Sá yðar sem syndlaus er - erfiðleikar umhverfisráðherra og þjóðkirkju

jónínahúsavikurkirkja Ég er ekki sátt við að öll spjót skuli standa á Jónínu Bjartmarz þessa dagana - verð bara að segja eins og er. Ég er heldur ekki sannfærð um þessa spillingu sem menn eru að þvargviðrast yfir. Það var ekki í hennar valdi að veita tengdadóttur sinni ríkisborgararétt - það verða einhverjir aðrir að svara fyrir það mál.

Segjum sem svo að hún hafi aðstoðað tengdadóttur sína við að sækja um ríkisborgararéttindi (lái henni hver sem vill) - jafnvel talað við einhvern í því sambandi - hver er þá glæpurinn? Og hver framdi glæpinn? Jónína? Útilokað.  Það eina sem var í hennar valdi var að liðsinna tengdadóttur sinni, sem ég vona að hún hafi gert  - því hver er svo kaldrifjaður að hann aðstoði ekki náinn aðstandanda í vanda?

Þetta mál er hinsvegar óþægilegt fyrir Jónínu - og því myndi ég í hennar sporum fara fram á að þingið rannsaki málið og það verði tekið upp á borðið hvernig stóð á þessari afgreiðslu nefndarinnar.

Annað sem ég er ósátt við þessa dagana eru ofsafengin viðbrögð sjálfskipaðra málsvara samkynhneigðra við ákvörðun nýafstaðinnar prestastefnu um að blessa samband samkynhneigðra.

 Kirkjan stígur markvert skref til móts við samkynhneigða með ákvörðun um að prestum skuli heimilt að blessa samband þeirra - og hvað gerist? Það verður allt brjálað yfir því að kirkjan skuli ekki hafa gengið enn lengra. Meira að segja jafn mætur maður og Illugi Jökulsson heldur því fram í pistli að kirkjan hafi lagt þennan þjóðfélagshópi í einelti, sparkað í hann og niðurlægt. Þó hefur engin þjóðkirkja í heiminum - mér vitanlega - gengið lengra til móts við samkynhneigða en einmitt íslenska þjóðkirkjan.

Ég styð réttindabaráttu samkynhneigðra, enda á ég bæði vini og ættingja í þeirra hópi. En þessar ofsóknir í þeirra nafni gegn þjóðkirkjunni get ég ekki tekið undir. Umræðan er komin út fyrir allt velsæmi - ALLT velsæmi.

Og hananú!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

"Þetta mál er hinsvegar óþægilegt fyrir Jónínu - og því myndi ég í hennar sporum fara fram á að þingið rannsaki málið og það verði tekið upp á borðið hvernig stóð á þessari afgreiðslu nefndarinnar."

Meinarðu að þú haldir að hún vilji komast að því hversvegna nefndarmeðlimirnir þrír brutu allar reglurnar fyrir þessa stelpu sem býr hjá henni og svo hversvegna þrenningin laug síendurtekið eftir að málið komst upp? Hahaha - afsakið.

Þetta er svo mikil spilling, sorglegt hvernig fólk er að reyna að koma Jónínu til verndar. Hún átti að gera það sjálf, hún átti strax að segja frá því hvaða sérstöku kringumstæður orsökuðu það að allar reglur voru lagðar til hliðar. Þá hefði þetta ekki þurft að koma í sjónvarpið.  

Hún greiddi sjálf atkvæði með hertum reglum um ríkisborgararétt og útlendinga - og svo veit hún betur en flestir aðrir hvernig allherjarnefnd virkar. Ekkert hefur komið fram sem svo mikið sem gefur í skyn að hér sé ekki spilling á ferð. Mér finnst ótrúlegt hvernig fólk lætur sem finnst þetta bara alltílagi! Örugglega væruði ekki svona brött ef einhver sem ykkur tengist þyrfti að díla við þessar reglur - sem eru bara fyrir fólk útí bæ, ekki svona fínt fólk einsog Jónínu og stelpurnar sem sonur hennar er með. 

halkatla, 30.4.2007 kl. 17:33

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Já, undarlega barsmíðaglöð er mannskepnan. Loksins þegar maður sér fram á að Þjóðkirkjan hætti nota Biblíuna sem barefli á samkynhneigða tekur fólk upp á því að lemja Þjóðkirkjuna með samkynhneigðum.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.4.2007 kl. 18:51

3 identicon

Alveg yfirnátturleg skoðun. Þetta mál minnir á laugina fyrir austan fjall. Sveitungar voru að reyna í mörg ár að fá laug því það var svo langt að keyra krakkana í sund og ekkert gekk fyrr en sonur þingmannsins keyrði á brúarstólpa og lamaðist. Það var komin laug eftir 3 mánuði með flottari græjur en í hátúninu. Alveg ótrúlegt að kona eins og þú Ólina ætlir að stunda svona fordóma eins og kirkjan gerir. Hvað kemur það málinu við þó að kirkjan á Íslandi sé komin lengst í því að "viðurkenna samkynhneigð". Þetta er bara hroki og fordómar að segja að annað fólk sé verra af því það er samkynhneigt, fattlað, gyðingar, kínverjar. Mér finnst þetta óttalegt þroskaleysi og ekki í anda Jesú.

Olafur Sveinbjornsson (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 20:09

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólafur - íslenska þjóðkirkjan hefur ekki haldið því fram að samkynhneigt fólk sér verra en annað fólk, því síður að fatlað fólk, gyðingar eða kínverjar séu verri en annað fólk. Þú getur ekki haldið þessu fram. Og þú getur ekki hermt þessa skoðun upp á nokkurn mann nema sýna svart á hvítu hvar slík ummæli hafa fallið.

Það eru alhæfingar af þessu tagi sem gera umræðuna ógeðfellda að mínum dómi, að fólk skuli slengja fram allskyns öfgafullum fullyrðingum án þess að rökstyðja mál sitt.

Hvar og hvenær hefur íslenska þjóðkirkjan ráðist gegn samkynhneigðum eða sagt að það fólk "sé verra" en annað fólk?

Ef þú staldrar við og hugsar málið - þá sérðu að þetta fær ekki staðist.

Elskum friðinn.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.4.2007 kl. 22:12

5 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæl Ólína,

Við búum í samfélagi þar sem ríkir trúfrelsi. Í slíku samfélagi er ekki réttlátt að starfrækt sé þjóðkirkja, sem nýtur forréttinda fram yfir önnur trúfélög / kirkjur.

Hjónavígsla, samkynhneigðra sem gagnkynhneigðra, er í eðli sínu lögformlegur gjörningur sem á að vera framkvæmdur af til þess bæru veraldlegu embætti, t.d. sýslumanni.

Síðan á hverju trúfélagi / kirkju að vera heimilt að blessa þann gjörning, með þeim serímoníum sem honum þykir við hæfi. Fólk ræður því hvort það gengst undir siði þeirrar kirkju / trúfélags. Jafnvel félög og klúbbar gætu blessað hjónaböndin ef vilji aðila er fyrir því.

Ég held að þetta sé lausn á þessum "vanda".

Svavar Alfreð, frábært komment frá þér....ég sofna hlæjandi í nótt, takk takk...

Viðar Eggertsson, 1.5.2007 kl. 00:27

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ólína, ég er á þeirri skoðun að allir nefndarmenn sem komu að afgreiðslunni annað hvort lugu eða gerðu ekki skyldu sína. Hvort tveggja er óásættanlegt. Miðað við kosningasjóðsránsfenginn úr ríkissjóði finnst mér þessi yfirsjón alþingismanna léttvæg. Hvað er smálygi á milli vina í þinginu?

Hafi þeir ekki kynnt sér aðstæður, meðmælendur eða annað varðandi umsækjandann voru þeir EKKI að sinna starfinu sínu. Útlendingaeftirlitið var áður búið að hafna beiðninni. Þeir þurftu því MEIRI upplýsingar en minni til að breyta þeirri ákvörðun.

Lygin er líklegri skýring vegna þess að það hnígur allt í þá veru. Þetta fólk er EKKI allt svona blint í afgreiðslu á gæðum sem fær yfirleitt þá sjálfgefnu afgreiðslu að vera hafnað. Nógu margir hafa lýst því hvernig þeir hafi samúðarlaust beðið í 7 ár (ógift fólk) eða 3 ár (gift fólk). Meira að segja forsetafrúin beið sín 3 ár án þess að mögla.

Í öllu falli gerði Jónína mistök með því að leita eftir þessari afgreiðslu. Hún veit að sem þingmaður og ráðherra ber henni að vera þegnunum fyrirmynd í að fylgja eftir lögum og reglu. Það gerði hún ekki.

Haukur Nikulásson, 1.5.2007 kl. 00:28

7 identicon

já ok fór yfir strikið að tala um verra fólk, gyðinga, kínverja o.fl. hljóp kapp í kinn biðst afsökunar á því. En hvað voru þessir gúrúar að boða, Martin lúther King, Gandhi, Jesús og fleiri postular að allir menn væru jafnir. Það á ekki að skipta máli hvort menn eru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir frammi fyrir Drottni. Það á ekki að setja fólk í bása eftir því hvernig þeir eru eða hvernig þeim líður. Það sem Illugi er að segja að kirkjan átti að stíga skrefið til fulls en ekki í áttina, þar er ég sammála honum. Þetta er þjóðkirkja sem allir eiga að geta stundað að vild. Ég segi það að þeir menn sem segja að samkynhneigðir eiga ekki erindi þar sem gagnkynhneigðir menn eiga erindi þurfa að ná töluverðum þroska til að gegna svo valdamiklum embættum. Í sambandi við að bera okkur Íslendinga við aðrar þjóðir þá hafa flestar aðrar þjóðir ekki þann samanburð til að bera þar sem við erum mjög sérstök á mörgum sviðum. Með von um að þetta hafi skírt mína skoðun lítilega á þessu máli.

Olafur Sveinbjornsson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 00:31

8 identicon

já ok fór yfir strikið að tala um verra fólk, gyðinga, kínverja o.fl. hljóp kapp í kinn biðst afsökunar á því. En hvað voru þessir gúrúar að boða, Martin lúther King, Gandhi, Jesús og fleiri postular að allir menn væru jafnir. Það á ekki að skipta máli hvort menn eru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir frammi fyrir Drottni. Það á ekki að setja fólk í bása eftir því hvernig þeir eru eða hvernig þeim líður. Það sem Illugi er að segja að kirkjan átti að stíga skrefið til fulls en ekki í áttina, þar er ég sammála honum. Þetta er þjóðkirkja sem allir eiga að geta stundað að vild. Ég segi það að þeir menn sem segja að samkynhneigðir eiga ekki erindi þar sem gagnkynhneigðir menn eiga erindi þurfa að ná töluverðum þroska til að gegna svo valdamiklum embættum. Í sambandi við að bera okkur Íslendinga við aðrar þjóðir þá hafa flestar aðrar þjóðir ekki þann samanburð til að bera þar sem við erum mjög sérstök á mörgum sviðum. Með von um að þetta hafi skírt mína skoðun lítilega á þessu máli.

Olafur Sveinbjornsson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 00:53

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, Ólafur, það hleypur ýmsum kapp í kinn í þessari umræðu, það er nú málið.

Ég get tekið undir það með Viðari að ef kirkja og ríki væru ekki eitt, þá væru menn ekki í þessari umræðu varðandi samkynhneigða.

Hvað varðar málefni Jónínu Bjartmsarz og ákvörðun allsherjarnefndar, þá treysti ég mér ekki til að fullyrða neitt um það hver hefur logið og hver ekki.

En í dag er 1. maí - nú skulum við sameinast í góðum hug til verkalýðshreyfingarinnar og hennar málstaðar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.5.2007 kl. 09:35

10 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæl Ólína, tek undir orð þín um að sameinast í góðum hug til verkalýðshreyfingarinnar - og allra þeirra sem misrétti eru beittir!

Þú tekur undir orð mín um aðskilnað kirkju og ríkis og þykir mér vænt um það. En hinu svarar þú engu, um þá hugmynd að hjónavígsla, gagnkynhneigðra og samkynhneigðra, sé - og ætti að vera - veraldlegur gjörningur sem framkvæmdur yrði af til þess bæru yfirvaldi. Blessun félagasamtaka, trúarhópa, krirkna væri síðan gert eftir geðþótta þeirra...

Viðar Eggertsson, 1.5.2007 kl. 14:19

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Viðar  - er komin úr 1.maí hátíðahöldunum og aftur orðin viðræðuhæf hér á blogginu.

Hjónabandið er nú þegar veraldlegur gjörningur sem hefur lagalega þýðingu. Fólk þarf ekki að fara í kirkju til þess að ganga í löglegt hjónaband. Sjálf er ég gift með borgaralegum hætti. Mér skilst að ég geti farið í kirkjuna og fengið vígslu - en það hefur einhvern veginn aldrei truflað mig neitt að vera "bara" borgaralega gift. Staða mín myndi ekkert breytast við það að ganga upp að altarinu - og sama á auðvitað við um samkynhneigða. Lagaleg staða þeirra í hjónabandi er nú tryggð, og kirkjan tilbúin að blessa þann gjörning hvenær sem er. Til hamingju með það, samkynhneigðir!

Gaman að sjá þig hér á síðunni - hafðu það ævinlega sem best.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.5.2007 kl. 19:22

12 Smámynd: Viðar Eggertsson

Takk Ólína fyrir svarið.

Líklega hef ég ekki verið nógu skýr í málflutningi mínum. Það sem ég á við er að eingöngu veraldlegt vald verði þess umkomið að framkvæma hjónavígslu.

Þá verða ALLIR gefnir saman af sama aðila, án tillit til trúar eða lífsskoðana. Jafnrétti í reynd.

Trúfélög geti SÍÐAN (eftirá) blessað hjónaböndin, ef þau vilja og geta.

Jafnvel þau félög eða einstaklingar sem brúðhjónin kjósa, hvort sem það eru saumaklúbbar, Félag smábátaeigenda, Krossinn, Fríkirkjan..... o.sv.frv. o.sv.frv.

Viðar Eggertsson, 1.5.2007 kl. 19:58

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég skil hvað þú ert að fara - og virði þína skoðun. Persónulega sé ég ekkert að fyrirkomulaginu eins og það er -  að maður geti valið um að taka hjónavígslu í þjóðkirkjunni eða borgaralega giftingu. Ég sé bara ekki að það sé neitt "issjú" þó trúfélag eins og þjóðkirkjan hafi lagalega heimild til þess að annast hjónavígslu sem lögformlegan gjörning til jafns við hið veraldlega vald. Nú veit ég ekki hvort önnur trúfélög hafa sömu heimild - það væri kannski nær að fara fram á það, ef svo er ekki.

 Ég bara verð að viðurkenna það Viðar minn að mér finnast yfirlýsingar þeirra sem hafa hvað hæst í þessari umræðu ganga fram úr góðu hófi - og þið samkynhneigðir ættu að hafa svolitlar áhyggjur af því hvernig fólk leyfir sér að tala í ykkar nafni. Ég myndi hafa það í ykkar sporum.

Ævinlega blessaður.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.5.2007 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband