Sólbrennd og sæl eftir Hornstrandir

 Jæja, þá er ég nú komin heim - sólbrennd og sælleg með harðsperrur og frunsuvott á efrivör - eftir frábæra fjögurra daga gönguferð um Hornstrandafriðlandið.

Veðrið lék við okkur dag eftir dag, og við nutum lífsins til hins ýtrasta - fjórtán manna gönguhópur sem þetta árið kallar sig "Þéttum hópinn" . Þannig er að hópurinn skiptir nefnilega um nafn árlega eftir því hvað ber hæst í ferðum hverju sinni. Í þetta skiptið lentum við í þreifandi þoku á Háu heiði þegar komið var upp úr Fljótavík, fyrsta daginn.

Sennilega hefðum við villst þarna í þokunni, ef Hjörtur Sigurðsson, sem er ókrýndur leiðsögumaður hópsins, hefði ekki verið fljótur að hugsa. Við sáum þokuna nálgast með ógnarhraða, þar sem við áðum efst á fjallabrún, nýkomin upp. Hann hafði engin umsvif heldur hljóp upp á næstu hæð til þess að sjá hvernig leiðin væri vörðuð. Þegar hann kom til baka var niðdimm þokan skollin á. Víð vissum nú hvar fyrsta varðan var og þegar þangað kom sáum við grilla í þá næstu. Þegar dimmast var mynduðum við n.k. keðju milli varða þannig að einn gekk framfyrir svo langt sem næsti maður sá, en hinir biðu. Þá hélt næsti maður framfyrir hann, og þannig koll af kolli þannig að menn misstu aldrei sjónar af síðustu vörðu fyrr en sú næsta var fundin.

 Ég hefði ekki haft áhyggjur nema vegna þess að með í för voru fjórir ungir piltar, sem ég hefði síður viljað láta gista á heiðinni. Þetta voru þeir frændur: Hjörvar (sonur minn, 13 ára), Vésteinn (systursonur minn, 13 ára) og systursynir Sigga, Nonni (15) og Þorsteinn (16).

Það var því gaman að koma niður af fjallinu hinumegin, eftir tíu tíma göngu, þar sem þokan leystist upp fyrir augum okkar og Hesteyrin blasti við, og framundan henni hluti Ísafjarðardjúpsins.  Sumir hófust handa við að tjalda, en aðrir (ég og mitt fólk þar á meðal) notfærðu sér að geta keypt svefnpokagistingu í læknishúsinu á Hesteyri, gömlu, fallegu húsi sem ilmar af sögu og panellykt.

 Hesteyri2 (Small)  Daginn eftir tókum við það  rólega, röltum um nágrennið. Sumir gengu inn fyrir ófæru - aðrir slökuðu á, skoðuðu gömlu verksmiðjuna sem er þarna rétt hjá og nutu lífsins. Þarna við gömlu verksmiðjuna rákumst við á tvo yrðlinga undir vegghleðslu sem léku sér í sólskininu. Sé rýnt í myndina má sjá annan þeirra skjótast milli veggbarma.

 Burfell2 (Medium) Þriðja daginn gengum við upp Hesteyrarskarð og umhverfis Búrfell. Þaðan sáum við "vítt of heima alla" þar sem við gátum virt fyrir okkur Aðalvík, Rekavík, og óendanlegt hafflæmi norðanmegin en Ísafjarðardjúpið og hluta Jökulfjarða með útsýni yfir Drangajökul hinumegin (sjá mynd). Þarna upplifðu drengirnir það að standa á vatnaskilum, í orðsins fyllstu merkingu, því þar sem við stóðum sáum við litlar uppsprettur tvær, og ekki meira en faðmur á milli þeirra. Önnur rann til suðurs, hin til norðurs.

Um kvöldið var slegið upp grillveislu eins og hefðin segir til um. Þá er farið yfir atburði ferðarinnar og valið nýtt nafn á hópinn. Var glatt á gjalla og mikið hlegið.

Veðurblíðan á Hesteyri var engu lík þessa daga. Logn á firðinum, sól og sandfjara freistuðu ferðalanganna. Enda stóðumst við ekki mátið, skelltum okkur í sundfötin og böðuðum okkur þarna í sjónum á kvöldin. Það var ótrúlega hressandi og gott.

Fjórði dagurinn var heimferðardagur. Þá var gengið út Hesteyrafjörðinn, með stuttri viðkomu í kirkjugarðinum gamla, og svo áleiðis til Aðalvíkur. Útsýnið á þessari leið er ólýsanlegt. Þegar leið á daginn sáum við úrkomubelti nálgast yfir Ísasfjarðardjúpið, en rigningin náði okkur aldrei.

LeidiOddsÓThoroddsen (Small) Á Stað í Aðalvík á ég jarðsettan móðurbróður, Odd Ó. Thoroddsen sem hrapaði til bana í Hælavíkurbjargi á Hvítasunnu árið 1911, þá nítján ára gamall. Hann var þá í ferð með afa mínum, Ólafi E. Thoroddsen, sem gerði út skútu frá Patreksfirði. Þetta vor var skútan við fiskveiðar norður af Hornbjargi og á Hvítasunnunótt komu þeir inn í Hælavík. Veður var stillt og bjart. Ungu mennirnir um borð stóðust ekki mátið að fara í bjargið eftir eggjum, þrátt fyrir bann afa míns, skipstjórans, sem vildi ekki að þeir færu. Þessi för endaði með því að Oddur lenti í sjálfheldu og félagar hans, Jón Eiríksson (síðar skipstjóri á Lagarfossi) og Sigurður Andrés, flýttu sér niður í Hælavík til að sækja mannskap og reipi honum til bjargar. Þegar þeir komu til baka var Oddur horfinn. Í þrjár vikur slæddi afi sjóinn framundan bjarginu án árangurs. Varð hann frá að hverfa við svo búið. Þrem mánuðum síðar rak lík Odds upp í Aðalvík og var hann jarðsettur þar - en afi og áhöfn voru þá löngu sigldir til heimahafnar með sorgarfregn um týndan son. Afi lét síðar gera þessum frumburði sínum veglegan legstein sem komið var upp í garðinum á Stað - og stendur sá steinn enn í góðu ástandi, þó að flest annað sé sokkið í hvönn og órækt þarna í þessum gamla kirkjugarði.

Það gladdi mig að geta vitjað þessa frænda míns sem jarðsettur var þarna fjarri ástvinum sínum og frændfólki, einungis 19 ára, sumarið 1911. Ég get þakkað Sigga mínum það að ég vitjaði leiðisins, því það var hann sem óð hvönnina upp í axlir og fann það fyrir mig. Sjálf var ég eiginlega fyrirfram búin að gefa það upp á bátinn, þar sem ég leit yfir kirkjugarðinn - taldi mig ekkert geta fundið í þessu kafgresi og hvannastóði.

En Aðalvíkin tók vel á móti okkur, þar sem við örkuðum áfram, göngumóð í átt til sjávar, eftir stuttan stans á Stað. Og það var notalegt að sjá bátinn nálgast þegar við skyldum sótt, síðdegis. Sjóferðin heim gekk vel og kyrrt í sjóinn. 

heimleid (Small)

Í dag verður svo farin létt 2ja tíma "afturganga" (les: eftirganga) um Korpudal, þar sem Pétur tengdafaðir minn mun slást með í för og fræða mannskapinn um byggð og búskap fyrir botni Önundarfjarðar, fyrr á tíð.

En í kvöld mun hópurinn svo halda svolítið kveðjuhóf í Edinborgarhúsinu þar sem ferðin verður væntanlega rifjuð upp með tilheyrandi gamansögum og gríni, áður en menn fara hver í sína áttina.

Gönguhópurinn samanstendur nokkurn veginn af sama fólki ár eftir ár. Það hefur þó ekki gerst enn að hópurinn sé allur í ferð - því alltaf hrökkva einhverjir úr skaftinu eins og gengur. En þeir sem hafa farið í ferðir með hópnum eru: Ólína og Sigurður (stundum með börn), Edda og Bergstein (stundum með börn), Kristín og Pétur, Helga Magnea og Einar Már (stundum með börn), Hjörtur Sigurðs, Ingibjörg Sólrún og Hjörleifur, Þórhildur og Arnar, Jón Baldvin og Kolfinna, Ragnheiður Davíðs og Sigrún Ólafs.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Æ hvað þetta er skemmtileg frásögn. Ég get alveg séð fyrir mér hvað þetta hefur allt verið stórkostlegt, sérstaklega eftir að ég er búin að vera þarna á Vestfirðunum og spjalla við aðra sem hafa verið að ganga á Strandirnar.

Að vitja leiðis eða leiða er eitt af því sem kemur ótrúlega sterkt inn með aldrinum og svo er það bæði fallegt og róandi.

Takk fyrir þennan pistil.

Edda Agnarsdóttir, 24.7.2007 kl. 14:22

2 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Velkomin heim, Ólína mín. Nú er ég næstum með tárin í augunum að hafa ekki stokkið beint út flugvélinni frá Spáni og verið með ykkur í göngunni. Ég veit sem er, að ekkert jafnast á við vestfirsku kyrrðina á fallegu sumarkveldi og upplifunin einstök að njóta hvoru tveggja. Ég hlakka til að sjá myndirnar.

Kveðja, þín Ragnheiður

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 24.7.2007 kl. 16:24

3 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Velkomin aftur. 

Ég á ekki góðar minningar frá Vestfjörðum en "alltaf" þegar ég hef verið þar hefur verið rigning.

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 24.7.2007 kl. 23:34

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þá hefur þú ekki komið oft

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.7.2007 kl. 00:50

5 identicon

Þetta verður allt ennþá fallegra og yndislegra þegar komin er vegleg olíuhreinsunarstöð í Vestfjörðinn. Þá vaxa tíkallarnir þar á báðum trjánum og báðir fiskarnir fitna eins og púkinn á fjósbitanum.

Slöttólfurinn slyngi (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 01:38

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég fékk vesturþrá við lesturinn.  Rigning fyrir vestan?? Hvað meinar maðurinn? Það er hinsvegar vitað að sumar ólukkukrákur bera með sér votviðrið hvert sem þeir fara og því frábeðnir heimsóknum nema að mikið liggi við.

Ég er með hugmynd óskylt þessu:  Á sjúkrahússtúninu nær kirkjugarðinum er blettur, þar sem stóð fyrsta kirkjan að mig minnir og bær Jóns Magnússonar Þumals.  Væri ekki ráð að koma á samvinnu milli háskólans, Þjóðminjasafns og ferðaþ´jónustunnar um að grafa þarna og endurvekja minninguna um Píslarsöguna frægu.  Það er líka verðugt að halda á lofti minningunni um galdrafárið svona til aðhalds, enda eru slík fár að blossa upp í ýmsum birtingarmyndum frá tíð til tíma.

Jón bjó að vísu síðustu árin á Kirkjubóli, sem hann hafði væntanlega af feðgunum Jónum Jónssonum og var úmlega sjötugur.  Hér er magnað æfintýri á ferð, sem yrði góð viðbót við túrismann fyrir vestann og gæfi hönum sögulegt samhengi og dýpt.  Þú getur kippt í spotta...kíktu á málið.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.7.2007 kl. 13:12

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jú, jú, það voru áttavitar með í för - en þeir segja manni ekki hvar gatan liggur, eða hvort maður er kominn á vörðuðu leiðina

Annars þakka ég þér fyrir síðast - það var gaman að rekast á ykkur hjónin á Sæbóli og ekki spillti fyrir að strákarnir skyldu fá að sjá litla yrðlinginn. Þeir höfðu séð tvo villta yrðlinga við greni á Hesteyri, en gátu auðvitað ekki komið eins nálægt þeim og þessum litla heimadýri ykkar Jónu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.7.2007 kl. 23:17

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Blessuð og sæl Ólína!

Ekki eru nú sumir sem inn til þín koma allt of glaðir né hressir sé ég, eins og spjallið þitt er frómt og fallegt!

Og þetta með "Púkan á fjósbitanum" það mun víst vera einhver eldgömul villa af frásögnunum af Sæmundi fróða, finnst ég hafa heyrt það nú nýlega.

Mér finnst svo þinn ágæti ektamaður Sigurður, hafa mælt einkar viturlega varðandi hugsanlega eða ekki oliuhreinsunarstöð, skynsemin segir okkur líka, að hún mun ekki og gæti ekki leist yfirvofandi þrengingar vegna samdráttarins í aflaheimildum!

En hvað um það, á öllu léttari nótum sláum við botn í þetta!

Hraustleg um Hornstrandir gekk,

og hafði á bakinu sekk

en líka kossa og kel

karli gaf vel

Þannig já, frunsuna fékk!

Magnús Geir Guðmundsson, 26.7.2007 kl. 00:22

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir innlegg -- og ekki síst skemmtilega limru hér undir lokin.

Hafið það öll sem best í því sem eftir lifir sumarblíðunnar

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.7.2007 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband