Leiðari Moggans í dag - ójöfnuður umræðunnar.
13.3.2007 | 12:22
Ég las leiðara Moggans í morgun, og fyrir eyrum mér ómaði rifhljóðið sem kemur í kvikmyndunum þegar alvarleg vonbrigði ríða yfir einhvern. Eftir gleðina sem fyllti mig þegar ég sá ítarlegar og góðar fréttir á forsíðu og í miðopnu blaðsins í gær um opinn baráttufund á Ísarfirði um framtíð byggðar á Vestfjörðum, var leiðarinn í morgun eins og blaut tuska í andlitið.
Þar segir:
Af frásögnum af fundinum að dæma var stjórnvöldum að flestu leyti kennt um og flestar þær hugmyndir og kröfur, sem viðraðar voru á fundinum, gengu út á aukin ríkisútgjöld eða ríkisafskipti af einu eða öðru tagi til að rétta hlut Vestfjarða.
Svo segir:
Nú stendur fyrir dyrum mikið átak í samgöngumálum á Vestfjörðum, sem mun stuðla að því að jafna stöðu þeirra miðað við aðra landshluta að þessu leyti, þótt því verki sé að sjálfsögðu fjarri því lokið.
Loks þetta:
Hitt er svo annað mál, að opinber störf munu aldrei verða undirstaða byggðar eða atvinnulífs í neinu landi eða landshluta. Lífvænleg byggðarlög byggjast á þróttmiklu atvinnulífi, sem einkaframtakið stendur undir.
Jæja, nú er tímabært að leggja orð í belg.
Í fyrsta lagi var fundurinn á Ísafirði ekki ákall um ríkisforsjá - hann var krafa um leiðréttingu.Auðlindir Vestfirðinga voru frá þeim teknar með einu pennastriki þegar núverandi kvótakerfi var komið á. Það var gert með stjórnvaldsákvörðun. Það þarf stjórnvaldsákvörðun til þess að leiðrétta það misrétti sem þessi landshluti hefur mátt búa við síðan.
Hverjir setja samfélagi okkar leikreglur - eru það ekki stjórnvöld? Eða eiga Vestfirðingar kannski að vera undanþegnir stjórnvaldsákvörðunum að mati leiðarahöfundar? Hverjir skapa skilyrðin fyrir atvinnuvegina og einkareksturinn? Eru þau skilyrði ekki sköpuð með lagasetningum og ákvörðunum stjórnvalda? Um hvað er leiðarahöfundur Morgunblaðsins eiginlega að tala?
Þegar því er haldið fram að nú standi fyrir dyrum"mikið átak í samgöngumálum á Vestfjörðum" vil ég benda á að það "mikla átak" hefur staðið fyrir dyrum í 44 ár - það var fyrst sett fram í byggðaáætlun árið 1963!
Í frábærri grein sem Kristinn H. Gunnarsson skrifar á bb.is í dag - og ég hvet alla til að lesa - eru raktar nokkrar staðreyndir um stærðargráður í þessu sambandi.
Kristinn bendir á að á sama tíma og stjórnvöld gera ráð fyrir 10 milljónum á ári í þrjú og hálft ár til Vestfirðinga setti Landsvirkjun milljarða króna í rannsóknir og undirbúning að virkjun við Kárahnjúka og að framkvæmdin ásamt álveri losar 200 milljarða króna. "Í Þingeyjarsýslum er verið að setja mikla peninga til þess að koma á fót álveri við Húsavík" segir Kristinn og bendir á að m.v. núverandi áætlanir vaxtasamnings Vestfjarða um fjárframlög ríkisins til atvinnumála á svæðinu tæki það ríkið eina öld að verja 1 milljarði króna til atvinnumála á Vestfjörðum, "það er að segja ef einhver trúir því að vaxtarsamningurinn verði framlengdur um 97 ár."
Ekki nóg með þetta. Kristinn - sem er stærðfræðingur - hefur reiknað það út að vaxtar-samningur í eina öld er samt ekki nema 0,5% af Austfjarðaátaki ríkisstjórnarinnar. Það myndi því taka 200 aldir með sama áframhaldi að ná "Kárahnjúkaumfangi" á Vestfjörðum.
Þetta er málið í hnotskurn - og verðugt íhugunarefni fyrir leiðarahöfund Morgunblaðsins sem og Íslendinga alla.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 15.3.2007 kl. 13:41 | Facebook
Athugasemdir
óska ykkur til hamingju með góðann fund og einnig þá athygli sem þið hafið fengið í fjölmiðlum með ykkar "vandamál".
vil bara segja með leiðarahöfund Morgunblaðsins að hann hefur ekki farið af stól sínum sl.ár og þar af leiðandi er sjóndeildarhringur hans frekar þröngur en ég segi oft að þetta "fólk" sé með sjóndeildarhring frá hverfi 101 upp að Hvalfjarðargöngum og suður í Leifsstöð. Hvað hafið þið heyrt um það fjármagn sem að er lagt í mennigar og tónlistarhöll jú þetta er alveg bráðnauðsynlegt fyrir þjóðarsálina og hana nú, 20 MILLJARÐAR
heimann (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 13:40
Vel mælt - en ég er ansi hrædd um að leiðari Morgunblaðsins endurspegli viðhorf ansi margra á höfuðborgarsvæðinu. En við stöndum sem fastast á okkar málflutningi.
Arna Lára Jónsdóttir, 13.3.2007 kl. 13:41
Leiðarahöfundur Moggans hefur ekki sett sig inn í raunverulegan vanda heldur horfir hann greinilega á Vestfirði með gleraugum Hannesar Hólmsteins. Það er kraftur í vestfirðingum en okkur vantar eldsneyti sem okkur er ekki heimilað að fá enda fiskimiðunum okkar við túnfótinn og á haf út verið rækilega lokað. Fiskimiðin er okkar bjargræði og þeim ber að skila til baka og það strax. Við þurfum ekki ölmusur frá ríkinu einungis að mannréttindum okkar verði skilað.
Níels A. Ársælsson., 13.3.2007 kl. 16:09
Það ætti að láta þessa blessuðu þingmenn drekka eitt glas af vatni úr klósettskálinni fyrir hvert svikið loforð.Þeir myndu fullnægja vatnsbúskapi líkamans á hverjum degi,sem eru 8 stór glös af vatni á dag.
RB (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 17:52
Tónlistarhöllin er ótrúlegt fyllerí. Það er ekki talað um þar hvað rekstur þessa ljósamonstrúms mun kosta. Svo er þetta utan um symfóníuna, sem er á nástrái og skipuð frústreruðum og blönkum hugsjónamönnum, sem spila fyrir 5% þjóðarinnar. Ekki rúmast öll tónlist þarna. Ekki ópera, ekki söngleikir, ekki popptónleikar....bara symfónía.
Hefur einhver gert "reality check" á þessum gjörningi? Salurin íKópavogi er nægur til að sinna þeirri þörf sem þessu monstrúmi er ætlað.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.3.2007 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.