Mamma, þetta er sko það flottasta sem ég hef séð .... sagði sonur minn yfirkominn af hrifningu: Hún Saga ER listamaður!
30.8.2007 | 23:31
Sjálf er ég orðlaus yfir allri vinnunni sem hefur verið lögð í þetta eina verk - sem þær vita svo ekki einu sinni hvort nokkur kemur að sjá (því mér sýnast nú kynningarmálin hafa farið fyrir ofan garð og neðan - en það er önnur saga). Hingað til landsins eru t. a. m. komnir þrír hönnuðir, tveir frá Japan og einn frá Þýskalandi, til að aðstoða þær. Þetta fólk kom alla þessa leið til þess að setja upp sviðsmynd og búninga fyrir tvær sýningar (já, seinni sýningin mun vera kl. 14:00 á laugardag)! Raunar er þetta blessaða fólk - sem flaug yfir hálfan hnöttinn til að aðstoða - að fara heim aftur í nótt. Þau munu ekki einu sinni sjá sjálfa sýninguna. Eru í þessum töluðum orðum rétt búin að kveðja mig með hneigingum og þökkum (því þeir eru kurteisir Þjóðverjar og Japanir, þótt ungir séu).
En sem sagt: Systkinin Pétur og Maddý voru líka að hjálpa til - og Pétur fylgdist með heilu rennsli í gær. Hann var með ljóma í augunum þegar hann lýsti þessu fyrir mér: "Þetta er það flottasta ... ég hef aldrei séð neitt eins og þetta! Þetta var ótrúlega flott."
Ég horfði á hann. Fann hlýjan straum fara um brjóstholið. Minnug stundanna þegar þau léku sér að kubbum, rifust um dótið, grétu undan hvort öðru, sungu saman, hugguðu og studdu hvort annað gagnvart heiminum - lásu saman bækurnar, horfðu á Nilla Hólmgeirsson og eyddu heilum sunnudagsmorgni í að lita fallega mynd handa mömmu. Saga talaði fyrir Pétur á leikskólanum svo það þurfti að skilja þau að milli deilda. Það var fyrsti aðskilnaðurinn, og hann stafaði af of nánu systkinaþeli. Orðlausum skilningi.
Jæja, nú eru þau komin á þrítugsaldur - hafa þroskast hvert í sína áttina, Pétur helgar sig tölvuheiminum, Maddý arkitektúrnum, Saga dansinum.
Hvort áhorfendur munu sjá þessa sýningu sömu augum og hann á morgun veit ég auðvitað ekki. Það skiptir mig engu. Mér, móður þeirra, er nóg að vita að enn skilja þau hvert annað - orðlausum skilningi. Rétt eins og þegar þau öll þrjú fyrir löngu - með litla tungubroddinn sinn við annað munnvikið - lituðu saman fallega mynd til að leggja á koddann hjá mömmu.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bloggar, Vinir og fjölskylda | Breytt 31.8.2007 kl. 00:31 | Facebook
Athugasemdir
Mér, móður þeirra, er nóg að vita að enn skilja þau hvert annað - orðlausum skilningi. Rétt eins og þegar þau öll þrjú fyrir löngu - með litla tungubroddinn sinn við annað munnvikið - lituðu saman fallega mynd til að leggja á koddann hjá mömmu.
Meira þarf ekki að segja kæra Ólína.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 31.8.2007 kl. 00:54
Yndisleg frásögn
Er þetta Margrét Sara Guðjónsdóttir sem dansar með dóttur þinni?
Jenný Anna Baldursdóttir, 31.8.2007 kl. 02:03
Þú býrð við mikið barnalán, Ólína mín. Systkinakærleikurinn er sterkur - þótt bernskan einkennist oft af rifrildi og slagsmálum. Það þekki ég mætavel sem háði blóðuga bardaga við systkini mín fram á unglingsárin. Ég elska þau takmarkalaust og mun alltaf gera.
Drengirnir mínir eru líka mínir bestu vinir og eiga gott bræðrabandalag sín á milli. Það er ómetanlegt. (nú er ég líklega orðin meir)
Hvar ertu annars stödd núna?
Kveðja
Þín Ragnheiður
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 31.8.2007 kl. 10:15
Takk, takk fyrir hlýjar kveðjur. Já, maður verður stundum meyr þegar maður fylgist með börnunum sínum verða að mönnum og huguruinn hvarflar til baka - lífið er svo ótrúlegt ævintýri stundum.
Jenný, þetta er ekki Margrét Sara Guðjónsdóttir sem dansar með Sögu. Hún á raunar líka verk á þessari hátíð, Dead Meat heitir það, minnir mig.
Nei þessi Margrét er Bjarnadóttir. Hún er skólasystir Sögu frá Listaháskólanum í Arnhem í Hollandi. Þær útskrifuðust saman fyrir rúmu ári og hafa stofnað dansleikhús sem þær nefna Good Company. Magga er hæfileikarík og flott stelpa, og saman gera þær ótrúlega flotta hluti, hún og Saga.
Ragnheiður mín - ég er í bænum núna, og er að fara að hringja í þig . Hjörvar og félagar eru nefnilega komnir í ÚRSLIT á Íslandsmótinu í fótboltanum (4. flokkur), þannig að hann er að keppa í dag, á morgun og (vonandi) sunnudag - ef vel gengur. Ég slæ á þráðinn.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.8.2007 kl. 11:27
Barnalán er ekki eitthvað sjálfgefið.. að sinna sínum börnum af alúð og skapa hvetjandi umhverfi og andrúmsloft eru svona lykilþættir.
Sannalega gaman að lesa þennan pistil þinn, Ólína
Sævar Helgason, 31.8.2007 kl. 15:20
Hallgrímur Óli Helgason, 31.8.2007 kl. 17:50
Fórum í dag við Doddi á sýninguna hennar Sögu. Hún var frábær - ég get ekki annað en verið sammála Pétri um að Saga sé snillingur (það hefur reyndar ekki farið fram hjá mér hingað til ). Mér skilst að það verði aukasýning í vikunni og ætla að hvetja fólk til að mæta.
Kveðja frá Álftanesinu - og já Ollý, takk aftur fyrir fötin á Daða Hrafn, ég held að ég verði bara að setja hann í smábarnaleikfimi til að geta notað Liverpool búninginn!
Erla Rún.
Erla Rún (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 21:58
Takk Erla mín - ooojá, hann er ótrúlegt krútt í Liverpoolbúningnum. Nú ætla ég að fara að setja inn myndir af honum og monta mig hérna á blogginu. Sé að sumar bloggvinkonur mínar eru í þannig ham þessa dagana - svo ég er að hugsa um að gera það líka (þegar ég kemst í að yfirfæra myndirnar í tölvuna).
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.9.2007 kl. 23:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.