Tillögustuldur og hringlandaháttur - svona gera menn ekki.
26.5.2007 | 21:54
Jæja, nú er bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ kominn í hring - og hringavitleysan orðin meiri en mig hefði grunað að óreyndu.
Fyrir fáum dögum lagði bæjarráð einróma til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að stofnað yrði almenningshlutafélag um kaup á veiðiheimildum í Ísafjarðarbæ. Ekki alveg af baki dottnir - hugsaði ég - og þar sem ég vissi að bóndi minn var upphafsmaður þessa máls í bæjarráðinu, tók ég í huganum ofan fyrir meirihlutanum að sameinast minnihlutanum um raunhæfa tillögu til úrbóta, og bera nú fram tillögu einum rómi í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er.
Jæja, svo kom bæjarstjórnarfundurinn, og hvað gerðist? Meirihlutinn lagði tillöguna fram í sínu eigin nafni - ef marka má fréttir. Rauf þar með samstöðuna sem skapast hafði í bæjarráðinu að frumkvæði fulltrúa Í-listans. Þeir hirtu tillöguna, og báru hana svo fram í eigin nafni. Ekki bæjarstjórnin öll - ó, nei: Meirihlutinn einn og sér. Þeir stálu tillögu frá minnihlutanum. "Miklir menn erum við Hrólfur minn .... og fallega pissar Brúnka!"
Ekki nóg með þetta. Bæjarstjórn samþykkir tillöguna, og felur atvinnumálanefnd að undirbúa málið, þ.e. stofnun almenningshlutafélags um kaup á aflaheimildum.
En nú er Halldór Halldórsson bæjarstjóri er kominn í útvarpið - svosem ekki í fyrsta skipti. Að þessu sinni leggur hann það til, að ef stofnað verður almenningshlutafélag um kvótakaup, þá skuli menn athuga það vel að NOTA PENINGANA Í EITTHVAÐ ANNAÐ en kaup á aflaheimildum. !!??!?!?!?!
Nú held ég að Halldór vinur minn þurfi að fara að taka sér frí .... segi ekki meira í bili.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:30 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Ólína.
Í mínu útvarpi sagði Halldór að ef það næðist að safna t.d. 1 milljarði þá þyrfti að skoða hvort að eitthvað væri betra í stöðunni en að kaupa kvóta. Fyrir 1 milljarð fást rúm 300 tonn og það hefur ekkert að segja í þeirri stöðu sem upp er komin á Flateyri. Þannig að kannski er hægt að nota peningana á betri hátt en að kaupa kvóta.
Ingólfur H Þorleifsson, 26.5.2007 kl. 22:27
Sæl Ólína.
Ja það er rétt hjá þér að Halldór bæjarsj. þarf að komast í langt frí. Hann hefur verið stuðingsmaður núverandi fiskveistjórnunark. þó svo hann hafi séð alla byggð á Vestjörðum verslast upp að völdum hennar. Að bærinn fari að kaupa aflaheimildir, er að mínu áliti bara staðfesting á uppgjöf manna fyrir vestan. Núverandi kerfi gengur ekki upp, og stuðlar bara að hægfara dauða þorpana. Það eina sem íbúar svæðisins eiga að gera er að gera uppreisn gegn fiskveiðsstjkerfinu, og ég segi bara fara á sjó og fiska og vinna aflann. Láta svo stjórnvöldum að taka á málinu, það er ekki plass fyrir alla í fangelsum landsins. Annar kostu er sá að Vestfirðingar fari fram á byggðastyrk, og láti Ríkissjóð kaupa húseignir fólksins, á verðlagi höfðuðborgarsvæðis, og geta þá flutt burt með fullri reisn. Það er ljótt að blekkja fólk til margra ára.
Samfylkingin verður að koma út úr skápnum, og taka afstöðu til núverandi kvótakerfis en ekki alltaf haga seglum eftir vindi öllum til óþurftar.
haraldurhar, 26.5.2007 kl. 23:01
Hvenær hefur nokkuð verið að marka Halldór Halldórsson eða hans filgifiska að ég nú ekki tali um , Odd og Kristinn í sama kompaníi? Ég hef reynslu af þeim og gef ekki mikið hvorki fyrir málflutning, eða efndir þeirra í sambandi við sjáfarútveg eða kvótakerfið. Hvenær ætla Vestfirðingar að taka leppana frá augunum og skera upp herör fyrir afnámi kvótakerfisins og þjófnaðarins sem þar er hýstur í skjóli stjórnvalda smbr. Kompás þátturinn. Heldur þú Ólína mín að Össur geri eitthvað meira með Flateyrarvandann með Einari Kristni en gert hefur verið ! Þeir kalla saman eina nefndina enn og svæfa hana svo þeir eru góðir í því ráðherrarnir. Ég man vel eftir atganginum þegar sama staða kom upp á Þingeyri, þá varst þú ekki komin vestur, ég var formaður íbúasamtakana Átaks á Þingeyri þá. Ég veit allt um vinnubrögð og svik þessara manna. Nú þykjist Halldór og hans lið hafa unnið allan sigur þar, en er það raunverulega svo, er það ekki sama og með málstuld þessara félaga frá bónda þínum. Baráttukveðjur vestur
Ragnheiður Ólafsdóttir, 26.5.2007 kl. 23:02
Nú er það spurningin um hvernig á að ráðstafa þessum lottóvinningi sem ný ríkisstjórn er. Ekki fyrir margt löngu var stungið upp á að "kaupa þorp á Vestfjörðum", það skyldi þó aldrei vera.
Fyrir milljarð má stofna háskóla á Vestfjörðum, eða kaupa hlut í olíuhreinsunarstöð, en þessi verkefni eru líklegri til árangurs en að kaupa 300 tonn af varanlegum aflaheimildum.
Bjarni Pálsson (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 23:18
Framsalið er líklega úrelt þing, nú þegar hagræðing í greininni hefur nánast alveg stöðvast. Að minnsta kosti mætti fella það út í fimm ár og samtímis krefjast 100% veiðiskyldu á handhafa kvóta. Þetta gæti þýtt að fleiri fyrirtæki með leigukvóta legðust af, en auðvitað myndi brottkast minnka osfrv.
Bjarni Pálsson (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 12:40
Eg er sammála þér í þessu Bjarni. Braskið með fiskinn í sjónum verður að hætta. Fiskibátar hækka eitthvað, en það er í lagi.
bjarnidyrfjord (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 16:00
Það er þjónar ekki miklu tilgangi að mjólka dauða kú. Ef þið finnið milljarð hvað munið þið gera við hann? Kaupa kvóta? Sturta honum niður í sömu holu og öllu hinu? Hvernig væri að gleyma þessu kvótabulli og snúa sér að einhverju nýju og arðbæru en ekki gömlu og glötuðu?
Ég veit ekki hvað þetta nýja ætti að vera en ég veit að því meiri orka sem fer í að rembast við fullreynda og óhæfa lausn því minni orka fer í að finna þá lausn sem virkar.
Í það minnsta er ljóst að tími útgerðar á vestfjörðum er liðinn. . . Við höfum grátið hann og nú höldum við áfram. Þetta er sorgarstund en líka nýr tími. Þetta er tími nýrra tækifæra og þau ber okkur að fanga.
Presturinn, 27.5.2007 kl. 16:53
Ég segi nú ekki margt Ólína mín. Segi ekki margt. En því fyrr sem við köstum þessu arfavitlausa kvótakerfi fyrir róða, því betra. En að stela svona hugmyndum................... kemur mér ekkert á óvart. Ég er ekki búin að gleyma kosningabaráttunni okkar í síðustu bæjarstórnarkosningum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.5.2007 kl. 19:11
er ekki hægt að fá PRESTINN til að jarða? svo getur hann blessað yfir sumarbúðirnar seinna.
bjarnidyrfjord (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 19:45
Sæl öllsömul - og takk fyrir lífleg viðbrögð.
Eitt verð ég að segja varðandi klisjuna um að við Vestfirðingar eigum að hætta að gráta kvótann og horfinn sjávarútveg og fara að hugsa um ný tækifæri - skapa sjálf okkar verðmæti. Þessi röksemd lýsir ótrúlegri vanÞekkingu - mér liggur við að segja hroka (enda er hún ekki fram sett undir nafni - varla tilviljun).
Ísafjörður og nágrannabyggðir eru útvegsstaðir - sjávarpláss. Þetta byggðarlag hefur lifað á fiski í 1100 ár, enda eru auðlindirnar við bæjardyrnar hjá okkur. Aðrar atvinnugreinar eiga einfaldlega mun erfiðar uppdráttar hér vegna landfræðilegra aðstæðna.
Afleiðingar kvótakerfisins fyrir Vestfirðinga eru svipaðar og meðferðin indjánunum í Norður-Ameríku, þegar þeir voru sviptir veiðilendum sínum. Við EIGUM þessar auðlindir - þeim var STOLIÐ frá okkur. Við eigum tillkall til þess að njóta tekna og hagsældar sem þessar auðlindir gefa - en við njótum einskis. Þvert á móti höfum við dregist aftur úr, hér er hár flutningskostnaður, afleitar samgöngur, léleg þjónusta varðandi háraðatengingar og fjarskipti.
Ef Vestfirðir væru sjálfstætt ríki gætu þeir selt aðgang að sinni stærstu auðlind - fiskimiðunum út af Vestfjörðum. Hvernig yrði upplitið á Íslendingum þá?
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.5.2007 kl. 22:49
Við skulum renna yfir nokkur grunnatriði:
Ekki segja að vestfirðingar séu eins og indjánar það er bæði ósmekklegt og kjánalegt.
Ef þér finnst fiskinum hafa verið stolið farðu þá niðrá löggustöð og tilkynntu um þann þjófnað. Ef þú treystir þér ekki í það þá skaltu hætta að nota gífuryrði sem ekki er innistæða fyrir. Það að saka aðra að ósekju um þjófnað er bæði merki um ruddaskap og skort á andlegu heilbrigði.
Landfræðileg staða vestfjarða er alveg jafn mikill ókostur hvort sem það er í sjávarútvegi eða öðrum iðnaði.
Fiskurinn er jafn mikið við bæjardyrnar hjá vestfirðingum og hann er í flestum byggðum á Íslandi. Það er nefnilega svo að byggð er mest við strandir landsins okkar. Það í sjálfu sér skapar þó ekki eignarrétt.
Það að hafa sama megin atvinnuveginn í 1100 ár er veikleikamerki.
Eitt sinn var allt landið með sömu atvinnumálastefnu og vestfirðir. Allt var byggt á sjávarútvegi og reyndist það illa. Nýsköpun og framtakssemi hefur sem betur fer leiðrétt þá skekkju í mörgum byggðarlögum.
Þú mátt tauta og raula um horfinn tíma eins og þú vilt frú Ólína. Það breytir því ekki að tími sjávarútvegs er liðinn. Það er augljóst. Nú er kominn tími breytinga. Tækifærin eru mörg. Okkur ber að hvetja börnin okkar og samborgara til nýsköpunar. Aðeins þannig mun byggðin lifa. Það að þú kjósir að arga og þrasa um þjófnað og eignarrétt þinn á þorski á þessum tímamótum lýsir metnarleysi gagnvart framtíðinni.
Presturinn, 28.5.2007 kl. 09:27
Það er ekki vert að svara nafnlausu fólki sem hamast á bloggsíðum, líkt og "presturinn" hér fyrir ofan sem í skjóli nafnleyndar vænir fólk um "skort á andlegu heilbrigði" og "ruddaskap" af því það er ekki sammála honum í atvinnumálum.
Athugasemd hans fær að standa sem víti til varnaðar um það hvernig ekki á að ræða málin.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.5.2007 kl. 13:58
Hver er þessi ótrúlegi maður sem kallar sig prest og þjáist af andlegum niðurgangi af verstu gerð? Sjálf vorkenni ég svona fólki og er sammála þér, Ólína mín, að hafa sorphauginn hans þarna, öðrum til aðvörunar. Mér er næst að halda að hann sé huglaus, lítill karl með minnimáttarkennd sem þorir ekki að standa við skoðanir sínar opinberlega - og það sem líklegast er: Hann hefur engin rök og notar því skítkast til þess að breiða yfir skort á andlegum verðleikum.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 28.5.2007 kl. 15:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.