Stones brýnin söm við sig!
29.8.2007 | 12:59
Stones voru frábærir á tónleikunum sem haldnir voru í O2-höllinni í London s.l. laugardagskvöld. Þetta voru lokatónleikar tveggja ára tónleikaraðar sem þeir nefna A Bigger Bang. O2 samkomuhöllin er tiltölulega nýbyggð, tekur um tuttuguþúsund manns. Þarna eru verslanir, matsölustaðir, kvikmyndhús, allt undir einu þaki, og svo þessi gríðarlegi leikvangur þar sem hægt er að setja upp tónleika á borð við þessa! Allt mjög flott.
Jagger fór á kostum. Fyrsta lagið á tónleikunum var Start Me Up! (held sveimérþá að þeir byrji alltaf á því). Fyrst kom upp svona "intró" á risaskjá fyrir ofan sviðið, því lauk með gríðarhvelli þegar "tungan" fræga leystist upp í frumeindir, og um leið hófst trommutakturinn hjá Charlie Watts. Þið hefðuð bara átt að finna strauminn sem fór um salinn þegar trommurnar byrjuðu - ljósin upp - og svo röddin í Jagger: Start me up! (púm, tútúmm tútúmm), you start me up I'll never stop! (tútúmm túmm). Hann var flottur karlinn - og úthaldið ekkert minna en þegar hann var upp á sitt besta.
Raunar var eitthvað vesen á hljóðinu hjá þeim um miðbik tónleikanna - ég held þeir hafi hreinlega magnað of mikið upp því það var á köflum bergmál í kerfinu (sem á auðvitað ekki að gerast hjá köllum eins og Stones, ég meina hvað haldið þið að þessi rótarar séu með í laun? Það er örugglega ekki lítið). En krafturinn og stuðið bætti það upp - svo einfalt er það mál.
Lisa Fisher er alveg hreint ótrúleg. Hún fékk ekki mikið að hnjóta sín núna - söng eitt lag með Jagger, en var annars í bakröddum. Í þessu eina lagi - þar sem þau skiptust á að syngja - leiddi hann hana aftur á sinn stað áður en laginu lauk. Ætlaði greinilega ekki að láta hana hirða frá sér athyglina eða fagnaðarlætin. Hún gerði það engu að síður, því það ætlaði allt um koll að keyra þegar hún var búin - og mér finnst hann hefði mátt leyfa henni að njóta þess.
En hvað um það - hún fann ábyggilega að hún átti í okkur hvert bein meðan hún söng. Hann fann það örugglega líka .
Keith er farinn að láta á sjá - en hann var sjálfum sér líkur. Sömuleiðis Charlie Watts, sem er greinilega eftirlæti Stones aðdáenda, ef marka má viðtökurnar sem hann fær yfirleitt á sviði. Enda ótrúlega flott týpa - hlédrægur, öruggur og kraftmikill.
Jamm - við munum lengi lifa á þessu. Ég ætla að orna mér við minninguna aðeins lengur, áður en ég fer að blogga um önnur tíðindi
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Ferðalög | Facebook
Athugasemdir
Ég öfundast nú ekki oft út í fólk - en andsk.... ég blóð öfunda þig af þessari tónleikaferð
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 29.8.2007 kl. 14:14
Ooo, þetta er nú eitthvað sem allir ættu að gera, að fara á Stones-tónleika. Líklega er ég búin að missa af lestinni, a.m.k. virðist ólíklegt að þeir gömlu fari í enn eina heimsreisuna.
Að öðru: Ég er afskaplega upp með mér að fá að vera með þér og Halldóri í liði Ísfirðinga. Hlakka til að hitta ykkur.
Ragnhildur Sverrisdóttir, 30.8.2007 kl. 10:53
Sæl og blessuð Ólína!
Fátt er skemmtilegra nei, en komast á góða tónleika, hef verið á þeim ótalmörgum og hefði svosem getað oftar en einu sinni fari á Stones, en hvort sem þú trúir því eða ekki hef ég ekki nema einu sinni verið nálægt því og þá vegna þess að ég hafði eiginlega meiri áhuga á að sjá þann sem spilaði í það sinnið með þeim, blúsmanninn merka Robert Cray! Hann fékk því miður svo slæmar og raunar dónalegar móttökur í einhverjum tilvikum, að mér blöskraði! Þegar svo stóð til á sínum tíma, að reyna að fá þá hingað, voru nú kröfurnar svo miklar og fáranlegar að engu tali tók!
En um hvaða lið er Ragnhildur hin skarpa að tala og á að keppa í einhverju?
Hagmælksku kannski?
Magnús Geir Guðmundsson, 30.8.2007 kl. 21:53
Hin spaka átti þetta nú að vera haha!
Magnús Geir Guðmundsson, 30.8.2007 kl. 21:55
Takk fyrir jákvæðar og skemmtilegar athugasemdir.
Ragnhildur, ég hlakka sko "ge-egt" til eins og unglingarnir segja. Ég veit það verður gaman að vera með ykkur Halldóri Smárasyni - uppáhaldsblaðamaðurinn og uppáhaldsnemandinn úr MÍ - það verður varla mikið betra Vona bara að heppnin verði með okkur.
En sumsé - til upplýsingar fyrir Magnús Geir, þá erum við að tala um spurningakeppni sveitarfélaganna sem fer af stað í ríkissjónvarpinu nú um miðjan september. Það verður sumsé keppt í fróðleik af aðskiljanlegum sortum og við þremenningarnir munum ekki láta deigan síga - hvernig svo sem til tekst.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.8.2007 kl. 22:26
Erum sko að fara að keppa fyrir Ísafjarðarbæ gleymdi að láta þess getið.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.8.2007 kl. 22:28
Velkomin heim. Voru krumpudýrin góð?
Var þvagleggslöggan með?
Gísli Bergsveinn Ívarsson, 30.8.2007 kl. 23:01
Krumpudýrið eina og sanna (Keith) er a.m.k. búinn að móðga hálfa heimsbyggðina (eða það finnst Svíum) og er því býsna brattur m.v. aldur og fyrri iðju. Hann bar það við að kveikja sér í sígarettu á sviðinu en heyktist á því - þannig að .... þú skilur
Ég sá enga Íslendinga á þessum tónleikum - en held að það hafi verið farin hópferð á næstsíðustu tónleikana sem voru haldnir á sama stað tveim dögum áður.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.8.2007 kl. 23:42
Sæl Ólína. Ég hefði treyst þér til að semja við gömlu kallana og fá þá hingað upp. Þú hefðir farið létt með það. Kveðja.
Eyþór Árnason, 30.8.2007 kl. 23:46
Skarpa eða spaka, ég sætti mig við hvort heldur sem er, Magnús Geir
Ég er hins vegar hrædd um að ég teljist seint hagmælt, Ólína verður að sjá um þá deild. Og ég bind líka afskaplega miklar vonir við menntskælinginn Halldór, hann er áreiðanlega uppfullur af alls konar fróðleik sem er þroskaðri konu eins og mér gjörsamlega framandi. Þetta verður gaman, það er meginatriðið
Ragnhildur Sverrisdóttir, 31.8.2007 kl. 09:42
Takk fyrir þetta góða Ólína, heyrði svo aðeins af þessu í morgun, en sá misskilningur virðist vera uppi, að það sé bæjarstjórinn á Ísafirði sem sé "Þriðja hjólið undir vagninum"!
Og þakkir til þín sömuleiðis, tja, hvað skal ég segja núna, FRÓMA Ragnhildur, man enn mætavel eftir þér með Hildi Helgu og Birni Brynjólfi í "Klippt og skorið"! (man ekki rétta nafnið á þættinum!) Þið munið áreiðanlega ekki valda mér vonbrigðum, þótt ég sé nú fyrir norðan!
Magnús Geir Guðmundsson, 31.8.2007 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.