Tiltektir og tiltektir - allt á öðrum endanum.

P1000235 (Small) Þessa dagana er allt á öðrum endanum hér á Framnesveginum - borgarbústaðnum okkar. Ekki höfðum við fyrr rennt í hlað eftir unglingalandsmótið á Höfn en við vorum komin með pensil í hönd, slípirokk, kúst og tusku ... jamm, það er verið að mála, þrífa, slá garðinn, pússa gólf, lakka gluggapósta ... nefnið það bara! Yfirbót fyrir sex ára vanrækslusyndir Crying.

Frá því við fluttum okkar aðal aðsetur vestur á Ísafjörð hefur gamla góða húsið okkar í Reykjavík setið á hakanum  og nú er kominn tími til að gera því eitthvað til góða.  

Annars virðast það vera álög á þessu húsi að það er sama hvaða málning er sett á það - alltaf verður hún bláleit eftir svolítinn tíma. Fyrir sjö árum máluðum við húsið rústrautt - tveim árum seinna var það orðið lillablátt.

Það var því með nokkurri staðfestu sem bóndi minn hélt í málningarbúðina að þessu sinni og kom heim með bros á vör og steingráa málningu, sagði hann. Nú skyldi sko settur almennilegur litur á útveggina - ekkert nærbuxnableikt takk fyrir!

Svo var hafist handa við að mála og fyrstu umferðinni komið á áður en fór að rigna. Ekki höfum við komist lengra að sinni - og ekki veit ég hvort það er rigningunni að kenna eða hvað - en húsið er EKKI steingrátt.  Það er fölblátt - eiginlega gráblátt - eins og þið sjáið ef þið kíkið á myndina hér fyrir ofan Errm en þar sjást bæði gamli liturinn og sá nýi.

Jæja, það gerir ekkert til - þetta er ágætis litur, þó hann sé svolítið kaldur. Aðal málið er að ná að klára þetta áður en maður þarf að þjóta vestur aftur.

Annars er heilmikil sálarró sem fylgir því að taka svona allt í gegn. Maður tekur einhvernvegin til í sálartetrinu um leið - verður bara eins og nýhreinsaður hundur. Og það er svo merkilegt að þegar maður er byrjaður er eins og allir smitist af þessu með manni. Börnin mín hafa öll tekið til hendinni (þau sem eru heima við) - flest óbeðin. Halo 

Já, húsið er að verða déskoti fínt. En það verður lítill tími til að njóta verkanna að þessu sinni - því við munum líklega rétt ná að klára sökkulinn á morgun, áður en við brunum af stað vestur.

Svo er bara að krossleggja fingur og vona að afkvæmin gangi vel um öll fínheitin þar til við komum í bæinn næst. Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín

Já það er undarlegt með þennan bláa lit.....alltaf skal hann skína í gegn 

Hlakka til að sjá þig og þína fljótlega og góða ferð vestur 

Katrín, 9.8.2007 kl. 10:44

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ó, já Katrín mín - bæði hjá fólki og fyrirbærum

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.8.2007 kl. 10:57

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Maður skal ávallt mála eina umferð af hvítu áður en skipt er milli lita ("Friendly advise, free of charge") Hræddur um að borgarbústaðurinn verði orðinn ansi blár, áður en langt um líður. Blái liturinn lætur nefnilega ekki að sér hæða 

Halldór Egill Guðnason, 9.8.2007 kl. 16:49

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Góða ferð aftur íá gullstaðinn!

Edda Agnarsdóttir, 10.8.2007 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband