Hvað er að?
31.5.2007 | 11:59
Hvað er að þegar þrjár unglingsstúlkur taka sig saman um að misþyrma tveimur yngri? Voru þær að refsa þeim fyrir eitthvað? Hvaðan kemur þeim sú hugmynd að það sé í lagi að taka sér vald til að misþyrma öðru fólki - eða refsa yfirleitt? Kannski var þetta enn verra - algjörlega tilhæfulaust í anda einhvers tölvuleiks, hvað veit maður?
Auðvitað er hugsanlegt að þarna hafi einhverskonar innri illska (a.m.k. óhamingja) brotist út í óhæfuverki þriggja einstaklinga sem hafa manað hvern annan upp. En oftar eiga svona atburðir sér margþættari skýringar. Það er svo margt sem aflaga getur farið í lífi fólks.
Atburður sem þessi leiðir til dæmis hugann að brestum í þjóðaruppeldinu - þar sem einstaklingshyggja, valddýrkun og síðast en ekki síst skeytingarleysi um mannhelgi fólks, tilfinningar þess og reisn eru vaxandi þáttur í viðhorfum og samskiptaháttum.
Við sjáum þetta ekki aðeins í afþreyingariðnaðinum, þar sem klám, ofbeldi og kúgun eru viðfangsefnið. Flestir kannast við umræðuna um nýlegan tölvuleik sem gengur út á það að nauðga varnarlausum konum. En dæmin eru mýmörg - hér er eitt af handahófi sem ég fann á kynningarsíðu fyrir tölvuleiki:
"(Þessir) leikir ... nota sér myndrænt ofbeldi til að grípa spilarann og flækja hann inn í leikheim sinn. Oft er þetta ansi vel gert ... og í (þessum tiltekna leik) tekst þessi hluti leiksins mjög vel. Blóð, hryllingur og stefnulaust ofbeldi er í miklu magni í leiknum en hér passar það við efnið, enda er ...(aðalpersónan)... ekkert lamb að leika sér við á leið sinni til hefnda.
Spilarinn tekur að sér hlutverk Frank Castle sem er fyrrverandi hermaður. Frank hafði séð fjölskyldu sína myrta með köldu blóði og hefnt sín grimmilega á bófunum og upp úr því blóðbaði kallaði hann sig Refsarann. Sem Refsarinn er Frank eins konar refsiengill sem notar allar aðferðir sem hann telur nauðsynlegar til að negla vondu kallana, hvort sem þær eru löglegar eða ólöglegar, snyrtilegar eða ósnyrtilegar."
Í raun þurfum við ekki að skoða ofbeldisleiki til þess að sjá viðlíka upphafningu valdbeitingar og stefnulauss ofbeldis. Okkur nægir að horfa á fréttir af þjóðarmorðum, pyntingum, mannsali og mannréttindabrotum sem viðgangast víða um heim í samskiptum þjóða, samfélagshópa og einstaklinga.
Hvarvetna í menningu okkar blasir skeytingarleysið við - skeytingarleysi um velferð náungans, um rétta breytni. Þetta er auðvitað ekkert nýtt. Atburðir þeir sem áttu sér stað á Breiðavíkurheimilinu fyrir nokkrum áratugum sýna að börn hafa í gegnum tíðina misþyrmt öðrum börnum. Slíkt gerist einmitt í aðstæðum þar sem börn njóta ekki umhyggju eða handleiðslu fullorðinna - þegar afþreyingarleikir og slæmt fordæmi fullorðinna verða fyrirmyndin að hegðun og framkomu.
Það eru engin ný sannindi að bágur efnahagur, vinnuálag og tímaskortur foreldra eiga sína sök á því hvernig börnum og ungmennum farnast hvert við annað. Aukin misskipting lífsgæða í okkar litla samfélagi er viðvörunarmerki sem við ættum að taka alvarlega. Slíkir áhrifaþættir eru auðvitað engin afsökun fyrir þá sem fremja óhæfuverk - auðvitað ber hver einstaklingur ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum. En það segir sig sjálft að þeir sem njóta umhyggju og handleiðslu standa betur að vígi.
Ég vona bara að þessum stúlkum verði hjálpað til þess að sjá villu síns vegar og bæta ráð sitt.
Tveimur 12 ára stúlkum misþyrmt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:02 | Facebook
Athugasemdir
Sæl. Að mínu viti er þetta 100% rétt greining hjá þér.
Níels A. Ársælsson., 31.5.2007 kl. 12:23
Hjartanlega sammála þér, Ólína mín. Ég vona að þessar stúlkur fái hjálp. Þeim hlýtur að líða illa, eins og öllum sem láta stjórnast af illsku.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 31.5.2007 kl. 15:18
Held að þetta sé 100% röng niðurstaða að það þurfi að hjálpa börnunum. Það þarf að hjálpa þeim sem áttu að ala börnin upp.
Besta leiðin er að efla stórfjölskylduna í stað endalausar sósialískrar stofnanavæðingar. Fjórir ættliðir á heimili gæti verið markmið...
Bjarni Pálsson (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 21:42
Í öllum þeim metnaðarfullu kröfum sem pólitíkusar bera fram fyrir hönd barna í þessu landi gleymist ævinlega sú mikilvægasta.
Ég geri þá kröfu að sérhverju barni verði framvegis séð fyrir foreldrum.
Árni Gunnarsson, 31.5.2007 kl. 23:21
Sæl öllsömul.
Ég get tekið undir með ykkur öllum - vandi barna er sjaldnast einangraður við þau sjálf. Vandinn getur einmitt verið foreldrarnir og fjölskylduaðstæðurnar, og hjálpin þá í því fólgin að aðstoða fjölskylduna í heild, veita foreldrum ráðgjöf og stuðning. En auðvitað veit ég ekki hvað á við í þessu tilviki. Og jafnvel þó svo væri, þá nægir það varla til.
Ég minni á það sem Hilary Clinton sagði svo eftirminnilega: "Það þarf foreldra til að koma barni til manns, það þarf skóla..., þorp..., hérað. Það þarf samfélag til að koma barni til manns."
Þetta held ég að sé mergurinn málsins.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.5.2007 kl. 23:41
Þessi umræða er mjög þörf. Því miður virðist stór hluti íslenskra foreldra ekki vera fær um að ala upp og aga börn sín. Stundum þegar ég nefni þetta þá byrjar fólk að hrópa upp um að þá sé maður vondur við börnin en það er algjör misskilningur. Börn eru misjöfn og þurfa mis mikinn aga. En börn þurfa að vita að það er ákveðin lína sem ekki á að fara yfir. Hingað og ekki lengra. Börn leita líka eftir að þessi mörk séu sett af foreldrunum. Ef börnum er ekki kenndur munur á réttu og röngu tel ég að það leiði til hættu á siðblindu. Ég tel að umrætt ofbeldisatvik gæti verið blanda af agalausu uppeldi og siðblindu.
Foreldri sem ekki er fær um að aga barn og kannski jafnframt ofdekrar það gerir því bjarnargreiða. Barnið á það á hættu að vera óalandi og óferjandi í almennum mannasiðum. Mér dettur í hug einfaldur hlutur eins og almennir borðsiðir. Allir geta lært fallega borðsiði og það gagnast fólki út lífið alveg sama hvar það er. Það er óhemju hvimleitt að sjá stálpuð börn sem eru sóðaleg við matborðið og kunna varla að sitja á stól af því að foreldrar hafa ekki nennt að kenna börnunum almenna borðsiði.
Já ég sagði nennt. Það þarf að gefa sér tíma fyrir börnin . Mig langar líka aðeins að minnast á litlu stúlkuna sem var bjargað frá drukknun í sundlauginni nú á dögunum. Barnið er tveggja ára ekki með kút og virtist eftirlitslaust.
Svo þegar eitthvað bregður útaf með hegðun barna í dag þá kalla foreldrar meira og meira eftir ábyrgð skólanna. Það virðist vera að þeir vilji helst að skólinn ali upp börnin fyrir þau. En staðreyndin er sú að mikilvægasta uppeldið er fyrstu þrjú árin og áður en skólaskylda hefst. Hvað á að gera í þessu ofbeldistilviki. Það er mjög erftitt að byrja að ala upp unglinga því skaðinn er skeður. Mörg börn og unglingar komast upp með að stjórna foreldrum sínum og heimilum en breytingin þarf að koma til á heimilinum. Foreldrar eiga að takast á við foreldrahlutverkið og átta sig á því hvað það er mikilvægt.
Bryndís Júlíusdóttir (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 09:52
Ég las í bloggi hjá Jens Guð í gærkvöldi að það væri ástæða fyrir þessu,þessar tvær 12 ára stúlkur eru búnar að leggja yngri systur þeirra í einelti lengi.Ég sjálf bloggaði um þessa frétt og var mjög harðorða á framferði þeirra en ef það er rétt að þetta sé vegna eineltis þá eiga foreldrar og skólayfirvöld að taka á því máli til að koma í veg fyrir að svona atvik gerist aftur.
María Anna P Kristjánsdóttir, 1.6.2007 kl. 10:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.