Vísa Vatnsenda-Rósu um augað fagra

Ég þreytist ekki á að reyna að leiðrétta þessa vitleysu. Það er "augað mitt og augað þitt" EKKI "augun mín og augun þín" eins og svo margir syngja núorðið sem eina af vísum Vatnsenda-Rósu. Um þetta hef ég skrifað lærðar greinar ... og mun halda áfram að berjast við þessa vindmyllu. Og hér fylgir rökstuðningurinn. Hann er samantekt úr þremur blaðagreinum sem ég hef áður skrifað um þetta efni.

  • Augað mitt og augað þitt,
  • ó, þá fögru steina,
  • mitt er þitt og þitt er mitt
  • - þú veist hvað ég meina.

 

Það gerist æ algengara, einkum á seinni árum, að bjartar kvenraddir syngja af mikilli innlifun “augun mín og augun þín” – síðan “ó, þá fögru steina” eða “ó, þeir fögru steinar” eða “og þá fögru steina” eða “og þeir fögru steinar”. Þá er klykkt út með “mitt er þitt og þitt er mitt” eða “mitt var þitt og þitt var mitt” og loks “þú veist hvað ég meina” – en það er eina ljóðlínan sem allir virðast sammála um hvernig með skuli farið.

Svo allir njóti nú sannmælis er rétt að taka fram að vísan er til í mismunandi gerðum. Einkum er misjafnt hvernig farið er með 2. og 3. línu og því skiljanlegt  að þær séu sungnar á ýmsa vegu. Erfiðara er að sætta sig við þann umsnúning að setja fyrstu ljóðlínuna í fleirtölu og eyðileggja þar með rímfestu vísunnar. Þegar ég á dögunum rökræddi þetta við kunningjakonu mína sagði hún nokkuð sem trúlega varpar ljósi á það hvers vegna þessi tilhneiging er svo rík sem raun ber vitni: “Maður segir nefnilega ekki auga þegar maður meinar augu”. Hún var sigri hrósandi þegar hún bætti við: “Það hljóta meira að segja skáldin að skilja”. Séu þessi ummæli til marks um það sem gerst hefur í meðförum vísunnar, hefur merkingafræðin riðið bragfræðinni á slig.

Upptök skekkjunnar má trúlega rekja aftur til ársins 1949 þegar Snorri Hjartarson tók saman Íslenzk ástarljóð[1] og birti vísuna þar með upphafinu: “Augun mín og augun þín / ó, þá fögru steina” (bls. 83). Þannig orðuð virðist hún svo hafa ratað á nótnablöð, inn í sönghefti, á hljómplötur, diska og hljóðbönd með þeim afleiðingum að á síðustu árum ómar hún hvarvetna í þessari gerð.

 Bragfræðin

Auðséð er að þeir eru æði margir – undarlega margir – sem láta sig litlu skipta að orðið “þín” skuli eiga að heita rímorð á móti “mitt” í ferskeyttri vísu. Litlu skiptir hversu ómþýður raddblærinn er sem berst úr ungmeyjarbarkanum – jafnvel fegursti söngur getur ekki mildað hið skerandi ósamræmi vísuorðanna í sæmilega heilbrigðu brageyra.

            Eins og allir bragglöggir menn sjá og heyra þá hefur þessi vísa Vatnsenda-Rósu verið samin í dæmigerðum ferskeyttum hætti með víxlrími þar sem saman eiga að ríma síðustu orð 1. og 3. línu annars vegar (þitt / mitt) og 2. og 4. línu hins vegar (steina / meina). Sveinbjörn heitinn Beinteinsson, einn fremsti hagyrðingur landsins, sem fáir hafa staðist snúning í bragfimi, birtir vísuna í Lausavísnasafni sem hann tók saman fyrir Hörpuútgáfuna 1976. Þar er hún eins og ég hef skrifað hana hér fyrir ofan[2] 

Sveinbjörn lætur þess ekki getið hvaðan hann hefur þessa gerð vísunnar, enda ekki við því að búast í knöppu lausavísnasafni. Það gerir hinsvegar Guðrún P. Helgadóttir í sínu merka riti Skáldkonur fyrri alda þar sem hún fjallar ítarlega um ævi og skáldverk Rósu Guðmundsdóttur. Líkt og hjá Sveinbirni er upphaf vísunnar í riti Guðrúnar “augað mitt og augað þitt” en önnur ljóðlína er “og þá fögru steina”.[3] Af umfjöllun Guðrúnar má ráða að vísuna sé að finna í fjórum af þeim sjö handritum sem lagðar eru til grundvallar kaflanum um Vatnsenda-Rósu.[4]

 Samtímaheimildir

Af þeim handritum vísunnar sem Guðrún tilgreinir eru þrjú frá því um og eftir miðbik nítjándu aldar. Þau eru:

- Natans saga Gísla Konráðssonar sem Dr. Jón Þorkelsson afritaði 1884[5] og studdist þá við bæði yngri og eldri gerð Natans sögu Gísla frá 1860-1865.[6] Í uppskrift Jóns er upphaf vísunnar “Augað mitt og augað þitt” en þriðja línan er “mitt er þitt og þú er mitt”.

- Ljóðmæli eftir ýmsa tilgreinda höfunda, skráð með hendi Páls stúdents Pálssonar og varðveitt í Landsbókasafni.[7] Hér er upphaf vísunnar “Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar”.

- Kvæðasafn ýmissa höfunda skrifað upp af nokkrum skrásetjurum á fyrri hluta 19. aldar. Í þessari heimild, líkt og í uppskrift Páls stúdents, er upphaf vísunnar einnig “Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar”.[8]

  Þær heimildir sem nú eru nefndar eru allt 19. aldar uppskriftir á ljóðmælum, það er að segja úr samtíma skáldkonunnar. Svolítill blæbrigðamunur er á vísunni í handritunum en allar eru þær samhljóða um upphaf hennar: “Augað mitt og augað þitt”.  

Enginn sem lesið hefur ljóðin hennar Skáld-Rósu þarf að velkjast í vafa um hvort jafn hagmælt og listhneigð kona hefði látið frá sér fara vísu sem ekki laut rímkröfum. Þá, eins og nú, var algengt að menn hnikuðu til orðaröð og settu fleirtöluorð í eintölumynd til þess að þjóna hrynjandi og formgerð ljóðmálsins. Skáld getur því hæglega komið merkingu ljóðmálsins til skila þó það fylgi ekki ströngustu málfræðireglum. Það nefnist skáldaleyfi  og er vel þekkt. Um það vitna mýmörg dæmi frá ýmsum tímum – ekki síst önnur vísa eftir Skáld-Rósu sem Sveinbjörn Beinteinsson birti í fyrrnefndu lausavísnasafni. Má þar glöggt sjá að skáldkonunni var vel tamt að nota eintölumyndina “auga” þegar hún hugsaði um “augu” – og gerði það óhikað ef formið krafðist þess:

 

Augað snart er tárum tært,

tryggð í partast mola,

mitt er hjartað sárum sært,

svik er hart að þola.

 

PS: Þessi skrif eru byggð á greininni "Sjá betur augu en auga?" sem ég skrifaði um sama efni í bókina Á sprekamó - afmælisrit tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum" (bókaútgáfan Hólar) árið 2005.


[1] Íslenzk ástarljóð. Snorri Hjartarson valdi ljóðin. Hörpuútgáfan. Reykjavík.

[2] Lausavísur frá 1400 til 1900. Safnað hefur Sveinbjörn Beinteinsson. Hörpuútgáfan. Reykjavík 1993, bls. 12 (fyrsta útgáfa 1976).

[3] Guðrún P. Helgadóttir 1993: Skáldkonur fyrri alda II. Kvöldvökuútgáfan á Akureyri 1963, bls. 155. Bókin var síðar endurútgefin af Hörpuútgáfunni 1993.

[4] Auk handritanna styðst Guðrún við útgáfu Brynjólfs Jónssonar á Minna-Núpi á Natans sögu Ketilssonar og Skáld-Rósu frá 1912 en þar er vísan sögð öðruvísi. Brynjólfur byggir á Natans sögu Gísla Konráðssonar sem neðar er getið og Natans sögu Tómasar Guðmundssonar á Þverá sem skráð var um miðbik 19. aldar og er varðveitt í Lbs 1933 8 vo.

[5] Lbs 1320 4to.

[6] JS 123 8vo og Lbs 1291 4 to.

[7] Lbs 162 8vo.

[8] JS 83 8vo; sbr. GPH II, nmgr. 274.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk kærlega fyrir þennan pistil. Þessi staðreynd hefur alveg farið framhjá mér. Mér þykir afskaplega vænt um lagið og löngu tímabært að koma textanum líka rétt frá sér. Vonandi tekst á endanum að vinda ofan af þessari vitleysu.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 16:41

2 Smámynd: Ester Rut Unnsteinsdóttir

nú er ég fróðari enda af þeirri kynslóð að halda að augun hafi verið í fleirtölu - en til hamingju með daginn um daginn Ólína, ég sé að við erum nánast jafngamlar - ég á við ungar...

Fjóla biður að heilsa Blíðu

Esterebbi 

Ester Rut Unnsteinsdóttir, 10.9.2007 kl. 18:57

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir greinagóðar upplýsingar og góðan pistil. Ég hef tekið eftir þessu með "mín/mitt" en finnst gaman að fá þessar upplýsingar. Mér hefur alltaf þótt þetta einstaklega fallegt.  Kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 10.9.2007 kl. 19:39

4 identicon

Þetta er nógur rökstuðningur fyrir mig. Ég sé að þú hefur rétt fyrir þér. Þetta hef ég nú sungið nokkuð oft með kórum og alltaf með röngum texta. Taldi mig kunna þetta óyggjandi rétt en líklega er brageyrað hjá mér lélegt þó ég hafi afskaplega gaman að góðum kveðskap. 

Eggert Aðalsteinn Antonsson (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 22:49

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gott og þarft að fá umfjöllun um þessa vísu. Sjálfur lærði ég hana í bernsku eins og þú skrifar hana og hef aldrei efast um að svona var hún frá hendi höfundar. En munnleg geymd vísna getur verið hrekkjótt og sjaldan einhlítt að rétta og upprunalega myndin komist óskemmd inn í þjóðarminnið. Og þótt ekki sé svo ýkja langt liðið frá dauða Skáld- Rósu eru áleitin efaefni í gangi um hennar bestu vísur. þar er það verst í efni að tvær af frægustu vísum sem henni eru eignaðar eru í kvæðinu "Vetrarkvíði" sem Sigurður Bjarnason í Katadal sendi Þorbjörgu konu sinni sem þá var vistuð í Spunahúsinu í K.höfn. Þau voru sem kunnugt er foreldrar Friðriks sem tekinn var af lífi ásamt Agnesi fyrir morðið á Natan Ketilssyni. Þorbjörg hlaut þenna dóm fyrir vanrækslu við uppeldi barna sinna. Vísurnar, "Þó að kali heitur hver"-(nú lokast alveg fyrir upphafið á hinni), en sem allir þekkja líka eru inni í umræddu kvæði sem er fjölmörg erindi og öll beinlínis snilld. Og þar falla þessar vísur að eins og flís við rass.

Þau Rósa og Katadalsfólk voru sveitungar um tíma og þrautkunnug.

Það er undarlegt að fræðaþulurinn Theodór Arnbjörnsson frá Stóra-Ósi setur þessar vísur inn í Vetrarkvíða, en að tilhlutan hans er þrtta kvæði fyrst prentað, ef þær eru illa fengnar. Theodór er á þeim aldri að þetta umtalaða morðmál er ferskt í umræðu sveitarinnar og mér finnst þurfa frjótt ímyndunarafl til að ætla honum að fara þar með fleipur. Ekki síst þegar þess er gætt að öll hin erindin standa nánast jafnfætis þessum tveimur hvað rímsnilldina varðar.

Og svo eitt í viðbót: Ég hef lengi efast um að meistarinn Stefán Ólafsson í Vallanesi hafi byrjað fræga vísu sína svona:

Ofan gefur snjó á snjó.

Mér finnst öll vísan krefjast þess að upphafið sé:

Óa gefur snjó á snjó.

Með kveðju!  

Árni Gunnarsson, 10.9.2007 kl. 23:30

6 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Takk fyrir skemmtilega yfirferð á hinu stórgóða ástarkvæði.

Mitt er þitt og þitt er mitt.

Svo getum við líka skiptst á augasteinum, ekkert brenglar sýn okkar, þó svo annað augað mitt væri úr þér og öfugt.

Gæti inntakið ekki verið á þá leið?  Skemmtilegt að ímynda sér það, -svona rómatískt.

Auk svo augljós bragfræði.

Bráðhagir láta ekki svona út úr sér, að vísuorðin rími ekki, -kemur bara ekki til mála.

Aftur.  Takk.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 11.9.2007 kl. 09:28

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Báðar útfærslurnar standast bragfræði að minni hyggju Bjarni. Útgáfa okkar Ólínu er hefðbundnari. Algengt er hinsvegar að góðir hagyrðingar leiki sér með afbrigði. Finnist frumhandritið ekki mun þetta fá að verða álitaefni um ókomna tíð.

Árni Gunnarsson, 11.9.2007 kl. 09:45

8 identicon

Hvaða rugl er í mér .....ég hitti Kristínu ekkert á sunnudaginn ,) það var á laugardaginn .. Svona verður maður ruglaður á dögunum þegar maður liggur í rúmminu með hausinn stútfullan af kvefi og hita  en hvað með það , til hamingju með daginn um daginn vinkona  

Kiddý (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 10:02

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka skemmtileg viðbrögð.

Árni, þú nefnir kvæðabálkinn Vetrarkvíða og vísuna "Þó að kali heitur hver". Raunar vissi ég ekki að tvær vísur væru eignaðar Rósu úr þessum bálki. En um þessa vísu vissi ég og það veldur mér heilabrotum.

Tvennt kemur til greina, að vísa Rósu hafi ranglega verið sett inn í bálkinn við útgáfu hans. Eða hitt að vísan, svo fögur sem hún er, hafi orðið fleyg eftir að bálkurinn var ortur, og síðan verið eignuð Rósu löngu síðar. Hvort tveggja er vel hugsanlegt - og í fullu samræmi við það sem oft hefur sannast, að bestu vísurnar fljúga ævinlega frá höfundum sínum.

Þú nefnir svo vísuna "Ofan gefur snjó á snjó" sem ég lærði þannig: "Ofan gefur snjó á snjó -- snjó um vefur flóa tó - tóa grefur móa mjó -- mjóan hefur skó á kló". 

Rímsins vegna er svolítið skrítið að ekki skuli þrjú rímorð í fyrstu línu eins og hinum - en á móti má segja að "ofan" og "gefur" séu hálfrím. Veit ekki hvað ég á að halda um þetta - hefur orðið "óa" einhverja merkingu?

En hvað er þá "óa"?

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.9.2007 kl. 11:05

10 identicon

Hafðu heil mælt, Ólína. Vel gert og vandað eins og flest sem frá þér kemur. Varðandi innlegg fræðaþularins Árna frá Reykjum, dóttursonar sr. Árna Þórarinssonar, kemur í hug einmitt vísa frá heimabyggð Árna, sem oft er farið ranglega með. Höfundurinn, Kári Jónsson frá Valadal, einn þriggja afspyrnu hagorðra bræðra, sagðist hafa gert hana í Stafnsrétt og frá sér hefði hún verið þannig: Skála og syngja Skagfirðingar/skemmtun vanda og gera hitt./Heiðurs slyngir Húnvetningar/hér er landaglasið mitt. - Þessi vísa er oft sungin samhliða öðrum vísum, en það er annað mál. Hinsvegar hefur verið klæmst svo á vísu Kára, að honum þótti með hann lifði nóg um. T.d. er önnur línan oft sungin: " skemmta sér og gera hitt" sem er náttúrulega út úr kú m.t.t. innríms milli 2. og 4. línu. Svo verður enn meira rugl með 3. línu, stundum heyrist: "Þeir eru slyngir Húnvetningar" þar sem vantar meira að segja ljóðstafi. Gaman væri að fá að sjá eitthvað frá Árna Gunnarssyni um þetta, en hann er manna fróðastur um þessa hluti.

Uglan á kvistinum. (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 11:23

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú vann ég til þess að koma mér í vandræði Ólína. "Óa" er framburður áhersluorðs sem ég hef heyrt notað og í merkingunni gífurlegt. Ég bar þessi vandræði mín upp við góðan málsnilling sem fletti upp í bókum og fann orðið sem er ritað "ófa." Merkingar geta verið margar t.d. ofsi, ævur (reiður), afl o.fl. Þetta var Baldur Hafstað lektor við KH og er með málvísari mönnum sem ég þekki auk þess að vera snilldarhagyrðingur. Honum hugnaðist vel tilgáta mín um að þetta hafi verið upphafsorð vísunnar hans Stefáns í Vallanesi um snjóinn og tófuna. Nokkuð er það vel í lagt þegar uglan á kvistinum nefnir mig fræðaþul en afar hlýlegt, nema ef maðurinn reynist nú bara vera ugluspegill og hafi verið að gera grín að mér. Hinsvegar þá eru margir af minni kynslóð komnir með hneigð til svonefndra "tóbaksfræða" og geta komið næstu kynslóðum á óvart með þekkingu á ýmsu því sem nú er horfið úr umræðu samfélagsins. Mín kynslóð vann sér inn nokkra forgjöf með bóklestri sem var oft eina afþreyingin og ekki hefði ég viljað verða af því námi sem fólst í að læra að lesa með ekki ómerkari rit en Íslendingasögurnar sem námsbækur.

Þegar ég var 5 ára gaf einhver fjarskyldur ættingi mér Litlu gulu hænuna. Þá fékk ég fyrsta "kúltúrsjokkið." Mér var fyrirmunað að skilja handa hverjum svona bækur væru skrifaðar!   

Árni Gunnarsson, 11.9.2007 kl. 18:31

12 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ofboðslega er þetta skemmtileg færsla og komment. Þetta er með því skemmtilegra sem ég les svona fræðsla. Vantar bara blogg um íslensku. Takk.

Edda Agnarsdóttir, 13.9.2007 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband