Svarað í sumartunglið

tunglið  Ég er að horfa á sumartunglið - það er nærri því fullt.

Samkvæmt gamalli þjóðtrú á maður að þagna í fyrsta sinn sem maður sér sumartunglið og bíða þess að einhver annar yrði á mann. Sá sem talar þannig til manns segir óafvitandi forspá sumarsins. Það heitir að "svara í sumartunglið".

Um þetta orti Guðmundur Ingi Kristjánsson fallegt kvæði:

  • Eftir fornri þjóðtrú, það veit eg, 
  • þögul skaltu verða og hátíðleg 
  • þegar fyrsta sinni sumartunglið 
  • sérðu reika bláan himinveg. 

 

  • Ekki máttu rjúfa þessa þögn 
  • það er brot við lífsins duldu mögn 
  • fyrr en einhver til þín talað hefur, 
  • tal hans verður þér að spádómssögn. 

 

  • Hversu stutt og einfalt sem það er 
  • örlög þín í dularskauti ber,
  • þannig er að svara í sumartunglið,
  • segja grunlaus hvað á eftir fer.

 

  • Komdu, komdu beina braut til mín,
  • björt og fögur þegar tunglið skín
  • því að alltaf eru á vörum mínum
  • orð sem verið gætu forspá þín. 

 

Ég hef stundum fengið svar í sumartunglið. Að þessu sinni klúðraði ég því þó sjálf með því að glopra út úr mér hvað himininn væri fallegur kvöldið sem ég stóð í Grímsnesinu að loknu skemmtilegu hagyrðingakvöldi um daginn og dáðist að nýkviknuðu sumartunglinu. Venus lýsti skær og fagur í vestri og tunglið var eins og glampandi sigð á dimmbláum himni í litaskiptum kvöldsins.

Ég hugga mig við að þeir sem heyrðu til mín - og það var svolítill hópur fólks - fengu þar með gott svar í sumartunglið, hver fyrir sig. Stundum getur verið sælla að gefa en þiggja.

Hvað mig sjálfa varðar, þá var það fegurð himinsins bar þjóðtrúna ofurliði að þessu sinni.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Og fagurt er ljóðið .
Og satt er það - tunglið var fagurt í kvöld

Halldór Sigurðsson, 29.4.2007 kl. 00:20

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Guðmundur Ingi var óskaplega mikið og gott skáld. Kannski hætti honum til að teygja kvæðin of mikið en aldrei held ég að hann hafi þó orðið klaufalegur. Honum var meðfædd þessi hlýja tenging við byggð sína, þjóð og sögu. Hann var alla tíð vanmetinn af elítunni vegna þess að hann gekk á gúmmískóm. Minnir þó að hann hafi lengi notið hæstu listamannalauna sem ævinlega var tengt við það að Halldór bróðir hans var í úthlutunarnefndinni. Smáborgaranum er gjarnt að hugsa á einn veg.

Mikið var það gott að Guðmundur Böðvarsson var ekki framsóknarmaður. Ætli að ljóð hans hefðu þá nokkurntíman fengist birt nema kannski í Samvinnunni?

Árni Gunnarsson, 29.4.2007 kl. 14:47

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þetta vissi ég ekki, en maður fræðist alltaf  við að lesa skrifin þín Ólína. Að kveldi fyrradags var ég að aka barnabörnunum mínum heim, um leið og ég ek af stað sé ég sumartunglið svona líka fallegt á tærum himni þá segir önnur snótin mín, amma! sérðu tunglið er það ekki fallegt. Eftir því að dæma þá verður fallegt sumar.

Vel  mælt hjá þér Óskar Þór.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 30.4.2007 kl. 10:12

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka fallegar kveðjur - gleðilegt sumar

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.4.2007 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband