Til varnar mávinum

JonatanLivingstone  Sjáið nú þennan fallega fugl. Þetta er mávur. Fáir fuglar hafa fegurra flug eða hreinni liti. Hann er augnayndi hvort sem er á flugi eða fæti. 

Borgaryfirvöld hafa ákveðið að útrýma honum.

Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna borgaryfirvöld hafa lagst í þann víking -- en skýringin er sögð sú að öndum hafi fækkað á Reykjavíkurtjörn og nú þurfi að grípa til róttækra aðgerða. Einmitt það já.

Hvers vegna ættu endur að vera rétthærri íbúar við Reykjavíkurtjörn en mávar? Er skíturinn úr þeim eitthvað heilnæmari en skarnið úr mávinum?

andamamma  Auðvitað er voða gaman að sjá litla sæta andarunga synda á eftir andamömmu á góðum dögum. En mávurinn á líka unga, þó þeir syndi ekki á Tjörninni.

Reykjavíkurtjörn er orðin að brauðsúpu - og matarleifar og brauðmengun í tjörninni er að verða heilbrigðisvandamál. Ekki mávurinn.

Ég lýsi hér með andúð minni á því að útrýma einni fuglategund til þess að verja aðra.

mávar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það hef ég oft gert - og gengið bærilega.

Hins vegar er umgengnin um miðbæinn ekki alltaf til fyrirmyndar. Fólk hendir matarleifum og rusli á götuna, með þeim afleiðingum að fugl (og jafnvel rottur) ganga þar að veisluborði.

Minna fæðuframboð (les: bætt umgengni) er það eina sem getur lagað ástandið - og það er í höndum vegfarenda í  miðbænum að sjá til þess að matarafgangar og "andabrauð" sé ekki á boðstólum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.7.2007 kl. 17:19

2 Smámynd: Helga Auðunsdóttir

ég er nú almennt ekki með því að gengið sé á einn dýrastofn til að annar fái að lifa, en að sjá það að fólk sé að gefa mávunum við matsölustaði finnst mér dálítið óhuggnalegt. Það er sama hvaða kvikindi það er að fæða sem lifir vilt í náttúrinni og lifir á alskonar hræáti eru ekki það sem ég vil sjá nálægt mér þegar ég er að borða úti við.

Helga Auðunsdóttir, 6.7.2007 kl. 20:47

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég vona að þeir fari ekki að myrða þá hérna við Langasandinn. Gaman að fylgjast með þeim hérna. Mig langar að spyrja, hvar eru dúfurnar? Það var eitrað fyrir þeim eitt árið og ég hef ekki séð dúfu síðan. Sakna þeirra virkilega!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.7.2007 kl. 22:54

4 Smámynd: Magnús V. Skúlason

En þegar ein fuglategund (mávur) er kerfisbundið að útrýma annarri fuglategund (önd), þá er þörf á aðgerðum. Til dæmis fundust 4 andarungar í meltingavegi hjá mávi sem var lagður að velli í Laugardalnum. Þykir það geðslegt?

Magnús V. Skúlason, 6.7.2007 kl. 22:59

5 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Ekki vil ég útríma Mávinum enn það þarf að fækka honum enda er enginn að nýta þessa tegund.

Georg Eiður Arnarson, 6.7.2007 kl. 23:07

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér er þetta spurning um mávinn eða aðra fugla sem eiga undir högg að sækja hvað varðar viðkomu.  Hann er nefndur vargur af ástæðu.  Hann étur egg og ungviði annara fugla eins og anda og sá ég nokkra rífa í sig andarunga í elliðaárlóni um daginn.  Hvort það þjónar einhverjum tilgangi að plaffa á hann veit ég ekki og efast um að slíkt taki á rót vandans. Breytingar í lífríki sjávar eru meðal annars sennileg ástæða sóknar hans í byggð, ætiskortur auk þess sem fiskvinnsla í landi er horfin og því ekkert að sækja við hafnirnar. Það ku líka vera faktor að í harðæri eignast þeir fleiri unga.  Það hafa þó verið brögð að því að mávurinn sé farinn að éta eigin unga undan sér.  Hvað veldur þessu held ég að sé ekki að fullu rannsakað. 

Jón Steinar Ragnarsson, 6.7.2007 kl. 23:22

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég held við ættum að láta náttúruna sjálfa um að leysa þetta mál. Sé mávurinn farinn að éta ungana undan sér er alvarlegur fæðuskortur. Þá fækkar honum.

Mávurinn er ekki eini ránfuglinn hér við land, aðrar ránfuglstegundir eru alfriðaðar t.d. fálki og örn. Það er heldur ekkert geðslegt að sjá þá athafna sig. En svona er lífið - og lífríkið hefur sínar eigin leiðir til að koma á jafnvægi, ef við bara látum það í friði.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.7.2007 kl. 00:01

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Kæra Ólína

Smá glens hérna á bjartri júlínóttunni.

Hún Ólína, vífið að vestan,

vágest telur ei mestan

þennan meinleysismúkka,

sem menn vilja "húkka"

Nei, segir hann barasta Bestan!

Magnús Geir Guðmundsson, 7.7.2007 kl. 01:55

9 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er hverjum manni hollt að taka sér far í Álfsnes og berja þar augum viðbjóðinn og anda að sér fnyknum sem umlykur þar allt. Mávagerið eins og í "Birds" Hitskokks (Nema þar voru það krákur ef ég man rétt) Mannskepnan að egna fyrir blessuðum fuglinum og bera á borð fyrir hann úrganginn úr sjálfri sér. Þegar vistkerfið brenglast í sjónum sækir fuglinn í okkar úrgang og virðist þrífast bara býsna vel á gúmmelaðinu. Svo vel reyndar, að nú skal höggva skörð í stofninn, því hann er orðinn óþægilega stór. Farinn að drulla á bílana okkar og éta andarunga á Tjörninni í Reykjavík. Tjörnin sennilega mengaðasta vatnsból sem fyrirfinnst á Íslandi. Er til efs að nokkur þessara andarunga hreinlega "meiki" það í þessari brauðdrullu. Mávurinn er hins vegar þeirrar náttúru aðnjótandi að hann drepst síðastur allra og ef við ætlum að láta náttúruna hafa sinn gang, verður hér ekkert nema mávur. Styð því fækkun, þrátt fyrir allt.

Halldór Egill Guðnason, 7.7.2007 kl. 02:25

10 Smámynd: Magnús V. Skúlason

En munurinn er sá að við sjáum hvorki fálka, erni né aðra svonefnda „ránfugla“ á sveimi allsstaðar í Reykjavík. Eigum við þá ekki að útrýma rottum sem hreiðra um sig í klósettum borgarbúa vegna þess að náttúrna á að fá að ráða ferð? Er þá lausnin á vandanum að fóðra mávinn þannig að hann hætti að éta upp aðra fuglategund sem á undir högg að sækja? Er það einhver trygging fyrir því að mávurinn hætti að éta unga ef hann fær nóg annað að éta í staðinn?

Ef það er eðli náttúrunnar að mávar éti egg og unga, þá myndu allir heimsins matarafgangar ekki friða þennan fugl heldur fjölga honum svo um munar.

Magnús V. Skúlason, 7.7.2007 kl. 08:04

11 identicon

Það svo sem liggur í hlutarins eðli að ef að mávurinn fær ekki nóg að éta þá færir hann sig þangað sem æti er að finna.  Mér finnst hins vegar ekkert sérstaklega gaman ef að hann nær að eyðileggja æðarvörpin hvar svo sem þau eru staðsett.  Mér finnst nú mávurinn kannski ekki alls staðar ekki réttdræpur en mér finnst samt allt í lagi að halda honum aðeins í skefjum á þeim svæðum þar sem hann er að drepa niður allt fuglalíf. 

Ásgerður Eyþórsdóttir (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 14:03

12 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Kæra Ólína!

Biðst afsökunar á því að rugla saman blessuðum Mávinum og Fýlnum, ´sá síðarnefndi auðvitað kallaður Múkki!

Gerum því bragarbót á limrunni.

Hún Ólína, vífið að vestan,

vágest telur ei mestan

þennan vesalingsvarg,

með voða sitt garg

Nei, segir hann barasta bestan!

Magnús Geir Guðmundsson, 7.7.2007 kl. 15:08

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka fyrir skemmtilega limru - og gildi einu hvort múkkanum er blandað í það mál eða ekki

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.7.2007 kl. 15:31

14 Smámynd: gettogirl

Það gladdi mig mjög mikið Ólína að sjá þessa færslu hjá þér, mér þykir vænt um ÖLL dýr og mávurinn hefur átt sérstakan sess í hjarta mínu undanfarið vegna þeirrar óvildar sem hann þarf að þola.

Ég og vinkona mín sem ég bý með höfum unanfarið fengið skemmtilega gesti undir svalirnar okkar, andapar sem kemur kjagandi á hverju kvöldi eftir blettinum að fá brauðmola sem við hendum til þeirra af svölunum. Steggurinn bíður alltaf og stendur vörð á meðan kella borðar nægju sína áður en hann fær sér sjálfur. Mávarnir sáu síðan um að hreynsa það upp sem parið leyfði. En mávurinn á óvini í blokkinni okkar og fljótlega fóru að heyrast mótmæli af öðrum svölum þegar við vorum að gefa fuglunum, kona á næstu svölum var farin að gera hróp að okkur og hóta lögreglu ef að við hættum þessu ekki og skvetti vatni úr bala yfir andaparið sem hefur ekki sést síðan. Við erum ekki vön að láta smáborgara stjórna okkur gefum nú mávunum mat af svölunum á hverju kvöldi, erum samt að hugsa um að fara frekar út á Ægissíðu og gefa þeim þar vegna neikvæðninar sem skapast vegna samkendar okkar með sársoltnum mávum. Vinkonan segist frekar fara í fangelsi en að hætta að henda brauðmolum fyrir soltna fugla. Tek ofan fyrir því, ekki að ástæðulausu að ég ber meiri virðingu fyrir þessari frábæru vinkonu minni en öllum öðrum, einstök manneskja með hjartað á réttum stað, vei þeim sem hún sér fara illa með dýr svo hún sjái til, alltaf tilbúina að tala máli þeirra sem eiga erfitt með að bera hönd yfir höfuð, menn eða dýr.

Ég var ekki alltaf svona mikill dýravinur og gerði ýmislegt miður fallegt sem barn og unglingur....en svo lengi lærir sem lifir og og er kannski mest vinkonu minni að þakka gjörbreytt hugarfar gagnvart öllu lífi...ef að ég rekst á köngulló innandyra veiði ég hana varlega á blað og sleppi svo heilli á húfi úti...það veitir einhverju undarlega vellíðan að þyrma lífi, hversu smátt sem það er, vellíðan sem ég færi á mis við ef að ég kremdi köngullóna til dauða í stað þess að sleppa henni og sjá hana skjótast í burtu frelsinu fegin.

gettogirl, 7.7.2007 kl. 15:52

15 Smámynd: gettogirl

Móðir mín kenndi mér strax sem litlu barni að bera virðingu fyrir öllu því sem lifir. Ég held að það sé eitthvað sem mannverurnar ættu að hafa að leiðarljósi fyrir sín afkvæmi. Heimurinn sem við búum í er alveg nógu grimmur og blóðugur og nú er kominn tími til að fólk innprenti í börnin sín þá siðfræði að enginn megi pönkast á málleysingjum og þeim sem minni máttar eru.

Í seinni tíð á ég ofboðslega erfitt með að bera virðingu fyrir mannfólkinu. Hvert sem litið er, er jörðin ötuð blóði,

þrátt fyrir alla vitsmuni mannanna. Við á litlu eyjunni í norðri erum meira að segja í stríðsrekstri úti í heimi. Ég hef mikið verið að hugsa um að stefna íslenska ríkinu fyrir það mannréttindabroti sem ég hef verið beitt, að vera í stríði og taka þátt í að drepa fólk. Enginn var spurður. Einn maður tók ákvörðun og annar sagði já og það loðir og mun loða á mannorði okkar Íslendinga um alla tíð. SVEI!!

Ég ætla að setja hér inn ljóð eftir góðvinkonu mína Nínu Björk Árnadóttur sem gengin er. Reynum að setja okkur í spor þess sem lifir og minni máttar er hvort sem það er fugl eða fiskur, blóm eða tré. Þá fyrst gæti heimurinn byrjað að heilast og yrði kannski geðslegri staður fyrir vikið

STRÍÐ

Stríð

þeir sprengja og brenna

skaut þjóðar.

Þó sól hnígi

hvílast ekki hermenn

dagslátta nýtur ekki náðar

fyrir dauðaaugum eyðingarstjórnarinnar.

Stríð

ég og þú biðjandi þessar feimnu öryggislausu bænir.

Stríð

þú og ég öskrandi þessi angistarfullu

heiftaryrði.

Stríð

yrkisefni mér og öðrum

sem eiga silkisvæfla

að hvíla á

þreytt höfuð sín.

(Nína Björk Árnadóttir úr bókinni Börnin í garðinum)

gettogirl, 7.7.2007 kl. 16:35

16 Smámynd: Brynjúlfur Brynjólfsson

Þetta er nú frekar undarleg umræða en gaman að sjá að fyrrum kennari minn (vetruinn ´79/´80) Ólína Þorvarðardóttir hafi þennan áhuga á máfum. Þegar fólk talar um máfa er eins og það sé bara til ein tegund af máfum "máfur eða mávur" en svona einfalt er þetta nú ekki.

Á Íslandi verpa að jafnaði 7 tegundir af máfur það er svartbakur, sílamáfur, hvítmáfur, silfurmáfur, stormmáfur, hettumáfur og rita. Bjartmáfar eru vetrargestir hér á landi, dvergmáfur, hringmáfur, ísmáfur, þernumáfur og rósamáfur eru nær árlegir gestir og sjaldséðari máfar eru trjámáfur, klapparmáfur, norðmáfur, amerískur silfurmáfur, hláturmáfur og sléttumáfur.

Eins og sjá má á þessum lista  er erfitt að tala bara um máfa og það að máfar séu ljótir því þeir er nú all breytilegir og margir hverjir bara annsi fallegir. Það að sílamáfum hafi fjölgað hratt hér á landi undanfarna áratugi er nú líklegast manninum að kenna að stórum hluta með auknu framboði matar fyrir fuglana.

Það að máfar borði unga annara tegunda er ekki nýtt fyrirbæri en það gera líka fleiri fuglategundir og má þar nefna hina hefðbundnu ránfugla (máfar eru ekki skilgreindir sem ránfuglar) og hinn fallega mófugl spóan svo einhverjir séu taldir upp. Fleiri skeppnur borða egg og fugla og er maðurinn líklegast þar á toppnum en það koma einnig fleiri að þessari matarkistu náttúrunnar eins og kettir, refir, minkar, rollur og fleiri.

Það að ætla sérstaklega að skjóta eða svo maður tali nú ekki um að eitra fyrir sílamáfum í Reykjavík hefur líklegast lítil áhrif á þann stofn og verður ólíklega til þess að þeim fækki í þar, meiri líkur eru á því að ef fólk gengur snyrtilegar um í borgini verði til þess að þeim fækki þar og svo hefur náttúran yfirleitt séð um sig ef maðurinn ruglar hana ekki um of með sínum miskunarlausu aðgerðum.

Sínum máfum sem og öðrum fuglum virðingu og lærum að umgangast þessa fallegu fugla og njóta þessa að fylgjast með þeim.

Brynjúlfur Brynjólfsson, 11.7.2007 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband