Olíuhreinsunarstöð er óráð

Hafis2005 Það eina sem virðist geta bjargað okkur Vestfirðingum núna frá því óráði að reisa olíuhreinsunarstöð í einum fegursta firði Vestfjarðakjálkans, er landsins forni fjandi. Páll Bergþórsson veðurfræðingur bendir á að hafís muni valda olíuhreinsunarstöðinni vandræðum vegna aðflutninga.

Já, Vesturbyggðarmenn hafa stokkið á hugmyndina um olíuhreinsunarstöð - og vilja endilega setja hana niður í Hvestu í Arnarfirði. Hvað verður þá um kræklingaeldið, kísilþörungavinnsluna og náttúruvörurnar frá Villimey? Að ég tali nú ekki um hugsanlegan vatnsútflutning? Allt þarf það vottun til að geta talist gjaldgengt á markaði. Varla verður þessi olíuhreinsunarstöð góð markaðssetning fyrir slíkar afurðir, eða íslenskan fisk af Vestfjarðamiðum?

 Nú segi ég bara:

  • Heill þér vinur, "landsins forni fjandi",
  • ef forðað getur þjóð frá verra tjóni:
  • Reykspúandi ferlíki á Fróni
  • í firði bláum, upp af hvítum sandi.

grrrr .... nú sest ég niður og yrki drápu - ákvæðadrápu í þeirri von að hún hrífi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mæl þú manna heilust!

Katrín Gunnarsd (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 12:41

2 identicon

Ég var eiginlega sorgmædd þegar ég heyrði fréttina um samþykktina. Ég var virkilega farin að hafa þá trú að Vestfirðingar myndu halda sig við það að byggja upp kjálkann og atvinnustarfsemi þar fría við hvers kyns stóriðjuskrímsli. Ég hafði skilið það svo að sú væri stefnan og frá henni yrði ekki kvikað.  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 12:51

3 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég velti fyrir mér Ólína, ef að þú lítur framhjá því að þú vilt ekki olíuhreinsistöð á vestfirði yfirleitt og allt í lagi með þá skoðun þína, er einhver fjörður öðrum fjörðum hentugri ég horfi til þessara sömu hluta og þú nefnir ég er á þeirri skoðun að við eigum eftir, erum reyndar byrjuð, að selja töluvert af matvöru já og einmitt bara öllu sem hægt er að tala um sem lífrænt ræktuðu, s.s. selja lítið fyrir mikið og þá skiptir máli að eyðileggja ekki hvert fyrir öðru, en ég hef nú áður sagt við þig að mín skoðun sé að á þessu horni landsins eins og öðrum þurfi stór eða stórt fyrirtæki sem nokkurskonar klett sem svo önnur fyrirtæki lifa og dafna í skjóli af.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 17.8.2007 kl. 13:53

4 identicon

Ég trúi ekki fyrr en ég tek á að vestfirðingar séu svo skammsýnir að halda að mengandi oíuhreinsunarstöð bjargi einhverju um framtíð vestfjarða!! Ég trúi ekki að menn séu orðnir svo svangir að það þýði að bjóða þeim hvaða óhroða sem er!

Pálmi Gestsson (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 14:07

5 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Og svo er þetta líka spurning um mengunarkvóta, ef ég veit rétt, kæra Ólína!

Miðað við allt annað sem í bígerð er, t.d. álver á Bakka við Húsavík m.a. þá hlýtur þessi stöð bara einfaldlega að vera fjarlægur kostur!

Magnús Geir Guðmundsson, 17.8.2007 kl. 16:02

6 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Fyrir nú utan það lýti sem svona mannvirki eru að þá er ég stórlega hugsi og jafnvel hneiksluð á þeim mismunandi upplýsingum sem þegar eru komnar fram um þá neikvæðu þætti sem svona stöð hefur í för með sér.

Edda Agnarsdóttir, 17.8.2007 kl. 16:24

7 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

átti að vera HNEYKSLUÐ

Edda Agnarsdóttir, 17.8.2007 kl. 16:25

8 identicon

Nú stendur yfir "Brundtíðin í Bolungarvík" en hún á að útvega mannskap í þessa rússnesku olíuhreinsunarstöð, sem enginn vill vinna í, nema Pólverjarnir í frystihúsunum.

Steini Briem (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 20:34

9 Smámynd: Katrín

Ég get því miður ekki tekið undir aflnöfnu minni hér að ofan.  Íbúar Vestfjarða hafa orðið utan garðs í samgöngumálum, atvinnumálum og almennum framkvæmdum.  Ríkisvaldið hefur gert íbúum þessa fjórðungs nánast ógjörlegt að búa hér, eignir falla í verði þegar rétturinn til sjósóknar er tekinn af íbúum, framkvæmdum frestað æ ofaní æ vegna þenslu annars- staðar á landinu.  Ég gæti haldið þessari upptalningu lengi áfram.  Kjarninn er sá:  íbúar Vestfjarða gera það sem þarf til að halda lífi.  Hingað til hafa stjórnvöld og aðrir landsmenn ekki haft nokkurn áhuga á að leggja okkur lið í baráttu fyrir líf okkar og lifibrauði.  Rétturinn til sjálfsbjargar verður aldrei tekin af fólki án átaka.  Álver hér og þar, járnblendiverksmiðjur og aflþynnuverksmiðjar út og suður allt þetta hefur hlotið blessum stjórnvalda.  En þegar kemur að Vestfjörðum hrekkur allt í baklás.  Og Pálmi minn, minn kæri vin,  ekki getum við Vestfirðingar sem enn hér búum verið talin skammsýn...eða hvað?  Við trúum á svæðið, hér erum við, okkar líf, okkar eignir.  Vertu ávallt velkominn en láttu okkur um að taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að halda byggð í fjórðungnum( og þá meina ég heilsársbyggð en ekki krúttlega sumarhúsabyggð:)

Katrín Gunnarsdóttir

Bolungarvík 

Katrín, 17.8.2007 kl. 21:41

10 identicon

Kæra Ólína. 

Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta.  Arnarfjörður sem er tvímælalaust einn fallegasti fjörður landsins, með sín hrikalegu fjöll og fallegu dali.  Við getum ekki fórnað hreinni og tærri náttúru vestfjarða fyrir slíkt apparat . 

kv.  Bragi G Tálknafirði

Bragi Geir Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 22:20

11 Smámynd: Garún

Halló, það er alveg 100 prósent að landsbyggðin hefur orðið útundan í samgöngumálum og atvinnumálum og hreinlega bara öllum málum.  Fólki er haldið gíslingu nógu lengi þangað til að kostir eins og olíuhreinsunarstöð og verksmiðjur hinar ýmsu verða allt í einu góðir kostir.  Segið mér eitt.  Ef að allt væri í lagi  með samgöngur, og næg atvinna, og að það væri símasamband á meira en 20 prósent svæði á Vestfjörðum væru þið þá fylgjandi þessari hreinsunarstöð.  Það er búið að hafa ykkur í kuldanum í mörg ár, þið gerð hungruð og grípið það fyrsta sem þessi gráðuga stjórn og jakkafata sandkassa kallarnir rétta ykkur.  Djöfull væru þið kúl ef þið hefðuð bara sagt NEI en heimtað eitthvað annað.  Og það að þessi stöð muni bæta hagkerfið er alveg það sorglegasta sem ég hef heyrt.  Ég er umhverfissinni, en ég er einnig manneskja sem kýs að líta til framtíðar og mér finnst að ákvarðanir sem eru af þessari stærðargráðu og jafn alvarlegar fyrir lífríki á þessum stöðum eigi að vera teknar með framtíðar kynslóðir í huga en ekki bara fólk að hugsa um rassgatið á sjálfu sér.  Vestfirðingar eru sterkir Íslendingar og klárir, en mikið hefði ég viljað að þeir hefðu haft hugrekki.   Ég veit að ekkert sem ég segi mun breyta einu né neinu, en mér finnst eins og við höfum verið plötuð.  Gerðu mann nógu svangann og hann mun éta það sem þú réttir honum... Sorglegt

Garún, 17.8.2007 kl. 22:29

12 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Jæja - látið móðan mása. En ég vil nú bara benda á að umhverfismat hefur ekki verið framkvæmt en verður vonandi unnið í vetur af m.a. Náttúrstofu Vestfjarða. Það er því enginn að fara að byggja eitt eða neitt. Villimeyin getur því andað léttar og haldið áfram að hræra í pottunum í eldhúsinu heima - sem er jú framleiðslustaðurinn að mér skildist á henni sjálfri - svo varla eru það mikla mótvægisaðgerðir. Kræklingaeldið er ekki neitt og að mig minnir var það vegna ákveðinnar mengunar í firðinum - svo að ekki er nú hætta á að olíuhreinsistöðin í hugarheimum hafi mikil áhrif þar á. Kísillinn verður auðvitað unninn áfram. Eigum við ekki að bara að draga djúpt andann ferska hér fyrir vestan og vinna málið af skynsemi. Og ég er sammála því að Arnarfjörðurinn er fallegur - andskoti fallegur. Spurning er hvort að ekki verði svo í framtíðinni hægt að hafa mötuneyti olíuhreinsistöðvarinnar í gamla bænum á Hrafnseyri - Valdimar getur bakað vöfflur og leiðsagt mönnum um safnið eftir matinn! Þyrfti líklegast að fjölga starfsfólki þar.....

Þorleifur Ágústsson, 17.8.2007 kl. 23:16

13 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

ps. Ólína...ég færist stöðugt neðar bloggvinalistann hjá þér....það er "olíulykt" af málinu..... þú ert samt á toppnum hjá mér

Þorleifur Ágústsson, 17.8.2007 kl. 23:19

14 identicon

Já, ég segi nú eins og Þorleifur: Látið móðann mása, másið og blásið eins og þið getið.  Og er býsna sammála Þorleifi og Katrínu Bolvíkingi.  Já, það var þetta með kræklinginn í Arnarfirði.  Menn byrjuðu þarna tilraunaeldi af nokkrum stórhug fyrir nokkrum árum, en ég hef ekki heyrt að nokkur hreyfing hafi verið á þessu lengi.  Er ekki viss, mig minnir að einhver peningaskortur hafi hrjáð menn, en kannski var aðal ástæðan fyrir stoppinu einmitt mengun.  Mikið assgoti mögnuð þessi olíuhreinsistöð, barasta farin að menga fjörðinn löngu áður en nokkrum datt í hug að setja hana þarna!   Steini Briem:  Hvernig veistu að enginn vill vinna í olíuhreinsistöð sem KANNSKI verður reist?  Hefurðu gert könnun??

Svo er líka á hinn bóginn pínulítið til í því sem Garún skrifaði: "Gerðu mann nógu svangann og hann mun éta það sem þú réttir honum".

 Öndum með nefinu.

Eggert Stefánsson (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 00:31

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Allt í einu er ég orðinn á móti blessuðum gróðurhúsaáhrifunum!  

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.8.2007 kl. 00:38

16 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Kæru vinir - þetta er augljóslega heitt mál. En ég held við ættum ekki að vera með brigslyrði vegna þess.

Sjálf lít ég ekki svo á að Arnarfjörðurinn sé í einkaeigu okkar Vestfirðinga - hann er náttúruperla sem landsmenn eiga saman, en okkur Vestfirðingum er hinsvegar treyst fyrir af forsjóninni, vegna þess hvar hann er í sveit settur.

Ég trúi því staðfastlega að það séu mikil mistök að setja niður olíuhreinsunarstöð hér fyrir vestan. Það er grátleg mótsögn við sjálfbyrgingslegar yfirlýsingar um "stóriðjulausa Vestfirði" sem haldið var á lofti ekki alls fyrir löngu, þegar menn héldu að þeir ættu ekki kost á neinu í líkingu við stóriðju.

Er búin að setja inn nýja færslu - sem er eiginlega mitt svar við velflestu sem fram hefur komið í athugasemdum ykkar hér að ofan.

Elskum friðinn - og forðum Arnarfirðinum frá þessu umhverfisslysi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.8.2007 kl. 01:25

17 identicon

mín kæra Katrín, ekki ertu að segja að ég og aðrir vestfirðingar megum ekki hafa skoðun á því sem varðar landið okkar?!Ég áskil mér rétt til að hafa skoðun á  hverju því sem  varðar  þjóðarhag, og þá gildir einu hvar það er á þessu litla landi sem okkur þykir svo ósaplega vænt um. Ég held að ég beri hag Bolvíkinga, vestfirðinga og þjóðarinnar allrar ekki síður en þú. minn kæri Bolvíkingur Katrín.

Pálmi Gestsson (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 01:54

18 Smámynd: Katrín

Pálmi ef þú lest aftur það sem ég skrifaði þá er ég hvergi að segja að þú eða aðrir megi ekki hafa skoðun á þessu máli né öðrum. 

En ég segi hiklaust að endanleg ákvörðun um að reisa olíuhreinsistöð í Hvestu er heimamanna þ.e. íbúa Vesturbyggðar að því gefnu að umhverfismat sem fram á að fara í vetur hefi ekki tilefni til að hætta við.   Að kalla það skammsýni að kanna möguleg tækifæri til eflingu byggðar í fjórðungnum finnst mér einfaldlega ekki rétt hjá þér og í raun finnst mér þú tala niður til þeirra sem hafa þó sýnt það hugrekki að gera sem þarf til að skoða málið ofaní kjölinn í stað þess að sitja með hendur í skauti og væla eftir einhverju öðru sem einhver annar á að útvega.

Vertu svo kært kvaddur og bið að heilsa suður þar sem velmegunin ríkir með álver í Straumsvík, virkjun í Svartsengi, virkjun á Hellisheiði og á Nesjavöllum svo  Járnblendi og álververksmiðju á Grundartanga og er sjálfsagt ekki allt upp talið. 

Katrín, 18.8.2007 kl. 11:35

19 Smámynd: Garún

Já en Katrín, ef við kópavogsbúar fengjum að ráða hvort við myndum fá olíuhreinsistöð í voginn okkar, myndum við segja Nei, vegna þess að við höfum svo fullt af öðru.  Sama væri uppá teninginn hjá Vestfirðingum, þið eruð bara að segja Já vegna þess að þið getið ekki annað.  En þarna hefði einmitt verið gott tækifæri að setja fótinn niður og heimta breytingar fyrir landsbyggðina sérstaklega svona rétt eftir kosningar.  Ef af þessari hreinsun verður get ég lofað þér því að engin Bolvíkingur mun starfa þar, of langt að fara, þessir þrír atvinnulausu á þingeyri munu kannski vinna þar en þar sem atvinnuleysi er undir 1 prósent í landinu mun ég spá því að erlent vinnuafl verður fengið þar til starfa.  Þú talar um virkjanir hér á hellisheiði og á Nesjavöllum.  Bara sem dæmi þá í fyrra var ég við kvikmyndatöku í Sultártangavirkjun, vatnsfellsvirkjun þar vorum við í þrjá mánuði og allan þann tíma sá ég 3 starfsmenn.   Hananú góðærið í Sultártanga....

Garún, 18.8.2007 kl. 19:58

20 Smámynd: Katrín

Garún Garún....þetta er mikil einföldun hjá þér eins og því miður hjá svo mörgum sem sjá skrattann í öllum hornum vegna þessa máls.  Hvort einhver Bolvíkingurinn fari til starfa hjá stöðinni er einfaldlega of snemmt að segja til um ogmér segir svo hugur að atvinnulausir hér á Vestfjörðum séu þegar þetta er skrifað nokkuð fleiri en þeir þrír sem þér tókst að telja áU Þingeyri.   Farðu og taktu myndir í Straumsvík og á Hellisheiði..ætli þú sjáir ekki fleiri þar að störfum en á Sultartanga.  Bendi þér svo á umfjöllun í Blaðinu í dag..ýmislegt fróðlegt kemur þar fram.  Og gott ráð í lokin:  Það er betra að vita en halda og til þess skoðar maður hlutina vandlega og kynnir sér mál, bæði kosti og galla.  Umhverfismat er gott tæki til að kanna hvort það sem maður heldur er það sem er

Katrín, 18.8.2007 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband