Mótvægisaðgerðir í orði eða á borði?

 EinarKGudfinns Það eru vafalítið þung spor fyrir sjávarútvegsráðherra að stíga fram með ákvörðun um þriðjungs niðurskurð á þorskveiðum landsmanna.  Og ég skil vel að stjórnvöld vilji með öllum ráðum reyna að milda áhrif þeirrar ákvörðunar - enda liggur við uppreisnarástandi, svo hart koma þessar aðgerðir niður að málsmetandi menn hafa jafnvel hótað að segja sig úr lögum við fiskveiðistjórnunarkerfið.

Það sem truflar mig þó er ákveðinn orðhengilsháttur í umræðunni, einkum varðandi hinar boðuðu mótvægisaðgerðir. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem birt var á miðopnu moggans í gær, segir m.a: "Unnið verður að því að efla grunnstoðir atvinnulífsins á Vestfjörðum og styrkja samkeppnisstöðu svæðisins í samræmi við tillögur Vestfjarðanefndarinnar."

Ha? Tillögur Vestfjarðanefndarinnar - tóku þær á grunnstoðum atvinnulífs á Vestfjörðum? Ekki minnist ég þess, en þetta geta menn auðvitað bara skoðað sjálfir með því að lesa sjálfa skýrsluna. Þar kemur fram að nefndin leggur til að stjórnvöld fylgi byggðaáætlun 2006-2009, en auk þess eru "helstu áherslur" nefndarinnar efling "opinberrar þjónustu", eins og segir á bls. 4, og er þar einkum átt við bættar samgöngur og uppbyggingu fjarskipta (háhraðatenginga og farsímasambands), aukið öryggi í raforkumálum, menntun og rannsóknir "á vel skilgreindum styrkleikasviðum" (hvað sem það nú þýðir) og loks efling "annarrar opinberrar þjónustu". Allt gott og gilt - en hins vegar lutu tillögur nefndarinnar einungis að fjölgun opinberra starfa.

Án þess að ég vilji nú gera lítið úr tillögum Vestfjarðanefndarinnar - þá finnst mér óþarfi að upphefja störf hennar umfram það sem efni standa til. Nefndin lagði til fjölgun starfa í opinberum rekstri, samtals um 60-80 störf, eftir því hvernig er lesið úr tillögunum. Hún lagði einmitt ekkert til sem laut að grunnstoðum atvinnulífsins hér vestra, enda var eftir því tekið. Skýrslan var þvert á móti gagnrýnd fyrir að ganga of skammt.

Það veldur mér áhyggjum ef mótvægisáform stjórnvalda byggja ekki á traustari grunni en alhæfingum af ofangreindu tagi. Það veldur mér þungum áhyggjum.

þorskur

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Eru ekki einmitt grunnstoðirnar fólgnar í fiski og fiskvinnslu?

Eiríkur Harðarson, 7.7.2007 kl. 17:52

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þeir færa kannski sjávarútvegsráðuneytið vestur á firði? Hvað hefur yfirleitt komið út svona nefndarhjakki, annað en kostnaður, brotin loforð og orðhengilsháttur? "Fjölga í opinberum rekstri".....djúpt hugsað, en sennilega lítil huggun fyrir íbúana á svæðinu. Setja kannski alla í einhverjar nefndir til að spá í hvað sé hægt að gera til mótvægis? "Mótvægisaðgerðir" ríkisstjórnarinnar verður fróðlegt að sjá, en hætt við að þær vegi ekki þungt á móti þessari miklu skerðingu, hverjar sem þær verða, því miður. Ekkert sem bendir til þess að ríkistjórn og ráðherrar á Íslandi séu orðnir menn orða sinna, frekar en fyrri daginn.

Halldór Egill Guðnason, 7.7.2007 kl. 18:49

3 identicon

Frá því að núverandi kvótakerfi hélt innreið sína fyrir um tveim áratugum hefur aldrei verið farið að ráðgjöf Hafró. Árlegar heimildir sjávarútvegsráðerra á hverjum tíma hafa verið langt umfram ráðgöfina og við sjáum það núna að það hefur verið stunduð ráyrkja á Íslandsmiðum , villt og galið. Við höfum verið að éta útsæðið og nú er svo komið að lengra verður ekki gengið...ella blasir við algjört hrun á þorskstofnunum.

Sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hefur sýnt þann kjark að horfast í augu við þessar staðreyndir.  

Ekki verður hjá því komist að gera heildarúttekt á þessu veiðikerfi okkar í ljósi þess hvernig komið er . Stjórnmálamanna og kvenna bíður gríðalega mikilvægt verk.

Hinn félagslegi þáttur núverandi kerfis er enginn.. einn kvótaeigandi getur skilið heilt byggðalag eftir í rúst og selt sinn kvóta á brott fyrir millarða í eigin vasa .

Harfansóknir eru í lágmarki eða minna. Viðkvæm veiðisvæði gagnvart trolli og snurvoð, líða og afrakstur þeirra minnkar eða hverfur. Hrygningasvæði og tímaetning álags á þeim... í lágmarki eða minni.

Brottkast og svindl framhjá vigt talið stórfellt.

Framsal og leiga viðiheimilda einkennist af spákaupmennsku og hreinu braski.

Það er ljóst að við erum komið niður í dimman dal og leiðin upp verður ekki fær án róttækra úrbóta á þessu veiðikerfi okkar... þangað til verðum við því miður að þreyja þorrann.

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 22:18

4 identicon

 

Eins og sjá má á þessari frétt sem er hér fyrir neðan og birtist í mbl.is eru mótvægisaðgerðir nú þegar hafnar hjá sjávarútvegsráðherra vorum að koma til móts við byggðarlögin Hull og Grimsby í Englandi. Þessum mótvægisaðgerðum mun að öllu óbreyttu verða sjálf lokið þegar veiðiheimildirnar verða komnar í erlenda eigu eigi síðar en 2020 eða áður en við verðum dæmd inn í Evrópusambandið vegna skulda þjóðarbúsins.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ 

Innlent | mbl.is | 25.6.2007 | 14:19
Breskir fiskkaupendur fagna ákvörðun um afnám útflutningsálags á fiski 

,,Fréttavefurinn fishupdate.com sagði frá því í gær að fiskkaupendur í Hull og Grimby fagni nú mjög. Ástæða gleðinnar er sögð vera sú að Bretar hafi nú loks sannfært sjávarútvegsráðherra Íslands um að afnema 10% álag sem greitt hefur verið hér á landi vegna útflutnings á gámafiski. Verkalýðsfélag Akraness lýsir hinsvegar yfir miklum áhyggjum yfir ákvörðun sjávarútvegsráðherra og segir hana ekki bæta stöðu fiskvinnslufólks og sjómanna vegna niðurskurðar í aflaheimildum á þorski.

Sjávarútvegsráðherra fundar nú með forystumönnum verkalýðsfélaga víðsvegar um land og er ástæða fundahaldanna fyrirséður niðurskurður á aflaheimildum á þorski og áhrif þess á kaup og kjör launafólks. Forsvarsmenn Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Húsavíkur hitta Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, í dag. Lýsa verkalýðsforystumenn yfir áhyggjum sínum yfir áhrifum niðurskurðar aflaheimilda á kaup og kjör fiskvinnslufólks og sjómanna. Forkólfar Starfsgreinasambandsins funda líka með ráðherra í dag.

Afnám 10% álags vegna útflutnings á gámafiski frá Íslandi til að bæta gráu ofan á svart

Verkalýðsfélag Akraness lýsir líka yfir áhyggjum sínum vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um að fella úr gildi 10% álag sem greitt hefur verið vegna útflutnings á gámafiski frá Íslandsmiðum. Segir í fréttatilkynningu frá verkalýðsfélaginu að svo mikið sé víst að þessi ákvörðun mun ekki bæta stöðu fiskvinnslufólks, því allt útlit er á því að við afnám á umræddu 10% álagi á gámafiski muni útflutningur á fiski aukast og mun það bætast ofaná þann niðurskurð sem fyrirhugaður er 1. september.

Fréttavefurinn Fishupdate.com greindi frá því í gær að fiskkaupendur í Hull og Grimsby fagna þessari ákvörðun íslenska sjávarútvegsráðherrans mjög,því nú verði auðveldara að kaupa íslenskan fisk.

Á fréttavefnum kemur líka fram að hagsmunaaðilar í Bretlandi hafi þrýst á um þessa breytingu ásamt íslenskum fiskútflytjendum og eigendum íslenskra togara.''

P.S. Nú er bara að gera betur en þeir í Englandi sem náðu fram reglugerðarbreytingu hér á landi sér til handa sem Einar K. Guðfinnson skrifaði undir. Nú er bara að þrýsta á sjávarútvegsráðherran okkar t.d að þeir sem landi afla á Vestfjörðum til fiskvinnslu þar fái 10% meiri veiðiheimildir í verðlaun sem dæmi

Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 01:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband