Hverjir veiktust? Hvað er að gerast við Kárahnjúka?

Manni er spurn - hvað er eiginlega á seyði við Kárahnjúka? Fyrst les maður fréttir af 180 manns sem sagt var að hefðu veikst vegna mengunar og ills aðbúnaðar. Þvínæst fréttist að gögn um sjúklinga hefðu komist í hendur Impregilo án vitneskju trúnaðarlæknisins og í hans óþökk. Þá leggur landlæknir land undir fót, fer austur til að kanna hvað sé að gerast og bíðum við: Það er gefin út "sameiginleg yfirlýsing" landlæknis og Impregilo um að "fáir tugir" manna hafi veikst vegna mengunar og upphaflegar upplýsingar hafi verið "ofmat" á fjölda þeirra sem veiktust. Trúnaðarlæknirinn er kominn í "fyrirfram ákveðið frí" eins og það er orðað - og síðan ekki söguna meir.

Nei, nú tek ég heilshugar undir með leiðarhöfundi Morgunblaðsins í dag. Þetta gengur ekki. Almenningur á heimtingu á að fá að vita hvað sé satt og hvað logið í þessu máli. Sagði trúnaðarlæknirinn ósatt þegar hann talaði um 180 veika einstaklinga? Sé svo, ber að upplýsa það en ekki hylma yfir. Almenningur og fjölmiðlar verða að geta treyst því sem kemur frá fagaðilum - ég tala nú ekki um þegar viðkomandi heyrir beint undir opinbert embætti eins og landlæknisembættið. 

Sömuleiðis er brýnt að upplýsa það hvernig umrædd sjúkragögn komust í hendur fyrirtækisins án vitneskju læknisins. Hvers konar vinnubrögð voru viðhöfð þar? Og af hverju gerir landlæknir ekki frekari athugasemdir við þau vinnubrögð?

Svo virðist sem báðir aðilar - landlæknir og Impregilo - viti upp á sig skömm í þessu máli. Þessvegna hafi þeir soðið saman eina samhljóða útgáfu af því sem gerðist til þess að tóna málið niður og breiða yfir misfellur þess. 

Þetta er ekki nógu gott: Nú þarf almenningur að fá að vita hið sanna í málinu. Hvorki opinber embætti né einkafyrirtæki eiga að komast upp með að þagga niður mál sem komið er inn í opinbera umræðu með þeim hætti sem hér um ræðir. Ég sem almennur blaðalesandi vil ekki láta ljúga að mér - ég vil taka afstöðu til manna og málefna á réttum forsendum.

Fjölmiðlar mega ekki láta hér við sitja - þeir eiga að komast að hinu sanna í málinu. Nú reynir á hvort þeir láta bjóða sér þöggun máls sem kemur illa við hagsmunaaðila.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er eitthvað skrítið í þessu máli öllu og einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að Landlæknir sé að hylma yfir eitthvað.. bara tilfinning. Ég trúi því ekki að trúnaðarlæknirinn hafi verið svona reiður að ástæðulausu.. það sást alveg á manninum í viðtalinu í sjónvarpinu að hann var búinn að fá nóg. Hvað hafði gengið á, á undan?  Og eins þetta, er það í lagi að þessir menn vinna 13 tíma vaktir þarna niðri í göngunum? Afhverju eru engir Íslendingar látnir vinna þarna neðst niðri? Og er það í lagi ef satt er að þessir menn skuli bara vera með 110 þús á mánuði? Hvað er satt? Og afhverju finnst manni eins og það sé verið að þagga allt saman niður? Af því að það eru að koma kosningar?

Björg F (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband