Þau náðu mér á náttsloppnum - dimmisjón í MÍ

 

     dimmisjon2 dimmisjon3 dimmisjon1

Í morgun vaknaði ég við háreysti utan við húsið - ýl, gaul, hróp og söng. Þegar ég leit út um gluggann blöstu við mér hvítklæddir englar. Ég nuddaði stýrurnar úr augunum, þessir englar voru með bjór í hönd - einn með gítar. Ég rankaði við mér: Dimmisjón MÍ í dag - og hópurinn mættur framan við svalirnar hjá mér.

Ekki var ég ekki fyrr komin fram á svalirnar en "Gaudeamus igitur" var brostinn á og ómaði í einradda kröftugum söng um alla götuna - eiginlega um allan Ísafjörð því það var stafalogn og hljóðbært svona snemma morguns, klukkan rétt rúmlega sjö. 

Undanfarin sex ár hefur það verið ófrávíkjanleg regla á dimmisjón-degi að útskriftarefnin hafa komið til mín í hafragraut og slátur að morgni síðasta skóladags. Inngönguversið hefur verið Gaudeamus igitur, sem þau hafa lært utanbókar og sungið við dyrnar hjá mér áður en þau ganga í bæinn. Þessari hefð var komið á fyrsta árið mitt í skólameistarastarfinu, og hefur haldist órofin síðan. 

Að þessu sinni beið þeirra morgunmatur í öðru húsi - þannig er lífið. En þau komu og kvöddu gamla skólameistarann sinn. Það gladdi mig mjög.

Einhverju sinni sagði ég við tilvonandi dimmitanta að þau myndu aldrei ná mér í rúminu - hversu snemma sem þau mættu. Ég myndi nefnilega ekki láta nemendur mína sjá mig ótilhafða að morgni dags. Jæja, þau náðu mér í þetta skipti ómálaðri og úfinni á náttsloppnum. Öðruvísi mér áður brá - en þau voru sigri hrósandi.

"Við elskum þig Ólína!" kölluðu einhverjir úr hópnum að söngnum loknum  - og þar með voru þau farin með fingurkossana mína í veganestið. Þarna stóð ég eins og gul fuglahræða í gamla náttsloppnum mínum á svölunum - og horfði tárvot á eftir þessum elskum á halda áfram sinni göngu. Ég sneri mér að Sigga mínum - sem var þarna með mér, alklæddur og reffilegur - "Þau lögðu það á sig að læra Gaudeamus" muldraði ég hrærð: "Þau þurftu þess ekki".

 Smile

Góða skemmtun í dag krakkar mínir - takk fyrir allt - og ég elska ykkur líka. 

dimmisjon07


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vestfirðir

Já ég heyrði í þeim en ei ég þá sá. Örugglega skrautlegur hópur þarna á ferð :)

Vestfirðir, 27.4.2007 kl. 08:28

2 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Mér sýndist þú hafa komist í myndaalbúmið hjá mér þegar ég sá neðstu myndina, en við nánari skoðun sá ég að svo var ekki.  (Mín er tekin fyrir neðan tröppurnar í Menntaskólanum fyrir 22 árum, en búningarnir keimlíkir).  Að hugsa sér, 22 ár, og mér finnst það hafa gerst í gær.  Kveðjur vestur,

Sigríður Jósefsdóttir, 27.4.2007 kl. 14:30

3 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Þetta hefur án efa verið yndisleg heimsókn. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þau sakna þín án efa, Ólína mín. Kær kveðja vestur.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 27.4.2007 kl. 15:22

4 Smámynd: Jóhanna Fríða Dalkvist

Frábært og þú hefur átt þetta skilið, vannst ótrúlega gott starf í skólanum á stuttum tíma og krakkarnir hafa séð það. Þú getur verið óendanlega stolt af þessu.

Vildi aðallega kvitta í þetta skipti því ég les oft bloggið þitt og svo vildi svo skemmtilega til að mamma þín var hagyrðingur hjá okkur í Barðstrendingafélaginu í Reykjavík og ég sótti hana, skemmtileg kona og snjall hagyrðingur eins og þú

Jóhanna Fríða Dalkvist, 27.4.2007 kl. 18:05

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hann er eiginlega enginn Hvort tveggja getur þýtt "ýlfur" eða "væl". Ég tek fram að þau hljóð bárust úr flautum og ýlum sem þau blésu í.  

En svo getur það að "íla" líka merkt að "vætla" eða "seytla" samkvæmt orðabókinni - sem átti nú ekki við í þessu tilviki 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.4.2007 kl. 11:16

6 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Skemmtilegt

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 28.4.2007 kl. 12:01

7 identicon

Já ég tek undir með Ragnheiði, Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur!!! Ég trúi því að þetta hafi glatt þig mjög. Kv. Ninna

Ingunn ÓSk Sturludóttir (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 16:22

8 identicon

Við eigum aldrei eftir að gleyma þér Skólína okkar og flest okkar vildu óska að þú stæðir við ræðupúltið í kirkjunni í maí að senda okkur út í lífið með vel völdum orðum. 

 Útskriftarnemi

Edith Guðmundsdóttir Hansen (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 18:36

9 identicon

Ég sé eftir þér sem skólameistara, verð að játa það. Fannst allavegana alltaf allt vera á uppleið á meðan þú varst við lýði.

Kk.

Erlingur 

Erlingur Fannar Jónsson (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 00:22

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir fallegar kveðjur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.4.2007 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband