Lúkas litli píslarvottur

kertafleyting  Síðustu daga hefur borið á gagnrýni vegna þess að hópar fólks sáu ástæðu til þess að minnast Lúkasar litla - hundsins sem hlaut skelfilegan dauðdaga á Akureyri fyrir skömmu. Ýmsir hafa orðið til þess að hrista höfuðið yfir því að fólk skuli hafa komið saman og kveikt á kertum "til minningar" um hund sem það "þekkti ekki neitt" svo notuð séu orð þeirra sem hafa tjáð sig um þetta. Einn pistlahöfunda spyr sig hvort það "skorti harm" í líf þess fólks sem grætur ókunnugan hund. Á blogginu hafa aðrir skemmt sér við að segja ófagrar sögur af misþyrmingum heimsþekktra manna á dýrum, og rekja matgæði og matreiðsluaðferðir hundakjöts svona eins og til að undirstrika fáránleika þess að minnast hunds.

Vissulega hefur Lúkas litli fengið meiri athygli liðinn enn hann gerði nokkurn tíma lífs. Og ef maður ætti að trúa því að þessar athafnirnar hafi snúist um hann sem einstakling,  þá mætti segja að sitthvað væri bogið við það. En ég held að málið sé ekki þannig vaxið, það er margþættara en svo.

Lúkas er orðinn píslarvottur - fórnarlamb grimmdar og mannvonsku. Athafnirnar sem fram fóru eru táknræn mótmæli gegn illri meðferð á dýrum.

Í blöðum gaf að líta mynd af ungu, fallegu fólki með hund í bandi sem kveikti á kerti. Ekki veit ég hvort þetta unga fólk þekkti Lúkas, eða eigendur hans, nokkurn skapaðan hlut - eða hvort "harminn skortir í líf þess" eins og einn pistlahöfundur orðaði það. Satt að segja vona ég að þetta unga fólk hafi ekki þurft að harma margt enn sem komið er. En ég þykist vita að með þessu hafi það viljað sýna hug sinn til þess sem gerðist; tjá sorg vegna grimmilegrar meðferðar á saklausu dýri og samúð með eigendunum.

Til þess eru auðvitað ýmsar leiðir - og sjálfsagt er margt í mannlegu samfélagi sem ástæða væri til að vekja athygli á með minningarathöfnum, mótmælagöngum og kertafleytingum. En hvað? Má ekki fólk koma saman og taka afstöðu í dýraverndunarmáli? Það hefur margt verið gert fánýtara en það.

Og ef ástæðan er sú að "harminn skorti" í líf fólks, þá eru það bara góðar fréttir fyrir mér.

 

blidahvolpurein05 

Læt að lokum fljóta hér með tvær sætar hvolpamyndir af tíkinni minni - á annarri hefur hún náð snuðinu af ömmudreng - og heldur augljóslega að hún sé líka maður.

 snuddublida05

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er nú einn þeirra, sem gagnrýndi þetta hundaæði, sem hljóp í fjölmiðla og finnst mér skinhelgin og sjálfmiðunin í tengslum við þá umfjöllun, langt umfram tilefni.  Á raunar ekki eitt einasta orð yfir fréttadeild stöðvar tvö. Það er að sjálfsögðu ekki gagnrýnt að fólk syrgi, né að fólskuverk sem þessi séu ámælisverð.  Það er eingöngu það mat, sem fólk gerir sér úr málinu og fordæmingnafnabirtingar og hefndarþorsti, sem hefur birst síðan, sem er illskiljanlegt.  Ég vona kæra Ólína að þú getir horft ofar þessari tilfinningasemi og séð rangindin í viðbrögðunum líka. 

Við erum alltaf vanmáttug gagnvart ofbeldi og fann ég það skýrt við að sjá stríðsljósmyndasýningu í Kringlunni, þar sem skelfilegar myndir eru sýndar af fólki, sem er skotið eins og hundar úri á götu án tillits til aldurs né kyns.   Þetta fyllir man vantrú og vanmáttugri reiði, en ef maður lítur ofar því, þá er rétt að spyrja sig um tilgang slíkrar sýningar og erindi hennar fyrir auga ungra sem aldinna, þarna í stórmarkaðnum.  Þar var allavega ekki síður tilefni til hysterískra viðbragða.

Ég minni á að við höfum lögreglu og dómstóla, sem og heilbrigðiskerfi, sem gefa sig að málum einstaklinga, sem akta með þeim hætti sem hér var gert.  Þeirra er að rannsaka, dæma og veita hjálp þeim einstaklingum, sem slíkri ógæfu hafa valdið sér og öðrum.  En að birta nöfn af munnmælum og gera sig seka um galdrafár af þessu tagi, ber vott um sama sukkópatíska tilfinningaleysið, þar sem litið er framhjá því að einstaklingurinn getur verið veikur eða kraminn á sál og að þetta hafi hugsanlega verið óvitaskapur eða stundarbrjálæði.  Slíkt á því að rannsaka í yrrþei, þar til niðurstaða fæst í stað þess að æsa til fordæmingar eineltis og brennimerkingar einstaklings og aðstandenda hans. Sé hann sakhæfur og sannist þetta á hann, mun okkar dómskerfi sjá um refsinguna. Þessi umfjöllun gerði engu gagn og fara fjölmiðlar fram úr hlutverki sínu í þessu sem oft áður.  Þetta var random ofbeldisverk, sem er svo sjaldgæft og út úr normi að ég man ekki eftir að hafa heyrt annað eins. 

Blessuð sé minning Lúkasar.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.7.2007 kl. 07:41

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Jón Steinar.

Þetta er allt satt og rétt sem þú segir - viðrögð fólks gagnvart hinum ætlaða geranda í málinu eru auðvitað til skammar.  Sá angi málsins er jafn óviðfelldin og sjálfur verknaðurinn. Svipaða sögu er að segja um leiðindahúmor sem hefur verið í gangi um hundapyntingar og matseld. Það er eins og þetta mál kalli fram allt það versta í mörgum þeirra sem um það fjalla.  

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.7.2007 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband