Persónuleg meinbægni við stjórnarmyndun?

Ég heyrði Stefaníu Óskarsdóttur, stjórnmálafræðing, segja í útvarpinu í kvöld að stjórn með Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu myndi líkast til stranda á tregðu tiltekinna þungavigtarmanna í Sjálfstæðisflokknum til að veita Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur framgang í stjórnmálum. Svo var vísað til þess að "ákveðnir" Sjálfstæðismenn teldu sig ekki geta "treyst" forystumönnum Samfylkingarinnar. Engin rök eða dæmi voru tilfærð með þessum vangaveltum - heldur fengu dylgjurnar bara að vaka á öldum ljósvakans, án þess að spyrillinn gerði svo mikið sem tilraun til þess að knýja á um frekari rökstuðning eða dæmi.

Ég er aldeilis gáttuð á því að annað eins skuli borið á borð í opinberum fjölmiðli af fræðimanni. Jafnvel þó einhver hafi gerst svo ósmekklegur að halda einhverju þvílíku fram við manneskjuna - svona eins og menn gera stundum sín á milli, án ábyrgðar yfir kaffibolla eða ölkrús - að bera þetta á borð sem gild rök í sambandi við myndun ríkisstjórnar og tjá sig um það sem fræðimaður í fjölmiðli, það er ekki alveg í lagi. 

Þegar ríkisstjórn er mynduð hljóta málefnin að vera það sem máli skiptir. Maður ætlast til þess af þeim sem starfa í stjórnmálum að þeir skynji ábyrgð sína gagnvart landi og þjóð - ég tala nú ekki um þegar kemur að því að mynda ríkisstjórn - að þeir leggi persónulegt argaþras til hliðar og láti hagsmuna þjóðarinnar ráða gjörðum sínum en ekki misgöfugar hvatir.   

Ekki svo að skilja að Samfylking/Sjálfstæðisflokkur séu óskaríkisstjórnin mín. Hreint ekki. En að meinbægni tiltekinna Sjálfstæðismanna og eineltistilburðir í garð formanns Samfylkingarinnar skuli vera tilfærð sem gild ástæða og málsrök gegn slíkri stjórnarmyndun er ekki boðlegt.  

Ég segi eins og Nóbelsskáldið forðum: Getum við ekki lyft þessari umræðu upp á aðeins hærra plan?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þetta er hreint mat á trausti til manna, ekkert annað.

 Mjög margir einfaldlega treysta Ingibjörgu öngvan veginn fyrir samstarfi við minn ástsæla Flokk.

Tel sjálfur, að Steingrímur sé miklu frekar trausts verður.  Þar fer maður orða sinna.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 16.5.2007 kl. 12:05

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mér barst athugasemd frá Stefaníu Óskarsdóttur sem hafnaði inn á röngum umræðuþræði hér á síðunni. Ég kann ekki að flytja svona athugasemdir á milli, þannig að ég afritaði hana og set hana hér með inn: 

Sæl Ólína,

Vegna athugasemda þinna um meint ummæli mín um Ingibjörgu Sólrúnu bendi ég þér á að hlusta á viðtalið við mig í Speglinum í gær. Þar kom alls ekki fram neitt um skoðanir forystumanna Sjálfstæðisflokkins á Ingibjörgu Sólrúnu. Þar segi ég hins vegar, þegar ég er spurð um það sem er almælt manna á milli, að auðvitað hafi ég heyrt að skoðanir fólks innan Sjálfstæðisflokksins séu skiptar um trúverðugleika forystumanna Samfylkingarinnar. Ég dreg síðan þá ályktun í viðtalinu, líkt og þú gerir einnig, að auðvitað hljóti málefnin að ráða. Höfundur fréttarinnar sem lesin var í útvarpsfréttum kaus hins vegar að færa orð mín aðeins í stílinn og  vísaði svo  í viðtalið sem var spilað eftir fréttatímann.

Bestu kveðjur, Stefanía Óskardóttir  

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.5.2007 kl. 13:25

3 Smámynd: Gústaf Níelsson

Þú áttar þig á því Ólína, að með því að halda IBS utan ríkisstjórnar verður stjórnmálaferill hennar hálf endaslepptur í ljósi atburðarásar síðustu ára. Sumum þykir óþarft að gefa henni nýtt pólitískt líf.

Gústaf Níelsson, 16.5.2007 kl. 21:23

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Gústaf.

Ég held (sem betur fer) að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki fær um að "gefa líf" í pólitíkinni. Ingibjörg Sólrún sækir umboð sitt til kjósenda Samfylkingarinnar, ekki til Sjálfstæðismanna - jafnvel þó hún gangi með þeim í ríkisstjórn. Það er jú ljóst að ekki geta þeir stjórnað einir - það þarf einhver að blása lífi í þeirra eigin lífslíkur við (ríkis)stjórnvölinn, ekki satt?

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.5.2007 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband