Það haustar snemma þetta vorið

vetur-forsida   Brrr.... það hefur haustað snemma þetta vorið hér vestur á fjörðum. Jörð alhvít dag eftir dag.  Fuglasöngur er þagnaður og nýjabrumið á trjánum farið að taka á sig appelsínugulan lit. Ég man bara ekki eftir svona langvinnu vorhreti satt að segja. Fyrir nú utan kuldann undanfarnar tvær vikur, þá er þetta fjórði eða fimmti dagurinn með snjókomu eða slyddu. Bíllinn rásaði á veginum hjá mér í gærkvöldi þegar ég var að koma frá Suðureyri - enda kominn á sumardekkin eins og lög gera ráð fyrir.

 Í svona tíðarfari ber fátt til tíðinda - það er einhver doði yfir öllu og öllum. "Ráðherrum falið að fylgjast með þróun mála á Flateyri" er efsta fyrirsögnin á bb.is í dag. "Ólína vill verða umboðsmaður barna" segir í næstu frétt fyrir neðan. Það er sumsé ekkert að frétta, og þ.a.l. ekki um margt að blogga.

 Annars var ég að lesa nýja stjórnarsáttmálann -- og úr því fréttir dagsins greindu frá hinu eftirsótta embætti umboðsmanns barna (sem 13 manns hafa nú sótt um að mér meðtalinni) -- þá veitti ég sérstakri athygli kaflanum um "barnvænt samfélag" í nefndum stjórnarsáttmála. Þar segir:

 "Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Í því skyni verði mótuð heildstæð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna er byggist meðal annars á rétti þeirra eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Tannvernd barna verið bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaraðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Barnabætur verði hækkaðar til þeirra sem hafa lágar tekjur og nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum. Sérstaklega verði hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu. Jafnframt verði aukinn stuðningur við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik. Þegar í stað verði gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum á því sviði. Hugað verði að foreldraráðgjöf og -fræðslu. Forvarnarstarf gegn kynferðislegu ofbeldi verði eflt og stuðningur við fjölskyldur ungmenna sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu aukinn. Fæðingarorlofið verði lengt í áföngum."

Guð láti gott á vita.

 En semsagt kuldadoði yfir öllu - að lokum ein hringhenda í takt við tíðarfarið:

  • Norðan fjúkið næðir kalt
  • naprir rjúka vindar,
  • fanna dúkur felur allt,
  • freðnir hjúpast tindar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hrikalegt þetta tíðarfar og ekki skrýtið að dofni yfir mönnum og málleysingjum. Ég sem er stödd í Englandi finn hvað veðrið og hlýindin hafa mikil áhrif, allt verður léttara og skemmtilegra. Vonandi að ríkisstjórnin standi við fyrirheitin og fari að hugsa almennilega um hag barna og barnafjölskyldna. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

edda (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband