Þjóðarsátt um fiskveiðistjórnun?
5.6.2007 | 00:26
Er hugsanlegt að ná þjóðarsátt um fiskveiðistjórnunarkerfið? Getur verið að menn séu loks tilbúnir að leiðrétta gallana á þessu kerfi? Þora þeir?
Sjávarútvegsráðherra hefur í hátíðarræðu á sjómannadegi talað um nauðsyn þess að ná þverpólitískri samstöðu - nokkurskonar sátt - um breytingar á kvótakerfinu. Það er athyglisverð nálgun, og vonandi góðs viti. Nú reynir hinsvegar á það hvort hlutaðeigandi aðilar - stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar - eru raunverulega tilbúnir til þess að vega og meta afleiðingar kvótakerfisins af sanngirni og bæta vankantana af heilindum og réttsýni. En það er einmitt það sem sjávarbyggðir landsins þurfa á að handa núna: Sanngirni og heilindi þeirra sem hafa fjöregg byggðanna í höndum sér.
Ef sátt á að nást um breytingar á kerfinu - sem mér virðist sjávarútvegsráðherra vera að tala fyrir - verður að vera um raunverulegt samráð að ræða. Það dugir ekki að ganga á fund LÍÚ til að sækja leyfi fyrir því sem gera skal, kalla svo stjórnarandstöðuna til fundar og kynna henni niðurstöðuna og kalla það svo samráð. Það dugir heldur ekki að skella skollaeyrum við tillögum stjórnarandstöðunnar en halda því svo fram eftir á að við þá hafi verið haft samráð. Ef menn ætla í einhverja skollaleiki af því tagi þá verða þeir afhjúpaðir snarlega.
Ég hef grun um að það verði fylgst vel með Einari K Guðfinnssyni og hans framgöngu í þessu máli á næstunni - a.m.k. vona ég að fjölmiðlar og almenningur muni anda niður um hálsmálið á ríkisstjórninni þar til skynsamlegar tillögur liggja fyrir.
Sömuleiðis held ég að það verði fylgst vel með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar - því nú reynir á það hvort menn vilja raunverulega leggja gott til mála - eða hvort þeir missa sig í lýðskrum og áróður.
Oft var þörf á ábyrgð og yfirvegun, en nú er nauðsyn. Þetta verður stóra prófið fyrir ríkisstjórnina ... og stjórnarandstöðuflokkana.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:50 | Facebook
Athugasemdir
Þjóðarsátt segirðu??? Nei það verður engin þjóðarsátt. Einar Kr hefur ekki bein í nefinu til þess að ná þjóðarsátt. En það þarf enginn að vera hissa á þessari niðurstöðu Hafró. Það nennti bara enginn að lusta 1998. Sjá:http://fiski.blog.is/blog/fiski/
klakinn (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 00:51
Sæl Ólína, þetta er augljóslega fyrirsláttur, því miður. EKG segist vilja samráð en er fyrirfram búinn að blása af að nokkrar breytingar verði gerðar. Hvað eiga "samráðsmennirnir " þá að gera? Valkostirnir eru ekki ekki aðrir en að gefa syndakvittun eða að gangast við sök. Jafnvel framsóknarmenn eru búnir að átta sig á þessu og vilja nú yfirgefa sökkvandi skip, sem er núverandi kvótakerfi.
Sigurður Þórðarson, 5.6.2007 kl. 09:34
Fyrir ári síðan var blásið til stórsóknar í umhverfismálum til verndar og virðingar fyrir náttúru Íslands og bar þar hæst Kárahnjúkaverkefnið... Baráttan sú skilaði heldur betur árangri.
15 þúsund manna og kvenna mótmælaganga með Ómari og frú Vigdísi í broddi fylkingar verður ævarandi minnisvarði um sigur samtakamáttarins þegar þjóðarsálinni hafði verið misboðið.
Nú stöndum við frammi fyrir hörmulegum afleiðingum af kvótakerfinu á byggðir landsins sem nú fá meira vægi en nokkru sinni fyrr vegna minnkaðra aflaheimilda auk fleiri íþyngjandi þátta fyrir lífsbjörgina í sjávarbyggðunum.
Þessu kvótakerfi verður ekki breytt nema viðbrögð þjóðarinnar verði með jafn öflugum hætti og hún sýndi þegar vá steðjaði að umhverfismálum að óbreyttu.
Nú er þjóðarþörf á að öflug barátta hefjist fyrir réttlæti á nýtingu sameignar þjóðarinnar og að snúið verði af þeirri óheillabraut sem þetta fiskiveiðastjórnunnarkerfi hefur augljóslega leitt okkur í með síminnkandi aflaheimildum, þvert á það sem stefnt var að þegar það var sett á fyrir 23 árum.
Áfram með baráttuna Ólína
Saevar Helgason (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 10:25
Ég lít fyrst og fremst á að næstu vikur verða prófsteinn á Samfylkinguna. Við vitum hvða Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir á sjávarútvegsmálum og þar á bæ virðast menn ekkert ætla að breyta um kúrs. Framsóknarflokkurinn virðist vera eitthvað tvístígandi nú en Valgerður Sverrisdóttir hefur samt sem áður haldið því fram að breyta núverandi kerfi sé eins og að fara í eitthvert byggðaföndur sem henni leist illa á.
Frjálslyndi flokkurinn hefur ítrekað lagt fram ábyrgar breytingar á núverandi kerfi til þess að lina þjáningar byggðanna og þar að auki kynnt framsækna stefnu til breytinga á stjórn fiskveiða og ég reikna með ða við höldum því áfram.
Það virðist því miður vera svo að Samfylkingin ætli að svíkja lit og ganga á bak orða sinna um breytingar á ónýtu kvótakerfi sem er að rústa útveginum og sjávarbyggðunum. Þettar eru eflaust sárar staðreyndir fyrir liðsmenn Samfylkingarinnar á landsbyggðinni.
Sigurjón Þórðarson, 5.6.2007 kl. 10:58
Sælir herrar mínir.
Ég held við ættum ekki að gefa okkur fyrirfram að það náist engin sátt í þessu máli. Og ég held það þjóni heldur ekki tilgangi að togast á um stefnu flokkanna. Það sem skiptir máli núna er hvort menn vilja raunverulega bjarga einhverju. Vilja menn það?
Sigurjón Þórðarson er svolítið kominn í karpstellingarnar í sinni athugasemd hér fyrir ofan. En menn hljóta að sjá að það þjónar engum tilgangi að karpa svona.
Sigurjón - vilt þú ekki að þinn flokkur setjist niður með fulltrúum annarra flokka og ræði lausn á þessu máli? Hvort skiptir meira máli að halda fram ágæti eigin stefnu, eða taka þátt í björguninni sjálfri? Nú þarf að BJARGA, það er hin harða alvara málsins. Og við björgum engu ef við gefum okkur fyrirfram að aðrir séu ekki inni af heilindum. Gefum sjávarútvegsráðherra þennan séns - ekki hans vegna, heldur byggðanna vegna.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.6.2007 kl. 11:44
Auðvitað styðjum við sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnina í því að leiða þetta mál til sæmilegrar sáttar með þjóðinni... það hlýtur að vera leið nr. eitt.
Sævar Helgason (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 12:52
Stjórnvöld ráða för í þessu máli og þar fer auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn með þau mál með stuðningi Samfylkingarinnar. Í stjórnarstáttmála Sjálfstæðisflokks og samstarfsflokksins kemur fram að það eigi að tryggja "stöðugleika" í sjávarútvegi. Formaður Samfylkingarinnar hefur ekki gefið til kynna að það eigi að breyta einu né neinu í sjávarútvegskerfi þjóðarinnar þegar hún hefur verið spurð út í stefnu ríkisstjórnarinnar. Það virðist sem sagt vera svo að jafnaðarmannaflokkurinn vilji að þjóðin sætti sig við óskapnaðinn.
Það er auðvitað fagnaðarefni ef menn ætla í raun og veru að ræða einhverjar lausnir. Það hefur aldrei staðið á Frjálslynda flokknum að setjast niður og ræða skynsamlegar breytingar en ég skrifaði m.a. Einari K bréf fyrir ári síðan þar sem ég bauð honum upp á að fara í gegnum ráðgjöf Hafró á síðasta ári. Ég skynjaði því miður ekki nokkurn áhuga hjá ráðherra á þessari málaleitan.
Ég vil samt sem áður leyfa mér að minna á, sérstaklega vegna þess að ég er að ræða við Vestfirðing sem er orðinn stuðningsmaður ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, að á umliðnum árum hafa verið settar á fót ýmsar nefndir um atvinnumál og aðgerðir til stuðnings atvinnulífs á Vestfjörðum þegar áföll hafa dunið yfir. Eftir á að hyggja hafa helstu hlutverk þessara "aðgerða" sem hafa falist nánast eingöngu í nefndaskipan að drepa óþægilegri umræðu á dreif.
Sigurjón Þórðarson, 5.6.2007 kl. 13:29
Hagvöxtur í þröngri skilgreiningu, frelsi fjármagnsins og fjármagnseigenda ásamt óskoruðu veiðileyfi á öll verðmæti samfélagsins er ekki pólitísk stefna stærsta stjórnmálaflokksins. Þetta eru blátt áfram trúarbrögð forystu hans.
Trúarbrögð eru öllum gildum æðri í hugum sanntrúaðra.
Örlög fólksins, hamingja þess og tækifæri til góðra daga og áhyggjulausra eru pólitísk umræðuefni og áhyggjuefni frjálshyggjumanna í allri umræðu. Lengra nær það ekki.
Samfylkingin er í þeirri erfiðu stöðu að taka ákvarðanir að sínu leyti um það hvort fulltrúar hennar í ríkisstjórn og á Alþingi snúi þessari þróun við eða taki þátt í þokukenndum áætlunum inn í óskilgreinda framtíð.
Græðgivæðingin er búin að hreiðra um sig í nýtingu fiskimiðanna. Græðgivæðingin er sem óðast að kaupa upp allar bújarðir á Íslandi. Þess er skammt að bíða að örfáir milljarðamæringar verði áskrifendur að öllum framleiðslustyrkjum til framleiðslu á búvörum okkar.
Mun Samfylkingin meta völd og áhrif meira en pólitísk markmið til margra ára?
Ég er ekki í vafa og svar mitt er, því miður-já.
Árni Gunnarsson, 5.6.2007 kl. 15:00
Er ekki kominn tími á fjölmenna kröfugöngu þar sem almenningur sýnir samstöðu. Ekki mótmælagöngu, í eðli sínu hafa þær öfug áhrif. Ég legg til að skipulagðar verði meðmælagöngur um allt land, þar sem fólk mælir með breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi á forsendum byggðana en ekki bankana.
Ársæll Níelsson, 5.6.2007 kl. 15:37
Því miður er harla ólíklegt að EKG fá svigrúm frá LÍÚ og sínum eigin flokksmönnum, til að gera einhvern meiriháttar uppskurð á þessu kvótakerfi Framsóknar og andskotans. Eins og maður er búinn að lemjast á móti þessu er ég bara orðinn svo viss um að það er bara vonlaus barátta.
Hinsvegar held ég að það ætti að vera hægt að selja þeim það að gera allt kerfið gagnsætt og að allur afli, (annar en uppsjávar og af verksmiðjuskipum) fari í gegnum sama ferli vigtunar og verðlagningar með uppboði, svoleiðis aðgerð mundi til að mynda færa Flateyri aftur sín vopn því Hinrik er að gera góða hluti í sinni vinnslu, er mér sagt og mundi geta náð til sín hráefni á jafnréttisgrundvelli.
Með þessu væri verið að segja að þeir sem eru með tækin, skipin, og sæktu í auðlindina með minnstum tilkostnaði væru þeir sem sætu að því áfram. Þessu til viðbótar mætti hugsa sér að verksmiðjuskipum yrði eitthvað takmarkað hleypt í þorskinn, meðan lægðin væri í stofninum.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 5.6.2007 kl. 21:33
Af hverju þarf að gefa sér þá forsendu að útgerðamenn (handhafar varanlegra veiðiheimilda) séu ekki að rækta garðinn sinn? Ekki græða þeir á að fá alltaf minni heimildir úthlutaðar. Vandræðin eru klárlega hjá Hafró og stjórnmálamönnum. Þess vegna á að biðja LÍU um að ákveða þetta. Klippt og skorið.
Röflið í Vestfirðingum er svo sérkapituli, orðinn býsna laanngur og leiðinlegur.
Bjarni Pálsson (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 21:51
Bjarni það er gallinn, það hefur alltaf verið gert, LÍÚ hefur alltaf ákveðið þetta og þeir hafa ræktað þennan garð eftir sínum bókum hingað til ....og þessi er árangurinn, sem gefinn var út um helgina.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 5.6.2007 kl. 22:22
Sælir enn á ný.
Ég er svolítið hugsi yfir áskorunum sem hér hafa birst um að blása til sóknar og kalla eftir stuðningi almennings, líkt og gerðist á landsvísu gagnvart Kárahnjúkum. Minna dæmi, en álíka merkingarþrungið, var öflugur fundur á Ísafirði undir slagorðinu "Lifi Vestfirðir".
Göngur og/eða útifundi í þéttbýlisstöðum landsins - því ekki það? Ákall til stjórnvalda um að bjarga byggðinni, innleiða réttlátt kerfi. Annað eins hafa franskir bændur gert þegar þeim mislíkar eitthvað í stjórn landbúnaðarmála - og hér er vissulega meira í húfi.
Getum við skipulagt þetta hérna á síðunni - t.d. dagsetningar, hverja þyrfti að virkja o.s. frv.? Bloggað sameiginlega, þegar við höfum komist að niðurstöðu um hvar, hvernig og hvenær? Skipt á okkur verkum.
Hverjir eru með?
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.6.2007 kl. 23:12
Hér er einn!
Árni Gunnarsson, 5.6.2007 kl. 23:19
o/
Ársæll Níelsson, 5.6.2007 kl. 23:29
Til er ég.
Sigurður Þórðarson, 6.6.2007 kl. 00:27
Sælt veri fólkið.
Undanfarnar vikur hef ég verið að setja upp vef fyrir einstaklingsframtakið á Vestfjörðum. Þarna verður vonandi að finna mörg verkefni sem einstaklingar standa að til atvinnuuppbyggingar á Vestfjörðum. Vefurinn er ekki alveg tilbúinn og er þetta í vinnslu "Live" rétt eins og önnur verkefni. En nóg um það!
Ég er með nokkuð gott spjallborð og er einn flokkur þar tileinkaður umræðum um sjávarútvegsmál. Ykkur er velkomið að nota hann til að ræða málin og skipuleggja ykkur eða hvað sem þið viljið. Skráið ykkur bara inn og byrjið að nota hann, ég er umferðinni feginn :)
Hérna má finna spjallborðið
Já, og ég er til.
Vestfirðir, 6.6.2007 kl. 01:34
Það hlýtur allt hugsandi fólk að koma að svona áætlun Ólína, ærið er tilefnið. Veit ekki hvernig þetta virkar í Reykjavík en það er þó ljóst að mikill meirihluti fólks er á móti kerfinu eins og það er, þó það komi ekki fram í kosningum....??
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 6.6.2007 kl. 10:20
Ég er til, fer strax að ná í hlaupaskóna. Allir með.
Bryndís G Friðgeirsdóttir, 6.6.2007 kl. 23:34
Það hlýtur allt hugsandi fólk að koma að svona áætlun Ólína, ærið er tilefnið. Veit ekki hvernig þetta virkar í Reykjavík en það er þó ljóst að mikill meirihluti fólks er á móti kerfinu eins og það er, þó það komi ekki fram í kosningum....??
Hvers vegna kemur það ekki fram í kosningum? Hvers vegna refsa kjósendur ekki þeim flokk sem hefur staðið vörð um þetta kerfi og fer ekki einu sinni dult með það? Í staðinn verðlauna þeir hann með 37% fylgi.
Það á að dæma stjórnmálamenn eftir verkum þeirra fyrst og fremst. Bæði Framsókn og Sjálfst.flokkurinn hafa staðið vörð um kvótakerfið og í engu breytt því, þrátt fyrir fögur orð öðru hvoru um þjóðarsátt um fiskveiðistjórnunina.
Almenningur hefur tækifæri til að hafa áhrif á stjórnun landsins á fjögurra ára fresti. Ef fólk nýtir sér ekki það tækifæri þá geta menn engum um kennt nema sjálfum sér. Þá er í raun verið að senda þau skilaboð til stjórnmálamannanna að kjósendur séu sáttir við ástandið eins og það er.
Theódór Norðkvist, 7.6.2007 kl. 01:08
Döh. Hverju á eiginlega að mótmæla? Hagræðingu í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar??? Eða á kannski að mótmæla því að EKKI sé verið að niðurgreiða starfsemi einna (Vestfirðinga) á kostnað annarra ríkisborgara?
Svo er nú lágmarkið að vera með einhverja uppbyggilega tillögu og það ætti doktorinn að vita.
Bjarni Pálsson (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 10:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.