Af björgunarhundanámskeiði í berjamó!
13.8.2007 | 13:42
Jæja, þá er maður nú kominn heim til sín eftir mikið útivistarstand.
Eftir tiltektir, húsamálun og viðhaldsverk ýmis í borgarbústaðnum mínum á Framnesvegi hélt ég með minn "fjallahund" vestur á Gufuskála á fimmtudagskvöld. Þar fór fram helgarnámskeið Björgunarhundasveitar Íslands með félögum allstaðar að af landinu. Við eyddum þar helginni í góðra vina hópi við æfingar og leitarþjálfun við ágæt veðurskilyrði til slíkra hluta.
Blíða mín blessunin tók miklum framförum á þessu námskeiði - og nú hef ég tekið gleði mína með hana á ný. Mér sýnist hún vera komin yfir gelgjukastið síðara sem gekk yfir hana í vor, um það leyti sem við hættum í snjóflóðaleitinni og byrjuðum með nýtt prógram fyrir sumarleitina (víðavangsleit). Hún hefur endurheimt sinn fyrri áhuga, hefur gaman af því sem hún er að gera og vinnur vel með mér. Ég þakka það ekki síst góðum leiðbeinendum á síðustu tveim námskeiðum, sem hafa hjálpað mér að koma henni á góðan rekspöl.
Æfingar okkar að þessu sinni fólust í því að efla og treysta í sessi geltið hennar þegar hún finnur mann. Hún er löngu farin að gelta vel á mig þegar hún hefur fundið, en því miður hefur hún haft minni áhuga fyrir því að gelta hjá þeim "týnda" - fígúrantinum svokallaða - þegar hún fer í vísun og hleypur til hans aftur. Að vísu þarf hún þess ekki, samkvæmt reglunum, en ég vil gjarnan ná því upp hjá henni, þar sem það er ólíkt þægilegra að vinna með hundi sem geltir vel þegar hann vísar eigandanum á manninn.
Nú er þetta allt á réttri leið. Leiðbeinandinn minn lagði ríka áherslu á það við fígúrantinn að vanda móttökurnar og vera skemmtilegur þegar hún kemur. Ég var mjög heppin með fígúrant - reyndan hundaeiganda sem kunni vel til verka - og árangurinn lét ekki á sér standa. Hundurinn sýndi fígúrantinum ótvíræðan áhuga - gelti kröftuglega við hvatningu, kom svo til mín og gelti kröftuglega óbeðinn, og vísaði síðan af öryggi og gelti aftur hjá fígúranti. Ég er harðánægð með þetta, og nú verður haldið áfram á sömu braut.
En það var gott að koma heim í gærkvöld eftir sjö klst akstur vestur á Ísafjörð - fara í heitt bað og leggjast í rúmið sitt. Ekki var verra að vakna við sólskinið í morgun. Maddý dóttir mín er komin með vin sinn í heimsókn, og í kvöld koma góð vinahjón okkar til að vera í tvo daga. Sól skín á sundin og grænan lundinn - veður fyrir berjamó - og gaman að lifa
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.