunnhyggni og gusugangur, lýsti það þá afstöðu hennar til karla? Mér finnst ég oft hafa heyrt eftir (stjórnmála)-karlmönnum höfð orð af svipuðum toga um aðra (stjórnmála)-karlmenn. Maður þorir varla að opna munninn lengur af ótta við að missa út úr sér eitthvað "politically uncorrect".

Annað: Í framhaldi af umræðu um vísur Vatnsenda-Rósu rifjast upp fyrir mér "lagfæring" (karla?) á Eldgömlu Ísafold þar sem girnd konu til karla var breytt í girnd karla til konu. Í handriti Bjarna Thorarensen mun standa: "og guma girnist mær" en vegna þess hvað það var  "politically uncorrect" var þessu breytt, með tilheyrandi málfræðivillu, í "og gumar girnast mær". Mær beygist mær, mey, meyju, meyjar og ég er nokkuð viss um að Bjarni hefur vitað það. Mér finnst reyndar makalaust að Bjarni skuli hafa ort um girnd konu (et.) til karla (ft.) á þessum tíma.

Magnús (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 09:01

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Magnús.

Þú spyrð hvort það myndi lýsa viðhorfi konu til karla ef hún lýsti afstöðu þeirra sem gusugangi og grunnhyggni. Já, svo sannarlega. Það væri a.m.k. ekki til marks um virðingu hennar fyrir þeim karlmönnum sem um væri rætt. Af hverju rökræða menn ekki bara um forsendur þess að vera með eða á móti einhverju máli, efnislega?

 Svona skætingur og palladómar um fólk er hundleiðinlegur í opinberri umræðu - enda beinlínis ætlað að meiða og sverta þá sem um er rætt, og það er leiðinlegt að verða vitni að því. Vel upplýst fólk sem hefur komið ár sinni vel fyrir borð í lífinu á bara ekkert að haga sér svona.

En þetta með girnd kvenna til karla í ljóði Bjarna Thorarensen finnst mér alveg stórskemmtilegt - og skal játa að ég vissi það ekki. Takk fyrir skemmtilegan fróðleiksmola þar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.9.2007 kl. 10:55

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég hætt mér aldrei út í svona umræður. Vil jafnrétti á hinum breiðasta grundvelli. Sé aldrei málin sem kvennamál eða karlamál heldur manneskjumál.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.9.2007 kl. 11:59

4 Smámynd: Kolgrima

Ja, ekki bera þessi orð vitni um virðingu fyrir "þeim stöllum", svo mikið er víst.

Kolgrima, 17.9.2007 kl. 12:32

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hvernig í ósköpunum færð þú út, af lestri þessarar greinar, kvenfyrirlitningu?????

 Hann sendi hvað beittustum örvum að karlmanni, hverjum hann neri uppúr hugsanlegri andúð á framfaramálum fjórðungsins.

Hitt er jafnvíst, að komur girnast karla, þökk sé Guði.

Hjalaði í þessa veru, eitt sinn, þegar karlar voru að mikla sig af sonum sínum, hve djarftækir þeir væru til kvenna og töldu það vísan í sína eigin kynstærð.

Ég gerist svo óforskammaður, að spyrja þá um nöfn DÆTRA sinna, sem að líkum vær jafn skyldar þeim og hefðu fengið viðlíkt í vöggugjöf og bræður þeirra.

Karlana setti hljóða en konur allnokkrar á fundinum hlógu hraustlega mjög, líkt og vestfirskum konum er von og vísa.

Miðbæjaríhaldið

alinn upp við, að til séu menn, annaðhvort kven eða karl.  Öngvir væru öðrum fremri, vegna kynferðis eða aura.

Bjarni Kjartansson, 17.9.2007 kl. 12:53

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Konur í Guðs bænum hættið þessu væli; eru allir vondir við ykkur?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.9.2007 kl. 12:57

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Do.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.9.2007 kl. 15:32

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er dásamlegt að sjá hvernig karlremban brýst fram hjá sumum, sérstaklega þeim sem geta skrifað undi nafnleynd. Mér láðist að læsa athugasemdakerfinu við þessa færslu - og geri það varla héðan af, úr því blásturinn er byrjaður.

Virðing fyrir þeim sem hafa aðrar skoðanir en maður sjálfur er sjálfsögð í opinberri umræðu -- og það er hreint ekki sama hvernig maður notar myndmál í því sambandi.

Ef menn sjá ekki ekkert athugavert við það að vísa til afstöðu tveggja kvenbæjarfulltrúa í tilteknu máli sem "gusugangs og grunnyggni" í opinberri blaðagrein - þá get ég ekki hjálpað þeim.

Ég býst heldur ekki við að ég geti hjálpað mönnum eins og þeim sem kallar sig Dharma hér fyrir ofan - en hann raðar saman fleiri fúkyrðum í einni færslu en ég hef séð hingað til. Þar gefur að líta munnsöfnuð á borð við "röfl" og "væl"  og "rugl" og "ofsóknarbrjálæði" og "kvenrembu" og "sleggjudóma" -- svo ég tíni nú bara til sumt af því sem maðurinn segir í sinni fyrstu færslu um álit mitt á skrifum yfirlæknisins.

Annars ætla ég ekki að elta ólar við að svara manni sem raðar saman fúkyrðum fremur en að brúka mannasiði. Slík skrif eru ekki svaraverð.

Mér þykir verst að hann skuli sóða út síðuna mína með þessum munnsöfnuði - en það verður víst að hafa það.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.9.2007 kl. 15:51

9 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já yndislegt hvað konur eiga bara alltaf að þegja og láta vaða yfir sig á skítugum skónum. Væri kannski ráð að kenna lækninum muninn á því að gagnrýna skoðanir og persónur? Vont ef hann lætur tilfinningasemina sí og æ hlaupa með sig í gönur.

Konur í stjórnmálum hafa löngum mátt sæta því að vera gagnrýndar á annan hátt en karlar. Útlit þeirra er oftar umfjöllunarefni og þær verða fyrir meiri og harkalegri persónulegri gagnrýni. 

Gott hjá þér að vekja athygli á þessu.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 17.9.2007 kl. 16:37

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk Katrín Anna. Ég var bara farin að halda að engin kona þyrði að stinga sér í laugina með mér í þessari umræðu. Gleður mig að sjá línu frá þér.

Baráttukveðjur

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.9.2007 kl. 16:50

11 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Svona ummæli hefðu kannski þótt "eðlileg" fyrir einhverjum tugum ára en svona á ekki að gerast í dag - hvað er þessi læknir gamall eiginlega ?

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 17.9.2007 kl. 19:08

12 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Hef velt þessum málum fyrir mér eins og öðru. Stundum finnst mér vera tengsl á milli afstöðu karlmanna til kvenna og þeirrar virðingar sem mæður þeirra höfðu/hafa. Bar faðirinn virðingu fyrir móður viðkomandi drengs. Þetta er að sjálfsögðu ekki nein vel sönnuð vísindi. Aftur á móti er sennilega gott að hefja vinnu kvenréttinda í höfði eiginmannsins.

Gunnar Skúli Ármannsson, 17.9.2007 kl. 19:58

13 identicon

Oft hefur mér fundist sem talað væri öðruvísi til kvenna en karla í hinni opinberu umræðu. Og skrifaði ég reyndar um það  hér.

Svo hefur mér stundum fundist skondið að fylgjast með körlum, til dæmis stjórnmálakörlum, "takast á" í umræðunni, en klappa hver öðrum aðeins í leiðinni...Í slíkri umræðu er til dæmis sagt eitthvað á þessa leið: "Minn kæri vinur....ég er ósammála þér"  og svo frv.

En ég sá líka grein um daginn, þar sem stjórnmálakarl skrifaði um annan stjórnmálakarl, að hann væri tuddi á velli, naut í flagi og fíll í postulíninu - ef ég man þetta rétt - og ég velti því þá fyrir mér hvort við Íslendingar gætum hreinlega ekki rökrætt á málefnalegum grunni...

Það er með öðrum orðum afar sorglegt þegar fólk þarf að grípa til skítkastsins. En þá er fólk sennilega orðið rökþrota.

Arna Schram (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 21:34

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jæja - það er greinilegt að Dharma stendur í þeirri meiningu að með því að tala nógu mikið og lengi - með því að eyða nógu miklu plássi hér á síðunni - þá geti hann haft betur í þessari rökræðu. Ég segi hann - þó að Skúli álíti að þetta sé kona - enda talar hann um sjálfan sig í karlkyni.

Mig farið að gruna að þarna sé einhver hreinlega að reyna að æsa upp umræðuna með því að láta eins og fífl, svo yfirgengilegur er þessu málflutningur. Það stendur bara ekki steinn yfir steini, dælan látin ganga með fúkyrðum um "rökleysur", "hræsni" og "forneskjulegar rauðsokkur" sem hann segir "sótsvartar af bræði" (á þar við mig), "ofstækisfulla femínista" með "röfl" og "væl". Hann leggur öðrum orð í munn og fabúlerar út í eitt. Það er ekki hægt að rökræða við fólk á þennan hátt - enda er ég komin á þá skoðun að þessí náungi sé að skemmta sjálfum sér og skrattanum.

Því til stuðnings vísa ég á orðrétt dæmi úr ræðu hans í athugasemd nr. 13, þar sem hann þykist sýna fram á mótsagnir í röksemdum mínum. Ekki tekst þó betur til en svona:

"Uppleggið í skrifum þínum er að þegar karlmaðurinn segir þetta um konur sé hann að sýna kvenfyrirlitningu og yfirgang í garð kvenna... en þegar þú svo svarar því sjálf hvernig þetta væri ef þetta væri "omvendt", þá talarðu ekki um sama hlutinn.  Vissulega bera skrif læknisins ekki vott um virðingu hans gagnvart þessum tveimur mætu konum sem embættismönnum eða virðingu gagnvart skoðunum þeirra.  En þú vilt meina að hann sé að sýna þeim, sem konum, vanvirðingu.  En þegar borðinu er snúið við, þá talarðu um að (svo ég umorði) að kona væri ekki að sýna karli með þessar skoðanir virðingu ef hún talaði svona.  En þarna ertu ekki að tala um sama hlutinn.  Þegar kona myndi segja þetta, að þínu mati, væri hún dónaleg og sýndi karlinum ekki virðingu (eða skoðunum hans), en þegar karl segir þetta við konu er hann allt í einu orðinn sekur um kvenfyrirlitningu."

I rest my case.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.9.2007 kl. 22:42

15 Smámynd: halkatla

útfrá orðunum grunnhyggni og gusugangur að dæma gæti eg trúað að læknirinn góði hafi verið að hugsa um Pamelu Anderson og Jordan í blautbolakeppni meðan hann skrifaði greinina, og ekki meint neitt ill... vonandi er þetta ekki að særa neinn en þetta er mín kenning.

halkatla, 18.9.2007 kl. 01:48

16 identicon

Hvað er eiginlega að þessum manni sem kallar sig Dharma?  Ég hef bara aldrei séð annað eins á prenti og þetta sem hann lætur út úr sér. Ólína, geturðu ekki lokað á manninn - hann er að kæfa alla umræðu hér með orðaflaumi út í loftið.

Mér finnst gott hjá þér Ólína að taka þetta mál upp. Það er full ástæða til að halda vöku sinni yfir því hvernig karlmenn nota tungumálið til þess að gera lítið úr konum - viljandi eða óviljandi, eins og þú segir. Takk fyrir.

Helga Kristín (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 10:23

17 identicon

Ólína, mér finnst svar þitt við pistlum Dharma heldur grunnt.

Úbbs....

Magnús (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 10:37

18 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þér má finnast það Magnús - enda munur á því hvort þú talar um svar mitt (það sem ég segi) eða mig sjálfa. Og þetta er einmitt kjarni míns máls, að gera greinarmun á manneskjunni og málefninu. Þann mun gerir Dharma ekki í sínum færslum og heldur ekki umræddur yfirlæknir í þeim ummælum sem eru tilefni þessarar skrifa.

Lastaðu syndina, ekki syndarann - segir einhversstaðar. Það er munur á því hvort maður talar um t.d. kvenfyrirlitningu sem birtist í tilteknum ummælum, eða hvort maður kallar þann sem talar kvenhatara. Ég myndi aldrei halda því fram að umræddur læknir sé kvenhatari - en ummælin fela í sér kvenfyrirlitningu eins og þau eru sett fram.

Á sama hátt líkar mér ekki hvernig Dharma setur fram mál sitt. Ég ætla hinsvegar ekki að slengja fram neinum dómum um einstaklinginn að baki ummælunum, enda þekki ég hann ekki. En mér finnst  málflutningurinn þannig að ég efa stórlega að manninum sé alvara. Það er bara mín tilfinning.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.9.2007 kl. 13:10

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég sé ekki betur en að Þorsteinn Jóhannesson gagnrýni bæði karla og konur í umræddri grein þó að hann tali einungis um grunnhyggni hjá konunum, enda gengu þær á móti því sem hann taldi skynsamlegast en karlarnir sátu hjá.  Hann rökstyður ágætlega mál sitt, þ.e. hvers vegna hann telur kolefniskvóta nauðsynlegan og því er ekki um órökstutt álit á afstöðu kvennanna og karlanna að ræða.  Ef ég væri sagður grunnhygginn í einhverju máli tæki ég því ekki sem einhverjum alsherjardómi um mína persónu eða mitt kyn.   Mofi (Halldór Magnússon) nokkur sagði mig haldinn "viðbjóðslegri heimsku" um daginn vegna ágreinings okkar um tilurð og þróun lífs á jörðinni.  Á ég að taka því þannig að hann telji allt sem ég læt frá mér heimsku eða að allir karlmenn á fertugsaldri séu viðbjóðslega heimskir? 

Ég er læknir og var smá tíma veturinn 1991 í læri sem læknanemi hjá Þorsteini yfirlækni á Ísafirði.  Eitt sinn hitti ég hann á gangi spítalans og sagði honum sögu af einhverjum "kerlingum" sem ég hafði hitt í bænum.  Þorsteinn tók mig á beinið fyrir þetta og sagði að ég ætti að segja "konur" en ekki "kerlingar".  Ég hef ekki þorað að nota orðið síðan, he he.  E.t.v. segir þetta eitthvað um hug Þorsteins til kvenna en þú vænir hann um annað.

Svanur Sigurbjörnsson, 18.9.2007 kl. 14:33

20 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Svanur.

Það er gott að sjá að Þorsteinn læknir hefur tuktað þig til fyrir að láta karlrembuleg ummæli falla um konur. Honum verður að vísu sjálfum á löngu síðar, eins og ég hef rakið, en það getur hent okkur öll. Ég hef hins vegar ekki dæmt hann sem persónu (og raunar hvergi nafngreint hann fyrr en nú, að þú gerir það).

Ég ætla ekki að láta draga mig út í spekúlasjónir eða karp um eitthvað annað en sjálf ummælin sem féllu í grein Þorsteins. Þá á ég við þessi orð "Auðvitað er það grunnhyggni og gusugangur í þeim stöllum /.../ að greiða atkvæði gegn þessari tillögu". Það eru þessi orð sem eru til umræðu - ekki persóna Þorsteins læknis eða neitt annað. 

Ég  gagnrýni ummæli hans með sama rétti og hann virðist sjálfur hafa gert þegar þú talaðir um "kerlingarnar" . Svo get ég bara vonað að gagnrýni mín hafi sömu áhrif og hann og orð hans höfðu á þig á sínum tíma.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.9.2007 kl. 14:51

21 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Smá í viðbót...

Katrín Anna sagði hér að ofan "Væri kannski ráð að kenna lækninum muninn á því að gagnrýna skoðanir og persónur?"

Þetta er mikilvægur punktur.  Auðvitað er það ákveðin persónuárás af hálfu Þorsteins að segja konurnar "grunnhygnar" og viss áfellisdómur um skynsemi þeirra eða gáfur.  Hins vegar er ljóst af samhenginu að hann á við um grunnhyggni í þessu tiltekna máli og það er talsverður munur á því og kalla t.d. einhvern almennt heimskan eða grunnhygginn.   Slíkir dómar eru samt sem áður ekki heppilegir þar sem þeir draga athyglina af málinu sjálfu og eru ekki fallnir til þess að fólk nái sáttum um mál síðar meir.  Það myndi t.d. ekki hjálpa kennara í kennslu að kalla nemanda sem segði 2+2 vera 3 að kalla nemandann heimskan eða eitthvað slíkt.  Stundum þarf þó að gagnrýna fólk og kalla hlutina réttum nöfnum.  Ég kalla það t.d. óskynsemi og grunnhygni af hálfu sterktrúaðra að trúa bókstaflega á sköpunarsögu Biblíunnar. 

Í USA þar sem ég vann stóð ég samstarfskonu sem var dökk á hörund að því að ljúga að mér og valda mér talsverðu óhagræði í vinnu.  Ég gagnrýndi hana.  Nokkrum dögum síðar heyrði ég að hún var farin að breiða það út að ég væri rasisti.  Í USA er þetta kallað "playing the racial card", þ.e. að beita fyrir sér ímynduðu kynþáttahatri til að koma höggi á andstæðinga sína.  Mér sýnist þú Ólína vera að falla í þessa gildru og sjá hér "kvenfyrirlitningu" út úr gagnrýni sem er dálítið óvægin.  Ég þekki til Þorsteins (sem er ekki að tala þarna sem "yfirlæknir") og veit að hann er harður gagnrýnandi á alla, konur og karla.

Svanur Sigurbjörnsson, 18.9.2007 kl. 15:32

22 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Ólína

Þú segir "Ég hef hins vegar ekki dæmt hann sem persónu (og raunar hvergi nafngreint hann fyrr en nú, að þú gerir það)."

Auðvitað ertu að dæma hans persónu að einhverju leyti með því að segja að "kvenfyrirlitningin sem birtist í þessum ummælum..."   Það er ekki hægt að rífa í sundur algerlega framkomu og skoðanir fólk frá persónu þess.   Því alvarlegri sem gagnrýnin er, því meir verður það tengt persónu viðkomandi. 

Það væri mun hreinlegra af þér að tala um Þorstein með nafni því þú vitnar í greinina hans þar sem nafn hans og mynd kemur fram.   Þú ert því ekkert að hlífa honum með því að tala um "yfirlækninn á Ísafirði".  Þvert á móti ertu með þessu að draga að óþörfu starf hans inní myndina og hættir á að aðrir yfirlæknar á Ísafirði verði álitnir haldnir "kvenfyrirlitningu" hjá þeim sem skoða ekki greinina sem þú vísar í.   Ég ákvað að nota nafn hans svo enginn vafi léki á um hvern er talað hér.  

Svanur Sigurbjörnsson, 18.9.2007 kl. 15:48

23 Smámynd: Sævar Helgason

Ekkert smáræði sem þú hefur hrært upp í karlfiskinum með þessari flottu blogfærslu þinni, Ólína.

Sumir þurfa heilu lengdarmetrana til að létta á hita tilfinninganna hjá sér ... það  er gaman að þessu. 

Sævar Helgason, 18.9.2007 kl. 15:54

24 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jæja, vonandi getum við nú farið að slá botn í þetta.

Ég vil bara benda Svani á - úr því hann gerir athgasemd við að ég skuli vísa til starfsheitis Þorsteins Jóhannessonar - að Þorsteinn skrifar umrædda grein undir starfsheitinu "læknir". Hann er ekki að tala sem trúnaðarmaður almennings, bæjarfulltrúi eða álíka í þessari grein, enda hefur hann mér vitanlega ekki slíkt starf með höndum. Maðurinn er starfandi yfirlæknir, og hann talar sem slíkur.

 Svo þakka ég Sævari Helgasyni - mínum nýja bloggvini - fyrir hlýja kveðju

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.9.2007 kl. 16:34

25 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já það er alveg rétt hjá þér Ólína.  Hann skrifaði undir sem "læknir".   Ég tek því gagnrýni mína til baka hvað það varðar.

Svanur Sigurbjörnsson, 18.9.2007 kl. 17:15

26 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég tek undir flesta gagnrýni á gagnrýni þína, Ólína. Sé enga kvenfyrirlitningu, aðeins háðug ummæli.

Annað sem mig langar að nefna; Helga Kristín segir "Ólína, geturðu ekki lokað á manninn - hann er að kæfa alla umræðu hér með orðaflaumi út í loftið. " Hvernig er hægt að kæfa umræðu hér? Ef einhver vill koma einhverju á framfæri í athugasemdardálknum hér þá gerir hann/hún það bara. Það er ekki eins og hávaðinn frá síðustu athugasemd yfirgnævi það sem á eftir kemur. Auk þess geta þeir sem vilja, skautað yfir þær athugasemdir sem ekki samræmast þeirra skoðunum. Persónulega hef ég meira gaman af að lesa athugasemdir og pistla sem ekki samræmast minni skoðun, en það er önnur Ella.

Og orð þín Ólína; "Jæja, vonandi getum við nú farið að slá botn í þetta".  Svona skil ég ekki. Athugasemdarkerfið er opinn vetfangur og er í raun ekki bloggsíðan þín þó hún tengist henni. Þú hefur auðvitað fullt vald yfir því sem hér birtist og allt persónulegt skítkast og ærumeiðingar eiga hvergi að líðast, en þó einhverjir vilja halda umræðunni áfram þá er ekki eins og þú þurfir að vera á bakvakt allan tímann, pungsveitt.  

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.9.2007 kl. 05:19

27 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Mikil spjöll hafa þau unnið, sem bjuggu til ,,Kvennafræði"  og að ekki sé talað um að skella þeirri grein á ,,Akademískt" plan.

Orðanotkun sem hefur þótt góð íslenska er bannfærð og frelsi kven-MANNA er fótum troðið í flaumi orða úr munni einmitt þeirra, sem telja sig sérlega bera hag kven-MANNA fyrir brjósti.

Ekki fyrir svo mjög löngu síðan, var það lenska vestra, að öngvu skipti, hvort þar færi kona eða karl.  jafnt var skammtað og jafnt var talað til viðkomandi.

Ég er ekki barnfæddur ,,heima" en uppalinn í þeim anda sem þar var og  þá ég fyrst kom vestur í Djúp, bráðungur, fannst mér allt sem heima í samskiptum fólks. 

ÞAr voru menn, bæði kalrlar og konur, kallaðar Kerlingar, vísað í, að viðkomandi væri aumur, lélegur til verka eða geðlaus, sem sé karlægt hró.  Já Hró var jafnt brúkað um karla og konur.

Ámma mín, fædd  nokkru fyrir aldamótin 11800/1900 talaði mál, sem var lifandi í hennar munni og merkingar orðanna fóru lítt milli mála.  Skemmtilegt dæmi um orðið myrða, hún notaði það oft um að fela.  Hvar myrti ég nú aftur súkkúlaðið.  Það voru nefnilega ungar sem þurftu nammi og því betra að hafa það ekki á glámbekk.

Leggið af þetta þras um mun kynjana, það gerir ekkert annað en grafa enn dýpri holur og brjála samskipti fólks.  Káfið á rótum ykkar og sannfærist um, að hvergi í víðri veröld var jafnrétti meir en einmitt á Vestfjörðum.  Haldið í það sem hald er í, að hætti okkar íhaldsmanna og laugið ykkar sálir í ylvolgri laug staðbundinnar menningar okkar á Vestfjörðum.

Það mengaðist nokkuð hér syðra, af dönskum befalningsmönnum, en hélst klárt og gagnsætt ,,Heima".þ

Með virðing

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 19.9.2007 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband