Komin heim með C-próf á hundinn!
23.3.2007 | 13:10
Jæja, ég er komin frá Kröflu, eftir vikudvöl við vetraræfingu björgunarhundasveitanna. Blíða tók C-prófið og stóð sig með prýði.
Þetta var aldeilis hreint frábær vika: 24 leitarteymi mættu til æfinga á Kröflu, fimm hundar voru endurmetnir sem A-hundar, einn tók nýtt A-próf, sjö hundar tóku B-próf og fjórir C-próf. Sem sagt sjö nýir hundar á útkallslista og fjórir unghundar með vottun um að vera efnilegir björgunarhundar, tilbúnir til frekari þjálfunar undir B-próf. Ekki amalegur árangur það fyrir björgunarhundasveitir landsins!
Við æfðum á fjórum leitarsvæðum. Veður var misjafnt, allt frá blíðskaparveðri yfir í hálfgert fárviðri. Merkilegt hvað hundarnir geta unnið í þreifandi byl og skafrenningi. Þessar blessuðu skepnur sem eru svo ótrúlega vel af guði gerðar.
Daginn sem við Blíða tókum C-prófið var skikkanlegt veður til að byrja með. Við leituðum óséð svæði og áttum að finna einn mann í snjóflóði. Um það bil sem við lögðum af stað skall á með skafrenningi, svo vart sá handa skil.
Hundurinn fór strax að þefa í kringum holu neðarlega á svæðinu þar sem áður hafði verið maður, en holan var tóm. Ég stóð nokkru ofar og sá ekki hvort holan var opin eða lokuð - en um mig fór sú óþægindatilfinning að ef einhver væri þarna þá væri hundurinn ekki að gefa það nógu sterklega til kynna. Þetta reyndust óþarfa áhyggjur, því seinna kom í ljós að þarna var enginn. Hundurinn fór af holunni og ég ákvað að ganga ofar í svæðið með vindáttina að okkur. Þá var það mín sem reisti sitt fallega höfuð með nefið hátt upp í vindinn, og þaut af stað í átt að snjóbarði þarna skammt frá. Þar tók hún til við að grafa af miklum móð, og linnti ekki látum fyrr en hún var komin inn fyrir - og maðurinn fundinn.
Mér hlýnaði um hjartað í orðsins fyllstu merkingu - því við þessar aðstæður verður maður að treysta hundinum fullkomlega, og það var góð tilfinning að sjá svo ekki var um að villast að hundurinn er fær um þetta verkefni. Það var því ánægður eigandi sem gekk af svæðinu með C-hundinn sinn!
Já, þetta var skemmtileg vika. Við kynntumst öllum veðrum. Vöknuðum kl. 7 á morgnana, fórum í morgunmat og vorum svo lögð af stað upp á leitarsvæði kl. 9. Þá var tekið til við að laga holurnar frá deginum áður eða moka nýjar og svo hófust æfingar og próf. Um fimmleytið var svo haldið af stað í búðirnar. Á kvöldin voru fyrirlestrar og erindi um ýmislegt sem tengist hundaþjálfun, snjóflóðaleit, félagabjörgun, hættumati o.fl. Mjög lærdómsríkt og skemmtilegt.
Inn á milli æfinga var slegið á létta strengi, sungið, hlegið og fíflast í snjónum, tjúttað við bílana ef gott lag kom í útvarpinu. Þetta er skemmtilegur hópur fólks á ýmsum aldri, flest allt þaulreynt björgunarsveitarfólk - frábært fólk.
Frá Ísafirði fóru þrjú leitarteymi. Auk mín og Blíðu voru það Auður Yngva (sem tók þarna réttindi sem leiðbeinandi í leitarþjálfun hunda) með Skímu sína (Border-Collie) og Ágúst Hrólfsson með Balta (Rottweiler). Skíma og Balti eru efnilegir og flottir unghundar sem bæði tóku C-próf með glans. Frá Patreksfirði komu Bríet Arnardóttir með Skutlu (sem tók A-próf), Þröstur Reynisson með Lassa (A-endurmat) og Smári Gestsson með Skyttu (en hún er of ung til að taka gráðu og varð því bara æfð að þessu sinni).
Kíkið endilega á heimasíðu Björgunarhundasveitarinnar á Vestfjörðum (www.simnet.is/bjorgunarhundar ) eða Björgunarhundasveitar Íslands (www.bhsi.is). Þar má ýmislegt lesa um starf sveitanna, þjálfun unghunda og fleira.
Það er ekki sjón að sjá mig eftir þetta ævintýri alltsaman - er með frunsu á nefinu og bauga undir augum - en alsæl, tilbúin að takast á við næstu verkefni :)
Hér koma svo nokkrar myndir: a) Auður og Ollý; b) Ég að moka holu; c) Blíða finnur mann í holu
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:54 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg og fróðleg lesning.
Edda Agnarsdóttir, 23.3.2007 kl. 14:19
hæ Ólína - til hamingju með Blíðuna. Alltaf gaman að koma í Kröflu - þar hefur maður nú unnið við malbikun og fleira! Var jón sól nokkuð þarna á sveimi....
Þorleifur Ágústsson, 23.3.2007 kl. 16:12
Já grunaði ekki Gvendólínu, þið hafið staðið ykkur með stakri prýði og til hamingju með Blíðu. kv. Ninna
Ninna (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 18:34
Það er frábært starfs sem leitarhundaeigendur eru að vinna. Ég fylgdist með æfingunni hér í Oddsskarði. Til hamingju með árangurinn. Elma
Hulda Elma Guðmundsdóttir, 24.3.2007 kl. 11:11
Sæl Ólína mín.
Þið Blíða eruð náttúrulega til fyrirmyndar. Þessar blessaðar skepnur leggja mikið á sig og eru okkur afar mikilvægar þegar á reynir.
Kær kveðja vesturþ
Ragnheiður Davíðsdóttir (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 21:11
Til hamingju Ólína með Blíðu þina; það er ekkert eins dásamlegt og" fara í hundana" í orðsins fyllstu merkingu. Hörkuhundur Blíða sem þú átt og það sem meira er; þú átt eftir að þakka henni fyrir allt auka súrefnið sem hún hefur fengið þig til að draga að þér síðan hún kom á heimilið.
Forvitna blaðakonan, 2.4.2007 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.